Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales?

Ari Páll Kristinsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Upprunaleg spurning Ragnars hljómaði svona:
Sæl verið þið. Ég hef velt einu fyrir mér í lengri tíma en ég þori að hugsa um en er reyndar líka hissa á því að ekki skuli vera meira fjallað um þetta. Slíkt tel ég mikilvægi þess vera. En spurningin er: Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales?

Inngangur

Landsheitið Wales er áberandi undantekning frá þeirri meginreglu að lönd í Norðvestur-Evrópu beri gamalgróin heiti sem falla vel að íslensku. Færeyjar, Grænland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk standa okkur nærri. Það gera einnig England, Írland, Skotland – en þarna sker heitið Wales sig úr. Nafnið endar ekki á -land eins og hin þrjú heitin á Bretlandseyjum og ekki er hefðbundið samband ritháttar og íslensks framburðar.

Frá því á seinni hluta 19. aldar hefur sú venja orðið ráðandi í íslenskum textum að skrifa Wales. Þekking á ensku ritmáli og framburði á sjálfsagt sinn þátt í því að festa í sessi ritháttinn Wales og framburðinn /veils/.

Vales eða Wales

Rithátturinn Vales(s) kemur fyrir í þýddri og endursagðri sögu um riddarann Milun í „Strengleikum“, riddarasagnasafni á norrænu frá seinni hluta 13. aldar. „Milun var í Valess fæddur, dýrlegur maður og vel kynjaður,“ segir þar.

Á fyrri hluta 19. aldar virðist sem íslenskir höfundar, þýðendur og ritstjórar hafi verið tvístígandi um hvort rita skyldi W eða V í nafninu. Árin 1816–1820 er landið nefnt fimm sinnum í Íslenzkum sagnablöðum og er haft fjórum sinnum með W og einu sinni með V. Í Skírni 1844 er ritað Wales en 1845 er það haft Vales.

Kort af Wales frá 1610. Á kortinu sést meðal annars skipting Wales í 13 héruð.

Upp úr miðri 19. öld virðist rithátturinn Wales vera orðinn miklu algengari. Þó var enn ritað Vales á stöku stað (til að mynda í Þjóðólfi 1875 og Norðanfara 1885, og einnig má finna slík dæmi hér og þar frá 20. öld).

Nú á dögum er borið fram /veils/ en vel má vera að framburðurinn /vales/ hafi verið útbreiddur áður. Það er meira en líklegt að formæður okkar og forfeður hafi sagt /vales/ ef nafnmyndina bar á góma á annað borð.

Yfirleitt verður /w/-ið í Wales að venjulegu íslensku /v/ eins og gjarna gerist þegar Íslendingar taka sér ensk orð í munn, sbr. viskí og borgarheitið Washington /vosington/.

Enda þótt rithátturinn Wales og framburðurinn /veils/ tíðkist í íslensku þá er lýsingarorðið aðlagað: velskur. Orðið velskur (þekkt frá 18. öld) getur reyndar vísað bæði til Wales og til Vallands. Íbúarnir eru nefndir Wales-menn (einnig Wales-verjar).

Í hinum norrænu málunum er staðan svipuð, nafnið Wales er notað um sjálft landið en lýsingarorðin bæta við -sk-viðskeyti eftir venju: walisiskur (færeyska), walisisk (danska), walisisk eða velsk (norska), walesisk (sænska). Íbúaheitin eru mynduð eftir almennri venju (nýnorska walisar, norskt bókmál waliser og svo framvegis).

Heitið Wales geymir sama stofn og nafnið Valland sem meðal annars var haft um Frakkland eða hluta þess og raunar stundum um Ítalíu. Sömu rót er að finna í seinni lið nafnsins Cornwall. Í Cornwall eru heimkynni kornísku sem er skyld velsku (kymrísku) og bretónsku. Í fornritum er Cornwall nefnt Kornbretaland. Það er einnig gert svo seint sem 1827 í Almennri landaskipunarfræði.

Bretland

Í fornum norrænum heimildum var heitið Bretland haft um Wales en einnig um fleiri svæði „sem brezkumælandi menn byggðu eftir landvinninga Engilsaxa“ (Hermann Pálsson 1960–1963:43). Breska var keltneskt mál, fjarskylt írsku, og „lifir enn sem velska eða kymriska í Wales, og náskyld henni er bretónska í Bretagne“ (Helgi Guðmundsson 1997:3).

Hermann Pálsson (1960–1963) segir að Bretland hafi meðal annars getað vísað til svæðis á suðvestanverðu Skotlandi þar sem töluð var bresk (kymrísk) tunga.

Auk þess gat nafnið Bretland vísað til eyjunnar allrar, í sumum gömlum textum.

Í nútímamáli er nafnið Bretland enn fremur notað um ríkisheildina, það er Sameinaða konungs­ríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland.

Í Almennri landaskipunarfræði (1827) segir: „Kóngsríkit England greinist í 2 hluti nl. hit eiginliga England og Fyrstadæmit Wales edr Bretland.“ Einnig er lýst landslagi á Englandi og þar segir: „hid vestra og nyrdra eru allvída lág fjøll og hálsar, medal hvørra má telia Wales- edr Bretlandsfiøll“. Af textanum má ráða að höfundarnir hafi ekki treyst sér til að nota eingöngu nafnið Bretland í merkingunni ‘Wales’, það er án þess að gefa lesanda þarna nánari skýringu. Í fyrra bindi Almennrar landaskipunarfræði (1821) kemur fyrir íbúaheitið Bretlendingar: „Hit kymrisk-brittiska [mál] tala Bretlendíngar og Bretagnes innbúar.“

„[H]id vestra og nyrdra eru allvída lág fjøll og hálsar, medal hvørra má telia Wales- edr Bretlandsfiøll“. Á myndinni sjást hjónin Carneddog og Catrin í fjalllendi Wales. Myndin er tekin 1945.

Tví- eða margræðni nafnsins Bretland hefur eflaust átt þátt í að heitið festist ekki við Wales sérstaklega. Þegar blöðum, bókum og tímaritum á íslensku fór að fjölga á 19. öld virðist íslenskan sem sé ekki hafa átt tiltækt eitt augljóst, ótvírætt og gamalgróið heiti um Wales.

Aðlögun landaheita að íslensku máli

Í mjög gömlum íslenskum ritheimildum er að finna landaheiti sem eru enn í daglegri notkun í íslensku – það á til að mynda við um Frakkland, Þýskaland, Spán og mörg önnur. Íslensk(uð) 19. og 20. aldar landaheiti, svo sem Pólland og Tékkland, eru mörg hver mynduð með seinni liðnum -land skv. gamalgróinni orðmyndunarhefð. Enn önnur landaheiti frá síðari tímum eru nánast alveg sótt til erlendrar fyrirmyndar en þó jafnan mjög mikið aðlöguð íslenskum framburði og stafsetningu (Bosnía, Moldóva).

Þegar litið er yfir heiti Evrópulanda eru það helst Liechtenstein og Wales sem skera sig úr. Þar vantar upp á íslenskulega rit- og framburðarmynd. Dæmi á borð við Ekvador, Írak og Tansaníu sýna að heiti jafnvel fjarlægra landa eru í íslensku ritmáli gjarna höfð eingöngu með bókstöfum íslenska grunnstafrófsins (það er án w, c, q, z). Landanöfnin eru venjulega borin fram samkvæmt almennum íslenskum framburðarvenjum. Ef litið er á íslenskar landabréfabækur má sjá að venjulega hafa verið gerðar ríkari aðlögunarkröfur til nafna sjálfstæðra ríkja en ýmissa annarra landsvæða.

Heimildir
  • Grímur Jónsson, Gunnlaugur Oddsson og Þórður Sveinbjörnsson. 1821/1827. Almenn Landaskipunarfræði, útgefin at tilhlutun og á kostnad hins íslenzka Bókmentafélags. 1. b. 1821, 2. b. 1827. Kaupmannahöfn.
  • Helgi Guðmundsson. 1997. Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Hermann Pálsson. 1960–1963. Athugasemd um nafnið Bretland. Saga. III. bindi, bls. 43–47. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Myndir:

Margir hafa spurt Vísindavefinn um landsheitið Wales. Spurning Garðars var: Er ekki til neitt íslenskt heiti yfir landið Wales, þar sem við notum ekki stafinn W í íslenska stafrófinu?

Natan og Bjarki spurðu: Hvað heitir Wales á íslensku?

Eymundur Sveinn Leifsson spurði: Nú er bókstafurinn W ekki í íslenska stafrófinu og Íslendingar hafa haft það fyrir sið að íslenska nöfn á löndum og ríkjum, sérstaklega þeirra sem standa okkur nærri. Ég hef ekki rekist á íslenska nafnið fyrir Wales í bókum né annarsstaðar. Er það til og hvert er nafnið?

Guðlaugur spurði: Eru engin heiti fyrir Wales sem falla betur að íslensku?

Og spurning Bríetar hljómaði svona: Hvers vegna er ekki séríslenskt orð fyrir Wales? En hins vegar er talað um að vera velskur?

Höfundur

Ari Páll Kristinsson

rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

12.2.2020

Síðast uppfært

20.11.2024

Spyrjandi

Ragnar Kristinsson, Garðar Friðrik Harðarson, Natan Kolbeinsson, Bjarki, Eymundur Sveinn Leifsson, Bríet Dögg Bjarkadóttir, Brynjar Birgisson, Guðlaugur Ástvaldsson

Tilvísun

Ari Páll Kristinsson. „Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2020, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78467.

Ari Páll Kristinsson. (2020, 12. febrúar). Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78467

Ari Páll Kristinsson. „Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2020. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78467>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales?
Upprunaleg spurning Ragnars hljómaði svona:

Sæl verið þið. Ég hef velt einu fyrir mér í lengri tíma en ég þori að hugsa um en er reyndar líka hissa á því að ekki skuli vera meira fjallað um þetta. Slíkt tel ég mikilvægi þess vera. En spurningin er: Hvers vegna er Wales skrifað með W á íslensku og hvers vegna er það borið fram veils þegar augljóst er að framburður ætti að vera vales?

Inngangur

Landsheitið Wales er áberandi undantekning frá þeirri meginreglu að lönd í Norðvestur-Evrópu beri gamalgróin heiti sem falla vel að íslensku. Færeyjar, Grænland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk standa okkur nærri. Það gera einnig England, Írland, Skotland – en þarna sker heitið Wales sig úr. Nafnið endar ekki á -land eins og hin þrjú heitin á Bretlandseyjum og ekki er hefðbundið samband ritháttar og íslensks framburðar.

Frá því á seinni hluta 19. aldar hefur sú venja orðið ráðandi í íslenskum textum að skrifa Wales. Þekking á ensku ritmáli og framburði á sjálfsagt sinn þátt í því að festa í sessi ritháttinn Wales og framburðinn /veils/.

Vales eða Wales

Rithátturinn Vales(s) kemur fyrir í þýddri og endursagðri sögu um riddarann Milun í „Strengleikum“, riddarasagnasafni á norrænu frá seinni hluta 13. aldar. „Milun var í Valess fæddur, dýrlegur maður og vel kynjaður,“ segir þar.

Á fyrri hluta 19. aldar virðist sem íslenskir höfundar, þýðendur og ritstjórar hafi verið tvístígandi um hvort rita skyldi W eða V í nafninu. Árin 1816–1820 er landið nefnt fimm sinnum í Íslenzkum sagnablöðum og er haft fjórum sinnum með W og einu sinni með V. Í Skírni 1844 er ritað Wales en 1845 er það haft Vales.

Kort af Wales frá 1610. Á kortinu sést meðal annars skipting Wales í 13 héruð.

Upp úr miðri 19. öld virðist rithátturinn Wales vera orðinn miklu algengari. Þó var enn ritað Vales á stöku stað (til að mynda í Þjóðólfi 1875 og Norðanfara 1885, og einnig má finna slík dæmi hér og þar frá 20. öld).

Nú á dögum er borið fram /veils/ en vel má vera að framburðurinn /vales/ hafi verið útbreiddur áður. Það er meira en líklegt að formæður okkar og forfeður hafi sagt /vales/ ef nafnmyndina bar á góma á annað borð.

Yfirleitt verður /w/-ið í Wales að venjulegu íslensku /v/ eins og gjarna gerist þegar Íslendingar taka sér ensk orð í munn, sbr. viskí og borgarheitið Washington /vosington/.

Enda þótt rithátturinn Wales og framburðurinn /veils/ tíðkist í íslensku þá er lýsingarorðið aðlagað: velskur. Orðið velskur (þekkt frá 18. öld) getur reyndar vísað bæði til Wales og til Vallands. Íbúarnir eru nefndir Wales-menn (einnig Wales-verjar).

Í hinum norrænu málunum er staðan svipuð, nafnið Wales er notað um sjálft landið en lýsingarorðin bæta við -sk-viðskeyti eftir venju: walisiskur (færeyska), walisisk (danska), walisisk eða velsk (norska), walesisk (sænska). Íbúaheitin eru mynduð eftir almennri venju (nýnorska walisar, norskt bókmál waliser og svo framvegis).

Heitið Wales geymir sama stofn og nafnið Valland sem meðal annars var haft um Frakkland eða hluta þess og raunar stundum um Ítalíu. Sömu rót er að finna í seinni lið nafnsins Cornwall. Í Cornwall eru heimkynni kornísku sem er skyld velsku (kymrísku) og bretónsku. Í fornritum er Cornwall nefnt Kornbretaland. Það er einnig gert svo seint sem 1827 í Almennri landaskipunarfræði.

Bretland

Í fornum norrænum heimildum var heitið Bretland haft um Wales en einnig um fleiri svæði „sem brezkumælandi menn byggðu eftir landvinninga Engilsaxa“ (Hermann Pálsson 1960–1963:43). Breska var keltneskt mál, fjarskylt írsku, og „lifir enn sem velska eða kymriska í Wales, og náskyld henni er bretónska í Bretagne“ (Helgi Guðmundsson 1997:3).

Hermann Pálsson (1960–1963) segir að Bretland hafi meðal annars getað vísað til svæðis á suðvestanverðu Skotlandi þar sem töluð var bresk (kymrísk) tunga.

Auk þess gat nafnið Bretland vísað til eyjunnar allrar, í sumum gömlum textum.

Í nútímamáli er nafnið Bretland enn fremur notað um ríkisheildina, það er Sameinaða konungs­ríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland.

Í Almennri landaskipunarfræði (1827) segir: „Kóngsríkit England greinist í 2 hluti nl. hit eiginliga England og Fyrstadæmit Wales edr Bretland.“ Einnig er lýst landslagi á Englandi og þar segir: „hid vestra og nyrdra eru allvída lág fjøll og hálsar, medal hvørra má telia Wales- edr Bretlandsfiøll“. Af textanum má ráða að höfundarnir hafi ekki treyst sér til að nota eingöngu nafnið Bretland í merkingunni ‘Wales’, það er án þess að gefa lesanda þarna nánari skýringu. Í fyrra bindi Almennrar landaskipunarfræði (1821) kemur fyrir íbúaheitið Bretlendingar: „Hit kymrisk-brittiska [mál] tala Bretlendíngar og Bretagnes innbúar.“

„[H]id vestra og nyrdra eru allvída lág fjøll og hálsar, medal hvørra má telia Wales- edr Bretlandsfiøll“. Á myndinni sjást hjónin Carneddog og Catrin í fjalllendi Wales. Myndin er tekin 1945.

Tví- eða margræðni nafnsins Bretland hefur eflaust átt þátt í að heitið festist ekki við Wales sérstaklega. Þegar blöðum, bókum og tímaritum á íslensku fór að fjölga á 19. öld virðist íslenskan sem sé ekki hafa átt tiltækt eitt augljóst, ótvírætt og gamalgróið heiti um Wales.

Aðlögun landaheita að íslensku máli

Í mjög gömlum íslenskum ritheimildum er að finna landaheiti sem eru enn í daglegri notkun í íslensku – það á til að mynda við um Frakkland, Þýskaland, Spán og mörg önnur. Íslensk(uð) 19. og 20. aldar landaheiti, svo sem Pólland og Tékkland, eru mörg hver mynduð með seinni liðnum -land skv. gamalgróinni orðmyndunarhefð. Enn önnur landaheiti frá síðari tímum eru nánast alveg sótt til erlendrar fyrirmyndar en þó jafnan mjög mikið aðlöguð íslenskum framburði og stafsetningu (Bosnía, Moldóva).

Þegar litið er yfir heiti Evrópulanda eru það helst Liechtenstein og Wales sem skera sig úr. Þar vantar upp á íslenskulega rit- og framburðarmynd. Dæmi á borð við Ekvador, Írak og Tansaníu sýna að heiti jafnvel fjarlægra landa eru í íslensku ritmáli gjarna höfð eingöngu með bókstöfum íslenska grunnstafrófsins (það er án w, c, q, z). Landanöfnin eru venjulega borin fram samkvæmt almennum íslenskum framburðarvenjum. Ef litið er á íslenskar landabréfabækur má sjá að venjulega hafa verið gerðar ríkari aðlögunarkröfur til nafna sjálfstæðra ríkja en ýmissa annarra landsvæða.

Heimildir
  • Grímur Jónsson, Gunnlaugur Oddsson og Þórður Sveinbjörnsson. 1821/1827. Almenn Landaskipunarfræði, útgefin at tilhlutun og á kostnad hins íslenzka Bókmentafélags. 1. b. 1821, 2. b. 1827. Kaupmannahöfn.
  • Helgi Guðmundsson. 1997. Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Hermann Pálsson. 1960–1963. Athugasemd um nafnið Bretland. Saga. III. bindi, bls. 43–47. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Myndir:

Margir hafa spurt Vísindavefinn um landsheitið Wales. Spurning Garðars var: Er ekki til neitt íslenskt heiti yfir landið Wales, þar sem við notum ekki stafinn W í íslenska stafrófinu?

Natan og Bjarki spurðu: Hvað heitir Wales á íslensku?

Eymundur Sveinn Leifsson spurði: Nú er bókstafurinn W ekki í íslenska stafrófinu og Íslendingar hafa haft það fyrir sið að íslenska nöfn á löndum og ríkjum, sérstaklega þeirra sem standa okkur nærri. Ég hef ekki rekist á íslenska nafnið fyrir Wales í bókum né annarsstaðar. Er það til og hvert er nafnið?

Guðlaugur spurði: Eru engin heiti fyrir Wales sem falla betur að íslensku?

Og spurning Bríetar hljómaði svona: Hvers vegna er ekki séríslenskt orð fyrir Wales? En hins vegar er talað um að vera velskur?...