Hvert er lagalegt gildi á bókun, t.d. í samanburði við stjórnarskrá, lög eða reglugerðir?Í lagamáli er hugtakið bókun meðal annars notað um svonefndan viðbótarsamning við þjóðréttarsamning.[1] Bókunin felur þá í sér nánari útfærslu á því sem fram kemur í þjóðréttarsamningnum.[2] Til að útskýra þetta nánar má nefna að bókanir við svonefndan EES-samning gagnast við túlkun á ákvæðum samningsins. Sumar bókanir fela í sér frekari útskýringu á því hvernig eigi að túlka tilteknar greinar í meginmáli samningsins og aðrar bókanir geta ákvarðað að einhver ríki séu undanþegin einhverjum ákvæðum samnings. Bókanir við EES-samninginn gegna þannig mikilvægu hlutverki í að tryggja að framkvæmd samningsins sé eins eða sambærileg á svæðinu þar sem hann gildir.[3] Þar sem spyrjandi spyr einnig um reglugerðir og lög, er það að segja að reglugerðir hafa í raun sömu stöðu og almenn lög sem sett eru á Alþingi. Þó má segja að reglugerðir séu skör lægri en lögin. Ef reglugerð stangast til dæmis á við lög þá gilda lögin. Enn fremur er ekki hægt að setja reglugerð um það sem þegar er kveðið á um með lögum. Um þetta er fjallað nánar í svari við spurningunni Geta reglugerðir stangast á við lög? Hvort gildir þá reglugerðin eða lögin? en þar segir:
Meginreglan um samspil reglugerða og laga er skýr; ef reglugerðin stangast á við lögin þá gilda lögin fram yfir reglugerðina. Ekki er heldur hægt að setja reglugerð um þá hluti sem nú þegar er kveðið á um með lögum og ekki má setja reglugerð um þá hluti sem skylt er að setja lög um.Um stjórnarskrána er síðan það helst að segja að hún er rétthærri en almenn lög og reglugerðir. Ef einhver ákvæði í almennum lögum stangast til að mynda á við það sem fram kemur í stjórnarskrá, hafa þau ekkert gildi. Um þetta má lesa meira í svari við spurningunni Hvað gerist ef Alþingi setur lög sem stangast á við stjórnarskrána? Tilvísanir:
- ^ Hugtakið þjóðréttarsamningur vísar til samnings sem bæði ríki og alþjóðastofnanir geta gert sín á milli. Samningurinn skapar bæði rétt og leggur skyldur á samningsaðila.
- ^ Sjá nánar í Íðorðabankanum: Málið.is. (Sótt 11.10.2024). Í lögfræði er hugtakið bókun líka notað um það sem skrásett í svonefnda færslubók, en hún getur verið gerðabók, þingbók eða dómabók. Hér er hins vegar ekki verið að spyrja um það.
- ^ Sjá meira um þetta í svari við spurninguni Hvað er átt við með bókunum og viðaukum í sambandi við EES-samninginn? (Sótt 12.02.2025).
- 13 Summer Programs for International Students — Inspirit AI. (Sótt 12.02.2025).