Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvers vegna er þjóðkirkja enn við lýði á Íslandi?

Hjalti Hugason

Í svari sama höfundar við spurningunni Hvers vegna komst á þjóðkirkja á Íslandi? kemur fram að um miðja 19. öld hafi gild rök staðið til að hér kæmist á þjóðkirkja. Í því fólst þrátt fyrir allt trúarpólitísk tilslökun sem meðal annars kom fram í aukinni aðgreiningu milli ríkis og kirkju. Síðan þá hafa miklar breytingar átt sér stað. Þjóðkirkjan er vissulega enn meirihlutakirkja þótt naumt sé en tæp 59 prósent landsmanna tilheyrir henni nú um stundir. Til samanburðar má þó geta þess að það trúfélag sem næsta kemur hvað stærð varðar nær aðeins til tæpra 4 prósenta.[1] Það er því langt í land að Þjóðkirkjan verði minnihlutakirkja. Þetta réttlætir að einhverju leyti að hér sé enn við lýði þjóðkirkjufyrirkomulag. Skýringarnar eru þó fleiri.

Þótt miklar breytingar hafi átt sér stað á síðustu áratugum er þjóðkirkjan enn meirihlutakirkja þar sem tæplega 59% landsmanna tilheyra henni.

Eitt af því sem veldur því að hér skuli enn vera þjóðkirkjuskipan er að allt frá síðustu áratugum 19. aldar hefur það verið stefna Þjóðkirkjunnar sjálfrar að hér skuli starfa sjálfstæð þjóðkirkja er þó væri tengd ríkisvaldinu á þann hátt sem kveðið er á um í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Þjóðkirkjan hefur aldrei fallið frá þeirri stefnu og hún hlaut staðfestingu með setningu svokallaðra þjóðkirkjulaga beggja vegna aldamótanna 2000.[2] — Þrátt fyrir þetta vill svo einkennilega til að sitjandi biskup, að minnsta kosti ein úr röðum frambjóðenda við biskupskjör á vori komanda og ýmsir aðrir málsvarar Þjóðkirkjunnar virðast líta svo á að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað hér á landi. Vandi er að skera úr um hvort vanþekkingu sé um að kenna eða tilrauna til að drepa umræðum um viðkvæmt mál á dreif.

Þá hefur það stuðlað að áframhaldandi þjóðkirkjuskipan í landinu að ríkisvaldið hefur ekki haft skýra stefnu í málinu umfram það að sjá til að vilji Þjóðkirkjunnar hafi náð fram að ganga. Í því lítur það væntanlega svo á að með því sé það að rækja hið stjórnarskrárbundna hlutverk sitt að styðja og vernda Þjóðkirkjuna.

Loks má nefna að þrátt fyrir háværar raddir á köflum virðist ekki ríkur þjóðarvilji standa til að slíta sambandi ríkisins og Þjóðkirkjunnar og binda þar með endi á hina stjórnarskrár- og lögbundnu þjóðkirkjuskipan. Fremur mætti halda því fram að vilji almennings sé að þjóðkirkjuskipaninni verði við haldið enn um sinn með vísan til niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem haldin var 2012 um frumvarp Stjórnlagaráðs.[3]

Hollt væri að öguð og markviss umræða hæfist áður en langt um líður um framtíðarskipan þessara mála í landinu. Í því sambandi þyrfti að taka tillit til stöðu trú- og kirkjumála í landinu, þeirrar hefðar sem hér hefur myndast frá siðaskiptum, almennra mannréttindasjónarmiða og eðlilegrar starfsaðstöðu Þjóðkirkjunnar í breyttu umhverfi. Þá þarf og að marka stefnu um hvaða trúarréttarlegu markmið beri að leggja til grundvallar við róttækar breytingar á núverandi fyrirkomulagi: á ríkisvaldið ekki að hafa nein afskipti af trúmálunum eða er ásættanlegt að áfram verði byggt á þeirri hefð sem viðhöfð hefur verið hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndum þar sem ríkið hefur mótað lagaumgjörð um málaflokkinn?

Þótt Þjóðkirkjan nái nú aðeins til rýrs meirihluta þjóðarinnar, muni að öllum líkindum falla undir 50 prósenta línuna innan 10 ára og það teljist ekki lengur sjálfsagt að fólk með íslenskt þjóðerni líti á sig sem lútherskt í einhverjum skilningi getur kirkjan samt sem áður staðhæft að hún sé eigi að síður þjóðkirkja. Það mundi hún gera með því að starfa um land allt og tryggja öllum sem til hennar leita kirkjulega þjónustu án kröfu um persónulega trúarjátningu, kirkjuaðild eða greiðslu sóknargjalda. Þá væri þjóðkirkjuhugtakið notað í guðfræðilegri, sögulegri og menningarlegri merkingu en ekki lýðfræðilegri, lögfræðilegri né trúarpólitískri.

Tilvísanir:
  1. ^ Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunarfélögum 1998-2024, hagstofan.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
  2. ^ Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024). Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/20, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
  3. ^ Í atkvæðagreiðslunni var greitt atkvæði um nokkrar spurningar meðal annars hvort setja ætti að setja ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. Var þetta sú spurning sem fæstir svöruðu með já-i eða 58.455 af alls 115.890 sem greiddu atkvæði. Þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október 2012, hagstofa.is. (Sótt 2. febrúar 2024).

Mynd:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

22.2.2024

Spyrjandi

Örn

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvers vegna er þjóðkirkja enn við lýði á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 22. febrúar 2024. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=86205.

Hjalti Hugason. (2024, 22. febrúar). Hvers vegna er þjóðkirkja enn við lýði á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=86205

Hjalti Hugason. „Hvers vegna er þjóðkirkja enn við lýði á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 22. feb. 2024. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=86205>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er þjóðkirkja enn við lýði á Íslandi?
Í svari sama höfundar við spurningunni Hvers vegna komst á þjóðkirkja á Íslandi? kemur fram að um miðja 19. öld hafi gild rök staðið til að hér kæmist á þjóðkirkja. Í því fólst þrátt fyrir allt trúarpólitísk tilslökun sem meðal annars kom fram í aukinni aðgreiningu milli ríkis og kirkju. Síðan þá hafa miklar breytingar átt sér stað. Þjóðkirkjan er vissulega enn meirihlutakirkja þótt naumt sé en tæp 59 prósent landsmanna tilheyrir henni nú um stundir. Til samanburðar má þó geta þess að það trúfélag sem næsta kemur hvað stærð varðar nær aðeins til tæpra 4 prósenta.[1] Það er því langt í land að Þjóðkirkjan verði minnihlutakirkja. Þetta réttlætir að einhverju leyti að hér sé enn við lýði þjóðkirkjufyrirkomulag. Skýringarnar eru þó fleiri.

Þótt miklar breytingar hafi átt sér stað á síðustu áratugum er þjóðkirkjan enn meirihlutakirkja þar sem tæplega 59% landsmanna tilheyra henni.

Eitt af því sem veldur því að hér skuli enn vera þjóðkirkjuskipan er að allt frá síðustu áratugum 19. aldar hefur það verið stefna Þjóðkirkjunnar sjálfrar að hér skuli starfa sjálfstæð þjóðkirkja er þó væri tengd ríkisvaldinu á þann hátt sem kveðið er á um í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Þjóðkirkjan hefur aldrei fallið frá þeirri stefnu og hún hlaut staðfestingu með setningu svokallaðra þjóðkirkjulaga beggja vegna aldamótanna 2000.[2] — Þrátt fyrir þetta vill svo einkennilega til að sitjandi biskup, að minnsta kosti ein úr röðum frambjóðenda við biskupskjör á vori komanda og ýmsir aðrir málsvarar Þjóðkirkjunnar virðast líta svo á að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað hér á landi. Vandi er að skera úr um hvort vanþekkingu sé um að kenna eða tilrauna til að drepa umræðum um viðkvæmt mál á dreif.

Þá hefur það stuðlað að áframhaldandi þjóðkirkjuskipan í landinu að ríkisvaldið hefur ekki haft skýra stefnu í málinu umfram það að sjá til að vilji Þjóðkirkjunnar hafi náð fram að ganga. Í því lítur það væntanlega svo á að með því sé það að rækja hið stjórnarskrárbundna hlutverk sitt að styðja og vernda Þjóðkirkjuna.

Loks má nefna að þrátt fyrir háværar raddir á köflum virðist ekki ríkur þjóðarvilji standa til að slíta sambandi ríkisins og Þjóðkirkjunnar og binda þar með endi á hina stjórnarskrár- og lögbundnu þjóðkirkjuskipan. Fremur mætti halda því fram að vilji almennings sé að þjóðkirkjuskipaninni verði við haldið enn um sinn með vísan til niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem haldin var 2012 um frumvarp Stjórnlagaráðs.[3]

Hollt væri að öguð og markviss umræða hæfist áður en langt um líður um framtíðarskipan þessara mála í landinu. Í því sambandi þyrfti að taka tillit til stöðu trú- og kirkjumála í landinu, þeirrar hefðar sem hér hefur myndast frá siðaskiptum, almennra mannréttindasjónarmiða og eðlilegrar starfsaðstöðu Þjóðkirkjunnar í breyttu umhverfi. Þá þarf og að marka stefnu um hvaða trúarréttarlegu markmið beri að leggja til grundvallar við róttækar breytingar á núverandi fyrirkomulagi: á ríkisvaldið ekki að hafa nein afskipti af trúmálunum eða er ásættanlegt að áfram verði byggt á þeirri hefð sem viðhöfð hefur verið hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndum þar sem ríkið hefur mótað lagaumgjörð um málaflokkinn?

Þótt Þjóðkirkjan nái nú aðeins til rýrs meirihluta þjóðarinnar, muni að öllum líkindum falla undir 50 prósenta línuna innan 10 ára og það teljist ekki lengur sjálfsagt að fólk með íslenskt þjóðerni líti á sig sem lútherskt í einhverjum skilningi getur kirkjan samt sem áður staðhæft að hún sé eigi að síður þjóðkirkja. Það mundi hún gera með því að starfa um land allt og tryggja öllum sem til hennar leita kirkjulega þjónustu án kröfu um persónulega trúarjátningu, kirkjuaðild eða greiðslu sóknargjalda. Þá væri þjóðkirkjuhugtakið notað í guðfræðilegri, sögulegri og menningarlegri merkingu en ekki lýðfræðilegri, lögfræðilegri né trúarpólitískri.

Tilvísanir:
  1. ^ Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunarfélögum 1998-2024, hagstofan.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
  2. ^ Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024). Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/20, althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
  3. ^ Í atkvæðagreiðslunni var greitt atkvæði um nokkrar spurningar meðal annars hvort setja ætti að setja ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. Var þetta sú spurning sem fæstir svöruðu með já-i eða 58.455 af alls 115.890 sem greiddu atkvæði. Þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október 2012, hagstofa.is. (Sótt 2. febrúar 2024).

Mynd:...