Sólin Sólin Rís 03:51 • sest 23:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:50 • Síðdegis: 16:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:03 • Síðdegis: 22:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:51 • sest 23:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:50 • Síðdegis: 16:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:03 • Síðdegis: 22:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru til margar séríslenskar tegundir af köngulóm sem hafa þróast hér?

Ingi Agnarsson

Öll spurningin hljóðaði svona:

Sæl verið þið. Við strákurinn minn vorum að lesa að á Íslandi eru 80 tegundir af kóngulóm! En hvernig komust þær til Íslands? Og eru þær kannski margar séríslensk tegund, þróaðar út frá fáum tegundum sem tókst einhvern veginn að koma hingað?

Þetta er frábær spurning sem tilheyrir sviði svokallaðrar líflandafræði (e. biogeography). Sú fræðigrein snýr að útbreiðslu tegunda í heiminum, hvernig þær námu búsvæði sín og hvernig rekja má líffræðilegan fjölbreytileika svæðis til samspils landnáms og tegundamyndunar (Lomolino et al. 2005). Samspilið er sérstaklega skýrt á eyjum. Á sumum eyjum eru langflestar tegundir aðkomnar en á öðrum er tegundamyndun mikil, með mörgum einlendum (e. endemic) tegundum sem þróast hafa frá örfáum landnemum. Stutta svarið við spurningunni er að allar tegundir köngulóa á Íslandi hafa numið hér land nýlega enda er flestar þeirra líka að finna á meginlandi Evrópu og örfáar í Ameríku (Agnarsson 1996).

Könguló af tegundinni Spintharus flavidus sem finnst m.a. á eyjum í Karíbahafinu. Eyjar í Karíbahafinu eru þekktar fyrir fjölda einlendra tegunda, m.a. aragrúa áttfætlutegunda. Hér á landi eru allar tegundir köngulóa hins vegar aðfluttar og stutt síðan þær námu land.

En skoðum spurninguna nánar. Mörg dæmi eru þekkt um eyjar með einlendar tegundir. Galapagoseyjar sem enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin (1809-1882) heimsótti eru líklega frægastar í því samhengi en þær urðu honum ein uppspretta hugmynda um þróun (Darwin 1859). Hawaii-eyjar eru annað dæmi en þær eru staðsettar í úthafi og mjög langt frá meginlöndum og öðrum eyjum. Til slíkra einangraðra eyja koma fáir landnemar en þar geta þeir fundið fyrir kjöraðstæður með miklu vistfræðilegu rými sem fáar aðrar lífverur nýta. Þetta getur leitt til þróunar nýrra tegunda sem smám saman aðlagast búsvæðunum. Á Galapagos er til dæmis að finna einar átján tegundir af svokölluðum finkum Darwins (Darwin´s finches, Marsh 2015). Þær eru reyndar ekki eiginlegar finkur (Fringillidae) heldur teljast til ættar tána (Thraupidae).

Talið er að ein tegund tána hafi numið land á Galapagoseyjum frá Suður-Ameríku fyrir meira en milljón árum. Þar hafi síðan margar tegundir þróast en þær eru þekktar fyrir ólíkar formgerðir gogga sem aðlagaðir eru að mismunandi fræjum og öðru æti (Abzhanov et al. 2004). Þannig geta þessar fjölbreyttu tegundir nýtt búsvæði og fæðu sem aðrir fuglar nýttu ekki fyrir. Svipaða sögu má segja frá Hawaii þar sem ein tegund af finkum nam land fyrir um 7 miljón árum. Síðan hefur sú landnemategund þróast yfir í um 60 tegundir sem eru mjög breytilegar í útliti og margar hverjar eru mjög ólíkar dæmigerðum finkum (Lerner et al. 2011). Hópurinn er gjarnan kallaður 'Hawaiian honeycreepers' enda sækja margar tegundanna í hunangssafa blóma til næringar. Nú eru reyndar mjög margar þeirra útdauðar vegna ágang mannsins og dýra sem hann flutti til eyjanna. Karabíaeyjar eru einnig þekktar fyrir fjölda einlendra tegunda og þar er aragrúi áttfætlutegunda (m.a. köngulær) sem eingöngu er að finna á einni eyju (Agnarsson et al. 2018), eða jafnvel aðeins í einum helli á einni eyju (Agnarsson et al. 2023).

Á hinum enda litrófsins eru eyjar eins og Ísland þar sem nánast allar þekktar tegundir eru landnemar frá öðrum löndum og lítil eða engin tegundamyndun hefur orðið. Slíkar eyjar eiga það sameiginlegt að stuttur tími hefur verið til tegundamyndunar. Það gæti skýrst af því að þær eru nýrisnar úr sjó eða vegna áhrifa ísalda. Ísland er dæmi um jarðfræðilega gamla eyju (16-18 milljón ára, Müller et al. 1993) en hér var áður hlýrra veðurfar og lífríkið mun fjölbreyttara, með plöntum og dýrum er líkjast þeim sem nú finnast á austurströnd Bandaríkjanna (Símonarson og Eiriksson 2008).

Skýringarmynd sem sýnir ystu mörk ísaldarjökulsins hér á landi við hámark síðasta jökulskeiðs. Ísland var ísi lagt við lok síðasta ísaldartímabils fyrir um 12 þúsund árum. Nær allt líf þurrkaðist því út á síðustu ísöld og lífríkið í dag er því nánast alfarið byggt á landnemategundum sem hingað bárust eftir það.

Almennt er talið að Ísland hafi verið ísi lagt við lok síðasta ísaldartímabils fyrir um 12 þúsund árum og undan ísnum hafi komið eyðimörk (Buckland et al. 1986). Nær allt líf hafi því þurrkast út á síðustu ísöld og lífríkið í dag sé nánast alfarið byggt á landnemategundum sem hingað bárust eftir það. Þær tæpu 80 tegundir köngulóa sem hér finnast eru því allar tiltölulega nýlegir landnemar og langflestar algengar í norðanverðri Evrópu þó einhverjar hafi borist frá Ameríku (Agnarsson 1996). Engar þekktar tegundir köngulóa eru því einlendar á Íslandi þar sem engar nýjar tegundir hafa þróast hér.

Heimildir og frekara lesefni:

 • Agnarsson I. 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31, 175 bls, 169 myndir.
 • Agnarsson I, Van Patten C, Sargeant L, Chomitz B, Dziki A, Binford G. 2018. A radiation of the ornate Caribbean ‘smiley-faced spiders’ – with descriptions of 15 new species (Araneae, Theridiidae, Spintharus). Zoological Journal of the Linnean Society 182: 758-790.
 • Agnarsson I, Coddington JA, Caicedo-Quiroga L, May-Collado LJ, Pálsson S. 2023. Deep mtDNA sequence divergences and possible species radiation of whip spiders (Arachnida, Amblypygi, Phrynidae, Phrynus/Paraphrynus) among Caribbean oceanic and cave islands. Taxonomy 3: 133-147.
 • Abzhanov A, Protas M, Grant B. Grant R, Peter R. Tabin CJ. 2004. Bmp4 and Morphological Variation of Beaks in Darwin's Finches. Science. 305 (5689): 1462–1465.
 • PC Buckland, D Perry, GM Gislason, AJ Dugmore. 1986. The pre-Landnam fauna of Iceland: a palaeontological contribution. Boreas 15, 173-184.
 • Darwin C. 1859. On the origin of species by means of natural selection, or the preservation of favoured races in the struggle for life (1st ed.), London: John Murray, p. 502.
 • Lerner HRL, Meyer M, James HF, Fleischer RC. 2011. Multilocus resolution of phylogeny and timescale in the extant adaptive radiation of Hawaiian Honeycreepers. Current Biology. 21 (21): 1838–1844.
 • Lomolino MV, Riddle BR, Brown JH. 2005. Biogeography, third edition. Sinauer Associates, Sunderland, MA. 752 pp, 447 illustrations.
 • Marsh, Geoff. 2015. Darwin's iconic finches join genome club. Nature. 518 (7538): 147.
 • Müller RD, Royer J-Y, Lawver LA. 1993. Revised plate motions relative to the hotspots from combined Atlantic and Indian Ocean hotspot tracks. Geology. 21 (3): 275.
 • Símonarson LA, Eiríksson J. 2008. Tjörnes-Pliocene and Pleistocene sediments and faunas. Jökull. 58: 331–342.

Mynd:
 • Myndina af Spintharus flavidus tók Bonnie Ott. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi.
 • Seinni myndin er eftir Þórarinn Má Baldursson og fengin úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni: Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál.

Höfundur

Ingi Agnarsson

prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Útgáfudagur

21.9.2023

Spyrjandi

Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir

Tilvísun

Ingi Agnarsson. „Eru til margar séríslenskar tegundir af köngulóm sem hafa þróast hér?“ Vísindavefurinn, 21. september 2023, sótt 18. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85451.

Ingi Agnarsson. (2023, 21. september). Eru til margar séríslenskar tegundir af köngulóm sem hafa þróast hér? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85451

Ingi Agnarsson. „Eru til margar séríslenskar tegundir af köngulóm sem hafa þróast hér?“ Vísindavefurinn. 21. sep. 2023. Vefsíða. 18. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85451>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru til margar séríslenskar tegundir af köngulóm sem hafa þróast hér?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Sæl verið þið. Við strákurinn minn vorum að lesa að á Íslandi eru 80 tegundir af kóngulóm! En hvernig komust þær til Íslands? Og eru þær kannski margar séríslensk tegund, þróaðar út frá fáum tegundum sem tókst einhvern veginn að koma hingað?

Þetta er frábær spurning sem tilheyrir sviði svokallaðrar líflandafræði (e. biogeography). Sú fræðigrein snýr að útbreiðslu tegunda í heiminum, hvernig þær námu búsvæði sín og hvernig rekja má líffræðilegan fjölbreytileika svæðis til samspils landnáms og tegundamyndunar (Lomolino et al. 2005). Samspilið er sérstaklega skýrt á eyjum. Á sumum eyjum eru langflestar tegundir aðkomnar en á öðrum er tegundamyndun mikil, með mörgum einlendum (e. endemic) tegundum sem þróast hafa frá örfáum landnemum. Stutta svarið við spurningunni er að allar tegundir köngulóa á Íslandi hafa numið hér land nýlega enda er flestar þeirra líka að finna á meginlandi Evrópu og örfáar í Ameríku (Agnarsson 1996).

Könguló af tegundinni Spintharus flavidus sem finnst m.a. á eyjum í Karíbahafinu. Eyjar í Karíbahafinu eru þekktar fyrir fjölda einlendra tegunda, m.a. aragrúa áttfætlutegunda. Hér á landi eru allar tegundir köngulóa hins vegar aðfluttar og stutt síðan þær námu land.

En skoðum spurninguna nánar. Mörg dæmi eru þekkt um eyjar með einlendar tegundir. Galapagoseyjar sem enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin (1809-1882) heimsótti eru líklega frægastar í því samhengi en þær urðu honum ein uppspretta hugmynda um þróun (Darwin 1859). Hawaii-eyjar eru annað dæmi en þær eru staðsettar í úthafi og mjög langt frá meginlöndum og öðrum eyjum. Til slíkra einangraðra eyja koma fáir landnemar en þar geta þeir fundið fyrir kjöraðstæður með miklu vistfræðilegu rými sem fáar aðrar lífverur nýta. Þetta getur leitt til þróunar nýrra tegunda sem smám saman aðlagast búsvæðunum. Á Galapagos er til dæmis að finna einar átján tegundir af svokölluðum finkum Darwins (Darwin´s finches, Marsh 2015). Þær eru reyndar ekki eiginlegar finkur (Fringillidae) heldur teljast til ættar tána (Thraupidae).

Talið er að ein tegund tána hafi numið land á Galapagoseyjum frá Suður-Ameríku fyrir meira en milljón árum. Þar hafi síðan margar tegundir þróast en þær eru þekktar fyrir ólíkar formgerðir gogga sem aðlagaðir eru að mismunandi fræjum og öðru æti (Abzhanov et al. 2004). Þannig geta þessar fjölbreyttu tegundir nýtt búsvæði og fæðu sem aðrir fuglar nýttu ekki fyrir. Svipaða sögu má segja frá Hawaii þar sem ein tegund af finkum nam land fyrir um 7 miljón árum. Síðan hefur sú landnemategund þróast yfir í um 60 tegundir sem eru mjög breytilegar í útliti og margar hverjar eru mjög ólíkar dæmigerðum finkum (Lerner et al. 2011). Hópurinn er gjarnan kallaður 'Hawaiian honeycreepers' enda sækja margar tegundanna í hunangssafa blóma til næringar. Nú eru reyndar mjög margar þeirra útdauðar vegna ágang mannsins og dýra sem hann flutti til eyjanna. Karabíaeyjar eru einnig þekktar fyrir fjölda einlendra tegunda og þar er aragrúi áttfætlutegunda (m.a. köngulær) sem eingöngu er að finna á einni eyju (Agnarsson et al. 2018), eða jafnvel aðeins í einum helli á einni eyju (Agnarsson et al. 2023).

Á hinum enda litrófsins eru eyjar eins og Ísland þar sem nánast allar þekktar tegundir eru landnemar frá öðrum löndum og lítil eða engin tegundamyndun hefur orðið. Slíkar eyjar eiga það sameiginlegt að stuttur tími hefur verið til tegundamyndunar. Það gæti skýrst af því að þær eru nýrisnar úr sjó eða vegna áhrifa ísalda. Ísland er dæmi um jarðfræðilega gamla eyju (16-18 milljón ára, Müller et al. 1993) en hér var áður hlýrra veðurfar og lífríkið mun fjölbreyttara, með plöntum og dýrum er líkjast þeim sem nú finnast á austurströnd Bandaríkjanna (Símonarson og Eiriksson 2008).

Skýringarmynd sem sýnir ystu mörk ísaldarjökulsins hér á landi við hámark síðasta jökulskeiðs. Ísland var ísi lagt við lok síðasta ísaldartímabils fyrir um 12 þúsund árum. Nær allt líf þurrkaðist því út á síðustu ísöld og lífríkið í dag er því nánast alfarið byggt á landnemategundum sem hingað bárust eftir það.

Almennt er talið að Ísland hafi verið ísi lagt við lok síðasta ísaldartímabils fyrir um 12 þúsund árum og undan ísnum hafi komið eyðimörk (Buckland et al. 1986). Nær allt líf hafi því þurrkast út á síðustu ísöld og lífríkið í dag sé nánast alfarið byggt á landnemategundum sem hingað bárust eftir það. Þær tæpu 80 tegundir köngulóa sem hér finnast eru því allar tiltölulega nýlegir landnemar og langflestar algengar í norðanverðri Evrópu þó einhverjar hafi borist frá Ameríku (Agnarsson 1996). Engar þekktar tegundir köngulóa eru því einlendar á Íslandi þar sem engar nýjar tegundir hafa þróast hér.

Heimildir og frekara lesefni:

 • Agnarsson I. 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31, 175 bls, 169 myndir.
 • Agnarsson I, Van Patten C, Sargeant L, Chomitz B, Dziki A, Binford G. 2018. A radiation of the ornate Caribbean ‘smiley-faced spiders’ – with descriptions of 15 new species (Araneae, Theridiidae, Spintharus). Zoological Journal of the Linnean Society 182: 758-790.
 • Agnarsson I, Coddington JA, Caicedo-Quiroga L, May-Collado LJ, Pálsson S. 2023. Deep mtDNA sequence divergences and possible species radiation of whip spiders (Arachnida, Amblypygi, Phrynidae, Phrynus/Paraphrynus) among Caribbean oceanic and cave islands. Taxonomy 3: 133-147.
 • Abzhanov A, Protas M, Grant B. Grant R, Peter R. Tabin CJ. 2004. Bmp4 and Morphological Variation of Beaks in Darwin's Finches. Science. 305 (5689): 1462–1465.
 • PC Buckland, D Perry, GM Gislason, AJ Dugmore. 1986. The pre-Landnam fauna of Iceland: a palaeontological contribution. Boreas 15, 173-184.
 • Darwin C. 1859. On the origin of species by means of natural selection, or the preservation of favoured races in the struggle for life (1st ed.), London: John Murray, p. 502.
 • Lerner HRL, Meyer M, James HF, Fleischer RC. 2011. Multilocus resolution of phylogeny and timescale in the extant adaptive radiation of Hawaiian Honeycreepers. Current Biology. 21 (21): 1838–1844.
 • Lomolino MV, Riddle BR, Brown JH. 2005. Biogeography, third edition. Sinauer Associates, Sunderland, MA. 752 pp, 447 illustrations.
 • Marsh, Geoff. 2015. Darwin's iconic finches join genome club. Nature. 518 (7538): 147.
 • Müller RD, Royer J-Y, Lawver LA. 1993. Revised plate motions relative to the hotspots from combined Atlantic and Indian Ocean hotspot tracks. Geology. 21 (3): 275.
 • Símonarson LA, Eiríksson J. 2008. Tjörnes-Pliocene and Pleistocene sediments and faunas. Jökull. 58: 331–342.

Mynd:
 • Myndina af Spintharus flavidus tók Bonnie Ott. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi.
 • Seinni myndin er eftir Þórarinn Má Baldursson og fengin úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni: Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál.

...