Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað þurfti margar kálfshúðir í eina bók á Sturlungaöld?

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvað þurfti margar nautshúðir í eina bók á Sturlungaöld?

Það fór eftir því hve stór bókin var, það er í hve stóru broti hún var, en það fór líka eftir því hversu þykk hún var, það er hve mörg blöð voru í henni.

Bókfell er það kallað þegar búið er að verka skinn á þann hátt að hægt er að skrifa á það. Bókfell hefur að langmestu leyti verið gert úr skinnum af spendýrum og oftast úr skinnum húsdýra, svo sem úr sauðargærum og geitarstökum, en eftir því sem skinnið verður þykkra verður erfiðara að búa til bókfell úr því. Þess vegna er yfirleitt ekki hægt að búa til bókfell úr húðum nautgripa sem eru orðnir þriggja mánaða eða eldri. Hins vegar er auðvelt að verka húðir ungra kálfa og svo virðist sem Íslendingar hafi eingöngu notað kálfshúðir í bókfell. Húð af ungum kálfi er ekki stærri en það að hún nægir í tvö blöð (fjórar blaðsíður) í handriti í stóru broti, en fjögur blöð í meðalstórum handritum (í kvartó-broti), og átta blöð í litlum handritum (í oktavó-broti).

Blaðsíður úr Grágásarhandritinu GKS 1157 fol. Líklega þurfti húðir af 47 kálfum í handritið.

Það er talið að Grágásarhandritið GKS 1157 fol., sem er varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík, hafi verið skrifað um 1260, það er áður en Sturlungaöld lauk. Það er í stóru broti eða 354 × 245 mm að stærð, og er alls 93 blöð. Vegna þess að handritið er í stóru broti (fólíó) verður að teljast ólíklegt að það hafi verið hægt að fá fleiri en tvö blöð úr hverri húð. Samkvæmt því hafa verið notaðar húðir af 47 kálfum í handritið (nánar tiltekið af 46 kálfum og hálfum betur).

Hómilíuhandritið Isl. perg. 15 4to frá því um 1200, sem er varðveitt í Konungsbókhlöðunni í Stokkhólmi, er 102 blöð en þau eru nokkuð misjöfn að stærð. Stærstu blöðin eru um það bil 215 × 152 mm og því er líklegt að það hafi náðst fjögur blöð úr hverri húð. Það hafa því farið húðir af 25½ kálfum í handritið.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Guðvarður Már Gunnlaugsson

rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar

Útgáfudagur

20.9.2023

Spyrjandi

Hrafngerður Ösp Elíasdóttir

Tilvísun

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Hvað þurfti margar kálfshúðir í eina bók á Sturlungaöld? “ Vísindavefurinn, 20. september 2023. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=85459.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2023, 20. september). Hvað þurfti margar kálfshúðir í eina bók á Sturlungaöld? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85459

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Hvað þurfti margar kálfshúðir í eina bók á Sturlungaöld? “ Vísindavefurinn. 20. sep. 2023. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85459>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað þurfti margar kálfshúðir í eina bók á Sturlungaöld?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvað þurfti margar nautshúðir í eina bók á Sturlungaöld?

Það fór eftir því hve stór bókin var, það er í hve stóru broti hún var, en það fór líka eftir því hversu þykk hún var, það er hve mörg blöð voru í henni.

Bókfell er það kallað þegar búið er að verka skinn á þann hátt að hægt er að skrifa á það. Bókfell hefur að langmestu leyti verið gert úr skinnum af spendýrum og oftast úr skinnum húsdýra, svo sem úr sauðargærum og geitarstökum, en eftir því sem skinnið verður þykkra verður erfiðara að búa til bókfell úr því. Þess vegna er yfirleitt ekki hægt að búa til bókfell úr húðum nautgripa sem eru orðnir þriggja mánaða eða eldri. Hins vegar er auðvelt að verka húðir ungra kálfa og svo virðist sem Íslendingar hafi eingöngu notað kálfshúðir í bókfell. Húð af ungum kálfi er ekki stærri en það að hún nægir í tvö blöð (fjórar blaðsíður) í handriti í stóru broti, en fjögur blöð í meðalstórum handritum (í kvartó-broti), og átta blöð í litlum handritum (í oktavó-broti).

Blaðsíður úr Grágásarhandritinu GKS 1157 fol. Líklega þurfti húðir af 47 kálfum í handritið.

Það er talið að Grágásarhandritið GKS 1157 fol., sem er varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík, hafi verið skrifað um 1260, það er áður en Sturlungaöld lauk. Það er í stóru broti eða 354 × 245 mm að stærð, og er alls 93 blöð. Vegna þess að handritið er í stóru broti (fólíó) verður að teljast ólíklegt að það hafi verið hægt að fá fleiri en tvö blöð úr hverri húð. Samkvæmt því hafa verið notaðar húðir af 47 kálfum í handritið (nánar tiltekið af 46 kálfum og hálfum betur).

Hómilíuhandritið Isl. perg. 15 4to frá því um 1200, sem er varðveitt í Konungsbókhlöðunni í Stokkhólmi, er 102 blöð en þau eru nokkuð misjöfn að stærð. Stærstu blöðin eru um það bil 215 × 152 mm og því er líklegt að það hafi náðst fjögur blöð úr hverri húð. Það hafa því farið húðir af 25½ kálfum í handritið.

Heimildir og mynd:...