Siðfræðispurning - Ólétt kona er með hópi fólks í hellaskoðun. Hún gengur fremst. Á leiðinni út úr hellinum festist hún í hellismunnanum. Hellirinn fyllist af sjó á flóði og allir í honum (nema ólétta konan) munu drukkna. Höfuð hennar er fyrir utan hellinn. Einn úr hópnum hefur dínamítstöng. Með dínamítinu er hægt að opna leið út úr hellinum en þá mun konan örugglega deyja. Hvað á fólkið að gera?Klemma (e. dilemma) kallast það að þurfa að velja á milli tveggja kosta og hugnast hvorugur þeirra. Spurningin er þá hvorn kostinn af tveimur slæmum maður ætti að taka, það er að segja hvaða ástæða eða ástæður ættu að vega þyngst í ákvörðuninni. Fólki hefur lengi þótt gaman að finna upp á slíkum dæmum og eru þá siðferðisklemmur sérstaklega vinsælar. Þær eru gjarnan notaðar í kennslu siðfræði til að fá nemendur til að gera sér grein fyrir því hvort siðferðislegt innsæi þeirra falli fremur að svokölluðum leikslokakenningum í siðfræði eða leikreglukenningum. Þau sem halda fram leikslokakenningum eins og nytjastefnu Mills telja að réttmæti athafna eða athafnaleysis ráðist af þeim afleiðingum sem af hljótast og er þá gjarnan horft til þess að afleiðingarnar séu til góðs fyrir sem flesta. Þeim sem hugnast leikreglukenningar eins og skyldusiðfræði Kants finnst á hinn bóginn að hagur fjöldans geti ekki gengið framar virðingu gagnvart einstaklingum.

Spurningin í vagnavandamálinu snýst um hvort manni ber að taka í vogarstöng við lestarteina sem myndi valda því að stjórnlaus vagn rynni á einn einstakling sem er við vinnu sína á lestarteinum í stað fimm sem annars yrðu fyrir honum.

Áhugavert er að sjá hversu mikið viðhorf fólks breytast um það hvort nota eigi dínamítstöngina eða ekki eftir því hver er fastur í hellismunnanum og af hverju sá aðili festist þar.
- Wikimedia Commons - Trolley problem. (Sótt 4.6.2018).
- Pinterest. (Sótt 6.6.2018).