Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar faraldur var SARS og er vitað af hverju SARS-CoV-veiran hvarf?

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

COVID-19 borði í flokk
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvað getið þið sagt um SARS-faraldurinn sem gekk yfir 2002-2004 og af hverju hvarf veiran?

Veiran SARS-CoV er ein af sjö kórónuveirum sem getur sýkt menn, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað eru til margar kórónuveirur sem sýkja menn og dugar ónæmi gegn einni þeirra fyrir hinum?

Veiran veldur sjúkdómi sem kallast á ensku Severe Acute Respiratory Syndrome (SARS), á íslensku 'heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu' (HABL), en allt eins algengt er að enska skammstöfunin sé notuð. SARS veldur sýkingu sem bundin er við neðri öndunarfæri og algengustu einkennin eru hósti, hiti, hrollur, slappleiki, vöðva- og höfuðverkur og mæði. Niðurgangur og hálssærindi geta einnig fylgt. Sjúkdómurinn veldur í flestum tilfellum lungnabólgu. Meðgöngutími sjúkdómsins er venjulega tveir til sjö dagar en getur orðið tíu dagar.

Fyrsta tilfellið af SARS kom fram í Guangdong-héraði í Kína í nóvember árið 2002 en orsök og eðli sjúkdómsins var þá óþekkt. Í febrúar 2003 barst sjúkdómurinn út fyrir Kína, fyrst til Hong Kong, Víetnam og Kanada en síðan til fleiri landa. Veikin breiddist hratt út næstu vikurnar og náði á endanum til 29 landa og sjálfsstjórnarsvæða í Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Evrópu. Fljótlega tókst þó að koma böndum á sjúkdóminn og í júlí 2003 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) því yfir að faraldurinn væri yfirstaðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá WHO voru tilfelli á tímabilinu sem faraldurinn stóð yfir, frá nóvember 2002 til loka júlí 2003, alls 8.096 og dauðsföll 774. Langflest tilfellin voru í Kína, rúmlega 5.300 en einnig voru mörg tilfelli í Hong Kong (1755), Taívan (346), Kanada (251) og Singapúr (238). Þótt faraldurinn væri yfirstaðinn héldu áfram að koma upp einstök tilfelli næstu mánuði en frá vori 2004 hefur ekkert tilfelli greinst.

Útbreiðsla SARS-faraldursins 2002-2003.

Veiran virðist aðallega hafa borist á milli manna með dropa- og snertismiti. Fyrstu vikurnar eftir að sjúkdómnum var lýst voru flestir þeirra sem sýktust heilbrigðisstarfsmenn sem önnuðust sjúklinga með SARS og nánustu aðstandendur sjúklinganna. Þegar yfir lauk var heilbrigðisstarfsfólk um fimmtungur þeirra sem smituðust.

Lögð var mikil áhersla á að leita uppruna SARS-CoV og var niðurstaðan sú að líklegast muni hún vera komin frá leðurblökutegund sem kallast Rhinolophus sinicus. Talið er að veiran hafi borist úr leðurblökunum í desketti (e. civets) og marðarhunda (e. raccoon dogs) og þaðan í menn. SARS-CoV er þannig klassískt dæmi um flutning kórónuveira frá dýrum til manna. Í kjölfar rannsókna á uppruna veirunnar greindist einnig fjöldi annarra skyldra veira í mörgum leðurblökutegundum. SARS-CoV og skyldar veirur mynda sína eigin tegund innan veirufræðinnar: SARS-related coronavirus, sem á íslensku mætti kalla SARS-skyldar kórónuveirur. SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19 fellur meðal annars undir þessa tegund sem skýrir nafngift hennar.

Frá upphafi var lögð rík áhersla á að leita leiða til að ráða niðurlögum SARS-kórónuveirunnar. Búið var að þróa nokkur bóluefni gegn veirunni og voru sum þeirra tilbúin til rannsókna í mönnum. En þegar SARS hvarf nokkuð skyndilega árið 2004 fór áhugi á þessum bóluefnum hratt minnkandi og því miður var frekari þróun bóluefna gegn sjúkdómnum stöðvuð.

SARS var í hámarki vorið 2003 en hefur ekki látið á sér kræla síðan 2004.

Enn er ekki vitað af hverju SARS hvarf svo skyndilega en ýmsir þættir gætu hafa haft áhrif á þá þróun. Næstum allir sem smituðust af SARS fengu einkenni og flestir þeirra sem urðu veikir sýndu alvarleg einkenni. Þannig var auðveldara að greina þá sem sýktust af SARS-kórónuveirunni og beita viðeigandi smitgát. Í ljósi þess að nær allir sem smituðust fengu einkenni var einnig auðveldara að rekja smit innan samfélaga. Ef einstaklingur greindist með SARS og hann var í samskiptum við 10 einstaklinga þar sem aðeins einn var með hósta og hita var útilokað að hann hafi fengið sýkinguna frá þeim einkennalausu. Í kjölfarið var hægt að ræða betur við þann sem var með einkenni og koma í veg fyrir frekari dreifingu.

Þó SARS hafi verið mjög smitandi, sérstaklega innan spítala, virtist veikin aðeins smitast frá einstaklingum sem voru með einkenni. Þetta var þannig ólíkt COVID-19 sem getur smitast milli manna áður en einkenni koma fram (þó nákvæmlega hversu miklu máli þetta skiptir sé óvíst).

Mögulega dreifðist SARS hreinlega verr miðað við til dæmis COVID-19 eða inflúensu. Sumar örverur dreifast mjög vel við viss skilyrði en illa við aðrar aðstæður. Það gæti hafa átt við um SARS.

Ofangreindir þættir samhliða víðtækum viðbrögðum í mismunandi samfélögum (útbreidd smitgát, sóttkví, smitrakning, einangrun og fleira) áttu líklegast stærsta þáttinn í að SARS hvarf sjónum okkar. Hins vegar hvílir veiran án nokkurs vafa áfram í einhverjum náttúrulegum hýsli, sennilegast leðurblökum, og gæti mögulega komið fram aftur.

Heimildir:

Höfundar

Jón Magnús Jóhannesson

læknir og rannsakandi

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

24.6.2020

Spyrjandi

Sigurður R. Guðmundsson

Tilvísun

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers konar faraldur var SARS og er vitað af hverju SARS-CoV-veiran hvarf?“ Vísindavefurinn, 24. júní 2020, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79648.

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2020, 24. júní). Hvers konar faraldur var SARS og er vitað af hverju SARS-CoV-veiran hvarf? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79648

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers konar faraldur var SARS og er vitað af hverju SARS-CoV-veiran hvarf?“ Vísindavefurinn. 24. jún. 2020. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79648>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar faraldur var SARS og er vitað af hverju SARS-CoV-veiran hvarf?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvað getið þið sagt um SARS-faraldurinn sem gekk yfir 2002-2004 og af hverju hvarf veiran?

Veiran SARS-CoV er ein af sjö kórónuveirum sem getur sýkt menn, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað eru til margar kórónuveirur sem sýkja menn og dugar ónæmi gegn einni þeirra fyrir hinum?

Veiran veldur sjúkdómi sem kallast á ensku Severe Acute Respiratory Syndrome (SARS), á íslensku 'heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu' (HABL), en allt eins algengt er að enska skammstöfunin sé notuð. SARS veldur sýkingu sem bundin er við neðri öndunarfæri og algengustu einkennin eru hósti, hiti, hrollur, slappleiki, vöðva- og höfuðverkur og mæði. Niðurgangur og hálssærindi geta einnig fylgt. Sjúkdómurinn veldur í flestum tilfellum lungnabólgu. Meðgöngutími sjúkdómsins er venjulega tveir til sjö dagar en getur orðið tíu dagar.

Fyrsta tilfellið af SARS kom fram í Guangdong-héraði í Kína í nóvember árið 2002 en orsök og eðli sjúkdómsins var þá óþekkt. Í febrúar 2003 barst sjúkdómurinn út fyrir Kína, fyrst til Hong Kong, Víetnam og Kanada en síðan til fleiri landa. Veikin breiddist hratt út næstu vikurnar og náði á endanum til 29 landa og sjálfsstjórnarsvæða í Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Evrópu. Fljótlega tókst þó að koma böndum á sjúkdóminn og í júlí 2003 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) því yfir að faraldurinn væri yfirstaðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá WHO voru tilfelli á tímabilinu sem faraldurinn stóð yfir, frá nóvember 2002 til loka júlí 2003, alls 8.096 og dauðsföll 774. Langflest tilfellin voru í Kína, rúmlega 5.300 en einnig voru mörg tilfelli í Hong Kong (1755), Taívan (346), Kanada (251) og Singapúr (238). Þótt faraldurinn væri yfirstaðinn héldu áfram að koma upp einstök tilfelli næstu mánuði en frá vori 2004 hefur ekkert tilfelli greinst.

Útbreiðsla SARS-faraldursins 2002-2003.

Veiran virðist aðallega hafa borist á milli manna með dropa- og snertismiti. Fyrstu vikurnar eftir að sjúkdómnum var lýst voru flestir þeirra sem sýktust heilbrigðisstarfsmenn sem önnuðust sjúklinga með SARS og nánustu aðstandendur sjúklinganna. Þegar yfir lauk var heilbrigðisstarfsfólk um fimmtungur þeirra sem smituðust.

Lögð var mikil áhersla á að leita uppruna SARS-CoV og var niðurstaðan sú að líklegast muni hún vera komin frá leðurblökutegund sem kallast Rhinolophus sinicus. Talið er að veiran hafi borist úr leðurblökunum í desketti (e. civets) og marðarhunda (e. raccoon dogs) og þaðan í menn. SARS-CoV er þannig klassískt dæmi um flutning kórónuveira frá dýrum til manna. Í kjölfar rannsókna á uppruna veirunnar greindist einnig fjöldi annarra skyldra veira í mörgum leðurblökutegundum. SARS-CoV og skyldar veirur mynda sína eigin tegund innan veirufræðinnar: SARS-related coronavirus, sem á íslensku mætti kalla SARS-skyldar kórónuveirur. SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19 fellur meðal annars undir þessa tegund sem skýrir nafngift hennar.

Frá upphafi var lögð rík áhersla á að leita leiða til að ráða niðurlögum SARS-kórónuveirunnar. Búið var að þróa nokkur bóluefni gegn veirunni og voru sum þeirra tilbúin til rannsókna í mönnum. En þegar SARS hvarf nokkuð skyndilega árið 2004 fór áhugi á þessum bóluefnum hratt minnkandi og því miður var frekari þróun bóluefna gegn sjúkdómnum stöðvuð.

SARS var í hámarki vorið 2003 en hefur ekki látið á sér kræla síðan 2004.

Enn er ekki vitað af hverju SARS hvarf svo skyndilega en ýmsir þættir gætu hafa haft áhrif á þá þróun. Næstum allir sem smituðust af SARS fengu einkenni og flestir þeirra sem urðu veikir sýndu alvarleg einkenni. Þannig var auðveldara að greina þá sem sýktust af SARS-kórónuveirunni og beita viðeigandi smitgát. Í ljósi þess að nær allir sem smituðust fengu einkenni var einnig auðveldara að rekja smit innan samfélaga. Ef einstaklingur greindist með SARS og hann var í samskiptum við 10 einstaklinga þar sem aðeins einn var með hósta og hita var útilokað að hann hafi fengið sýkinguna frá þeim einkennalausu. Í kjölfarið var hægt að ræða betur við þann sem var með einkenni og koma í veg fyrir frekari dreifingu.

Þó SARS hafi verið mjög smitandi, sérstaklega innan spítala, virtist veikin aðeins smitast frá einstaklingum sem voru með einkenni. Þetta var þannig ólíkt COVID-19 sem getur smitast milli manna áður en einkenni koma fram (þó nákvæmlega hversu miklu máli þetta skiptir sé óvíst).

Mögulega dreifðist SARS hreinlega verr miðað við til dæmis COVID-19 eða inflúensu. Sumar örverur dreifast mjög vel við viss skilyrði en illa við aðrar aðstæður. Það gæti hafa átt við um SARS.

Ofangreindir þættir samhliða víðtækum viðbrögðum í mismunandi samfélögum (útbreidd smitgát, sóttkví, smitrakning, einangrun og fleira) áttu líklegast stærsta þáttinn í að SARS hvarf sjónum okkar. Hins vegar hvílir veiran án nokkurs vafa áfram í einhverjum náttúrulegum hýsli, sennilegast leðurblökum, og gæti mögulega komið fram aftur.

Heimildir:...