Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stjáni blái er söguhetja í bandarískum myndasögum sem teiknarinn Elzie Crisler Segar (1894-1938) bjó upphaflega til. Stjáni blái sást fyrst á prenti 17. janúar 1929, í daglegum teiknimyndadálki blaðs á vegum útgáfufyrirtækisins King Features. Dálkurinn bar nafnið Thimble Theater eða Fingurbjargarleikhús.
Þegar Stjáni blái birtist fyrst var hann aðeins aukapersóna sem fengin var til að manna skip fyrir sjóferð. Þegar siglt var heim var hann skotinn margoft en lifði af með þeim óvænta hætti að nudda höfuð annarrar persónu. Lesendur teiknimyndadálksins hrifust af persónunni og fljótlega fékk hún aðalhlutverk dálksins. Eftir lát Segars tóku aðrir teiknarar við Fingurbjargarleikhúsinu, þeirra á meðal Bud Sagendorf (1915-1994) og Hy Eisman (f. 1927).
Stjáni blái sást fyrst á prenti 17. janúar 1929. Þá var hann aukapersóna sem fengin var til að manna skip fyrir sjóferð.
Áður en Stjáni blái kom til sögunnar var helsta persóna Fingurbjargarleikhússins Olive Oyl sem dregur nafn sitt af ólífuolíu. Á íslensku hefur hún bæði verið nefnd Gunna og Stína stöng. Bróðir hennar var Castor Oyl, en hann fær nafn sitt af bifurolíu sem unnin er úr bakraufarkirtlum bjóra og var meðal annars gefin við ýmsum kvillum barna á fyrri hluta 20. aldar. Önnur þekkt persóna var Harold Hamgravy. Síðari hluti nafns hans vísar til sósu sem löguð er úr svínslæri. Harold Hamgravy var fyrsti kærasti Olive Oyl en Stjáni blái tók síðar við því hlutverki.
Á ensku nefnist Stjáni blái Popeye en það merkir sá sem er stóreygur eða hefur útstæð augu. Stjáni blái hefur frá fyrstu tíð verið eineygður, með útstætt vinstra auga.
Stjáni blái, Gunna stöng og ýmsar fleiri teiknimyndapersónur sem tengjast þeim og Fingurbjargarleikhúsinu.
Árið 1933 fékk bandaríski teiknimyndagerðarmaðurinn, leikstjórinn og kvikmyndaframleiðandinn Max Fleischer (1883-1972) leyfi til gera stuttar teiknimyndir með persónum Fingurbjargarleikhússins. Myndirnar báru titilinn Popeye the Sailor eða Sægarpurinn Stjáni blái. Í teiknimyndum Fleishcers öðlast Stjáni blái ofurkrafta við spínatát og það er eitt helsta einkenni hans.
Úr teiknimyndinni Popeye the Sailor frá árinu 1933.
Því er stundum haldið fram að spínat hafi orðið fyrir valinu vegna þess að á fyrri hluta 20. aldar hafi menn talið, fyrir einhvern misskilning, að járninnihald spínats væri að minnsta kosti tíu sinnum meira en það er í raun og veru. Sú sögusögn virðist hins vegar vera röng eða tilbúningur. Hún á rætur að rekja til breska næringarfræðingsins Arnolds E. Benders (1918-1999) árið 1972. Flest bendir til þess að þegar Stjáni blái varð til hafi engar villandi upplýsingar um járninnihald spínats verið á kreiki. Spínat hafi hins vegar orðið fyrir valinu vegna þess að það innihélt töluvert af A-vítamíni.
Stjáni blái er stundum talinn fyrirrennari annarra ofurhetja í bandarískum teiknimyndum, eins og til dæmis Ofurmennisins eða Superman.
Heimildir:
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvenær varð teiknimyndapersónan Stjáni blái til?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2017, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74195.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2017, 22. júní). Hvenær varð teiknimyndapersónan Stjáni blái til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74195
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvenær varð teiknimyndapersónan Stjáni blái til?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2017. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74195>.