Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Björn Guðfinnsson og hvert var framlag hans til íslenskra málfræðirannsókna?

Eiríkur Rögnvaldsson

Björn Guðfinnsson fæddist 21. júní 1905 að Staðarfelli í Dölum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1930 og kennaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1935. Á árunum 1931–1945 kenndi hann við ýmsa skóla – Verzlunarskóla Íslands, Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík. Einnig kenndi hann íslensku í Ríkisútvarpinu. Björn þótti strangur en góður kennari og er sagður hafa gerbreytt íslenskukennslu í þeim skólum sem hann kenndi við.

Þrátt fyrir velgengni sem framhaldsskólakennari hafði Björn metnað til að verða vísindamaður og varð lektor við heimspekideild Háskóla Íslands 1941 meðfram kennslu sinni við Menntaskólann og Ríkisútvarpið. Hann varð dósent 1947 og prófessor í íslensku nútíðarmáli og hagnýtri íslenskukennslu 1948, fyrstur manna í því starfi, og gegndi því til dauðadags 27. nóvember 1950. Björn var því aðeins 45 ára er hann lést en hafði lengi þjáðst af magasjúkdómi sem að lokum varð honum að aldurtila.

Björn Guðfinnsson gegndi stöðu prófessors í íslensku nútíðarmáli og hagnýtri íslenskukennslu frá 1948 til 1950. Á árunum 1941 til 1944 rannsakaði hann íslenskar framburðarmállýskur. Hvergi annars staðar í veröldinni hefur svo víðtæk framburðarrannsókn verið gerð.

Árið 1935 gaf Björn út kennslubókina Íslenzka I og í tengslum við kennslu sína í framhaldsskólum og Ríkisútvarpinu skrifaði hann bókina Íslenzk málfræði handa skólum og útvarpi sem kom út 1937, og árið eftir kom bókin Íslenzk setningafræði handa skólum og útvarpi. Fyrrnefnda bókin hefur verið endurútgefin margoft, fyrst undir óbreyttum titli en fimmta útgáfa bókarinnar 1958 var gefin út í endurskoðun Eiríks Hreins Finnbogasonar, talsvert einfölduð og breytt, og hét Íslenzk málfræði handa framhaldsskólum.

Bókin var gefin út nokkrum sinnum eftir það, efnislega óbreytt þótt titillinn breyttist – yrði Íslenzk málfræði handa grunnskólum, Íslensk málfræði handa grunnskólum og framhaldsskólum, og Íslensk málfræði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla í síðustu prentun 1999. Margar kennslubækur sem á eftir hafa komið eru í svipuðum anda. Setningafræði Björns hefur einnig verið endurútgefin undir styttum titli, Íslenzk setningafræði, og ýmsar kennslubækur sem á eftir komu eru í anda hennar.

Íslensk málfræði Björns Guðfinnssonar var aðalkennslubók í málfræði í íslenskum skólum í marga áratugi, frá því um 1940 og jafnvel fram á þessa öld. Það er því óhætt að segja að bókin hafi mótað hugmyndir flestra Íslendinga sem komnir eru á fullorðinsár um íslenska málfræði, „rétt“ mál og „rangt“. Fyrir mörgum er lýsing Björns á íslensku málkerfi hinn endanlegi sannleikur sem ekki þarf að efast um. Íslensk setningafræði Björns hafði einnig mikil áhrif en var mun minna notuð en málfræðin.

Björns verður þó lengst minnst fyrir rannsóknir á íslenskum framburðarmállýskum sem hann hóf 1941 og vann einkum að til 1944. Hann ferðaðist um nær allt land og kannaði framburð 6.250 íslenskra barna, auk nokkurs fjölda fullorðinna, en á þessum tíma voru íbúar landsins aðeins um 125 þúsund. Hvergi annars staðar í veröldinni hefur svo víðtæk framburðarrannsókn verið gerð. Ýmsum helstu niðurstöðum hennar gerði Björn skil í doktorsriti sínu, Mállýzkur I, sem hann varði við Háskóla Íslands vorið 1944 og kom út 1946.

Kápur þriggja rita eftir Björn Guðfinsson. Íslensk málfræði Björns var aðalkennslubók í málfræði í íslenskum skólum í marga áratugi, frá því um 1940 og jafnvel fram á þessa öld.

Árið 1947 gaf Björn svo út kverið Breytingar á framburði og stafsetningu þar sem meðal annars er að finna tillögur hans um samræmingu og fegrun íslensks framburðar. Björn hafði safnað miklum gögnum í rannsóknum sínum og entist ekki aldur til að vinna úr þeim öllum en löngu síðar réðust þeir Óskar Halldórsson og Ólafur M. Ólafsson, sem hafði verið samstarfsmaður Björns í rannsóknunum, í það að vinna úr eftirlátnum gögnum hans. Afrakstur þess var bókin Um íslenzkan framburð. Mállýzkur II, sem kom út árið 1964.

Framburðarrannsókn Björns er ómetanleg heimild um framburð Íslendinga um miðja 20. öld. Hún hefur líka komið að miklu gagni í samanburði við síðari rannsóknir, einkum hina viðamiklu „Rannsókn á íslensku nútímamáli“ (RÍN) sem prófessorarnir Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason stóðu fyrir um og upp úr 1980, sem og „Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð“ (RAUN) sem Höskuldur stýrði á árunum 2010–2012. Með samanburði rannsóknanna er hægt að átta sig á breytingum undanfarna áratugi.

Frumgögn Björns eru varðveitt á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og þar er að finna margvíslegar upplýsingar sem ekki eru í útgefnu efni, meðal annars um einstaka þátttakendur. Í RÍN og RAUN var því hægt að hafa samband við fólk sem Björn hafði talað við á sínum tíma og rekja þannig breytingar á framburði þess. Þrátt fyrir að um 80 ár séu liðin frá því að Björn gerði framburðarrannsóknir sínar er enn verið að nýta þær og vinna úr þeim nýjar upplýsingar, eins og Margrét Guðmundsdóttir gerir í nýrri doktorsritgerð, Mál á mannsævi (2022).

Myndir:

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

2.12.2022

Síðast uppfært

12.1.2023

Spyrjandi

Jón Viðar Jónsson

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hver var Björn Guðfinnsson og hvert var framlag hans til íslenskra málfræðirannsókna?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2022, sótt 21. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84218.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2022, 2. desember). Hver var Björn Guðfinnsson og hvert var framlag hans til íslenskra málfræðirannsókna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84218

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hver var Björn Guðfinnsson og hvert var framlag hans til íslenskra málfræðirannsókna?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2022. Vefsíða. 21. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84218>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Björn Guðfinnsson og hvert var framlag hans til íslenskra málfræðirannsókna?
Björn Guðfinnsson fæddist 21. júní 1905 að Staðarfelli í Dölum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1930 og kennaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1935. Á árunum 1931–1945 kenndi hann við ýmsa skóla – Verzlunarskóla Íslands, Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík. Einnig kenndi hann íslensku í Ríkisútvarpinu. Björn þótti strangur en góður kennari og er sagður hafa gerbreytt íslenskukennslu í þeim skólum sem hann kenndi við.

Þrátt fyrir velgengni sem framhaldsskólakennari hafði Björn metnað til að verða vísindamaður og varð lektor við heimspekideild Háskóla Íslands 1941 meðfram kennslu sinni við Menntaskólann og Ríkisútvarpið. Hann varð dósent 1947 og prófessor í íslensku nútíðarmáli og hagnýtri íslenskukennslu 1948, fyrstur manna í því starfi, og gegndi því til dauðadags 27. nóvember 1950. Björn var því aðeins 45 ára er hann lést en hafði lengi þjáðst af magasjúkdómi sem að lokum varð honum að aldurtila.

Björn Guðfinnsson gegndi stöðu prófessors í íslensku nútíðarmáli og hagnýtri íslenskukennslu frá 1948 til 1950. Á árunum 1941 til 1944 rannsakaði hann íslenskar framburðarmállýskur. Hvergi annars staðar í veröldinni hefur svo víðtæk framburðarrannsókn verið gerð.

Árið 1935 gaf Björn út kennslubókina Íslenzka I og í tengslum við kennslu sína í framhaldsskólum og Ríkisútvarpinu skrifaði hann bókina Íslenzk málfræði handa skólum og útvarpi sem kom út 1937, og árið eftir kom bókin Íslenzk setningafræði handa skólum og útvarpi. Fyrrnefnda bókin hefur verið endurútgefin margoft, fyrst undir óbreyttum titli en fimmta útgáfa bókarinnar 1958 var gefin út í endurskoðun Eiríks Hreins Finnbogasonar, talsvert einfölduð og breytt, og hét Íslenzk málfræði handa framhaldsskólum.

Bókin var gefin út nokkrum sinnum eftir það, efnislega óbreytt þótt titillinn breyttist – yrði Íslenzk málfræði handa grunnskólum, Íslensk málfræði handa grunnskólum og framhaldsskólum, og Íslensk málfræði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla í síðustu prentun 1999. Margar kennslubækur sem á eftir hafa komið eru í svipuðum anda. Setningafræði Björns hefur einnig verið endurútgefin undir styttum titli, Íslenzk setningafræði, og ýmsar kennslubækur sem á eftir komu eru í anda hennar.

Íslensk málfræði Björns Guðfinnssonar var aðalkennslubók í málfræði í íslenskum skólum í marga áratugi, frá því um 1940 og jafnvel fram á þessa öld. Það er því óhætt að segja að bókin hafi mótað hugmyndir flestra Íslendinga sem komnir eru á fullorðinsár um íslenska málfræði, „rétt“ mál og „rangt“. Fyrir mörgum er lýsing Björns á íslensku málkerfi hinn endanlegi sannleikur sem ekki þarf að efast um. Íslensk setningafræði Björns hafði einnig mikil áhrif en var mun minna notuð en málfræðin.

Björns verður þó lengst minnst fyrir rannsóknir á íslenskum framburðarmállýskum sem hann hóf 1941 og vann einkum að til 1944. Hann ferðaðist um nær allt land og kannaði framburð 6.250 íslenskra barna, auk nokkurs fjölda fullorðinna, en á þessum tíma voru íbúar landsins aðeins um 125 þúsund. Hvergi annars staðar í veröldinni hefur svo víðtæk framburðarrannsókn verið gerð. Ýmsum helstu niðurstöðum hennar gerði Björn skil í doktorsriti sínu, Mállýzkur I, sem hann varði við Háskóla Íslands vorið 1944 og kom út 1946.

Kápur þriggja rita eftir Björn Guðfinsson. Íslensk málfræði Björns var aðalkennslubók í málfræði í íslenskum skólum í marga áratugi, frá því um 1940 og jafnvel fram á þessa öld.

Árið 1947 gaf Björn svo út kverið Breytingar á framburði og stafsetningu þar sem meðal annars er að finna tillögur hans um samræmingu og fegrun íslensks framburðar. Björn hafði safnað miklum gögnum í rannsóknum sínum og entist ekki aldur til að vinna úr þeim öllum en löngu síðar réðust þeir Óskar Halldórsson og Ólafur M. Ólafsson, sem hafði verið samstarfsmaður Björns í rannsóknunum, í það að vinna úr eftirlátnum gögnum hans. Afrakstur þess var bókin Um íslenzkan framburð. Mállýzkur II, sem kom út árið 1964.

Framburðarrannsókn Björns er ómetanleg heimild um framburð Íslendinga um miðja 20. öld. Hún hefur líka komið að miklu gagni í samanburði við síðari rannsóknir, einkum hina viðamiklu „Rannsókn á íslensku nútímamáli“ (RÍN) sem prófessorarnir Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason stóðu fyrir um og upp úr 1980, sem og „Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð“ (RAUN) sem Höskuldur stýrði á árunum 2010–2012. Með samanburði rannsóknanna er hægt að átta sig á breytingum undanfarna áratugi.

Frumgögn Björns eru varðveitt á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og þar er að finna margvíslegar upplýsingar sem ekki eru í útgefnu efni, meðal annars um einstaka þátttakendur. Í RÍN og RAUN var því hægt að hafa samband við fólk sem Björn hafði talað við á sínum tíma og rekja þannig breytingar á framburði þess. Þrátt fyrir að um 80 ár séu liðin frá því að Björn gerði framburðarrannsóknir sínar er enn verið að nýta þær og vinna úr þeim nýjar upplýsingar, eins og Margrét Guðmundsdóttir gerir í nýrri doktorsritgerð, Mál á mannsævi (2022).

Myndir:...