Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað er þjóðkirkja?

Hjalti Hugason

Hugtakið þjóðkirkja hefur margháttuð merkingarsvið.[1] Fyrst ber að nefna að orðið er hægt að nota um kirkju sem starfað hefur meðal einhverrar þjóðar um langt skeið, sett mark sitt á gildismat hennar og menningu en jafnframt mótast af hugsanagangi viðkomandi þjóðar. Þjóðin og kirkja hennar hefur þar með eignast sameiginlega sögu og sjálfsmynd þar sem erfitt getur reynst að greina í sundur hvað sé þjóðlegt og hvað trúarlegt. Þetta kom til að mynda fram í því að hér á landi, langt fram eftir 20. öld, var almennt litið svo á að það að vera Íslendingur fæli meðal annars í sér að vera lúthersk/-ur.

Lúthersk kristni var lögfest hér á landi um miðbik 16. aldar. Í kjölfarið hófst hér langvinn menningarbarátta sem fólst í því að ryðja úr vegi kaþólskum trúarhugmyndum og helgisiðum sem og ýmiss háttar fornum, alþýðlegum, trúarlegum fyrirbærum sem lifað höfðu með þjóðinni. Jafnframt settu ýmis staðbundin fyrirbæri mark sitt á kirkjuna og starf hennar. Þótt lúthersk kristni hér á landi sé hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem meðal annars kemur fram í Lútherska heimssambandinu sem Þjóðkirkjan á aðild að, ber hún eigi að síður ýmiss konar þjóðleg einkenni sem gerir hana sérstæða og ólíka lútherskri kristni annar staðar, jafnvel á Norðurlöndunum.

Grafarkirkja á Höfðaströnd er elsta kirkja á Íslendi og með elstu húsum landsins. Ekki er nákvæmlega vitað hversu gömul hún er en saga hennar nær að minnsta kosti aftur til seinni hluta 17. aldar.

Í þessari sögulegu eða menningarlegu merkingu má líta svo á að öll lúthersk trúfélög sem hér starfa myndi sameiginlega þjóðkirkju hér en ekki aðeins það trúfélag sem opinberlega ber heitið Þjóðkirkjan.

Í sumum tilvikum merkir orðið þjóðkirkja einfaldlega meirihlutakirkja og hefur þar með tiltölulega hlutlausa lýðfræðilega merkingu. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvers vegna komst á þjóðkirkja á Íslandi? var lúthersk kristni lögfest hér á 16. öld. Trúfrelsi var ekki innleitt fyrr en með stjórnarskránni 1874. Af sjálfu leiddi að þjóðin varð með tímanum lúthersk, hvað svo sem það þýddi þegar um trúartilfinningu fólks var að ræða.

Þá getur þjóðkirkjuhugtakið haft trúarpólitíska merkingu og nær þá yfir kirkju sem starfar í sérstökum tengslum við ríkisvaldið á grundvelli sérstakra laga og jafnvel stjórnarskrárákvæða. Slíkar kirkjur njóta oftast einhverra forréttinda fram yfir önnur trúfélög. Þessu máli gegnir til að mynda um íslensku Þjóðkirkjuna.

Enn má geta þess að þjóðkirkjuhugtakið er oft notað um kirkjur sem lúta mun lýðræðislegri stjórn en tíðkast í svokölluðum ríkiskirkjum. Þar sem ríkiskirkjuskipan er við lýði fer hið veraldlega ríkisvald með kirkjustjórnina að langmestu leyti sem heyrir þá undir sérstök umráðuneyti. Prestar og biskupar kirkjunnar eru þá opinberir embættismenn og sjálfstæði kirkjunnar er í alla staði mjög takmarkað. Þjóðkirkjuskipan einkennist aftur á móti af því að sjálfstæði og sjálfsstjórn kirkjunnar er umtalsverð, fá mál henni viðkomandi heyra undir ríkisvaldið og starfsmenn hennar teljast ekki embættismenn eða opinberir starfsmenn. Þá er litið svo á að þjóðkirkjur eigi að vera lýðræðislegri en ríkiskirkjur fyrri alda. Því fara til dæmis kjörin kirkjuþing með æðstu stjórn þeirra.

Þjóðkirkjuskipan einkennist af því að sjálfstæði og sjálfsstjórn kirkjunnar er umtalsverð, fá mál henni viðkomandi heyra undir ríkisvaldið og starfsmenn hennar teljast ekki embættismenn eða opinberir starfsmenn.

Vert er að geta þess að óljós mörk eru milli ríkiskirkna og þjóðkirkna í þessari lögfræðilegu og/eða stofnunarlegu merkingu. Líta má svo á að þjóðkirkjur séu nokkurs konar nútímaleg útfærsla á ríkiskirkjum fyrri alda og sögulegt millistig milli þeirra og fríkirkna sem eru algerlega sjálfstæðar gagnvart ríkisvaldinu. Benda má á að bæði hér á landi og í Danmörku starfa þjóðkirkjur sem eiga sér sameiginlegt upphaf. Danska þjóðkirkjan sver sig um flest í ætt við ríkiskirkjur. Í Danmörku er til að mynda ekkert kirkjuþing til staðar og annast þjóðþingið það hlutverk sem kirkjuþing gegnir hér. Öll tengsl dönsku þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið eru líka mun nánari en þegar íslenska Þjóðkirkjan á í hlut. Sveigjanleiki og lýðræði er þó á margan hátt mun meira í dönsku kirkjunni. Innan hennar starfa til dæmis fjölmargir svokallaðir kjörsöfnuðir (d. valgmenighed) sem hafa sama sjálfstæði og lúthersku fríkirkjusöfnuðirnir hér en njóta í öllu sömu kjara og aðrir þjóðkirkjusöfnuðir. Hér njóta fríkirkjusöfnuðirnir ekki nema að litlu leyti þeirra réttinda sem Þjóðkirkjan hefur hér.

Loks skal bent á að þjóðkirkjuhugtakið getur haft guðfræðilega merkingu. Á það þá við kirkju sem telur sig gegna sérstöku hlutverki gagnvart ákveðinni þjóð sem felist meðal annars í því að skapa ævi fólks skýra trúarlega umgjörð frá skírn til greftrunar sem og í að ljá þjóðlífinu trúarlegt yfirbragð með sameiginlegum hátíðum af ýmsu tagi. Slíkar kirkjur lýsa sig fúsar að þjóna öllum sem til þeirra leita án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar eða kirkjuaðildar. Þær greina sig í þessu frá flestum sjálfstæðum trúfélögum sem gera oftast ráð fyrir virkari og persónulegri trúarafstöðu af þeim sem sækjast eftir þátttöku í þeim eða þjónustu af þeirra hendi. Þá er mikilvægt að geta þess að þegar þjóðkirkjuhugtakið er notað í lögfræði- og stofnunarlegri merkingu er talið að kirkja sem nýtur stöðu þjóðkirkju hljóti að fallast á slíkt þjónustuhlutverk. Það er til að mynda lögboðið hlutverk íslensku Þjóðkirkjunnar „[…] að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.“[2] Það er ekki síst þessi skylda sem gerir hana að þjóðkirkju.

Hér er ekki gerð tæmandi grein fyrir merkingarsviðum orðsins þjóðkirkja. Vel má vera að vert hefði verið að geta fleiri dæma en hér hefur verið gert.

Tilvísanir:
  1. ^ Hér er leitast við að greina á milli orðanna „þjóðkirkja/-n“ og „Þjóðkirkja/-n“ þar sem hið fyrrnefnda er almennt en hið síðarnefnda nær yfir eitt ákveðið trúfélag sem starfar á grundvelli laga nr. 77/2021 sem kallast þjóðkirkjulög. Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
  2. ^ Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).

Mynd:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.2.2024

Spyrjandi

Vala H.

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað er þjóðkirkja?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2024. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=86203.

Hjalti Hugason. (2024, 15. febrúar). Hvað er þjóðkirkja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=86203

Hjalti Hugason. „Hvað er þjóðkirkja?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2024. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=86203>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er þjóðkirkja?
Hugtakið þjóðkirkja hefur margháttuð merkingarsvið.[1] Fyrst ber að nefna að orðið er hægt að nota um kirkju sem starfað hefur meðal einhverrar þjóðar um langt skeið, sett mark sitt á gildismat hennar og menningu en jafnframt mótast af hugsanagangi viðkomandi þjóðar. Þjóðin og kirkja hennar hefur þar með eignast sameiginlega sögu og sjálfsmynd þar sem erfitt getur reynst að greina í sundur hvað sé þjóðlegt og hvað trúarlegt. Þetta kom til að mynda fram í því að hér á landi, langt fram eftir 20. öld, var almennt litið svo á að það að vera Íslendingur fæli meðal annars í sér að vera lúthersk/-ur.

Lúthersk kristni var lögfest hér á landi um miðbik 16. aldar. Í kjölfarið hófst hér langvinn menningarbarátta sem fólst í því að ryðja úr vegi kaþólskum trúarhugmyndum og helgisiðum sem og ýmiss háttar fornum, alþýðlegum, trúarlegum fyrirbærum sem lifað höfðu með þjóðinni. Jafnframt settu ýmis staðbundin fyrirbæri mark sitt á kirkjuna og starf hennar. Þótt lúthersk kristni hér á landi sé hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem meðal annars kemur fram í Lútherska heimssambandinu sem Þjóðkirkjan á aðild að, ber hún eigi að síður ýmiss konar þjóðleg einkenni sem gerir hana sérstæða og ólíka lútherskri kristni annar staðar, jafnvel á Norðurlöndunum.

Grafarkirkja á Höfðaströnd er elsta kirkja á Íslendi og með elstu húsum landsins. Ekki er nákvæmlega vitað hversu gömul hún er en saga hennar nær að minnsta kosti aftur til seinni hluta 17. aldar.

Í þessari sögulegu eða menningarlegu merkingu má líta svo á að öll lúthersk trúfélög sem hér starfa myndi sameiginlega þjóðkirkju hér en ekki aðeins það trúfélag sem opinberlega ber heitið Þjóðkirkjan.

Í sumum tilvikum merkir orðið þjóðkirkja einfaldlega meirihlutakirkja og hefur þar með tiltölulega hlutlausa lýðfræðilega merkingu. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvers vegna komst á þjóðkirkja á Íslandi? var lúthersk kristni lögfest hér á 16. öld. Trúfrelsi var ekki innleitt fyrr en með stjórnarskránni 1874. Af sjálfu leiddi að þjóðin varð með tímanum lúthersk, hvað svo sem það þýddi þegar um trúartilfinningu fólks var að ræða.

Þá getur þjóðkirkjuhugtakið haft trúarpólitíska merkingu og nær þá yfir kirkju sem starfar í sérstökum tengslum við ríkisvaldið á grundvelli sérstakra laga og jafnvel stjórnarskrárákvæða. Slíkar kirkjur njóta oftast einhverra forréttinda fram yfir önnur trúfélög. Þessu máli gegnir til að mynda um íslensku Þjóðkirkjuna.

Enn má geta þess að þjóðkirkjuhugtakið er oft notað um kirkjur sem lúta mun lýðræðislegri stjórn en tíðkast í svokölluðum ríkiskirkjum. Þar sem ríkiskirkjuskipan er við lýði fer hið veraldlega ríkisvald með kirkjustjórnina að langmestu leyti sem heyrir þá undir sérstök umráðuneyti. Prestar og biskupar kirkjunnar eru þá opinberir embættismenn og sjálfstæði kirkjunnar er í alla staði mjög takmarkað. Þjóðkirkjuskipan einkennist aftur á móti af því að sjálfstæði og sjálfsstjórn kirkjunnar er umtalsverð, fá mál henni viðkomandi heyra undir ríkisvaldið og starfsmenn hennar teljast ekki embættismenn eða opinberir starfsmenn. Þá er litið svo á að þjóðkirkjur eigi að vera lýðræðislegri en ríkiskirkjur fyrri alda. Því fara til dæmis kjörin kirkjuþing með æðstu stjórn þeirra.

Þjóðkirkjuskipan einkennist af því að sjálfstæði og sjálfsstjórn kirkjunnar er umtalsverð, fá mál henni viðkomandi heyra undir ríkisvaldið og starfsmenn hennar teljast ekki embættismenn eða opinberir starfsmenn.

Vert er að geta þess að óljós mörk eru milli ríkiskirkna og þjóðkirkna í þessari lögfræðilegu og/eða stofnunarlegu merkingu. Líta má svo á að þjóðkirkjur séu nokkurs konar nútímaleg útfærsla á ríkiskirkjum fyrri alda og sögulegt millistig milli þeirra og fríkirkna sem eru algerlega sjálfstæðar gagnvart ríkisvaldinu. Benda má á að bæði hér á landi og í Danmörku starfa þjóðkirkjur sem eiga sér sameiginlegt upphaf. Danska þjóðkirkjan sver sig um flest í ætt við ríkiskirkjur. Í Danmörku er til að mynda ekkert kirkjuþing til staðar og annast þjóðþingið það hlutverk sem kirkjuþing gegnir hér. Öll tengsl dönsku þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið eru líka mun nánari en þegar íslenska Þjóðkirkjan á í hlut. Sveigjanleiki og lýðræði er þó á margan hátt mun meira í dönsku kirkjunni. Innan hennar starfa til dæmis fjölmargir svokallaðir kjörsöfnuðir (d. valgmenighed) sem hafa sama sjálfstæði og lúthersku fríkirkjusöfnuðirnir hér en njóta í öllu sömu kjara og aðrir þjóðkirkjusöfnuðir. Hér njóta fríkirkjusöfnuðirnir ekki nema að litlu leyti þeirra réttinda sem Þjóðkirkjan hefur hér.

Loks skal bent á að þjóðkirkjuhugtakið getur haft guðfræðilega merkingu. Á það þá við kirkju sem telur sig gegna sérstöku hlutverki gagnvart ákveðinni þjóð sem felist meðal annars í því að skapa ævi fólks skýra trúarlega umgjörð frá skírn til greftrunar sem og í að ljá þjóðlífinu trúarlegt yfirbragð með sameiginlegum hátíðum af ýmsu tagi. Slíkar kirkjur lýsa sig fúsar að þjóna öllum sem til þeirra leita án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar eða kirkjuaðildar. Þær greina sig í þessu frá flestum sjálfstæðum trúfélögum sem gera oftast ráð fyrir virkari og persónulegri trúarafstöðu af þeim sem sækjast eftir þátttöku í þeim eða þjónustu af þeirra hendi. Þá er mikilvægt að geta þess að þegar þjóðkirkjuhugtakið er notað í lögfræði- og stofnunarlegri merkingu er talið að kirkja sem nýtur stöðu þjóðkirkju hljóti að fallast á slíkt þjónustuhlutverk. Það er til að mynda lögboðið hlutverk íslensku Þjóðkirkjunnar „[…] að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.“[2] Það er ekki síst þessi skylda sem gerir hana að þjóðkirkju.

Hér er ekki gerð tæmandi grein fyrir merkingarsviðum orðsins þjóðkirkja. Vel má vera að vert hefði verið að geta fleiri dæma en hér hefur verið gert.

Tilvísanir:
  1. ^ Hér er leitast við að greina á milli orðanna „þjóðkirkja/-n“ og „Þjóðkirkja/-n“ þar sem hið fyrrnefnda er almennt en hið síðarnefnda nær yfir eitt ákveðið trúfélag sem starfar á grundvelli laga nr. 77/2021 sem kallast þjóðkirkjulög. Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
  2. ^ Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).

Mynd:...