Af hverju notum við orðið „líkami“ á íslensku þegar flest þeirra tungumála sem íslenska er skyldust nota einhverja útgáfu af krop/körper/corpus? Hvað veldur því að hollenska orðið „lichaam“ verður ofan á í íslensku í stað hinna orðmyndanna?Orðið líkamur og veika myndin líkami þekkjast í íslensku þegar í fornu máli. Í Brennu-Njáls sögu segir t.d. frá leit að líkum Njáls og sona hans eftir brennuna á Bergþórshvoli:
Þar vísuðu heimamenn til, sem þeir Flosi höfðu heyrt vísuna kveðna, og var þar þekjan fallin að gaflaðinu, og þar mælti Hjalti, að til skyldi grafa. Síðan gerðu þeir svá og fundu þar líkama Skarphéðins… (ÍF 12: 343; stafsetningu breytt).Oddur Gottskálksson notaði sterku myndina líkamur í þýðingu sinni á Nýjatestamentinu 1540:
þeirra likamer munu liggia a stætum hinnar mycklu borgar. […] og þeirra likame munu nockrer […] sia i þria daga.en Hallgrímur Pétursson þá veiku í Passíusálmunum (Ritmálssafn Orðabókar Háskólans):
salinn er so sem ad lane / samteingd vid lijkamann.Sterka myndin er nánast horfin og merkir Ásgeir Blöndal Magnússon hana með krossi í Íslenskri orðsifjabók sem þýðir ‘fornt mál, forn mynd, gamalt mál’. Hann segir orðið líkamur/líkami sett saman af lík og hamur, ‘eiginl. hamur holds eða sköpulags’. Orðið er samgermanskt. Íslensk orðsifjabók rekur tengsl við önnur skyld mál á þennan hátt: líkami, líkam(u)r k. ‘kroppur, skrokkur; †hold’; sbr. færeysku likam, likamur, nýnorsku likam, (lekom), fornsænsku likami, dönsku legeme, fornensku lichama, fornsaxnesku likhamo, fornháþýsku lichamo, lichinamo, nútímaþýsku Leichnam. Öll hafa þessi germönsku mál þróast hvert á sinn hátt, sum meira en önnur, orðið breytt um merkingu, ný orð komið í staðinn. Líkami hefur því ekki þróast sérstaklega úr hollensku. Í íslensku er vissulega líka til orðið kroppur ‘líkami; kindarskrokkur’ sem einnig er samgermanskt. Dæmi eru um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans frá því snemma á 17. öld. Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1969. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- ÍF 12: Brennu-Njáls saga. Íslenzk fornrit. XII. bindi. 1954. Einar Ólafur Sveinsson gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Yfirlitsmynd: Körperwelten - Wiener Stadthalle 01-2020 (41) - Body Worlds … - Flickr. (Sótt 4.07.2025). Myndina tók Armin Rodler og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-NonCommercial 2.0 Generic - Creative Commons.
Hér er einnig svarað spurningunum:
- Hver er uppruni orðsins „líkami“?
- Hvað getið þið sagt mér um sifjar orðsins „líkami“? Er það samsett og hvað merkir þá „lík“ nákvæmlega í þessu sambandi?