Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvenær var fyrsti bangsinn framleiddur?

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

Bangsinn er leikfang barna og ekki er hægt að svara með fullri vissu hvaða leikföng börn hafi haft á öllum tímum hvar í heiminum sem er. Leikföng á borð við gæludýr eru menningarbundin og lýsa ríkjandi viðhorfum til umhverfisins. Þannig hygg ég að almennt hafi eftirlíking rándýra sem gátu verið manninum hættuleg, eins og björninn óneitanlega var, ekki þótt heppileg leikföng fyrir börn á öldum áður. Eftir að byssu- og veiðitækni mannsins batnaði, varð vopnaður maður hins vegar margfalt hættulegri rándýrunum en rándýrin manninum. Þrátt fyrir þessi breyttu valdahlutföll rándýra og manna breyttist afstaða mannsins til rándýranna lengi vel lítið, þau voru miskunnarlaust veidd og var mörgum útrýmt víða.

Það er eiginlega ekki fyrr en á 20. öldinni að menn fara að gera sér grein fyrir því að þessi gamla og á sínum tíma skiljanlega afstaða til rándýra var orðin skaðleg og raunar ómannúðleg; síðast en ekki síst ógnaði hún fjölbreytni dýraríkisins. Farið var að friða rándýr og eru þau nú flest friðuð, til dæmis öll bjarndýr. Þessi nýja afstaða getur þó einnig gengið út í öfgar, samanber söguna af sænsku pólförunum sem nú í vor hittu soltinn ísbjörn á förnum vegi; ísbjörninn sá hér eðlilega vænlega máltíð í vændum enda eru ísbirnir sennilega eina rándýrið sem aldrei hefur öðlast arfborna reynslu af manninum hættulega. Svíarnir neyddust til að skjóta ísbjörninn lífi sínu til bjargar. Þetta olli miklu fjarðafoki heima í Svíþjóð og skoðanakönnun leiddi í ljós að meirihluti Svía vildi láta lögsækja pólfarana fyrir ísbjarnardrápið. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um ruglinginn í umræðunni. Menn áður fyrr óttuðust öll rándýr; nú á að telja rándýr gæludýr og bestu vini mannsins. Hvalavinir brjótast að næturþeli inn í höfrungabúr í bandarískum dýragörðum til að ræða við þessi hágáfuðu dýr og finnast yfirleitt dauðir að morgni.

En þetta var útúrdúr þó að hann veki kannski til umhugsunar. Spurt er um bangsann. Afstaða til bjarndýra, einkum bjarndýrsunga, breyttist stórlega í upphafi þessarar aldar. Þá var uppi maður að nafni Theodore Roosevelt (1858-1919) sem var forseti Bandaríkjanna 1901-1909. Theódór þessi var meðal annars frægur veiðimaður og fór í sérstakar ferðir til Afríku til að skjóta þar ljón 1911 og 1913. Hann sérhæfði sig sem sagt í rándýradrápum og skaut margan björninn í Norður-Ameríku. Hann var frægur og sérstæður persónuleiki og slúðurfréttamenn þess tíma eltu hann hvert fótmál, honum til ánægju. Eitt sinn stóð hann frammi fyrir bjarndýrsunga, miðaði á hann byssu næstum því af eðlishvöt en horfði um leið í stór og óttaslegin augu ungans. Hann lagði byssuna til hliðar og sagði: „Látum bjarndýrsungann í friði.“ Af því að maðurinn var stórtækur beitti hann sér fyrir því að friðun bjarndýrsunga gilti um fleiri veiðimenn en sig.

Fréttamenn komu sögunni um bjarndýrsungann fyrir á forsíðum blaða og nú var þessi gamli skotmaður bjarndýra orðinn sérstakur verndari þeirra. Bjarndýrsungar hlutu nafnið „Teddy bears“, en Teddy var gælunafn Theódórs Roosevelts. Ekki leið á löngu uns leikfangaframleiðendur fóru að búa til eftirlíkingar af „Teddy bears“. Þessi leikföng urðu fljótt afar vinsæl, svo vinsæl að nafnið yfirfærðist á þessar nýju tuskudúkkur. Dúkkur í líki bjarnarunga höfðu þann kost að vera ókynbundnar og nú gátu litlir drengir líka fengið dúkkur til að hafa hjá sér í rúminu um nætur. Vinsældir bangsans eins og „Teddy bear“ heitir á íslensku urðu miklar og ekki er séð fyrir endann á þeim vinsældum enn þá.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • HB

Höfundur

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

12.9.2000

Spyrjandi

Einar Aðalsteinsson

Tilvísun

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvenær var fyrsti bangsinn framleiddur?“ Vísindavefurinn, 12. september 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=896.

Gísli Gunnarsson (1938-2020). (2000, 12. september). Hvenær var fyrsti bangsinn framleiddur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=896

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvenær var fyrsti bangsinn framleiddur?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=896>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var fyrsti bangsinn framleiddur?
Bangsinn er leikfang barna og ekki er hægt að svara með fullri vissu hvaða leikföng börn hafi haft á öllum tímum hvar í heiminum sem er. Leikföng á borð við gæludýr eru menningarbundin og lýsa ríkjandi viðhorfum til umhverfisins. Þannig hygg ég að almennt hafi eftirlíking rándýra sem gátu verið manninum hættuleg, eins og björninn óneitanlega var, ekki þótt heppileg leikföng fyrir börn á öldum áður. Eftir að byssu- og veiðitækni mannsins batnaði, varð vopnaður maður hins vegar margfalt hættulegri rándýrunum en rándýrin manninum. Þrátt fyrir þessi breyttu valdahlutföll rándýra og manna breyttist afstaða mannsins til rándýranna lengi vel lítið, þau voru miskunnarlaust veidd og var mörgum útrýmt víða.

Það er eiginlega ekki fyrr en á 20. öldinni að menn fara að gera sér grein fyrir því að þessi gamla og á sínum tíma skiljanlega afstaða til rándýra var orðin skaðleg og raunar ómannúðleg; síðast en ekki síst ógnaði hún fjölbreytni dýraríkisins. Farið var að friða rándýr og eru þau nú flest friðuð, til dæmis öll bjarndýr. Þessi nýja afstaða getur þó einnig gengið út í öfgar, samanber söguna af sænsku pólförunum sem nú í vor hittu soltinn ísbjörn á förnum vegi; ísbjörninn sá hér eðlilega vænlega máltíð í vændum enda eru ísbirnir sennilega eina rándýrið sem aldrei hefur öðlast arfborna reynslu af manninum hættulega. Svíarnir neyddust til að skjóta ísbjörninn lífi sínu til bjargar. Þetta olli miklu fjarðafoki heima í Svíþjóð og skoðanakönnun leiddi í ljós að meirihluti Svía vildi láta lögsækja pólfarana fyrir ísbjarnardrápið. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um ruglinginn í umræðunni. Menn áður fyrr óttuðust öll rándýr; nú á að telja rándýr gæludýr og bestu vini mannsins. Hvalavinir brjótast að næturþeli inn í höfrungabúr í bandarískum dýragörðum til að ræða við þessi hágáfuðu dýr og finnast yfirleitt dauðir að morgni.

En þetta var útúrdúr þó að hann veki kannski til umhugsunar. Spurt er um bangsann. Afstaða til bjarndýra, einkum bjarndýrsunga, breyttist stórlega í upphafi þessarar aldar. Þá var uppi maður að nafni Theodore Roosevelt (1858-1919) sem var forseti Bandaríkjanna 1901-1909. Theódór þessi var meðal annars frægur veiðimaður og fór í sérstakar ferðir til Afríku til að skjóta þar ljón 1911 og 1913. Hann sérhæfði sig sem sagt í rándýradrápum og skaut margan björninn í Norður-Ameríku. Hann var frægur og sérstæður persónuleiki og slúðurfréttamenn þess tíma eltu hann hvert fótmál, honum til ánægju. Eitt sinn stóð hann frammi fyrir bjarndýrsunga, miðaði á hann byssu næstum því af eðlishvöt en horfði um leið í stór og óttaslegin augu ungans. Hann lagði byssuna til hliðar og sagði: „Látum bjarndýrsungann í friði.“ Af því að maðurinn var stórtækur beitti hann sér fyrir því að friðun bjarndýrsunga gilti um fleiri veiðimenn en sig.

Fréttamenn komu sögunni um bjarndýrsungann fyrir á forsíðum blaða og nú var þessi gamli skotmaður bjarndýra orðinn sérstakur verndari þeirra. Bjarndýrsungar hlutu nafnið „Teddy bears“, en Teddy var gælunafn Theódórs Roosevelts. Ekki leið á löngu uns leikfangaframleiðendur fóru að búa til eftirlíkingar af „Teddy bears“. Þessi leikföng urðu fljótt afar vinsæl, svo vinsæl að nafnið yfirfærðist á þessar nýju tuskudúkkur. Dúkkur í líki bjarnarunga höfðu þann kost að vera ókynbundnar og nú gátu litlir drengir líka fengið dúkkur til að hafa hjá sér í rúminu um nætur. Vinsældir bangsans eins og „Teddy bear“ heitir á íslensku urðu miklar og ekki er séð fyrir endann á þeim vinsældum enn þá.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • HB
...