Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:52 • Sest 06:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:29 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:41 í Reykjavík

Hvað er fracking og hvaða áhrif getur það haft?

Páll Einarsson

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Hvað er fracking? Hvaða áhrif hefur það á berg og jarðlög? Getur þetta haft slæmar afleiðingar?

Fracking er stytting á "hydraulic fracturing" sem er aðferð sem beitt hefur verið í orkuiðnaðinum um margra áratuga skeið til að örva vökvarennsli inn í borholur, stundum kallað vökvabrot á íslensku. Eftir að borun lýkur er vökva dælt niður í holuna undir háum þrýstingi þar til bergið brestur og sprungur opnast út frá holunni. Sandi og ýmsum efnum er þá blandað í vökvann til að halda sprungunum opnum svo vökvi eigi greiðari leið um þær. Vökvinn sem borað er eftir getur verið olía, jarðgas, heitt vatn eða gufa. Á seinni árum hefur þessari aðferð verið beitt í auknum mæli við vinnslu jarðgass úr fornum setlögum, einkum skífubergi (e. shale), og hefur sú aðgerð víða valdið vandamálum og deilum. Orðið fracking hefur þá verið notað í þrengri merkingu fyrir slíkt ferli.

Eftir að borun lýkur er vökva dælt niður í holuna undir háum þrýstingi þar til bergið brestur og sprungur opnast út frá holunni. Sandi og ýmsum efnum er þá blandað í vökvann til að halda sprungunum opnum svo vökvi eigi greiðari leið um þær.

Ekki er vafi á því að vökvabrot eykur rennsli vökva inn í vinnsluholur og getur þannig stóraukið framleiðni borhola. Hægt hefur verið að vinna gas úr jarðlögum sem áður þótti ekki svara kostnaði að nota til orkuvinnslu og framboð á jarðgasi í heiminum hefur aukist til muna vegna þessa. Hvernig stendur þá á því að þessi vinnsluaðferð veldur deilum og hefur verið bönnuð í nokkrum löndum? Helstu ástæður eru þessar:

 1. Mengun vatnsbóla. Sum þeirra efna sem notuð eru við vökvabrotið eru hættuleg heilsu fólks. Vökvi undir háum þrýstingi leitar út í jarðlögin og leiðir hans eru oft ófyrirsjáanlegar. Nálæg vatnsból eru því í hættu fyrir efnamengun, áhætta sem mörg samfélög eru ófús að taka þrátt fyrir ótvíræðan efnahagslegan ábata gasvinnslunnar. Þekkt eru dæmi þar sem fólk kvartar yfir heilsutengdum óþægindum svo sem blóðnösum, ógleði og höfuðverk eftir að boranir með vökvabroti hófust í nágrenninu. Þótt orkufyrirtæki haldi því fram að aðferðin sé örugg og leiði ekki af sér mengun ef rétt er á málum haldið, þá ríkir víða tortryggni í þeirra garð.
 2. Sóun á vatni. Við vinnsluna þarf að nota ókjör af vatni, sem víða er af skornum skammti. Orkufyrirtækin lenda því í samkeppni við íbúa um neysluvatn. Auk þess fellur til mikið magn af efnamenguðu vatni sem erfitt er að losna við.
 3. Aukið framboð á ódýru gasi seinkar áætlunum um þróun og notkun annarra orkugjafa svo sem vinds og sólarljóss.
 4. Sjón- og hávaðamengun fylgir vinnslu gass á nýjum svæðum. Fasteignir og heimili fólks falla því verði, sem veldur óróa og mótmælum.
 5. Jarðskjálftar. Aukinn vökvaþrýstingur í bergi jarðskorpunnar lækkar núning á misgengjum og getur þannig leitt til jarðskjálfta ef spenna er há fyrir. Það getur því verið varasamt að dæla niður vökva nálægt jarðskjálftasvæðum þar sem spenna vegna flekahreyfinga er há. Nýjasta dæmið er frá Oklahoma í Bandaríkjunum. Þar hefur skjálftavirkni stóraukist á síðustu árum og er ekki vafi á því að það stafar af niðurdælingu á menguðu vatni frá olíuborunum á svæðinu. Enn hafa ekki komið upp skaðabótamál vegna slíkra manngerðra skjálfta en þeim gæti fjölgað mjög í framtíðinni.
 6. Leki á metangasi. Stór hluti jarðgassins er metan. Metan er öflug gróðurhúsalofttegund, mörgum sinnum öflugri en CO2. Við vinnsluna er erfitt að hindra að metan leki út í andrúmsloftið.

Þegar hafa nokkur ríki bannað vökvabrot við orkuvinnslu vegna ofangreindra vandamála, til dæmis Frakkland, Þýskaland og Búlgaría. Einnig hafa nokkur ríkja Bandaríkjanna bannað þessa aðferð, meðal annarra New York. Þar er meginástæðan hugsanleg áhrif á heilsu almennings.

Mynd:

Höfundur

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

14.9.2017

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Páll Einarsson. „Hvað er fracking og hvaða áhrif getur það haft?“ Vísindavefurinn, 14. september 2017. Sótt 17. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=74421.

Páll Einarsson. (2017, 14. september). Hvað er fracking og hvaða áhrif getur það haft? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74421

Páll Einarsson. „Hvað er fracking og hvaða áhrif getur það haft?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2017. Vefsíða. 17. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74421>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er fracking og hvaða áhrif getur það haft?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hvað er fracking? Hvaða áhrif hefur það á berg og jarðlög? Getur þetta haft slæmar afleiðingar?

Fracking er stytting á "hydraulic fracturing" sem er aðferð sem beitt hefur verið í orkuiðnaðinum um margra áratuga skeið til að örva vökvarennsli inn í borholur, stundum kallað vökvabrot á íslensku. Eftir að borun lýkur er vökva dælt niður í holuna undir háum þrýstingi þar til bergið brestur og sprungur opnast út frá holunni. Sandi og ýmsum efnum er þá blandað í vökvann til að halda sprungunum opnum svo vökvi eigi greiðari leið um þær. Vökvinn sem borað er eftir getur verið olía, jarðgas, heitt vatn eða gufa. Á seinni árum hefur þessari aðferð verið beitt í auknum mæli við vinnslu jarðgass úr fornum setlögum, einkum skífubergi (e. shale), og hefur sú aðgerð víða valdið vandamálum og deilum. Orðið fracking hefur þá verið notað í þrengri merkingu fyrir slíkt ferli.

Eftir að borun lýkur er vökva dælt niður í holuna undir háum þrýstingi þar til bergið brestur og sprungur opnast út frá holunni. Sandi og ýmsum efnum er þá blandað í vökvann til að halda sprungunum opnum svo vökvi eigi greiðari leið um þær.

Ekki er vafi á því að vökvabrot eykur rennsli vökva inn í vinnsluholur og getur þannig stóraukið framleiðni borhola. Hægt hefur verið að vinna gas úr jarðlögum sem áður þótti ekki svara kostnaði að nota til orkuvinnslu og framboð á jarðgasi í heiminum hefur aukist til muna vegna þessa. Hvernig stendur þá á því að þessi vinnsluaðferð veldur deilum og hefur verið bönnuð í nokkrum löndum? Helstu ástæður eru þessar:

 1. Mengun vatnsbóla. Sum þeirra efna sem notuð eru við vökvabrotið eru hættuleg heilsu fólks. Vökvi undir háum þrýstingi leitar út í jarðlögin og leiðir hans eru oft ófyrirsjáanlegar. Nálæg vatnsból eru því í hættu fyrir efnamengun, áhætta sem mörg samfélög eru ófús að taka þrátt fyrir ótvíræðan efnahagslegan ábata gasvinnslunnar. Þekkt eru dæmi þar sem fólk kvartar yfir heilsutengdum óþægindum svo sem blóðnösum, ógleði og höfuðverk eftir að boranir með vökvabroti hófust í nágrenninu. Þótt orkufyrirtæki haldi því fram að aðferðin sé örugg og leiði ekki af sér mengun ef rétt er á málum haldið, þá ríkir víða tortryggni í þeirra garð.
 2. Sóun á vatni. Við vinnsluna þarf að nota ókjör af vatni, sem víða er af skornum skammti. Orkufyrirtækin lenda því í samkeppni við íbúa um neysluvatn. Auk þess fellur til mikið magn af efnamenguðu vatni sem erfitt er að losna við.
 3. Aukið framboð á ódýru gasi seinkar áætlunum um þróun og notkun annarra orkugjafa svo sem vinds og sólarljóss.
 4. Sjón- og hávaðamengun fylgir vinnslu gass á nýjum svæðum. Fasteignir og heimili fólks falla því verði, sem veldur óróa og mótmælum.
 5. Jarðskjálftar. Aukinn vökvaþrýstingur í bergi jarðskorpunnar lækkar núning á misgengjum og getur þannig leitt til jarðskjálfta ef spenna er há fyrir. Það getur því verið varasamt að dæla niður vökva nálægt jarðskjálftasvæðum þar sem spenna vegna flekahreyfinga er há. Nýjasta dæmið er frá Oklahoma í Bandaríkjunum. Þar hefur skjálftavirkni stóraukist á síðustu árum og er ekki vafi á því að það stafar af niðurdælingu á menguðu vatni frá olíuborunum á svæðinu. Enn hafa ekki komið upp skaðabótamál vegna slíkra manngerðra skjálfta en þeim gæti fjölgað mjög í framtíðinni.
 6. Leki á metangasi. Stór hluti jarðgassins er metan. Metan er öflug gróðurhúsalofttegund, mörgum sinnum öflugri en CO2. Við vinnsluna er erfitt að hindra að metan leki út í andrúmsloftið.

Þegar hafa nokkur ríki bannað vökvabrot við orkuvinnslu vegna ofangreindra vandamála, til dæmis Frakkland, Þýskaland og Búlgaría. Einnig hafa nokkur ríkja Bandaríkjanna bannað þessa aðferð, meðal annarra New York. Þar er meginástæðan hugsanleg áhrif á heilsu almennings.

Mynd:

...