Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hver var aðdragandi eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli árið 2010?

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson

Í árslok 2009 tók land að rísa við Eyjafjallajökul og í kjölfarið jókst jarðskjálftavirkni verulega. Í lok febrúar færðist landris í aukana, og í byrjun mars margfaldaðist jarðskjálftavirknin. Almannavarnir, í samstarfi við vísindamenn, ákváðu þá að setja á lægsta stig viðvörunar vegna hættu á eldgosi í Eyjafjallajökli. Sýslumaður Rangæinga hélt fundi með íbúum fyrri hluta marsmánaðar þar sem farið var yfir rýmingaráætlanir ef gos yrði í Eyjafjallajökli eða Kötlu. Þessar áætlanir voru samkvæmt hættumati vegna eldgosa og hlaupa frá árinu 2005. Þær miða að því að íbúar á hættusvæði vegna hugsanlegra jökulhlaupa frá eldgosi í Eyjafjallajökli eða Kötlu rými hús sín og fari í öruggt skjól. Sé búist við gosi í Eyjafjallajökli þarf að forða fólki og búfénaði frá mörgum býlum undir Eyjafjöllum, öllum Landeyjum og hluta Fljótshlíðar. Þrívegis þurfti að grípa til þess í umbrotunum vegna hættu á jökulhlaupum. Sem betur fer reyndist ekkert þeirra svo stórt að það næði að brjótast yfir varnargarða sem halda Markarfljóti í farvegi sínum.

Horft til suðurs yfir Eyjafjallajökul og ísilagt Gígjökulslón fyrir gos 7. apríl 2010. Askjan í tindi jökulsins er því sem næst barmafull af ís. Úr henni skríður Gígjökull niður í lón sem jökulgarðar halda uppi. Viku eftir að gosið í Eyjafjallajökli hófst, fylltist lónið af gosefnum í jökulhlaupum.

Langur aðdragandi var að gosunum árið 2010 og segja má að hann hafi í raun verið 18 ára tímabil umbrota í innviðum eldstöðvarinnar.1 Það hófst með aukinni jarðskjálftavirkni 1992. Fram að þeim tíma höfðu aðeins fáir jarðskjálftar mælst undir jöklinum frá því að jarðskjálftamælakerfið á Suðurlandi var aukið og næmari skjálftanemum komið fyrir eftir 1970. Víðfeðm kvikuinnskot í rætur eldstöðvarinnar 1994 og 1999 voru meginþættir í þeirri atburðarás. Virknin tók sig upp aftur árið 2009, en þá um sumarið varð vart aukinnar skjálftavirkni, og eins mældist lítilsháttar frávik sem tengja mátti við kvikuhreyfingar (um fimmtán millimetrar) í tilfærslu á GPS-mælistöð Veðurstofu Íslands við Þorvaldseyri.

Hlé varð á þessari virkni þar til í ársbyrjun 2010, en þá bætti verulega í. Nú var ljóst að nýtt tímabil mikilla breytinga var hafið og bergkvika að troða sér undir austurhluta Eyjafjallajökuls. Vöktun á jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum var aukin. Að kvöldi 3. mars ágerðist skjálftavirknin og fleiri en 1000 jarðskjálftar voru skráðir daglega næstu daga, en síðan dró aftur úr virkninni. Jarðskorpuhreyfingar jukust og mældust nú um fimm millimetrar á sólarhring á mælistöð við Steinsholt norðan jökulsins.

Eyjafjallajökull að gosi loknu, 17. júní 2010. Sama sjónarhorn og á efri mynd. Jökullinn og fjallshlíðarnar eru þaktar ösku nema blásporðurinn á Gígjökli, þar sem askan hefur skolast af. Hvítir gufubólstrar gægjast upp úr gígnum þar sem nú er volgt gígvatn. Í rásinni niður með Gígjökli að vestanverðu (hægra megin) sér í hraunið. Lónið sem var framan við Gígjökul er horfið og lónstæðið fullt af aur frá jökulhlaupum og bræðsluvatni úr jöklinum, þegar töluvert grafið af vatni.

Bylgjuvíxlmælingar með gervitunglum (InSAR-mælingar) gáfu góða mynd af færslusviði jarðskorpunnar. Þann 15. mars jókst skjálftavirkni aftur og náði hámarki daginn eftir, en rénaði svo á ný, þótt alltaf mældust skjálftar. Þegar þarna var komið við sögu, var kvika farin að þröngva sér í átt að yfirborði. Lesa má sögu þessara atburða neðanjarðar úr þróun jarðskjálftavirkni og aflögun á yfirborði af völdum þeirra. Þann 20. mars dró svo til tíðinda, án þess að vart yrði mikilla breytinga á fjölda jarðskjálfta, en hraði jarðskorpuhreyfinga hafði aukist lítillega dagana á undan. Gos á norðanverðum Fimmvörðuhálsi var hafið en það var lítið flæðigos sem stóð í 23 daga. Hlé varð í hálfan annan sólarhring, en 14. apríl hófst sprengigos í toppöskju Eyjafjallajökuls. Lesa má meira um eldgosið í Eyjafjallajökli í svari sömu höfunda við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010?

Tilvísanir:

1 Dahm, T. og Bryndís Brandsdóttir, 1997. Moment tensors of microearthquakes from the Eyjafjallajökull volcano in South Iceland. Geophysical Journal International, 130, 183-192.

Erik Sturkell og fleiri, 2003a. Recent unrest and magma movements at Eyjafjallajökull and Katla volcanoes, Iceland. Journal of Geophysical Research, 108, 2369, doi:10.1029/2001JB000917.

Rikke Pedersen og Freysteinn Sigmundsson, 2004. InSAR based sill model links spatially offset areas of deformation and seismicity for the 1994 unrest episode at Eyjafjallajökull volcano, Iceland. Geophysical Research Letters, 31, L14610; doi:10.1029/2004GL020368.

Rikke Pedersen og Freysteinn Sigmundsson, 2006. Temporal development of the 1999 intrusive episode in the Eyjafjallajökull volcano, Iceland, derived from InSAR images. Bulletin of Volcanology, 68, 377-393.


Þetta er aðeins hluti úr kaflanum Eldur í Eyjafjallajökli 2010 í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 299 og bls. 311.

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Freysteinn Sigmundsson

Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskólans

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

jarðeðlisfræðingur

jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Halldór Björnsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

13.6.2013

Spyrjandi

Ragnar Þorri Vignisson, Þormar Leví Magnússon

Tilvísun

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson. „Hver var aðdragandi eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli árið 2010?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2013. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59174.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson. (2013, 13. júní). Hver var aðdragandi eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli árið 2010? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59174

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson. „Hver var aðdragandi eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli árið 2010?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2013. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59174>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var aðdragandi eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli árið 2010?
Í árslok 2009 tók land að rísa við Eyjafjallajökul og í kjölfarið jókst jarðskjálftavirkni verulega. Í lok febrúar færðist landris í aukana, og í byrjun mars margfaldaðist jarðskjálftavirknin. Almannavarnir, í samstarfi við vísindamenn, ákváðu þá að setja á lægsta stig viðvörunar vegna hættu á eldgosi í Eyjafjallajökli. Sýslumaður Rangæinga hélt fundi með íbúum fyrri hluta marsmánaðar þar sem farið var yfir rýmingaráætlanir ef gos yrði í Eyjafjallajökli eða Kötlu. Þessar áætlanir voru samkvæmt hættumati vegna eldgosa og hlaupa frá árinu 2005. Þær miða að því að íbúar á hættusvæði vegna hugsanlegra jökulhlaupa frá eldgosi í Eyjafjallajökli eða Kötlu rými hús sín og fari í öruggt skjól. Sé búist við gosi í Eyjafjallajökli þarf að forða fólki og búfénaði frá mörgum býlum undir Eyjafjöllum, öllum Landeyjum og hluta Fljótshlíðar. Þrívegis þurfti að grípa til þess í umbrotunum vegna hættu á jökulhlaupum. Sem betur fer reyndist ekkert þeirra svo stórt að það næði að brjótast yfir varnargarða sem halda Markarfljóti í farvegi sínum.

Horft til suðurs yfir Eyjafjallajökul og ísilagt Gígjökulslón fyrir gos 7. apríl 2010. Askjan í tindi jökulsins er því sem næst barmafull af ís. Úr henni skríður Gígjökull niður í lón sem jökulgarðar halda uppi. Viku eftir að gosið í Eyjafjallajökli hófst, fylltist lónið af gosefnum í jökulhlaupum.

Langur aðdragandi var að gosunum árið 2010 og segja má að hann hafi í raun verið 18 ára tímabil umbrota í innviðum eldstöðvarinnar.1 Það hófst með aukinni jarðskjálftavirkni 1992. Fram að þeim tíma höfðu aðeins fáir jarðskjálftar mælst undir jöklinum frá því að jarðskjálftamælakerfið á Suðurlandi var aukið og næmari skjálftanemum komið fyrir eftir 1970. Víðfeðm kvikuinnskot í rætur eldstöðvarinnar 1994 og 1999 voru meginþættir í þeirri atburðarás. Virknin tók sig upp aftur árið 2009, en þá um sumarið varð vart aukinnar skjálftavirkni, og eins mældist lítilsháttar frávik sem tengja mátti við kvikuhreyfingar (um fimmtán millimetrar) í tilfærslu á GPS-mælistöð Veðurstofu Íslands við Þorvaldseyri.

Hlé varð á þessari virkni þar til í ársbyrjun 2010, en þá bætti verulega í. Nú var ljóst að nýtt tímabil mikilla breytinga var hafið og bergkvika að troða sér undir austurhluta Eyjafjallajökuls. Vöktun á jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum var aukin. Að kvöldi 3. mars ágerðist skjálftavirknin og fleiri en 1000 jarðskjálftar voru skráðir daglega næstu daga, en síðan dró aftur úr virkninni. Jarðskorpuhreyfingar jukust og mældust nú um fimm millimetrar á sólarhring á mælistöð við Steinsholt norðan jökulsins.

Eyjafjallajökull að gosi loknu, 17. júní 2010. Sama sjónarhorn og á efri mynd. Jökullinn og fjallshlíðarnar eru þaktar ösku nema blásporðurinn á Gígjökli, þar sem askan hefur skolast af. Hvítir gufubólstrar gægjast upp úr gígnum þar sem nú er volgt gígvatn. Í rásinni niður með Gígjökli að vestanverðu (hægra megin) sér í hraunið. Lónið sem var framan við Gígjökul er horfið og lónstæðið fullt af aur frá jökulhlaupum og bræðsluvatni úr jöklinum, þegar töluvert grafið af vatni.

Bylgjuvíxlmælingar með gervitunglum (InSAR-mælingar) gáfu góða mynd af færslusviði jarðskorpunnar. Þann 15. mars jókst skjálftavirkni aftur og náði hámarki daginn eftir, en rénaði svo á ný, þótt alltaf mældust skjálftar. Þegar þarna var komið við sögu, var kvika farin að þröngva sér í átt að yfirborði. Lesa má sögu þessara atburða neðanjarðar úr þróun jarðskjálftavirkni og aflögun á yfirborði af völdum þeirra. Þann 20. mars dró svo til tíðinda, án þess að vart yrði mikilla breytinga á fjölda jarðskjálfta, en hraði jarðskorpuhreyfinga hafði aukist lítillega dagana á undan. Gos á norðanverðum Fimmvörðuhálsi var hafið en það var lítið flæðigos sem stóð í 23 daga. Hlé varð í hálfan annan sólarhring, en 14. apríl hófst sprengigos í toppöskju Eyjafjallajökuls. Lesa má meira um eldgosið í Eyjafjallajökli í svari sömu höfunda við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010?

Tilvísanir:

1 Dahm, T. og Bryndís Brandsdóttir, 1997. Moment tensors of microearthquakes from the Eyjafjallajökull volcano in South Iceland. Geophysical Journal International, 130, 183-192.

Erik Sturkell og fleiri, 2003a. Recent unrest and magma movements at Eyjafjallajökull and Katla volcanoes, Iceland. Journal of Geophysical Research, 108, 2369, doi:10.1029/2001JB000917.

Rikke Pedersen og Freysteinn Sigmundsson, 2004. InSAR based sill model links spatially offset areas of deformation and seismicity for the 1994 unrest episode at Eyjafjallajökull volcano, Iceland. Geophysical Research Letters, 31, L14610; doi:10.1029/2004GL020368.

Rikke Pedersen og Freysteinn Sigmundsson, 2006. Temporal development of the 1999 intrusive episode in the Eyjafjallajökull volcano, Iceland, derived from InSAR images. Bulletin of Volcanology, 68, 377-393.


Þetta er aðeins hluti úr kaflanum Eldur í Eyjafjallajökli 2010 í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 299 og bls. 311....