Ég og vinirnir höfum verið að ræða hvort skyr.is eigi að flokkast sem skyr eða jógúrt. Getið þið útskýrt það fyrir okkur með borðleggjandi hætti?Það sem helst skilur skyr frá jógúrt er vinnsluaðferðin, en hún á þátt í að skyr flokkast til ferskosta meðan jógúrt telst til hefðbundinna sýrðra mjólkurafurða. Þetta á jafnt við um skyr sem almennt er selt í verslunum í dag og skyr framleitt með gamla laginu sem er reyndar einnig fáanlegt í verslunum í dag. Í skyri er búið að skilja mysu frá sem gerir meðal annars að verkum að prótíninnihald skyrs er jafnhátt og raun ber vitni og mun hærra en í jógúrt. Vinsældir skyrs hafa aukist gríðarlega síðustu ár og er skyrið orðið þekkt og vinsæl vara víða um heim. Framleiðsluaðferðir hafa tekið talsverðum breytingum í áranna rás og er skyrið í dag framleitt með nútíma síutækni sem þýðir að mysuprótínin sem fóru út með mysunni í gamla poka- og skilvinduskyrinu eru nú að mestu varðveitt í skyrinu. Mysuprótínin gefa skyrinu ákveðna mýkt og rjómakennt bragð og hefur þetta verið lykilatriði í framrás skyrsins á erlendri grundu. Mysuprótínin eru að auki talin allra prótína hollust, þau eru meðal annars rík af greinóttum amínósýrum sem henta vel til vöðvauppbyggingar. Með því að halda mysuprótínunum í skyrinu verður nýtingin betri úr mjólkinni en áður, það er það þarf færri lítra af mjólk eða undanrennu til að búa til skyr með þessari nútíma síutækni.

Skyr er í raun ferskostur. Í skyri er búið að skilja mysu frá sem gerir meðal annars að verkum að prótíninnihald skyrs er jafnhátt og raun ber vitni og mun hærra en í jógúrt. Á myndinni sést þýska blaðakonan Anita Joachim bragða á skyri á Íslandi árið 1934.
- Fotocollectie » Zoeken | gahetNA. (Sótt 22.03.2019). Anita var blaðamaður hjá Associated Press og kom hingað í heimsókn ásamt ljósmyndaranum Willem van de Poll frá Amsterdam.