Um „bábiljur eða blákaldar staðreyndir“ - er það rétt að borða gulrætur getur læknað mann af náttblindu?Það er vel þekkt mýta að gulrótarát geti bætt nætursjón fólks. Að hluta til er þetta rétt, skortur á A-vítamíni getur leitt til náttblindu og með því að neyta gulróta sem eru góð uppspretta A-vítamíns, má vinna gegn því ástandi.[1] Hjá heilbrigðu fólk sem ekki skortir tiltekið vítamín hefur mikið gulrótarát þó engin áhrif á sjón fólks. Mýtuna um gulrætur og góða nætursjón má rekja til Bretlands á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Þjóðverjar gerðu miklar lofárásir á Bretland veturinn 1940-1941, oft í skjóli nætur. Bretar gerðu sitt besta til að verjast þeim, borgir voru myrkvaðar og flugvélar sendar á loft til að mæta þeim þýsku. Bretar höfðu verið að þróa ratsjá í flugvélar til þess að auðvelda flugmönnum sínum að miða út og skjóta á þýsku vélarnar. Þessu vildu þeir þó fyrir alla muni halda leyndu. Stjórnvöld gáfu því þá skýringu á færni bresku flugmannanna við að skjóta niður þýskar vélar, að hana mætti rekja til þess að þeir borðuðu mikið af gulrótum sem gerði nætursjón þeirra sérstaklega góða. Fyrsti flugmaðurinn til þess að skjóta niður þýska vél með aðstoð þessarar nýju tækni var John Cunningham. Hann fékk viðurnefnið „Cat's Eyes“ og var þá verið að vísa til hinnar meintu góðu nætursjónar sem hann átti að hafa öðlast með gulrótaráti.

Veggspjald frá breska matvælaráðuneytinu (e. Ministry of Food) þar sem hollustu gulróta er haldið á lofti og þær sagðar geta hjálpað fólki að sjá í myrkri.

Teiknimyndafígúran Doctor Carrot hvatti börn jafnt sem fullorðna til að borða gulrætur.
- ^ Sjá: Þórdís Kristinsdóttir. (2011, 1. júlí). Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58830
- Do carrots help improve night vision? Westside Eye Clinic. https://www.westsideeyeclinic.com.au/carrots-vitamin-a-night-vision/
- Do you remember Doctor Carrot and Potato Pete? Amgueddfa Cymru. https://museum.wales/articles/1079/Do-you-remember-Doctor-Carrot-and-Potato-Pete/
- Maron, D. F. (2014, 23. júní). Fact or Fiction?: Carrots Improve Your Vision. Scientific American. https://www.scientificamerican.com/article/fact-or-fiction-carrots-improve-your-vision/
- Smith, A. (2025, 2 apríl). Carrots Can't Help You See in the Dark. Here's How a World War II Propaganda Campaign Popularized the Myth. Smithsonian Magazine. https://www.smithsonianmag.com/history/carrots-cant-help-you-see-in-the-dark-heres-how-world-war-ii-propaganda-campaign-popularized-the-myth-28812484/
- What You Need To Know About Rationing In The Second World War. Imperial War Museums. https://www.iwm.org.uk/history/what-you-need-to-know-about-rationing-in-the-second-world-war
- Needpix.com. https://www.needpix.com/photo/227963/the-carrot-carrots-bunch-orange-vegetable
- Carrots Keep You Healthy and Help You to See in the Blackout. Art.IWM PST 6015. Imperial War Museums. https://www.iwm.org.uk/collections/item/object/28582
- Doctor Carrot - the Children's Best Friend. Art.IWM PST 8105. Imperial War Museums. https://www.iwm.org.uk/collections/item/object/29038