Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík

Hvers konar dýr er marðarhundur og hvar eru heimkynni hans?

Jón Már Halldórsson

Marðarhundur (Nyctereutes procyonoides) er hunddýr af ættkvíslinni Nyctereutes. Enskt heiti hans er raccoon dog sem þýða mætti sem þvottabjarnarhundur og er þar vísað til þess að andlit hans minnir á þvottabjörn. Á sænsku nefnist hann mårdhund, mårhund á dönsku og norsku og Marderhund á þýsku. Þrátt fyrir heitin er marðarhundur mun skyldari refum en þvottabjörnum og mörðum.

Á ensku kallast marðaðarhundur raccoon dog sem þýða mætti sem þvottabjarnarhundur og er þar vísað til þess að andlit hans minnir á þvottabjörn.

Upprunaleg heimkynni marðarhunds eru í Austur-Asíu, fyrst og fremst í Kína, á Kóreuskaga, í austurhluta Síberíu, Japan og Mongólíu. Í dag nær útbreiðsla hans hins vegar langt inn í Evrópu, eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Marðarhundurinn er á stærð við ref en hefur styttri fætur og styttra skott. Hann er um 30-50 cm á hæð og búklengdin á bilinu 50-70 cm. Þyngd hans sveiflast mjög árstíðabundið, hann er um 4-6 kg að sumri en getur orðið allt að 13 kg seint að hausti. Hann hefur einkennandi svarta „andlitsgrímu“, lítil og rúnnuð eyru, langt trýni og þykkan vetrarfeld. Liturinn á feldinum er allt frá því að vera gulleitur yfir í að vera grár eða rauðleitur en fætur og bringa eru dökk.

Marðarhundurinn kann vel við sig nálægt vatni eða á rökum svæðum, í skóglendi, sérstaklega þar sem undirgróður er mikill, á ræktuðum svæðum og votum engjum, við strendur vatna eða árfarvegi. Hann á auðvelt með að aðlaga sig umhverfi af ýmsu tagi og er það ein ástæða fyrir mikilli útbreiðslu marðarhunda. Ólíkt hundum og fleiri skyldum rándýrum er marðarhundurinn alæta. Hann lifir meðal annars á litlum nagdýrum, froskdýrum, fuglum og eggjum, fiski, lindýrum, ávöxtum, korni, berjum og rusli frá fólki, allt eftir því hvað býðst hverju sinni.

Marðarhundurinn er á stærð við ref en hefur styttri fætur og styttra skott.

Ólíkt öðrum hunddýrum leggst marðarhundurinn í dvala yfir veturinn á þeim búsvæðum þar sem kaldast er. Á haustin safnar hann fitu fyrir dvalann og getur nánast tvöfaldað þyngd sína áður en hann kemur sér fyrir í bæli, til dæmis undir trjárótum í þéttu skóglendi. Dvalinn er mislangur eftir svæðum og tíðarfari, oft frá nóvember og fram í mars, en ef veturinn er mildur er dvalinn styttri og stundum bara rétt á meðan verstu vetrarstormar geysa. Venjulega er hann í dvala þegar hitinn er undir -10 gráðum, snjódýptin meiri en 35 cm og dagurinn er styttri en 7 klukkustundir. Að sama skapi eru flestir marðarhundar á stjái þegar hitinn er fyrir ofan frostmark, þegar snjólaust er og dagurinn lengri en 10 klukkustundir. Þar sem aðstæður eru slíkar allt árið um kring leggst hann því ekkert í dvala.

Þegar marðarhundurinn kemur úr dvalanum (þar sem það á við) finnur hann sér maka og æxlast. Þetta á sér venjulega stað í febrúar eða mars. Meðgöngutíminn er um 9 vikur og hvolparnir koma því í heiminn í apríl eða maí. Við góðar aðstæður er meðal gotstærð 9-10 hvolpar en 6-7 hvolpar þar sem aðstæður eru erfiðari, veðurfar er kaldara eða minna fæðuframboð. Engu að síður er þetta nokkuð mikil frjósemi miðað við dýr af þessari stærð.

Fyrir um 100 árum var útbreiðsla marðarhunda bundin við Austur-Asíu. Á árunum 1929 til 1955 fluttu Sovétmenn marðarhunda frá Síberíu vestur á bóginn, aðallega til Evrópuhluta fyrrum Sovétríkjanna. Alls er talið að um 9100 dýr hafi verið flutt í ný heimkynni, fyrst var þeim komið fyrir á búum þar sem átti að rækta upp og bæta feld dýranna en síðan var þeim sleppt út í náttúruna. Ástæðan var fyrst og fremst sú að þannig átti að fá fram nýja tegund sem hægt væri að veiða í villtri náttúru og nýta jafnframt feldinn.

Upprunalega heimkynni marðarhundsins eru austast í Asíu (blátt á kortinu). Eftir að dýr voru flutt til Evrópu fyrir og um miðja síðustu öld hefur tegundin náð að festa sig vel í sessi nokkuð víða (rautt á kortinu).

Marðarhundurinn hefur spjarað sig ákaflega vel í vistkerfi Evrópu og dreift sér víða. Hann er mjög algengur í Eystrasaltslöndunum og Finnlandi en finnst líka í öðrum löndum Norður- og Austur-Evrópu, svo sem í Svíþjóð og Danmörku, Póllandi, Tékklandi, Þýskalandi og Frakklandi, svo nokkur dæmi séu nefnd. Helstu ástæður fyrir því hversu vel marðarhundinum hefur vegnað eru hversu mörgum dýrum var sleppt yfir nokkuð langt tímabil og nokkuð víða. Einnig skiptir þar miklu hæfileiki marðarhunda til að aðlagast nýjum aðstæðum, geta étið það sem að kjafti kemur, hvort sem það er úr dýra- eða plönturíkinu, tiltölulega mikil frjósemi dýranna, tilhneiging til að flakka langar leiðir og yfir stór svæði, og getan til leggjast í dvala og komast þannig af í köldu umhverfi með litla fæðu. Þá á marðarhundurinn ekki margar náttúrulega óvini í Evrópu. Í Asíu eru úlfar (Canis lupus) helstu afræningjar marðarhunda, bæði hvolpa og fullorðinna dýra, en einnig birnir (Ursus arctos) og gaupur (Lynx lynx). Í Evrópu stendur þeim hins vegar ekki sama ógn af þessum tegundum.

Raunar hefur marðarhundurinn náð að koma sér það vel fyrir í nokkrum löndum að ráðstafanir hafa verið gerðar til að draga úr útbreiðslu hans. Hann er meðal annars skilgreindur sem ágeng framandi tegund af NOBANIS, sem er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu með það markmið að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda. Fyrir utan áhrif á vistkerfi í nýjum heimkynnum er vitað að marðarhundurinn ber með sér ýmsa sjúkdóma sem geta smitast í villt dýr. Þar má sérstaklega nefna hundaæði (e. rabies) og sullaveiki (e. Alveolar Echinococcosis) sem orsakast af bandorminum Echinococcus multilocularis.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.4.2024

Spyrjandi

Halldór Atli

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr er marðarhundur og hvar eru heimkynni hans?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2024. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84867.

Jón Már Halldórsson. (2024, 15. apríl). Hvers konar dýr er marðarhundur og hvar eru heimkynni hans? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84867

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr er marðarhundur og hvar eru heimkynni hans?“ Vísindavefurinn. 15. apr. 2024. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84867>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar dýr er marðarhundur og hvar eru heimkynni hans?
Marðarhundur (Nyctereutes procyonoides) er hunddýr af ættkvíslinni Nyctereutes. Enskt heiti hans er raccoon dog sem þýða mætti sem þvottabjarnarhundur og er þar vísað til þess að andlit hans minnir á þvottabjörn. Á sænsku nefnist hann mårdhund, mårhund á dönsku og norsku og Marderhund á þýsku. Þrátt fyrir heitin er marðarhundur mun skyldari refum en þvottabjörnum og mörðum.

Á ensku kallast marðaðarhundur raccoon dog sem þýða mætti sem þvottabjarnarhundur og er þar vísað til þess að andlit hans minnir á þvottabjörn.

Upprunaleg heimkynni marðarhunds eru í Austur-Asíu, fyrst og fremst í Kína, á Kóreuskaga, í austurhluta Síberíu, Japan og Mongólíu. Í dag nær útbreiðsla hans hins vegar langt inn í Evrópu, eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Marðarhundurinn er á stærð við ref en hefur styttri fætur og styttra skott. Hann er um 30-50 cm á hæð og búklengdin á bilinu 50-70 cm. Þyngd hans sveiflast mjög árstíðabundið, hann er um 4-6 kg að sumri en getur orðið allt að 13 kg seint að hausti. Hann hefur einkennandi svarta „andlitsgrímu“, lítil og rúnnuð eyru, langt trýni og þykkan vetrarfeld. Liturinn á feldinum er allt frá því að vera gulleitur yfir í að vera grár eða rauðleitur en fætur og bringa eru dökk.

Marðarhundurinn kann vel við sig nálægt vatni eða á rökum svæðum, í skóglendi, sérstaklega þar sem undirgróður er mikill, á ræktuðum svæðum og votum engjum, við strendur vatna eða árfarvegi. Hann á auðvelt með að aðlaga sig umhverfi af ýmsu tagi og er það ein ástæða fyrir mikilli útbreiðslu marðarhunda. Ólíkt hundum og fleiri skyldum rándýrum er marðarhundurinn alæta. Hann lifir meðal annars á litlum nagdýrum, froskdýrum, fuglum og eggjum, fiski, lindýrum, ávöxtum, korni, berjum og rusli frá fólki, allt eftir því hvað býðst hverju sinni.

Marðarhundurinn er á stærð við ref en hefur styttri fætur og styttra skott.

Ólíkt öðrum hunddýrum leggst marðarhundurinn í dvala yfir veturinn á þeim búsvæðum þar sem kaldast er. Á haustin safnar hann fitu fyrir dvalann og getur nánast tvöfaldað þyngd sína áður en hann kemur sér fyrir í bæli, til dæmis undir trjárótum í þéttu skóglendi. Dvalinn er mislangur eftir svæðum og tíðarfari, oft frá nóvember og fram í mars, en ef veturinn er mildur er dvalinn styttri og stundum bara rétt á meðan verstu vetrarstormar geysa. Venjulega er hann í dvala þegar hitinn er undir -10 gráðum, snjódýptin meiri en 35 cm og dagurinn er styttri en 7 klukkustundir. Að sama skapi eru flestir marðarhundar á stjái þegar hitinn er fyrir ofan frostmark, þegar snjólaust er og dagurinn lengri en 10 klukkustundir. Þar sem aðstæður eru slíkar allt árið um kring leggst hann því ekkert í dvala.

Þegar marðarhundurinn kemur úr dvalanum (þar sem það á við) finnur hann sér maka og æxlast. Þetta á sér venjulega stað í febrúar eða mars. Meðgöngutíminn er um 9 vikur og hvolparnir koma því í heiminn í apríl eða maí. Við góðar aðstæður er meðal gotstærð 9-10 hvolpar en 6-7 hvolpar þar sem aðstæður eru erfiðari, veðurfar er kaldara eða minna fæðuframboð. Engu að síður er þetta nokkuð mikil frjósemi miðað við dýr af þessari stærð.

Fyrir um 100 árum var útbreiðsla marðarhunda bundin við Austur-Asíu. Á árunum 1929 til 1955 fluttu Sovétmenn marðarhunda frá Síberíu vestur á bóginn, aðallega til Evrópuhluta fyrrum Sovétríkjanna. Alls er talið að um 9100 dýr hafi verið flutt í ný heimkynni, fyrst var þeim komið fyrir á búum þar sem átti að rækta upp og bæta feld dýranna en síðan var þeim sleppt út í náttúruna. Ástæðan var fyrst og fremst sú að þannig átti að fá fram nýja tegund sem hægt væri að veiða í villtri náttúru og nýta jafnframt feldinn.

Upprunalega heimkynni marðarhundsins eru austast í Asíu (blátt á kortinu). Eftir að dýr voru flutt til Evrópu fyrir og um miðja síðustu öld hefur tegundin náð að festa sig vel í sessi nokkuð víða (rautt á kortinu).

Marðarhundurinn hefur spjarað sig ákaflega vel í vistkerfi Evrópu og dreift sér víða. Hann er mjög algengur í Eystrasaltslöndunum og Finnlandi en finnst líka í öðrum löndum Norður- og Austur-Evrópu, svo sem í Svíþjóð og Danmörku, Póllandi, Tékklandi, Þýskalandi og Frakklandi, svo nokkur dæmi séu nefnd. Helstu ástæður fyrir því hversu vel marðarhundinum hefur vegnað eru hversu mörgum dýrum var sleppt yfir nokkuð langt tímabil og nokkuð víða. Einnig skiptir þar miklu hæfileiki marðarhunda til að aðlagast nýjum aðstæðum, geta étið það sem að kjafti kemur, hvort sem það er úr dýra- eða plönturíkinu, tiltölulega mikil frjósemi dýranna, tilhneiging til að flakka langar leiðir og yfir stór svæði, og getan til leggjast í dvala og komast þannig af í köldu umhverfi með litla fæðu. Þá á marðarhundurinn ekki margar náttúrulega óvini í Evrópu. Í Asíu eru úlfar (Canis lupus) helstu afræningjar marðarhunda, bæði hvolpa og fullorðinna dýra, en einnig birnir (Ursus arctos) og gaupur (Lynx lynx). Í Evrópu stendur þeim hins vegar ekki sama ógn af þessum tegundum.

Raunar hefur marðarhundurinn náð að koma sér það vel fyrir í nokkrum löndum að ráðstafanir hafa verið gerðar til að draga úr útbreiðslu hans. Hann er meðal annars skilgreindur sem ágeng framandi tegund af NOBANIS, sem er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu með það markmið að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda. Fyrir utan áhrif á vistkerfi í nýjum heimkynnum er vitað að marðarhundurinn ber með sér ýmsa sjúkdóma sem geta smitast í villt dýr. Þar má sérstaklega nefna hundaæði (e. rabies) og sullaveiki (e. Alveolar Echinococcosis) sem orsakast af bandorminum Echinococcus multilocularis.

Heimildir og myndir:

...