Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað er húðkrabbamein, hvernig lýsir það sér og hverjir fá það?

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir

Til húðkrabbameina teljast ýmsar gerðir krabbameina, sem eiga upptök sín í húð. Aðallega er um að ræða þrjár gerðir, flöguþekjukrabbamein (carcinoma squamocellulare), grunnfrumukrabbamein (carcinoma basocellulare) og sortuæxli (melanoma malignum). Síðastnefnda gerðin hefur ákveðna sérstöðu og er fjallað um hana í öðru svari (sjá Hvað er sortuæxli og hvað gerir það?) en hér verður sjónum beint að tveimur fyrrgreindu meinunum, það er flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein.

Á árunum 2006-2010 var aldursstaðlað nýgengi flöguþekjukrabbameina hér á landi 14,2 af 100.000 hjá körlum og 10,7 af 100.000 hjá konum. Meðalaldur þeirra sem greinast með flöguþekjukrabbamein í húð á Íslandi er 74 ár. Grunnfrumukrabbamein eru algengust þeirra meina í heiminum, sem hefðbundið er að flokka sem illkynja en eru þó ekki höfð með í útgefnum tölum um nýgengi krabbameina. Það er vegna þess að mörg rök eru gegn því að þau eigi að teljast illkynja, enda fáheyrt að þau leiði til dauða og þau meinvarpast ekki. Húðkrabbamein leggjast einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Bændur og sjómenn eru dæmi um starfsstéttir sem eiga frekar á hættu að fá flöguþekju- og grunnfrumukrabbamein í húð en aðrir atvinnuhópar.

Húðin er stærsta líffæri líkamans. Hjá fullorðnum er yfirborð hennar nær tveir fermetrar. Hlutverk húðarinnar er meðal annars að vernda líkamann fyrir áverkum, útfjólublárri geislun sólar og efnum sem eru líkamanum framandi, meðal annars bakteríum og veirum. Þar að auki er húðin mikilvæg fyrir hita- og vökvajafnvægi líkamans og einnig sem útvörður ónæmiskerfisins. Húðin skiptist í þrjú lög: Yfirhúð, leðurhúð og undirhúð (fitu). Öll hafa þau sína eiginleika og sitt hlutverk.

Grunnfrumukrabbamein er algengasta gerð húðkrabbameins en æxlin eru lítið illkynja.

Algengasta gerð húðkrabbameins nefnist grunnfrumukrabbamein. Æxlið myndast í dýpsta lagi yfirhúðarinnar (grunnfrumulaginu) og er algengast allra krabbameina. Þetta eru æxli sem eru lítið illkynja því þau dreifa sér mjög sjaldan um líkamann, það er mynda mjög sjaldan meinvörp og því á mörkum þess að uppfylla skilgreiningu illkynja æxlis. Þau hafa því hingað til ekki talist með í tölfræði um krabbamein þótt ýmsar krabbameinsskrár safni upplýsingum um þessi mein. Hinn meginflokkur húðkrabbameins sem myndast í yfirhúð er flöguþekjukrabbamein og fjallar þetta svar aðallega um það mein.

Orsakir og áhættuþættir

Útfjólublá geislun frá sólinni er talin helsta orsök flöguþekjukrabbameina í húð og því eru þeir sem eru mikið í sólarljósi í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Æxlin myndast fyrst og fremst á þeim húðsvæðum sem helst verða fyrir sólarljósi, til dæmis á höfði, hálsi og höndum. Einnig er jónandi geislun áhættuþáttur. Sjúklingar sem eru á ónæmisbælandi lyfjum, til dæmis eftir líffæraígræðslur, eiga einnig frekar en aðrir á hættu að fá flöguþekjukrabbamein og það sama á við um sjúklinga með nýrnabilun. Grunnfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein í húð geta verið fleiri en eitt við greiningu og þau eru oft víða um líkamann.

Landfræðilegur munur

Flöguþekjukrabbamein í húð er algengt til dæmis í Ástralíu, Bandaríkjunum og meðal hvítra manna í Suður-Afríku. Sjúkdómurinn er hins vegar mjög sjaldgæfur í Asíu og Afríku, sem fyrst og fremst er talið stafa af því að fólk með dökka húð hefur betri vörn gegn útfjólublárri geislun frá sólinni. Erfitt er að fá fram nákvæmar nýgengistölur um flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein í húð, þar sem þessi æxli eru ekki nákvæmlega skráð. Grunnfrumuæxlin eru sjaldnast skráð í krabbameinsskrár, eins og áður sagði, og aðferðafræði við skráningu flöguþekjukrabbameins er breytileg. Því er erfitt að bera nýgengi þessara æxla saman milli þjóða. Ljóst er þó að þau eru víða mjög algeng. Í Bandaríkjunum er áætlað að fjöldi grunnfrumuæxla og flöguþekjukrabbameina sé í heild álíka mikill og heildarfjöldi allra annarra greindra illkynja æxla þar í landi. Á Norðurlöndunum hefur nýgengið hækkað mikið síðustu áratugi. Það er almennt svipað milli landanna, en íslensku konurnar fóru úr neðsta sæti í hið efsta með mjög brattri aukningu milli 1995 og 2000. Mun minni aukning sést hjá íslensku körlunum sem eru þó komnir upp fyrir finnsku karlana.

Flöguþekjukrabbamein á nefi. Æxlin myndast fyrst og fremst á þeim húðsvæðum sem helst verða fyrir sólarljósi.

Einkenni

Flöguþekjukrabbamein í húð er algengast í andliti, til dæmis á eyrum og neðri vör en einnig til dæmis í hársverði hjá þeim sem hafa þunnt hár. Það er líka algengt á handarbökum. Útlitið er nokkuð breytilegt en oft er um að ræða sár sem ekki grær. Sum æxli eru hringlaga, með upphækkuðum brúnum eins og virkismúr umhverfis dæld í miðjunni. Flöguþekjukrabbamein getur þróast frá forstigum, sem kallast actinic keratosis (sem sumir nefna sólarhrúður) og Bowens-sjúkdómur. Bowens-sjúkdómur er flöguþekjukrabbamein bundið við yfirhúð (svonefnt setkrabbamein), hefur ekki enn náð að mynda ífarandi vöxt niður í leðurhúð og er því í raun forstig krabbameins. Actinic keratosis myndar rauða bletti með flagnandi eða hrjúfu yfirborði, en Bowens-sjúkdómur kemur oftast fram sem einn rauður blettur, sem gjarnan líkist exemi. Flöguþekjukrabbamein getur líka myndast í gömlu öri eða brunasári.

Greining

Húðlæknar geta oft greint flöguþekjukrabbamein eða forstig þess með því að skoða húðbreytingar með berum augum eða með sérstöku stækkunargleri. Greiningin er oftast staðfest með því að taka sýni úr meininu sem skoðað er í smásjá af læknum með sérmenntun í meinafræði (meinafræðingum). Æskilegt er fyrir nákvæmni og áreiðanleika greiningar að meinið sé fjarlægt í heild sinni til vefjarannsóknar fremur en að aðeins sé tekið úr því lítið sýni. Þetta getur ráðið úrslitum um hvort unnt sé að greina meinið nákvæmlega. Aðferð við sýnatöku verður þó að vera háð mati læknis, sem fær sjúklinginn til meðferðar hverju sinni, því ýmislegt getur haft áhrif á ákvörðun um hvernig staðið skuli að töku sýnis.

Meðferð

Flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein eru yfirleitt meðhöndluð með einfaldri skurðaðgerð, sem oftast læknar sjúklinginn. Annarri meðferð er oft beitt, svo sem skröpun og rafmagns- eða leysibrennslu, frystingu með fljótandi köfnunarefni og útvortis lyfjameðferð. Gæta þarf þess að meinið sé að fullu fjarlægt, annars er hætta á að það komi aftur.

Horfur

Horfur eru almennt mjög góðar. Flöguþekjukrabbamein er einungis hættulegt ef það uppgötvast ekki fyrr en það hefur náð að dreifa sér og myndað meinvörp. Sjaldgæft er að sjúklingar deyi af völdum flöguþekjukrabbameins eða grunnfrumukrabbameins í húð.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Krabbamein á Íslandi - Upplýsingar úr Krabbameinsskrá fyrir tímabilið 1955-2010 sem Krabbameinsfélagið gaf út árið 2012. Sjá: Krabbamein í húð, önnur en sortuæxli.

Höfundar

Jón Gunnlaugur Jónasson

prófessor og meinafræðingur, yfirlæknir Krabbameinsskrár Íslands

Laufey Tryggvadóttir

faraldsfræðingur, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands

Útgáfudagur

15.11.2018

Spyrjandi

Alma Ingvarsdóttir

Tilvísun

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. „Hvað er húðkrabbamein, hvernig lýsir það sér og hverjir fá það? “ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2018. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=74477.

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. (2018, 15. nóvember). Hvað er húðkrabbamein, hvernig lýsir það sér og hverjir fá það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74477

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. „Hvað er húðkrabbamein, hvernig lýsir það sér og hverjir fá það? “ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2018. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74477>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er húðkrabbamein, hvernig lýsir það sér og hverjir fá það?
Til húðkrabbameina teljast ýmsar gerðir krabbameina, sem eiga upptök sín í húð. Aðallega er um að ræða þrjár gerðir, flöguþekjukrabbamein (carcinoma squamocellulare), grunnfrumukrabbamein (carcinoma basocellulare) og sortuæxli (melanoma malignum). Síðastnefnda gerðin hefur ákveðna sérstöðu og er fjallað um hana í öðru svari (sjá Hvað er sortuæxli og hvað gerir það?) en hér verður sjónum beint að tveimur fyrrgreindu meinunum, það er flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein.

Á árunum 2006-2010 var aldursstaðlað nýgengi flöguþekjukrabbameina hér á landi 14,2 af 100.000 hjá körlum og 10,7 af 100.000 hjá konum. Meðalaldur þeirra sem greinast með flöguþekjukrabbamein í húð á Íslandi er 74 ár. Grunnfrumukrabbamein eru algengust þeirra meina í heiminum, sem hefðbundið er að flokka sem illkynja en eru þó ekki höfð með í útgefnum tölum um nýgengi krabbameina. Það er vegna þess að mörg rök eru gegn því að þau eigi að teljast illkynja, enda fáheyrt að þau leiði til dauða og þau meinvarpast ekki. Húðkrabbamein leggjast einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Bændur og sjómenn eru dæmi um starfsstéttir sem eiga frekar á hættu að fá flöguþekju- og grunnfrumukrabbamein í húð en aðrir atvinnuhópar.

Húðin er stærsta líffæri líkamans. Hjá fullorðnum er yfirborð hennar nær tveir fermetrar. Hlutverk húðarinnar er meðal annars að vernda líkamann fyrir áverkum, útfjólublárri geislun sólar og efnum sem eru líkamanum framandi, meðal annars bakteríum og veirum. Þar að auki er húðin mikilvæg fyrir hita- og vökvajafnvægi líkamans og einnig sem útvörður ónæmiskerfisins. Húðin skiptist í þrjú lög: Yfirhúð, leðurhúð og undirhúð (fitu). Öll hafa þau sína eiginleika og sitt hlutverk.

Grunnfrumukrabbamein er algengasta gerð húðkrabbameins en æxlin eru lítið illkynja.

Algengasta gerð húðkrabbameins nefnist grunnfrumukrabbamein. Æxlið myndast í dýpsta lagi yfirhúðarinnar (grunnfrumulaginu) og er algengast allra krabbameina. Þetta eru æxli sem eru lítið illkynja því þau dreifa sér mjög sjaldan um líkamann, það er mynda mjög sjaldan meinvörp og því á mörkum þess að uppfylla skilgreiningu illkynja æxlis. Þau hafa því hingað til ekki talist með í tölfræði um krabbamein þótt ýmsar krabbameinsskrár safni upplýsingum um þessi mein. Hinn meginflokkur húðkrabbameins sem myndast í yfirhúð er flöguþekjukrabbamein og fjallar þetta svar aðallega um það mein.

Orsakir og áhættuþættir

Útfjólublá geislun frá sólinni er talin helsta orsök flöguþekjukrabbameina í húð og því eru þeir sem eru mikið í sólarljósi í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Æxlin myndast fyrst og fremst á þeim húðsvæðum sem helst verða fyrir sólarljósi, til dæmis á höfði, hálsi og höndum. Einnig er jónandi geislun áhættuþáttur. Sjúklingar sem eru á ónæmisbælandi lyfjum, til dæmis eftir líffæraígræðslur, eiga einnig frekar en aðrir á hættu að fá flöguþekjukrabbamein og það sama á við um sjúklinga með nýrnabilun. Grunnfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein í húð geta verið fleiri en eitt við greiningu og þau eru oft víða um líkamann.

Landfræðilegur munur

Flöguþekjukrabbamein í húð er algengt til dæmis í Ástralíu, Bandaríkjunum og meðal hvítra manna í Suður-Afríku. Sjúkdómurinn er hins vegar mjög sjaldgæfur í Asíu og Afríku, sem fyrst og fremst er talið stafa af því að fólk með dökka húð hefur betri vörn gegn útfjólublárri geislun frá sólinni. Erfitt er að fá fram nákvæmar nýgengistölur um flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein í húð, þar sem þessi æxli eru ekki nákvæmlega skráð. Grunnfrumuæxlin eru sjaldnast skráð í krabbameinsskrár, eins og áður sagði, og aðferðafræði við skráningu flöguþekjukrabbameins er breytileg. Því er erfitt að bera nýgengi þessara æxla saman milli þjóða. Ljóst er þó að þau eru víða mjög algeng. Í Bandaríkjunum er áætlað að fjöldi grunnfrumuæxla og flöguþekjukrabbameina sé í heild álíka mikill og heildarfjöldi allra annarra greindra illkynja æxla þar í landi. Á Norðurlöndunum hefur nýgengið hækkað mikið síðustu áratugi. Það er almennt svipað milli landanna, en íslensku konurnar fóru úr neðsta sæti í hið efsta með mjög brattri aukningu milli 1995 og 2000. Mun minni aukning sést hjá íslensku körlunum sem eru þó komnir upp fyrir finnsku karlana.

Flöguþekjukrabbamein á nefi. Æxlin myndast fyrst og fremst á þeim húðsvæðum sem helst verða fyrir sólarljósi.

Einkenni

Flöguþekjukrabbamein í húð er algengast í andliti, til dæmis á eyrum og neðri vör en einnig til dæmis í hársverði hjá þeim sem hafa þunnt hár. Það er líka algengt á handarbökum. Útlitið er nokkuð breytilegt en oft er um að ræða sár sem ekki grær. Sum æxli eru hringlaga, með upphækkuðum brúnum eins og virkismúr umhverfis dæld í miðjunni. Flöguþekjukrabbamein getur þróast frá forstigum, sem kallast actinic keratosis (sem sumir nefna sólarhrúður) og Bowens-sjúkdómur. Bowens-sjúkdómur er flöguþekjukrabbamein bundið við yfirhúð (svonefnt setkrabbamein), hefur ekki enn náð að mynda ífarandi vöxt niður í leðurhúð og er því í raun forstig krabbameins. Actinic keratosis myndar rauða bletti með flagnandi eða hrjúfu yfirborði, en Bowens-sjúkdómur kemur oftast fram sem einn rauður blettur, sem gjarnan líkist exemi. Flöguþekjukrabbamein getur líka myndast í gömlu öri eða brunasári.

Greining

Húðlæknar geta oft greint flöguþekjukrabbamein eða forstig þess með því að skoða húðbreytingar með berum augum eða með sérstöku stækkunargleri. Greiningin er oftast staðfest með því að taka sýni úr meininu sem skoðað er í smásjá af læknum með sérmenntun í meinafræði (meinafræðingum). Æskilegt er fyrir nákvæmni og áreiðanleika greiningar að meinið sé fjarlægt í heild sinni til vefjarannsóknar fremur en að aðeins sé tekið úr því lítið sýni. Þetta getur ráðið úrslitum um hvort unnt sé að greina meinið nákvæmlega. Aðferð við sýnatöku verður þó að vera háð mati læknis, sem fær sjúklinginn til meðferðar hverju sinni, því ýmislegt getur haft áhrif á ákvörðun um hvernig staðið skuli að töku sýnis.

Meðferð

Flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein eru yfirleitt meðhöndluð með einfaldri skurðaðgerð, sem oftast læknar sjúklinginn. Annarri meðferð er oft beitt, svo sem skröpun og rafmagns- eða leysibrennslu, frystingu með fljótandi köfnunarefni og útvortis lyfjameðferð. Gæta þarf þess að meinið sé að fullu fjarlægt, annars er hætta á að það komi aftur.

Horfur

Horfur eru almennt mjög góðar. Flöguþekjukrabbamein er einungis hættulegt ef það uppgötvast ekki fyrr en það hefur náð að dreifa sér og myndað meinvörp. Sjaldgæft er að sjúklingar deyi af völdum flöguþekjukrabbameins eða grunnfrumukrabbameins í húð.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Krabbamein á Íslandi - Upplýsingar úr Krabbameinsskrá fyrir tímabilið 1955-2010 sem Krabbameinsfélagið gaf út árið 2012. Sjá: Krabbamein í húð, önnur en sortuæxli.

...