Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Harún al-Rashid?

Kjartan Birgir Kjartansson og Urður Egilsdóttir

Harún al-Rashid (Hārūn al-Rashīd ibn Muḥammad al-Mahdī ibn al-Manṣūr al-ʿAbbāsī), var fimmti kalífi veldis Abbasída og ríkti frá 786-809. Hann er þekktastur á Vesturlöndum sem kalífinn sem kemur fyrir í verkinu Þúsund og ein nótt. Verkið er safn af sögum sem eiga meðal annars rætur að rekja til Arabíu, Persíu og Sýrlands, allt frá fornöld til miðalda. Það kom fyrst út árið 1857 á Íslandi í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. Harún birtist í bókinni sem persóna í þó nokkrum sögum sem kalífi hins glæsilega veldis múslima með aðsetur í Bagdad á blómatíma borgarinnar. Í sögunum dulbýr Harún sig gjarnan sem alþýðumann og blandar þannig geði við þegna sína. Harún al-Rashid var af ætt Abbasída, sem tóku við veldi Umayyada eftir sigur í uppreisn gegn hinum síðarnefndu árið 750. Höfuðborg þeirra var Bagdad og varð hún ein helsta stórborg heimsins allt þar til að veldi Abbasída féll fyrir Mongólum 1258.

Harún fæddist annað hvort í mars 763 eða febrúar 766, þar sem nú er Íran, en hann þótti aldrei líklegur til þess að stjórna veldi Abbasída. Hann var einn af yngri sonum föður síns, kalífans al-Mahdi, sem ríkti frá 775-785. Móðir hans var Al-Khayzuran, ambátt föður hans, en hún var metnaðarfull og hafði með tímanum risið upp metorðastigann og orðið ómissandi við hirð kalífans og sona þeirra. Harún og eldri bróðir hans, Al-Hadi, ólust upp við hirðina í Bagdad. Þar hlutu þeir menntun í ýmsum fræðum og var kennari þeirra Yahya Barmakid. Barmakid-ættin var voldug ætt frá Íran og dyggir stuðningsmenn Al-Khayzuran og Harúns.

Harún al-Rashid. Teikning frá 1915 eftir Khalil Gibran.

Á árunum 780 og 782 leiddi Harún árásir á Býsansríkið. Árið 782 komust menn hans alla leið að Bospórussundi, sem lá upp að Konstantínópel, og í kjölfarið gerði Harún friðarsamning sem var afar hagstæður fyrir Abbasída. Fyrir þetta hlaut hann nafngiftina al-Rashid sem merkir „sá sem gengur hina réttu braut” og hlotnaðist að auki rétturinn til að erfa kalífadæmið eftir bróður sinn. Hann var einnig skipaður landstjóri Túnis, Egyptalands, Armeníu og Aserbaídsjan.

Þremur árum síðar, í ágúst árið 785, tók Al-Hadi við völdum, en ríkti þó aðeins í eitt ár. Al-Hadi átti að hafa lagst gegn áhrifum móður sinnar við hirðina og segir sagan að hún hafi myrt hann til þess að koma uppáhalds syni sínum í hásætið. Eftir dauða bróður síns gerði Harún Yahya Barmakid, fyrrum kennara sinn, og son hans Jafar, að áhrifamönnum við hirðina. Þeir studdu Harún í baráttu gegn áhrifum fylgismanna Al-Hadi eftir valdatökuna.

Harún al-Rashid varð því kalífi með hjálp vélabragða móður sinnar og áhrifamikilla vina við hirðina aðeins tvítugur að aldri árið 786. Veldið sem Harún tók við réði yfir nær öllum Mið-Austurlöndum og teygði anga sína frá Pakistan nútímans í austri að Alsír í vestri. Harún al-Rashid gekk hratt til verks ásamt Yahya Barmakid við að greiða úr fjárhagsvandræðum ríkisins. Hann tók hart á spilltum landstjórum í Egyptalandi og Mesópótamíu og styrkti miðstjórn ríkisins og skattheimtu með stuðningi Barmakid-ættarinnar. Undir Harún jókst einnig mikilvægi Bagdad sem höfuðborgar og stækkaði borgin jafnt og þétt.

Gífurleg auðæfi þessa mikla ríkis, ásamt nýfengnum stöðugleika, undir sterkri miðstjórn hins unga kalífa, greiddu veginn fyrir blómatíma veldisins. Harún al-Rashid hafði, undir verndarvæng Yahya Barmakid, öðlast mikinn áhuga á bókmenntum og ljóðlist. Auður veldisins gerði honum kleift að hafa í kringum sig herskara af skáldum, sögumönnum og tónlistarfólki. Harún hélt áfram uppbyggingu á Húsi viskunnar (Bayt al-Hikmah), stofnunar í Bagdad sem annaðist meðal annars þýðingar á grískum og persneskum textum, ásamt rannsóknum í læknisfræði, stærðfræði og stjörnufræði. Við hirð Harúns al-Rashid voru textar þýddir úr persnesku yfir á arabísku. Einnig vöktu grískir textar frá Býsansríkinu áhuga fræðimanna kalífaveldisins, þá sérstaklega textar um heimspeki Forn-Grikkja, líkt og verk Aristótelesar.

Sendinefnd Karlamagnúsar kemur á fund al-Rashid. Málverk frá 1864 eftir Julius Köckert.

Undir stjórn Harúns al-Rashid náðu samskipti á milli kalífaveldisins og landa kristindóms í Evrópu áður óþekktum hæðum. Karlamagnús, konungur Frankaríkisins, sendi tvisvar til hans sendiherra, líklega í tengslum við áhuga Karlamagnúsar á Jerúsalem og stuðningi hans við ferðir pílagríma þangað. Harún al-Rashid sendi Karlamagnúsi ríkulegar gjafir til þess að leggja áherslu á það mikilvægi sem hann lagði á friðsamlegt samstarf þeirra. Ein frægasta gjöf Harúns var án efa fíllinn Abu Abbas, sem varð mikið dálæti Karlamagnúsar. Aðrar gjafir sem Harún færði Karlamagnúsi voru klæði úr silki, krydd, olíur og tvær ljósakrónur úr gylltu bronsi. Harún gaf konungi Franka einnig vélræna klukku úr bronsi, sem þótti að sögn mikið undur. Ef sagan um vélrænu klukkuna er sönn, þá er hún vísbending um hið mikla vísindalega samfélag sem blómstraði í kalífaveldinu á stjórnartíma Harúns al-Rashid.

Tími Harúns einkenndist þó ekki einungis af friðsamlegum samskiptum við kristna heiminn. Ef tækifæri gafst þá hikaði hann ekki við að senda herflokka til þess að niðurlægja óvini sína. Harún hafði lært herkænsku frá unga aldri og hafði á valdatíð föður síns gert árás á Býsansríkið þegar hann var landstjóri í Armeníu og Aserbaídsjan. Harún tók persónulega að sér öll málefni hers kalífaveldisins og lét víggirða landamæri ríkisins.

Þegar Harún al-Rashid dó árið 809, var hann enn og aftur á leið í stríð, í þetta sinn gegn uppreisnarmönnum í Khorasan, héraði í austurhluta kalífaveldisins, þar sem nú er Afganistan. Harún hafði þjáðst af magaverkjum og í ferðinni var augljóst að kalífinn var alvarlega veikur. Ferðalagið til Khorasan dró úr þverrandi styrk Harúns og eftir sigur á uppreisnarmönnunum lést hann í tjaldi sínu og var grafinn í bænum Tus, Khorasan, nú í Íran. Við dauða sinn skipti Harún ríkinu á milli sona sinna, Al-Amin og Al-Ma‘mun. Al-Amin var gerður að kalífa í Bagdad, en Al-Ma‘mun að landstjóra Khorasan. Samskipti milli bræðranna versnuðu fljótt og enduðu með borgarastyrjöld þar sem að Al-Ma‘mun sigraði en stýrði þó veikara veldi eftir.

Harúns al-Rashid er fyrst og fremst minnst fyrir ríkidæmi hirðar sinnar, sem var gert ódauðlegt í Þúsund og ein nótt. Harún var þó ekki bara sögupersóna, heldur einn mesti kalífi sem ríkti á blómaskeiði íslamska heimsins. Undir hans stjórn efldist miðstjórn ríkisins, auður þess jókst og óvinir hans voru sigraðir. Við dauða hans tók þó við sorgleg atburðarás borgarastyrjalda sem var upphafið að falli kalífaveldisins. Það eru því tvennar sögur sem fylgja Harún, ævintýrapersónan sem múslimar seinni tíma minntust með nostalgíu frá liðnum stórveldistíma og sagan af hinum raunverulega kalífa, sem leiddi ríkið á hápunkti blómaskeiðs síns.

Heimildir:
 • Clot, André. Harun al-Rashid: and the World of the One thousand and One Nights (London 2005).
 • Gutas, Dimitri. Greek Thought, Arabic Culture. The Graeco-Arabic Translation Movement in Baghdad and Early Abbasid Society (2nd-4th/5th-10th c.) (Arabic Thought and Culture) (London 1998).
 • Kennedy, Hugh N. The Early Abbasid Caliphate (London 1981).
 • The Cambridge Encyclopedia of the Middle East and North Africa. Ritstjórar Trevor Mostyn og Albert Hourani (Cambridge 1988).
 • Vef. Omar, Farouk. 2019, „Barmakids: Abbasid Viziers“, Encyclopædia Britannica. Sótt 29. nóvember 2019 af https://www.britannica.com/topic/Barmakids.
 • Vef. Watt, William Montgomery, 2019, „Hārūn al-Rashīd”, Encyclopædia Britannica. Sótt 29. nóvember 2019 af https://www.britannica.com/biography/Harun-al-Rashid.

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2019. Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttur hafði umsjón með námskeiðinu.

Höfundar

Kjartan Birgir Kjartansson

BA-nemi í sagnfræði

Urður Egilsdóttir

BA-nemi í sagnfræði

Útgáfudagur

13.1.2020

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Kjartan Birgir Kjartansson og Urður Egilsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Harún al-Rashid?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2020. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78410.

Kjartan Birgir Kjartansson og Urður Egilsdóttir. (2020, 13. janúar). Hvað getið þið sagt mér um Harún al-Rashid? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78410

Kjartan Birgir Kjartansson og Urður Egilsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Harún al-Rashid?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2020. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78410>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Harún al-Rashid?
Harún al-Rashid (Hārūn al-Rashīd ibn Muḥammad al-Mahdī ibn al-Manṣūr al-ʿAbbāsī), var fimmti kalífi veldis Abbasída og ríkti frá 786-809. Hann er þekktastur á Vesturlöndum sem kalífinn sem kemur fyrir í verkinu Þúsund og ein nótt. Verkið er safn af sögum sem eiga meðal annars rætur að rekja til Arabíu, Persíu og Sýrlands, allt frá fornöld til miðalda. Það kom fyrst út árið 1857 á Íslandi í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. Harún birtist í bókinni sem persóna í þó nokkrum sögum sem kalífi hins glæsilega veldis múslima með aðsetur í Bagdad á blómatíma borgarinnar. Í sögunum dulbýr Harún sig gjarnan sem alþýðumann og blandar þannig geði við þegna sína. Harún al-Rashid var af ætt Abbasída, sem tóku við veldi Umayyada eftir sigur í uppreisn gegn hinum síðarnefndu árið 750. Höfuðborg þeirra var Bagdad og varð hún ein helsta stórborg heimsins allt þar til að veldi Abbasída féll fyrir Mongólum 1258.

Harún fæddist annað hvort í mars 763 eða febrúar 766, þar sem nú er Íran, en hann þótti aldrei líklegur til þess að stjórna veldi Abbasída. Hann var einn af yngri sonum föður síns, kalífans al-Mahdi, sem ríkti frá 775-785. Móðir hans var Al-Khayzuran, ambátt föður hans, en hún var metnaðarfull og hafði með tímanum risið upp metorðastigann og orðið ómissandi við hirð kalífans og sona þeirra. Harún og eldri bróðir hans, Al-Hadi, ólust upp við hirðina í Bagdad. Þar hlutu þeir menntun í ýmsum fræðum og var kennari þeirra Yahya Barmakid. Barmakid-ættin var voldug ætt frá Íran og dyggir stuðningsmenn Al-Khayzuran og Harúns.

Harún al-Rashid. Teikning frá 1915 eftir Khalil Gibran.

Á árunum 780 og 782 leiddi Harún árásir á Býsansríkið. Árið 782 komust menn hans alla leið að Bospórussundi, sem lá upp að Konstantínópel, og í kjölfarið gerði Harún friðarsamning sem var afar hagstæður fyrir Abbasída. Fyrir þetta hlaut hann nafngiftina al-Rashid sem merkir „sá sem gengur hina réttu braut” og hlotnaðist að auki rétturinn til að erfa kalífadæmið eftir bróður sinn. Hann var einnig skipaður landstjóri Túnis, Egyptalands, Armeníu og Aserbaídsjan.

Þremur árum síðar, í ágúst árið 785, tók Al-Hadi við völdum, en ríkti þó aðeins í eitt ár. Al-Hadi átti að hafa lagst gegn áhrifum móður sinnar við hirðina og segir sagan að hún hafi myrt hann til þess að koma uppáhalds syni sínum í hásætið. Eftir dauða bróður síns gerði Harún Yahya Barmakid, fyrrum kennara sinn, og son hans Jafar, að áhrifamönnum við hirðina. Þeir studdu Harún í baráttu gegn áhrifum fylgismanna Al-Hadi eftir valdatökuna.

Harún al-Rashid varð því kalífi með hjálp vélabragða móður sinnar og áhrifamikilla vina við hirðina aðeins tvítugur að aldri árið 786. Veldið sem Harún tók við réði yfir nær öllum Mið-Austurlöndum og teygði anga sína frá Pakistan nútímans í austri að Alsír í vestri. Harún al-Rashid gekk hratt til verks ásamt Yahya Barmakid við að greiða úr fjárhagsvandræðum ríkisins. Hann tók hart á spilltum landstjórum í Egyptalandi og Mesópótamíu og styrkti miðstjórn ríkisins og skattheimtu með stuðningi Barmakid-ættarinnar. Undir Harún jókst einnig mikilvægi Bagdad sem höfuðborgar og stækkaði borgin jafnt og þétt.

Gífurleg auðæfi þessa mikla ríkis, ásamt nýfengnum stöðugleika, undir sterkri miðstjórn hins unga kalífa, greiddu veginn fyrir blómatíma veldisins. Harún al-Rashid hafði, undir verndarvæng Yahya Barmakid, öðlast mikinn áhuga á bókmenntum og ljóðlist. Auður veldisins gerði honum kleift að hafa í kringum sig herskara af skáldum, sögumönnum og tónlistarfólki. Harún hélt áfram uppbyggingu á Húsi viskunnar (Bayt al-Hikmah), stofnunar í Bagdad sem annaðist meðal annars þýðingar á grískum og persneskum textum, ásamt rannsóknum í læknisfræði, stærðfræði og stjörnufræði. Við hirð Harúns al-Rashid voru textar þýddir úr persnesku yfir á arabísku. Einnig vöktu grískir textar frá Býsansríkinu áhuga fræðimanna kalífaveldisins, þá sérstaklega textar um heimspeki Forn-Grikkja, líkt og verk Aristótelesar.

Sendinefnd Karlamagnúsar kemur á fund al-Rashid. Málverk frá 1864 eftir Julius Köckert.

Undir stjórn Harúns al-Rashid náðu samskipti á milli kalífaveldisins og landa kristindóms í Evrópu áður óþekktum hæðum. Karlamagnús, konungur Frankaríkisins, sendi tvisvar til hans sendiherra, líklega í tengslum við áhuga Karlamagnúsar á Jerúsalem og stuðningi hans við ferðir pílagríma þangað. Harún al-Rashid sendi Karlamagnúsi ríkulegar gjafir til þess að leggja áherslu á það mikilvægi sem hann lagði á friðsamlegt samstarf þeirra. Ein frægasta gjöf Harúns var án efa fíllinn Abu Abbas, sem varð mikið dálæti Karlamagnúsar. Aðrar gjafir sem Harún færði Karlamagnúsi voru klæði úr silki, krydd, olíur og tvær ljósakrónur úr gylltu bronsi. Harún gaf konungi Franka einnig vélræna klukku úr bronsi, sem þótti að sögn mikið undur. Ef sagan um vélrænu klukkuna er sönn, þá er hún vísbending um hið mikla vísindalega samfélag sem blómstraði í kalífaveldinu á stjórnartíma Harúns al-Rashid.

Tími Harúns einkenndist þó ekki einungis af friðsamlegum samskiptum við kristna heiminn. Ef tækifæri gafst þá hikaði hann ekki við að senda herflokka til þess að niðurlægja óvini sína. Harún hafði lært herkænsku frá unga aldri og hafði á valdatíð föður síns gert árás á Býsansríkið þegar hann var landstjóri í Armeníu og Aserbaídsjan. Harún tók persónulega að sér öll málefni hers kalífaveldisins og lét víggirða landamæri ríkisins.

Þegar Harún al-Rashid dó árið 809, var hann enn og aftur á leið í stríð, í þetta sinn gegn uppreisnarmönnum í Khorasan, héraði í austurhluta kalífaveldisins, þar sem nú er Afganistan. Harún hafði þjáðst af magaverkjum og í ferðinni var augljóst að kalífinn var alvarlega veikur. Ferðalagið til Khorasan dró úr þverrandi styrk Harúns og eftir sigur á uppreisnarmönnunum lést hann í tjaldi sínu og var grafinn í bænum Tus, Khorasan, nú í Íran. Við dauða sinn skipti Harún ríkinu á milli sona sinna, Al-Amin og Al-Ma‘mun. Al-Amin var gerður að kalífa í Bagdad, en Al-Ma‘mun að landstjóra Khorasan. Samskipti milli bræðranna versnuðu fljótt og enduðu með borgarastyrjöld þar sem að Al-Ma‘mun sigraði en stýrði þó veikara veldi eftir.

Harúns al-Rashid er fyrst og fremst minnst fyrir ríkidæmi hirðar sinnar, sem var gert ódauðlegt í Þúsund og ein nótt. Harún var þó ekki bara sögupersóna, heldur einn mesti kalífi sem ríkti á blómaskeiði íslamska heimsins. Undir hans stjórn efldist miðstjórn ríkisins, auður þess jókst og óvinir hans voru sigraðir. Við dauða hans tók þó við sorgleg atburðarás borgarastyrjalda sem var upphafið að falli kalífaveldisins. Það eru því tvennar sögur sem fylgja Harún, ævintýrapersónan sem múslimar seinni tíma minntust með nostalgíu frá liðnum stórveldistíma og sagan af hinum raunverulega kalífa, sem leiddi ríkið á hápunkti blómaskeiðs síns.

Heimildir:
 • Clot, André. Harun al-Rashid: and the World of the One thousand and One Nights (London 2005).
 • Gutas, Dimitri. Greek Thought, Arabic Culture. The Graeco-Arabic Translation Movement in Baghdad and Early Abbasid Society (2nd-4th/5th-10th c.) (Arabic Thought and Culture) (London 1998).
 • Kennedy, Hugh N. The Early Abbasid Caliphate (London 1981).
 • The Cambridge Encyclopedia of the Middle East and North Africa. Ritstjórar Trevor Mostyn og Albert Hourani (Cambridge 1988).
 • Vef. Omar, Farouk. 2019, „Barmakids: Abbasid Viziers“, Encyclopædia Britannica. Sótt 29. nóvember 2019 af https://www.britannica.com/topic/Barmakids.
 • Vef. Watt, William Montgomery, 2019, „Hārūn al-Rashīd”, Encyclopædia Britannica. Sótt 29. nóvember 2019 af https://www.britannica.com/biography/Harun-al-Rashid.

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2019. Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttur hafði umsjón með námskeiðinu....