Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fjöldi orða hefur verið ritaður með bókstafnum w í hinni löngu sögu ritaðrar íslensku.
Varðveittir eru textar á íslensku, öðru nafni norrænu, með latínuletri frá því á 12. öld. Táknið w var ekki algengt í elstu handritunum en því bregður þó fyrir, meðal annars í Grágásarhandriti frá lokum 12. aldar þar sem orðmyndin varðar er skrifuð með w í upphafi, og í handritinu AM 673 b 4to frá um 1200 þar sem orðmyndin vals er rituð 'walſ'. En þessi dæmi má sem sé telja til undantekninga í elstu skrift.
Algengast var að hafa ýmist v eða u til að tákna fyrsta hljóðið í orðmyndum eins og vísa, var, veit: 'vísa', 'uar', 'ueít' (þessi dæmi eru úr Skarðsbók Jónsbókar, 1363). Táknin v og u gátu sömuleiðis komið fyrir inni í orðum á borð við hafa (þar sem annars væri f): 'hava', 'haua'.
Oft var stafurinn v einnig notaður til að tákna sérhljóð, til dæmis 'svnþer' = syndir (um 1200); 'þv' = þú (Heimskringla, um 1260); 'þinv' = þínu, sem finna má í hinni frægu setningu úr Njáls sögu: 'fa mer leppa tva ór hári þinv' = fá mér leppa tvo úr hári þínu (Reykjabók Njálu, laust eftir 1300).
Enda þótt sjaldgæft hafi verið fyrstu aldirnar að íslenskir handritaskrifarar hafi límt tvö v-tákn saman svo að úr yrði w, eins og gert hafði verið til að mynda í þýskum handritum frá því á 11. öld, þá átti það eftir að breytast.
Á 16. öld var farið að prenta bækur á íslensku. Á því skeiði tíðkaðist bæði í skrifuðum bókum og prentuðum að samtengja tvö v-tákn. Límingurinn w var þannig hafður í formála sálmabókar Guðbrands Þorlákssonar 1589 til að tákna sérhljóðið ú, til dæmis 'misbrwke' = misbrúki.
Á 16. öld var farið að prenta bækur á íslensku. Á því skeiði tíðkaðist bæði í skrifuðum bókum og prentuðum að samtengja tvö v-tákn. Límingurinn w var þannig hafður í formála sálmabókar Guðbrands Þorlákssonar 1589 til að tákna sérhljóðið ú, til dæmis 'misbrwke' = misbrúki. Á sama tíma var algengt að líma saman tvö a-tákn (fyrir á-hljóðið), og sérhljóðið í var gjarna ritað 'ij'.
Á 17. öld er notkun w-táknsins algeng og hafði það fleiri en eitt hlutverk. Má sem dæmi taka kvæði eftir Stefán Ólafsson, frá því um 1650. Þar er í einni og sömu vísunni skrifað w til að tákna fyrsta hljóðið í orðunum var, voru = 'war', 'woru'; u-ið í um = 'wmm', og loks ú-ið í orðunum búrar, sút, út = 'Bwrar', 'swt', 'wt'.
Þegar leið á 18. öld, og þó einkum á 19. öld, var farið að huga að því af alvöru að samræma íslenska stafsetningu og setja um hana reglur af einhverju tagi. Þar kom til stóraukin útgáfa prentaðra rita og einnig skólakennsla. Í því samhengi var tæpast gert ráð fyrir sérstöku hlutverki handa tákninu w þar sem stafirnir v, u, ú, f áttu sinn sess í stafrófinu að minnsta kosti að því er varðaði ritun hefðbundins íslensks orðaforða og nýrra orða úr eldri efniviði.
Táknið w hefur þó hreint ekki horfið úr íslensku ritmáli. Þess er þörf við ritun ýmissa heita, til dæmis í nafninu Wales, og í orðum sem þeim tengjast, samanber orðið Walesmaður. Þá eru ýmis hversdagsleg orð rituð með w, til dæmis waldorf-salat, worcester-sósa. Einnig bregður w fyrir í íðorðum (það er í sérfræðimáli), samanber til dæmis weber, í eðlisfræði. Ekki má heldur gleyma því að w er ritað í eiginnöfnum margra Íslendinga, til dæmis Weronika, Werner; sömuleiðis í millinöfnum, til dæmis Welding, Winter, og fjölmörgum ættarnöfnum sem borin eru hérlendis, til dæmis Mwangi, Waage.
Athugun á vefnum Tímarit.is leiðir í ljós að rithátturinn ‘whisky’ kom fyrir í íslensku ritmáli meira en 500 sinnum frá 1868 til aldamótanna 1900; en á því sama tímabili fundust einungis 4 dæmi um ritháttinn ‘viskí’.
Að lokum má nefna til gamans orðið viskí og ritháttarþróun þess. Samkvæmt Risamálheild Árnastofnunar er rithátturinn ‘viskí’ tífalt algengari en ‘whisky’ í íslensku (rit)máli. Hafa má í huga að megnið af textunum, sem þar er byggt á, er frá undanförnum áratugum; þó í bland við mun eldri texta. En ef horft er til síðustu áratuga 19. aldar blasir við ólík mynd. Athugun á vefnum Tímarit.is leiðir í ljós að rithátturinn ‘whisky’ kom fyrir í íslensku ritmáli meira en 500 sinnum frá 1868 til aldamótanna 1900; en á því sama tímabili fundust einungis 4 dæmi um ritháttinn ‘viskí’.
Prentaðar heimildir:
Hreinn Benediktsson. 1965. Early Icelandic script as illustrated in vernacular texts from the twelfth and thirteenth centuries. Reykjavík: Manuscript Institute of Iceland.
Stefán Karlsson. 1989. Tungan. Íslensk þjóðmenning VI. Bls. 3–54. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.
Ari Páll Kristinsson. „Eru til íslensk orð, gömul eða ný, sem innihalda bókstafinn w?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2024, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86247.
Ari Páll Kristinsson. (2024, 2. maí). Eru til íslensk orð, gömul eða ný, sem innihalda bókstafinn w? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86247
Ari Páll Kristinsson. „Eru til íslensk orð, gömul eða ný, sem innihalda bókstafinn w?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2024. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86247>.