Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:11 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 07:22 • Sest 21:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:05 • Síðdegis: 19:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:02 • Síðdegis: 13:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:11 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 07:22 • Sest 21:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:05 • Síðdegis: 19:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:02 • Síðdegis: 13:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan kemur sú trú að við sjáum betur í myrkri ef við borðum gulrætur?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Um „bábiljur eða blákaldar staðreyndir“ - er það rétt að borða gulrætur getur læknað mann af náttblindu?

Það er vel þekkt mýta að gulrótarát geti bætt nætursjón fólks. Að hluta til er þetta rétt, skortur á A-vítamíni getur leitt til náttblindu og með því að neyta gulróta sem eru góð uppspretta A-vítamíns, má vinna gegn því ástandi.[1] Hjá heilbrigðu fólk sem ekki skortir tiltekið vítamín hefur mikið gulrótarát þó engin áhrif á sjón fólks.

Mýtuna um gulrætur og góða nætursjón má rekja til Bretlands á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Þjóðverjar gerðu miklar lofárásir á Bretland veturinn 1940-1941, oft í skjóli nætur. Bretar gerðu sitt besta til að verjast þeim, borgir voru myrkvaðar og flugvélar sendar á loft til að mæta þeim þýsku. Bretar höfðu verið að þróa ratsjá í flugvélar til þess að auðvelda flugmönnum sínum að miða út og skjóta á þýsku vélarnar. Þessu vildu þeir þó fyrir alla muni halda leyndu. Stjórnvöld gáfu því þá skýringu á færni bresku flugmannanna við að skjóta niður þýskar vélar, að hana mætti rekja til þess að þeir borðuðu mikið af gulrótum sem gerði nætursjón þeirra sérstaklega góða. Fyrsti flugmaðurinn til þess að skjóta niður þýska vél með aðstoð þessarar nýju tækni var John Cunningham. Hann fékk viðurnefnið „Cat's Eyes“ og var þá verið að vísa til hinnar meintu góðu nætursjónar sem hann átti að hafa öðlast með gulrótaráti.

Veggspjald frá breska matvælaráðuneytinu (e. Ministry of Food) þar sem hollustu gulróta er haldið á lofti og þær sagðar geta hjálpað fólki að sjá í myrkri.

Á stríðárunum voru ýmis matvæli skömmtuð, til að mynda sykur, kjöt, beikon, smjör og ostur. Ávextir og grænmeti voru hins vegar ekki skömmtuð þótt oft væri lítið til af tómötum, lauk og innfluttum ávöxtum. Stjórnvöld ráku áróður fyrir því að fólk ræktaði grænmeti á þessum tímum matarskorts og buðu meðal annars almenningsgarða til þess. Slagorðið var „Dig For Victory“ eða „grafðu til sigurs“.

Meðal þess sem fólk var hvatt til að rækta og borða voru gulrætur, enda einfaldar í ræktun og ódýr matur. Óspart var vísað til þess hversu góðar þær væru fyrir sjónina. Meðal annars voru gerð veggspjöld þar sem því var haldið fram að neysla gulróta hjálpaði fólki að sjá betur þegar tekið væri að rökkva. Ennfremur voru teiknimyndafígúrurnar Doctor Carrot og Potato Pete notaðar til að hvetja almenning til neyslu grænmetis í dagblaðaauglýsingum og á veggspjöldum. Uppskriftir af alls kyns réttum þar sem gulrætur komu við sögu voru kynntar í útvarpi, meðal annars gulrótarkökur, gulrótarmarmelaði, gulrótarbúðingur, gulrótarflan, gulrótardrykkir og gulrótar„fudge“.

Það er því óhætt að segja það hafi hentað breskum stjórnvöldum vel að tengja saman gulrætur og bætta nætursjón. Annars vegar mátti nota það sem skýringu á því hvernig flugmönnum þeirra tókst að hæfa þýskar flugvélar í myrkri án þess að segja frá nýju ratsjánni og hins vegar til þess að hvetja almenning til þess að rækta og borða grænmeti á tímum matarskömmtunar og myrkvaðra borga.

Teiknimyndafígúran Doctor Carrot hvatti börn jafnt sem fullorðna til að borða gulrætur.

Í lok þessa svars er þó rétt hnykkja á staðreyndum málsins: A-vítamín er nauðsynlegt fyrir augun og getur unnið gegn náttblindu. Hins vegar fáum við ekki neina ofurnætursjón ef við borðum mikið af gulrótum. Ástæðan er sú að umfram skammtur af vítamíninu eykur ekki við það sem þegar er í lagi. Um þetta má lesa meira í svarið við spurningunni Er það rétt að gulrætur geti læknað mann af náttblindu?

Tilvísun:
  1. ^ Sjá: Þórdís Kristinsdóttir. (2011, 1. júlí). Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58830

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

22.8.2025

Spyrjandi

Örn

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaðan kemur sú trú að við sjáum betur í myrkri ef við borðum gulrætur?“ Vísindavefurinn, 22. ágúst 2025, sótt 24. ágúst 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87979.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2025, 22. ágúst). Hvaðan kemur sú trú að við sjáum betur í myrkri ef við borðum gulrætur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87979

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaðan kemur sú trú að við sjáum betur í myrkri ef við borðum gulrætur?“ Vísindavefurinn. 22. ágú. 2025. Vefsíða. 24. ágú. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87979>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan kemur sú trú að við sjáum betur í myrkri ef við borðum gulrætur?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Um „bábiljur eða blákaldar staðreyndir“ - er það rétt að borða gulrætur getur læknað mann af náttblindu?

Það er vel þekkt mýta að gulrótarát geti bætt nætursjón fólks. Að hluta til er þetta rétt, skortur á A-vítamíni getur leitt til náttblindu og með því að neyta gulróta sem eru góð uppspretta A-vítamíns, má vinna gegn því ástandi.[1] Hjá heilbrigðu fólk sem ekki skortir tiltekið vítamín hefur mikið gulrótarát þó engin áhrif á sjón fólks.

Mýtuna um gulrætur og góða nætursjón má rekja til Bretlands á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Þjóðverjar gerðu miklar lofárásir á Bretland veturinn 1940-1941, oft í skjóli nætur. Bretar gerðu sitt besta til að verjast þeim, borgir voru myrkvaðar og flugvélar sendar á loft til að mæta þeim þýsku. Bretar höfðu verið að þróa ratsjá í flugvélar til þess að auðvelda flugmönnum sínum að miða út og skjóta á þýsku vélarnar. Þessu vildu þeir þó fyrir alla muni halda leyndu. Stjórnvöld gáfu því þá skýringu á færni bresku flugmannanna við að skjóta niður þýskar vélar, að hana mætti rekja til þess að þeir borðuðu mikið af gulrótum sem gerði nætursjón þeirra sérstaklega góða. Fyrsti flugmaðurinn til þess að skjóta niður þýska vél með aðstoð þessarar nýju tækni var John Cunningham. Hann fékk viðurnefnið „Cat's Eyes“ og var þá verið að vísa til hinnar meintu góðu nætursjónar sem hann átti að hafa öðlast með gulrótaráti.

Veggspjald frá breska matvælaráðuneytinu (e. Ministry of Food) þar sem hollustu gulróta er haldið á lofti og þær sagðar geta hjálpað fólki að sjá í myrkri.

Á stríðárunum voru ýmis matvæli skömmtuð, til að mynda sykur, kjöt, beikon, smjör og ostur. Ávextir og grænmeti voru hins vegar ekki skömmtuð þótt oft væri lítið til af tómötum, lauk og innfluttum ávöxtum. Stjórnvöld ráku áróður fyrir því að fólk ræktaði grænmeti á þessum tímum matarskorts og buðu meðal annars almenningsgarða til þess. Slagorðið var „Dig For Victory“ eða „grafðu til sigurs“.

Meðal þess sem fólk var hvatt til að rækta og borða voru gulrætur, enda einfaldar í ræktun og ódýr matur. Óspart var vísað til þess hversu góðar þær væru fyrir sjónina. Meðal annars voru gerð veggspjöld þar sem því var haldið fram að neysla gulróta hjálpaði fólki að sjá betur þegar tekið væri að rökkva. Ennfremur voru teiknimyndafígúrurnar Doctor Carrot og Potato Pete notaðar til að hvetja almenning til neyslu grænmetis í dagblaðaauglýsingum og á veggspjöldum. Uppskriftir af alls kyns réttum þar sem gulrætur komu við sögu voru kynntar í útvarpi, meðal annars gulrótarkökur, gulrótarmarmelaði, gulrótarbúðingur, gulrótarflan, gulrótardrykkir og gulrótar„fudge“.

Það er því óhætt að segja það hafi hentað breskum stjórnvöldum vel að tengja saman gulrætur og bætta nætursjón. Annars vegar mátti nota það sem skýringu á því hvernig flugmönnum þeirra tókst að hæfa þýskar flugvélar í myrkri án þess að segja frá nýju ratsjánni og hins vegar til þess að hvetja almenning til þess að rækta og borða grænmeti á tímum matarskömmtunar og myrkvaðra borga.

Teiknimyndafígúran Doctor Carrot hvatti börn jafnt sem fullorðna til að borða gulrætur.

Í lok þessa svars er þó rétt hnykkja á staðreyndum málsins: A-vítamín er nauðsynlegt fyrir augun og getur unnið gegn náttblindu. Hins vegar fáum við ekki neina ofurnætursjón ef við borðum mikið af gulrótum. Ástæðan er sú að umfram skammtur af vítamíninu eykur ekki við það sem þegar er í lagi. Um þetta má lesa meira í svarið við spurningunni Er það rétt að gulrætur geti læknað mann af náttblindu?

Tilvísun:
  1. ^ Sjá: Þórdís Kristinsdóttir. (2011, 1. júlí). Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58830

Heimildir og myndir:...