Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hefur vísindamaðurinn Sveinn Hákon Harðarson rannsakað?

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands

Vísindafélag Íslendinga - 100 ára
Sveinn Hákon Harðarson er lektor í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands. Sveinn rannsakar súrefnisbúskap í sjónhimnu augans.

Sjónhimnan er örþunn himna sem þekur augnkúluna að innan að stórum hluta. Sjónhimnunni má líkja við filmu (eða myndflögu) í myndavél. Þegar ljós fellur á ljósnema sjónhimnunnar verða til rafboð sem sjónhimnan vinnur úr. Boðin eru síðan send með sjóntaug aftur til heilans. Talið er að skemmdir á æðakerfi sjónhimnunnar og truflun á súrefnisbúskap hafi mikið að segja í ýmsum alvarlegum augnsjúkdómum.

Sveinn rannsakar súrefnisbúskap í sjónhimnu augans.

Lengi vel var erfitt að mæla truflun á súrefnisbúskap í sjónhimnu manna. Rannsóknarhópurinn, sem Sveinn tilheyrir, hefur á undanförnum árum þróað tækni til súrefnismælinga í sjónhimnu. Þá tækni hefur hópurinn nýtt til rannsókna á eðlilegri lífeðlisfræði sjónhimnu og þeim frávikum sem verða við sjúkdóma. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi Læknadeildar og Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar Háskóla Íslands, Augndeildar Landspítala og fjölmargra erlendra samstarfsaðila. Upp úr tæknihlið verkefnisins spratt fyrirtækið Oxymap ehf.

Mæling á súrefnismettun í sjónhimnuæðum byggir á því að litur blóðs breytist með súrefnismettun. Vel þekkt er til dæmis að súrefnisríkt slagæðablóð er ljósrautt en bláæðablóð er dekkra. Súrefnismælirinn tekur mynd af sjónhimnuæðum með vel völdum bylgjulengdum (litum) af ljósi. Sérsniðinn hugbúnaður mælir birtugildi á sjónhimnuæðum og til hliðar við þær og reiknar út súrefnismettun í sjónhimnuæðum (sjá mynd hér að neðan).

Á vinstri myndinni sést súrefnismettun í æðum heilbrigðrar sjónhimnu. Hvíti hringurinn er endi sjóntaugar. Litakvarðinn sýnir súrefnismettun og er greinilegur munur á slagæðum (rauðar) og bláæðum. Á hægri myndinni hefur orðið miðbláæðarlokun, sem hægir verulega á blóðflæði og dregur úr súrefnismettun.

Rannsóknarhópurinn hefur með prófunum staðfest næmi og áreiðanleika tækninnar. Gerðar hafa verið rannsóknir á heilbrigðum augum, til dæmis á áhrifum ljóss og myrkurs á súrefnisbúskap sjónhimnu. Meðal þeirra augnsjúkdóma sem rannsóknarhópurinn skoðar eru æðalokanir í sjónhimnu, sjónhimnusjúkdómur í sykursýki, gláka, aldursbundin hrörnun í augnbotnum og sjónufreknur. Rannsóknirnar eru ekki eingöngu bundnar við augnsjúkdóma enda geta merki um aðra sjúkdóma komið fram í augum. Á það við um sjúkdóma sem hafa áhrif á öndunarfæri, hjarta og æðakerfi en einnig um miðtaugakerfissjúkdóma enda er sjónhimnan hluti af miðtaugakerfinu. Í þessu samhengi má nefna yfirstandandi rannsóknir á vægri vitrænni skerðingu í samvinnu við Öldrunarlækningadeild Landspítala og rannsókn á heila- og mænusiggi.

Sveinn er fæddur árið 1978. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1998. Sveinn lauk BS-prófi í læknisfræði árið 2005, meistaraprófi í líf- og læknavísindum árið 2006 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2012.

Myndir:
  • © Kristinn Ingvarsson.
  • Úr safni SHH.

Útgáfudagur

17.8.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Sveinn Hákon Harðarson rannsakað?“ Vísindavefurinn, 17. ágúst 2018, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76152.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 17. ágúst). Hvað hefur vísindamaðurinn Sveinn Hákon Harðarson rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76152

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Sveinn Hákon Harðarson rannsakað?“ Vísindavefurinn. 17. ágú. 2018. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76152>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hefur vísindamaðurinn Sveinn Hákon Harðarson rannsakað?
Sveinn Hákon Harðarson er lektor í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands. Sveinn rannsakar súrefnisbúskap í sjónhimnu augans.

Sjónhimnan er örþunn himna sem þekur augnkúluna að innan að stórum hluta. Sjónhimnunni má líkja við filmu (eða myndflögu) í myndavél. Þegar ljós fellur á ljósnema sjónhimnunnar verða til rafboð sem sjónhimnan vinnur úr. Boðin eru síðan send með sjóntaug aftur til heilans. Talið er að skemmdir á æðakerfi sjónhimnunnar og truflun á súrefnisbúskap hafi mikið að segja í ýmsum alvarlegum augnsjúkdómum.

Sveinn rannsakar súrefnisbúskap í sjónhimnu augans.

Lengi vel var erfitt að mæla truflun á súrefnisbúskap í sjónhimnu manna. Rannsóknarhópurinn, sem Sveinn tilheyrir, hefur á undanförnum árum þróað tækni til súrefnismælinga í sjónhimnu. Þá tækni hefur hópurinn nýtt til rannsókna á eðlilegri lífeðlisfræði sjónhimnu og þeim frávikum sem verða við sjúkdóma. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi Læknadeildar og Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar Háskóla Íslands, Augndeildar Landspítala og fjölmargra erlendra samstarfsaðila. Upp úr tæknihlið verkefnisins spratt fyrirtækið Oxymap ehf.

Mæling á súrefnismettun í sjónhimnuæðum byggir á því að litur blóðs breytist með súrefnismettun. Vel þekkt er til dæmis að súrefnisríkt slagæðablóð er ljósrautt en bláæðablóð er dekkra. Súrefnismælirinn tekur mynd af sjónhimnuæðum með vel völdum bylgjulengdum (litum) af ljósi. Sérsniðinn hugbúnaður mælir birtugildi á sjónhimnuæðum og til hliðar við þær og reiknar út súrefnismettun í sjónhimnuæðum (sjá mynd hér að neðan).

Á vinstri myndinni sést súrefnismettun í æðum heilbrigðrar sjónhimnu. Hvíti hringurinn er endi sjóntaugar. Litakvarðinn sýnir súrefnismettun og er greinilegur munur á slagæðum (rauðar) og bláæðum. Á hægri myndinni hefur orðið miðbláæðarlokun, sem hægir verulega á blóðflæði og dregur úr súrefnismettun.

Rannsóknarhópurinn hefur með prófunum staðfest næmi og áreiðanleika tækninnar. Gerðar hafa verið rannsóknir á heilbrigðum augum, til dæmis á áhrifum ljóss og myrkurs á súrefnisbúskap sjónhimnu. Meðal þeirra augnsjúkdóma sem rannsóknarhópurinn skoðar eru æðalokanir í sjónhimnu, sjónhimnusjúkdómur í sykursýki, gláka, aldursbundin hrörnun í augnbotnum og sjónufreknur. Rannsóknirnar eru ekki eingöngu bundnar við augnsjúkdóma enda geta merki um aðra sjúkdóma komið fram í augum. Á það við um sjúkdóma sem hafa áhrif á öndunarfæri, hjarta og æðakerfi en einnig um miðtaugakerfissjúkdóma enda er sjónhimnan hluti af miðtaugakerfinu. Í þessu samhengi má nefna yfirstandandi rannsóknir á vægri vitrænni skerðingu í samvinnu við Öldrunarlækningadeild Landspítala og rannsókn á heila- og mænusiggi.

Sveinn er fæddur árið 1978. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1998. Sveinn lauk BS-prófi í læknisfræði árið 2005, meistaraprófi í líf- og læknavísindum árið 2006 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2012.

Myndir:
  • © Kristinn Ingvarsson.
  • Úr safni SHH.

...