Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík
Vísindafélag Íslendinga - 100 ára

Hver var Guðmundur Kjartansson og hvert var framlag hans til jarðfræðinnar?

Sigurður Steinþórsson

Guðmundur Kjartansson (1909–1972)[1] var prestssonur, fæddur að Hruna í Hrunamannahreppi og ólst þar upp til 15 ára aldurs. Gagnfræðaprófi lauk hann frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði og stúdentsprófi frá MR 1929. Náttúrufræðikennari við MR var þá Guðmundur G. Bárðarson, áhuga- og áhrifamaður mikill um náttúruvísindi og kunnur að því að hvetja með ráðum og dáð unga menn sem áhuga höfðu á þeim sviðum[2] – mun hann hafa beint athygli síns unga nafna að jarðfræðinni. Vegna vanheilsu og fjárskorts frestaðist fyrirhuguð utanferð Guðmundar til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn þá um haustið, hann sneri sér að kennslu en innritaðist jafnframt í forspjallsvísindi við Háskóla Íslands og lauk prófi í þeim fræðum vorið 1930.

Fyrir áeggjan fyrrum náttúrfræðikennara síns hóf Guðmundur sumarið 1930 rannsóknir á Heklu og nágrenni með það í huga að kortleggja hraunin, upphaf þeirra og aldursröð. Þessum rannsóknum hélt hann áfram sumarið eftir; árangur Heklurannsóknanna birti hann svo í fyrsta árgangi Náttúrufræðingsins 1931.[3] Hekla átti eftir að koma við sögu síðar á ferli Guðmundar, hann var höfundur Árbókar Ferðafélags Íslands 1945 sem fjallar um Heklu, og reynsla hans frá undirbúningi Árbókarinnar kom sér vel við rannsóknir á Heklugosinu 1947–48; hann ritstýrði ásamt Sigurði Þórarinssyni og Trausta Einarssyni ritaflokki Vísindafélagsins um Heklugosið og skrifaði sjálfur tvö þeirra, annað um vatns- og eljuflóðin í upphafi gossins, hitt um CO2–útstreymi og breytingar á grunnvatnsstöðu af völdum gossins. Auk þess skrifaði hann um nokkra þætti gossins í Náttúrufræðinginn 1947 og 1948.

Guðmundur Kjartansson (1909-1972) var annar Íslendingurinn til þess að ljúka prófi í jarðfræði. Eftir hann liggja margar fræðigreinar um jarðfræði auk jarðfræðikorta.

Haustið 1931 sigldi Guðmundur loks og innritaðist í náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla með jarðfræði sem aðalnámsgrein. Þar sótti hann nám sitt, með hléum, til 1940 og tókst naumlega að ljúka prófum fyrir mag. scient.-gráðu í tæka tíð til að ná strandferðaskipinu Esju í Petsamó – síðustu ferð frá stríðsþjáðu meginlandi Evrópu til Íslands allt til stríðsloka 1945.

Á árunum 1934–1936 voru nokkrir íslenskir háskólanemar, þeirra á meðal Guðmundur Kjartansson, ásamt erlendum jarðfræðingum styrktir af Lauge Koch[4] til jarðfræðiathugana hér á landi. Guðmundur ferðaðist nokkuð um landið með tveimur hinna erlendu jarðfræðinga, Svisslendingnum R.A. Sonder og Norðmanninum T.W. Barth. Sonder fékkst einkum við athuganir á brotalínum og misgengjum sem og móbergsfjöllum, en um tilurð móbergsstapa hafði hann þá kenningu að þrýstingur að neðan hefði þrýst þeim um hringlaga sprungu upp yfir umhverfið líkt og tappa skotnum úr kampavínsflösku. Í þessum ferðum kynntist Guðmundur vel gerð móbergsfjalla og reyndist sú reynsla honum vel þegar hann fór sjálfur að rannsaka móbergsfjöll upp úr 1941 — og leiddi til þeirrar kenningar sem einna helst er tengd nafni hans: stapakenningar (1943) um myndun móbergsstapa og –hryggja í eldgosum undir jöklum ísaldar.[5] Hinn samferðarmaður Guðmundar þessi árin, Tom Barth, kannaði einkum jarðhita og bergfræði, og öðlaðist Guðmundur þar góða þekkingu á hvoru tveggja.

Þegar Guðmundur kom heim að loknu prófi 1940 var fyrir einn starfandi jarðfræðingur í landinu, Jóhannes Áskelsson kennari við Menntaskólann í Reykjavík. Ekki virtist starf við jarðfræðirannsóknir í boði og því þáði Guðmundur kennarastöðu við Flensborgarskóla í Hafnarfirði sem hann síðan sinnti alla vetur í 14 ár fyrir utan eitt vegna Heklugossins 1947-48. Rannsóknir sínar stundaði hann á sumrin, óstuddur af nokkurri „stofnun“ og kostaðar úr eigin vasa og af óvissum styrkjum. Hagir hans breyttust loks 1955 þegar hann var ráðinn að Náttúrugripasafninu til að gera jarðfræðikort af landinu í mælikvarða 1: 250.000, eftir það gat hann helgað sig jarðfræðirannsóknum einvörðungu.

Hekla, teikning eftir Guðmund Kjartansson sem fylgdi grein hans um Heklu og Hekluhraun í Náttúrufræðingunum 1931.

Prófritgerð Guðmundar til magisterprófs í Kaupmannahöfn hafði fjallað um jökulminjar og sjávarset frá ísaldarlokum á Suðurlandsundirlendi. Heimkominn sumarið 1941 tók hann þetta verkefni upp á ný sem hluta af undirbúningi ritgerðar um jarðsögu Árnessýslu í ritaröð sem Árnesingafélagið í Reykjavík hafði í undirbúningi.[6] Sú bók kom út 1943 og á 250 blaðsíðum fjallar höfundur um alla þætti jarðfræði og jarðsögu sýslunnar. Mest nýnæmi þótti sennilega stapakenningin fyrrnefnda en um ótal margt annað lærdómsríkt og áhugavert er þarna fjallað: helstu straumvötn sýslunnar, hraun og eldstöðvar, svo og gerð og sögu berggrunnsins. Sjávarset og jökulminjar frá ísaldarlokum kannaði hann nákvæmar en áður, ekki síst jökulgarðinn mikla sem liggur þvert yfir Suðurlandsundirlendið frá Efstadalsfjalli norðaustan við Laugarvatn, yfir Þjórsá við fossinn Búða og austur að Vatnsdalsfjalli fyrir ofan Fljótshlíð. Kuldakast það og framrás hins hopandi jökuls sem skapaði jökulgarðinn kenndi Guðmundur við fossinn Búða – Búðaskeið (yngra-Dryas) – og færði að því gild rök að þetta síðasta kuldakast stæði fyrir 10.000–11.000 árum; þetta hafa síðari rannsóknir staðfest.

Sumum þessara athugana fylgdi Guðmundur eftir síðar, ekki síst jökulminjum eins og jökulrákum sem hann leitaði að jafnt úti á ystu annnesjum og úteyjum sem á hæstu fjöllum. Á mörgum eyjum fann hann jökulrispur og á öllum annesjum nema á Langanesi utan Skoruvíkur. Þetta sýnir að jöklar hafa á síðasta jökulskeiði víðast hvar náð á haf út. Skortur á jökulrispum hátt til fjalla þarf hins vegar ekki að benda til jökulvana svæðis þar sem jurtir eða smádýr hefðu getað tórt af fimbulvetur ísaldarinnar því rispurnar hverfa fljótt vegna frostveðrunar. Meðal merkra greina Guðmundar um þessi efni í Náttúrufræðingnum eru „Fróðlegar jökulrákir“ (1955) og „Ísaldarlok og eldfjöll á Kili“ (1964).

Um fallvötn ritaði Guðmundur margt og ber fyrst að nefna greinina „Íslenzkar vatnsfallategundir“ [7] sem telst merkt tillag til vatnafræði landsins. Þá ritaði hann um einstakar ár, ýmsar eldstöðvar og hraun, þar með talið Tungnárhraunin sem Þjórsárhraunið mikla er hluti af.

Guðmundur Kjartansson er einna þekktastur fyrir stapakenninguna sem lýsir myndun móbergsfjalla við gos undir jökli. Herðubreið er einmitt slíkt fjall.

Sem fyrr sagði var Guðmundur Kjartansson ráðinn árið 1955 að Náttúrugripasafninu til að vinna jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:250.000 en ekkert slíkt kort var til af landinu nema kort Þorvalds Thoroddsen frá 1901. Kortablöðin áttu að vera níu og kom fyrsta blaðið (Suðvesturland) út 1960, næst Miðsuðurland (1962), Mið-Ísland (1965), Miðvesturland (1968) og loks Norðvesturland (1969). Jarðfræðikort af Miðnorðurlandi var sagt tilbúið til prentunar þegar Guðmundur veiktist haustið 1971 en fannst ekki þegar til átti að taka – enn eru ókomin í þessum flokki kortin Miðnorðurland og Austurland. Síðan þá hafa að sjálfsögðu komi út ýmis jarðfræðikort og sérkort í stærri og smærri mælikvörðum, sem og endurskoðuð kort Guðmundar Kjartanssonar. Hins vegar mun það næsta einstætt að einn maður skyldi afreka það að ganga frá frumgerð 5 jarðfræðikorta á 15 árum, en til þess nýtti hann að sjálfsögðu öll áður útgefin gögn auk þess sem þekking hans á landinu og jarðfræði þess var nánast einstök.

Á árunum 1947–61 kannaði Guðmundur jarðfræðilegar aðstæður á ýmsum hugsanlegum virkjunarstöðum og skrifaði ítarlegar skýrslur um fyrir Raforkumálaskrifstofuna. Þessi vinna nýttist honum einnig sem efni í sérstakar greinar og ekki síður við jarðfræðikortin yfir Mið-Ísland og Miðsuðurland.

Guðmundur var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1946 en kærast var honum Náttúrufræðifélagið, sat í stjórn þess 1948–64, þar af formaður 1959–64. Í formannstíð hans fjölgaði mjög í félaginu og má að hluta þakka það vinsælum árlegum þriggja-daga ferðum sem hann var frumkvöðull að og var sjálfur oft aðal-leiðsögumaður framan af. Ritstjóri Náttúrufræðingsins var hann árin 1947 og 48.

Á 40 ára starfsferli sínum kom jarðfræðingurinn Guðmundur Kjartansson víða við, sem kennari bæði í framhaldsskólum og í verkfræðideild Háskóla Íslands (1943–59), sem almenningsfræðari með fyrirlestrum, leiðsögn í ferðalögum og ótal greinum í Náttúrufræðingnum og víðar, en ekki síst sem vandaður vísindamaður. Á því sviði hófst ferillinn með kortlagningu Hekluhrauna 1930-31 og ritun Árbókar F.Í. um Heklu árið 1945 og loks rannsóknaþátttöku á Heklugosinu 1947-48. Í hinni miklu ritgerð sinni um jarðfræði og jarðsögu Árnessýslu í Árnesingabók 1943 tekur Guðmundur á mörgum greinum jarðfræðinnar, vatnafræði, eldfjallafræði, ísaldarjarðfræði (til dæmis jökulrispur, hvalbök, jökulgarðar og móbergsfjöll). Af mörgum nýjungum í bókinni var tilgátan um myndunarhætti móbergshryggja og –stapa, stapakenningin, merkust: við eldgos undir jökli hleðst fyrst upp bólstrabergssökkull, við hækkun gosopsins og lækkun vatnsþrýsting sundrast kvikan í glersalla (gosmöl) og loks, ef gosopið nær upp úr bræðsluvatninu, myndast hraunkollur á toppnum. Guðmundur lifði það að sjá kenningu sína staðfestast í Surtseyjargosinu 1964 – bólstraberg hefur að vísu ekki fundist þar, en er hins vegar ráðandi í eldgosum á meira dýpi í sjónum.

Síðasta brautryðjandaverk Guðmundar var að semja og teikna upp fimm jarðfræðikort (af níu fyrirhuguðum) á árunum 1955–69, byggt á samantekt allra fyrri gagna og eigin rannsóknum.

Tilvísanir:
 1. ^ Þorleifur Einarsson skrifaði ítarlega um Guðmund Kjartansson látinn í Náttúrufræðinginn 1973 (42. ár, 4. hefti). Greininni fylgir einnig ritaskrá Guðmundar. Eftirfarandi pistill er alfarið byggður á grein Þorleifs.
 2. ^ Steindór Steindórsson frá Hlöðum. „Guðmundur G. Bárðarson,“ bls. 323–339 í Íslenskir náttúrufræðingar 1600–1900. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1981.
 3. ^ Guðmundur Kjartansson. (1931). Frá Heklu og Hekluhraunum. Náttúrufræðingurinn, 1(4): 49-56.
 4. ^ Sven Lauge Koch (1892–1964), danskur jarðfræðingur, kortagerðarmaður og heimskautakönnuður, þekktastur fyrir kortlagningu Norður-Grænlands og skipulagningu alþjóðlegra jarðfræðirannsókna á Grænlandi.
 5. ^ Guðmundur Kjartansson o.fl. (1943). Árnesinga saga. Árnesingafélagið í Reykjavík.
 6. ^ Guðmundur Kjartansson o.fl. (1943). Árnesinga saga. Árnesingafélagið í Reykjavík.
 7. ^ Guðmundur Kjartansson. (1945). Íslenzkar vatnsfallategundir. Náttúrufræðingurinn, 15(3): 113-126.

Myndir:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

20.3.2024

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hver var Guðmundur Kjartansson og hvert var framlag hans til jarðfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2024. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=86329.

Sigurður Steinþórsson. (2024, 20. mars). Hver var Guðmundur Kjartansson og hvert var framlag hans til jarðfræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=86329

Sigurður Steinþórsson. „Hver var Guðmundur Kjartansson og hvert var framlag hans til jarðfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2024. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=86329>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Guðmundur Kjartansson og hvert var framlag hans til jarðfræðinnar?
Guðmundur Kjartansson (1909–1972)[1] var prestssonur, fæddur að Hruna í Hrunamannahreppi og ólst þar upp til 15 ára aldurs. Gagnfræðaprófi lauk hann frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði og stúdentsprófi frá MR 1929. Náttúrufræðikennari við MR var þá Guðmundur G. Bárðarson, áhuga- og áhrifamaður mikill um náttúruvísindi og kunnur að því að hvetja með ráðum og dáð unga menn sem áhuga höfðu á þeim sviðum[2] – mun hann hafa beint athygli síns unga nafna að jarðfræðinni. Vegna vanheilsu og fjárskorts frestaðist fyrirhuguð utanferð Guðmundar til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn þá um haustið, hann sneri sér að kennslu en innritaðist jafnframt í forspjallsvísindi við Háskóla Íslands og lauk prófi í þeim fræðum vorið 1930.

Fyrir áeggjan fyrrum náttúrfræðikennara síns hóf Guðmundur sumarið 1930 rannsóknir á Heklu og nágrenni með það í huga að kortleggja hraunin, upphaf þeirra og aldursröð. Þessum rannsóknum hélt hann áfram sumarið eftir; árangur Heklurannsóknanna birti hann svo í fyrsta árgangi Náttúrufræðingsins 1931.[3] Hekla átti eftir að koma við sögu síðar á ferli Guðmundar, hann var höfundur Árbókar Ferðafélags Íslands 1945 sem fjallar um Heklu, og reynsla hans frá undirbúningi Árbókarinnar kom sér vel við rannsóknir á Heklugosinu 1947–48; hann ritstýrði ásamt Sigurði Þórarinssyni og Trausta Einarssyni ritaflokki Vísindafélagsins um Heklugosið og skrifaði sjálfur tvö þeirra, annað um vatns- og eljuflóðin í upphafi gossins, hitt um CO2–útstreymi og breytingar á grunnvatnsstöðu af völdum gossins. Auk þess skrifaði hann um nokkra þætti gossins í Náttúrufræðinginn 1947 og 1948.

Guðmundur Kjartansson (1909-1972) var annar Íslendingurinn til þess að ljúka prófi í jarðfræði. Eftir hann liggja margar fræðigreinar um jarðfræði auk jarðfræðikorta.

Haustið 1931 sigldi Guðmundur loks og innritaðist í náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla með jarðfræði sem aðalnámsgrein. Þar sótti hann nám sitt, með hléum, til 1940 og tókst naumlega að ljúka prófum fyrir mag. scient.-gráðu í tæka tíð til að ná strandferðaskipinu Esju í Petsamó – síðustu ferð frá stríðsþjáðu meginlandi Evrópu til Íslands allt til stríðsloka 1945.

Á árunum 1934–1936 voru nokkrir íslenskir háskólanemar, þeirra á meðal Guðmundur Kjartansson, ásamt erlendum jarðfræðingum styrktir af Lauge Koch[4] til jarðfræðiathugana hér á landi. Guðmundur ferðaðist nokkuð um landið með tveimur hinna erlendu jarðfræðinga, Svisslendingnum R.A. Sonder og Norðmanninum T.W. Barth. Sonder fékkst einkum við athuganir á brotalínum og misgengjum sem og móbergsfjöllum, en um tilurð móbergsstapa hafði hann þá kenningu að þrýstingur að neðan hefði þrýst þeim um hringlaga sprungu upp yfir umhverfið líkt og tappa skotnum úr kampavínsflösku. Í þessum ferðum kynntist Guðmundur vel gerð móbergsfjalla og reyndist sú reynsla honum vel þegar hann fór sjálfur að rannsaka móbergsfjöll upp úr 1941 — og leiddi til þeirrar kenningar sem einna helst er tengd nafni hans: stapakenningar (1943) um myndun móbergsstapa og –hryggja í eldgosum undir jöklum ísaldar.[5] Hinn samferðarmaður Guðmundar þessi árin, Tom Barth, kannaði einkum jarðhita og bergfræði, og öðlaðist Guðmundur þar góða þekkingu á hvoru tveggja.

Þegar Guðmundur kom heim að loknu prófi 1940 var fyrir einn starfandi jarðfræðingur í landinu, Jóhannes Áskelsson kennari við Menntaskólann í Reykjavík. Ekki virtist starf við jarðfræðirannsóknir í boði og því þáði Guðmundur kennarastöðu við Flensborgarskóla í Hafnarfirði sem hann síðan sinnti alla vetur í 14 ár fyrir utan eitt vegna Heklugossins 1947-48. Rannsóknir sínar stundaði hann á sumrin, óstuddur af nokkurri „stofnun“ og kostaðar úr eigin vasa og af óvissum styrkjum. Hagir hans breyttust loks 1955 þegar hann var ráðinn að Náttúrugripasafninu til að gera jarðfræðikort af landinu í mælikvarða 1: 250.000, eftir það gat hann helgað sig jarðfræðirannsóknum einvörðungu.

Hekla, teikning eftir Guðmund Kjartansson sem fylgdi grein hans um Heklu og Hekluhraun í Náttúrufræðingunum 1931.

Prófritgerð Guðmundar til magisterprófs í Kaupmannahöfn hafði fjallað um jökulminjar og sjávarset frá ísaldarlokum á Suðurlandsundirlendi. Heimkominn sumarið 1941 tók hann þetta verkefni upp á ný sem hluta af undirbúningi ritgerðar um jarðsögu Árnessýslu í ritaröð sem Árnesingafélagið í Reykjavík hafði í undirbúningi.[6] Sú bók kom út 1943 og á 250 blaðsíðum fjallar höfundur um alla þætti jarðfræði og jarðsögu sýslunnar. Mest nýnæmi þótti sennilega stapakenningin fyrrnefnda en um ótal margt annað lærdómsríkt og áhugavert er þarna fjallað: helstu straumvötn sýslunnar, hraun og eldstöðvar, svo og gerð og sögu berggrunnsins. Sjávarset og jökulminjar frá ísaldarlokum kannaði hann nákvæmar en áður, ekki síst jökulgarðinn mikla sem liggur þvert yfir Suðurlandsundirlendið frá Efstadalsfjalli norðaustan við Laugarvatn, yfir Þjórsá við fossinn Búða og austur að Vatnsdalsfjalli fyrir ofan Fljótshlíð. Kuldakast það og framrás hins hopandi jökuls sem skapaði jökulgarðinn kenndi Guðmundur við fossinn Búða – Búðaskeið (yngra-Dryas) – og færði að því gild rök að þetta síðasta kuldakast stæði fyrir 10.000–11.000 árum; þetta hafa síðari rannsóknir staðfest.

Sumum þessara athugana fylgdi Guðmundur eftir síðar, ekki síst jökulminjum eins og jökulrákum sem hann leitaði að jafnt úti á ystu annnesjum og úteyjum sem á hæstu fjöllum. Á mörgum eyjum fann hann jökulrispur og á öllum annesjum nema á Langanesi utan Skoruvíkur. Þetta sýnir að jöklar hafa á síðasta jökulskeiði víðast hvar náð á haf út. Skortur á jökulrispum hátt til fjalla þarf hins vegar ekki að benda til jökulvana svæðis þar sem jurtir eða smádýr hefðu getað tórt af fimbulvetur ísaldarinnar því rispurnar hverfa fljótt vegna frostveðrunar. Meðal merkra greina Guðmundar um þessi efni í Náttúrufræðingnum eru „Fróðlegar jökulrákir“ (1955) og „Ísaldarlok og eldfjöll á Kili“ (1964).

Um fallvötn ritaði Guðmundur margt og ber fyrst að nefna greinina „Íslenzkar vatnsfallategundir“ [7] sem telst merkt tillag til vatnafræði landsins. Þá ritaði hann um einstakar ár, ýmsar eldstöðvar og hraun, þar með talið Tungnárhraunin sem Þjórsárhraunið mikla er hluti af.

Guðmundur Kjartansson er einna þekktastur fyrir stapakenninguna sem lýsir myndun móbergsfjalla við gos undir jökli. Herðubreið er einmitt slíkt fjall.

Sem fyrr sagði var Guðmundur Kjartansson ráðinn árið 1955 að Náttúrugripasafninu til að vinna jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:250.000 en ekkert slíkt kort var til af landinu nema kort Þorvalds Thoroddsen frá 1901. Kortablöðin áttu að vera níu og kom fyrsta blaðið (Suðvesturland) út 1960, næst Miðsuðurland (1962), Mið-Ísland (1965), Miðvesturland (1968) og loks Norðvesturland (1969). Jarðfræðikort af Miðnorðurlandi var sagt tilbúið til prentunar þegar Guðmundur veiktist haustið 1971 en fannst ekki þegar til átti að taka – enn eru ókomin í þessum flokki kortin Miðnorðurland og Austurland. Síðan þá hafa að sjálfsögðu komi út ýmis jarðfræðikort og sérkort í stærri og smærri mælikvörðum, sem og endurskoðuð kort Guðmundar Kjartanssonar. Hins vegar mun það næsta einstætt að einn maður skyldi afreka það að ganga frá frumgerð 5 jarðfræðikorta á 15 árum, en til þess nýtti hann að sjálfsögðu öll áður útgefin gögn auk þess sem þekking hans á landinu og jarðfræði þess var nánast einstök.

Á árunum 1947–61 kannaði Guðmundur jarðfræðilegar aðstæður á ýmsum hugsanlegum virkjunarstöðum og skrifaði ítarlegar skýrslur um fyrir Raforkumálaskrifstofuna. Þessi vinna nýttist honum einnig sem efni í sérstakar greinar og ekki síður við jarðfræðikortin yfir Mið-Ísland og Miðsuðurland.

Guðmundur var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1946 en kærast var honum Náttúrufræðifélagið, sat í stjórn þess 1948–64, þar af formaður 1959–64. Í formannstíð hans fjölgaði mjög í félaginu og má að hluta þakka það vinsælum árlegum þriggja-daga ferðum sem hann var frumkvöðull að og var sjálfur oft aðal-leiðsögumaður framan af. Ritstjóri Náttúrufræðingsins var hann árin 1947 og 48.

Á 40 ára starfsferli sínum kom jarðfræðingurinn Guðmundur Kjartansson víða við, sem kennari bæði í framhaldsskólum og í verkfræðideild Háskóla Íslands (1943–59), sem almenningsfræðari með fyrirlestrum, leiðsögn í ferðalögum og ótal greinum í Náttúrufræðingnum og víðar, en ekki síst sem vandaður vísindamaður. Á því sviði hófst ferillinn með kortlagningu Hekluhrauna 1930-31 og ritun Árbókar F.Í. um Heklu árið 1945 og loks rannsóknaþátttöku á Heklugosinu 1947-48. Í hinni miklu ritgerð sinni um jarðfræði og jarðsögu Árnessýslu í Árnesingabók 1943 tekur Guðmundur á mörgum greinum jarðfræðinnar, vatnafræði, eldfjallafræði, ísaldarjarðfræði (til dæmis jökulrispur, hvalbök, jökulgarðar og móbergsfjöll). Af mörgum nýjungum í bókinni var tilgátan um myndunarhætti móbergshryggja og –stapa, stapakenningin, merkust: við eldgos undir jökli hleðst fyrst upp bólstrabergssökkull, við hækkun gosopsins og lækkun vatnsþrýsting sundrast kvikan í glersalla (gosmöl) og loks, ef gosopið nær upp úr bræðsluvatninu, myndast hraunkollur á toppnum. Guðmundur lifði það að sjá kenningu sína staðfestast í Surtseyjargosinu 1964 – bólstraberg hefur að vísu ekki fundist þar, en er hins vegar ráðandi í eldgosum á meira dýpi í sjónum.

Síðasta brautryðjandaverk Guðmundar var að semja og teikna upp fimm jarðfræðikort (af níu fyrirhuguðum) á árunum 1955–69, byggt á samantekt allra fyrri gagna og eigin rannsóknum.

Tilvísanir:
 1. ^ Þorleifur Einarsson skrifaði ítarlega um Guðmund Kjartansson látinn í Náttúrufræðinginn 1973 (42. ár, 4. hefti). Greininni fylgir einnig ritaskrá Guðmundar. Eftirfarandi pistill er alfarið byggður á grein Þorleifs.
 2. ^ Steindór Steindórsson frá Hlöðum. „Guðmundur G. Bárðarson,“ bls. 323–339 í Íslenskir náttúrufræðingar 1600–1900. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1981.
 3. ^ Guðmundur Kjartansson. (1931). Frá Heklu og Hekluhraunum. Náttúrufræðingurinn, 1(4): 49-56.
 4. ^ Sven Lauge Koch (1892–1964), danskur jarðfræðingur, kortagerðarmaður og heimskautakönnuður, þekktastur fyrir kortlagningu Norður-Grænlands og skipulagningu alþjóðlegra jarðfræðirannsókna á Grænlandi.
 5. ^ Guðmundur Kjartansson o.fl. (1943). Árnesinga saga. Árnesingafélagið í Reykjavík.
 6. ^ Guðmundur Kjartansson o.fl. (1943). Árnesinga saga. Árnesingafélagið í Reykjavík.
 7. ^ Guðmundur Kjartansson. (1945). Íslenzkar vatnsfallategundir. Náttúrufræðingurinn, 15(3): 113-126.

Myndir:

...