Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Árni Friðriksson og hvert var hans framlag til vísindanna?

Jón Már Halldórsson

Árni Friðriksson er einn af merkustu sporgöngumönnum í rannsóknum á lífríki hafsins hér við land. Árni var Vestfirðingur, fæddur þann 22. desember 1898. Hann gekk í barnaskóla í tvo vetur hjá séra Böðvari Bjarnasyni á Rafnseyri sem veitti honum nauðsynlegan undirbúning fyrir menntaskóla. Árið 1920 hóf hann nám í stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík og var þá á 23. aldursári. Hann lauk stúdentsprófi árið 1923 og sigldi því næst til Kaupmannahafnar og hóf nám í dýrafræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi árið 1929.

Árni hélt ekki strax heim að afloknu námi heldur starfaði sem aðstoðarmaður hjá hinum virta danska fiskifræðingi Johannes Schmidt (1877-1933) í tvö ár á Carlsberg-rannsóknastofunni og fékk þar að auki styrk upp á 2.500 krónur frá Fiskifélagi Íslands. Johannes Schmidt er sjálfsagt best þekktur fyrir að hafa uppgötvað hrygningarstöðvar álsins (Anguilla anguilla) í Sargossa-hafi.

Árni Friðriksson var í senn alþýðufræðari á sviði náttúruvísinda og vísindamaður. Veturinn 1931-32 eða skömmu eftir að Árni kom aftur til landsins hélt hann fyrirlestra í Ríkisútvarpinu. Á þeim árum voru ekki margir sem voru með menntun á sviði náttúruvísinda og vildi Árni uppfræða landsmenn um það sem var að gerast á fræðasviðinu með þessum fyrirlestrum. Þeir vöktu mikla athygli hjá almenningi enda var Ríkisútvarpið þá aðeins ársgamalt og því útvarpshlustun hjá þeim sem höfðu eignast viðtæki mikil. Sumarið 1932 gaf svo bókadeild Menningarsjóðs út bók sem byggð var á útvarpsfyrirlestrunum sem voru ellefu að tölu og bar heitið Aldahvörf í dýraríkinu.

Hinar góðu viðtökur sem Árni fékk þennan vetur urðu honum hvatning til að halda áfram með erindi í útvarpi og hélt hann fjölda fyrirlestra út fjórða áratuginn. Sama vetur og hann hóf fyrirlestrana í útvarpinu stofnaði hann ásamt Guðmundi G. Bárðarsyni (1880-1933), jarðfræðingi, tímaritið Náttúrufræðinginn. Guðmundur féll frá langt fyrir aldur fram, að undangengnum skammvinnum veikindum og varð það Árna mikið áfall enda höfðu þeir Guðmundur náð vel saman í vinnu sinni við tímaritið. Árni gafst þó ekki upp heldur keypti hluta Guðmundar og ritstýrði tímaritinu og gaf það út allt til ársins 1941.

Strax eftir að Árni kom heim frá Danmörku réðst hann til starfa sem ráðunautur hjá Fiskifélagi Íslands og starfaði þar til ársins 1937 en þá tók hann við stöðu forstöðumanns Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans, forvera Hafrannsóknastofnunar, sem þá var nýstofnuð. Árni var einstaklega afkastamikill vísindamaður og liggja eftir hann merkar rannsóknir. Þegar Árni hóf störf hjá Fiskifélaginu voru stórar göngur þorsks inn á íslenska grunnsævið. Þorskárgangar sem klöktust út árin 1922 og 1924 og höfðu alist upp á Grænlandsmiðum, við svokallaðar Grænlandsgöngur. Árni stundaði þá aldursgreiningu á þorski sem þótti mikilvægt viðfangsefni en þetta voru nýjar aðferðir í rannsóknum á fiskstofnum. Þess má geta að þegar þorskurinn skilaði sér hingað á miðin varð þorskaflinn hér við land sá mesti sem sögur fara af, tæp sex hundruð þúsund tonn.

Síldarrannsóknir Árna eru þó merkasta framlag hans til fiskirannsókna. Á seinni hluta fjórða áratug síðustu aldar var síldariðnaðurinn orðinn það stór hér á landi að hann nam allt að 50% af heildarútflutningsverðmæti landsmanna. Árlegur afli var um 200 þúsund tonn og afurðaverðið fór hækkandi. Allt var vaðandi í síld á sumrin fyrir öllu Norðurlandi og það eina sem stóð veiðum fyrir þrifum var takmörkuð afkastageta verksmiðjanna og söltunarinnar. Bjarni Sæmundsson (1867-1940) hafði stundað einhverjar rannsóknir á síldinni. Hann hafði sýnt fram á að hér væri um vorgotssíld að ræða og taldi hana hrygna við Suðurland snemma vors og gengi svo réttsælis kringum landið og kæmi fyrir Norðurland í maí þar sem hún væri í æti fram eftir sumri. Árni fékk styrk til tækjakaupa og afnot af varðskipinu Þór til að sannreyna þessa kenningu Bjarna en niðurstaðan var sú að vorgotssíld sú sem finnst í hinu óheyrilega magni fyrir Norðurlandi getur ekki verið fyrir Suðurlandi á hrygningartímanum. Svo segir Árni í grein sem birtist í tímaritinu Ægi árið 1935:
Að öllu þessu athuguðu get ég ekki betur séð en að þessar rannsóknir sem við höfum nú gert skapi okkur alveg nýja útsýn yfir lifnaðarhætti síldarinnar. Það verður ekki komist hjá því að spyrja; Hrygnir sú síld sem veiðist fyrir norðan á sumrin við Ísland? Ég vildi óska að hægt væri að svara þessu játandi útvegsins vegna en þær einu tilraunir sem gerðar hafa verið til þess að veiða síld þar sem hún átti að vera að hrygna svara eindregið neitandi. En ef síldin okkar hrygnir ekki hér hvar getur hún þá hrygnt? Af ýmsum ástæðum sem ekki vinnst tóm til að rekja bendir allt til Noregs.
Rannsóknirnar fyrir Suðurlandi endurtók Árni árið 1936 án frekari árangurs. Hugmyndir hans um að Norðurlandssíldin hrygni við strendur Noregs kom flatt upp á kollega hans bæði hér innanlands og ekki síst erlendis. Norskir vísindamenn höfðu fram að þessu talið að síldin sú sem hrygnir við strendur Noregs færi norður á bóginn til að fita sig.

Eitt rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar er nefnt í höfuðið á Árna Friðrikssyni.

Þessi kenning Árna var síðar rædd á fundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) haustið 1935 en Árni sjálfur fékk ekki farareyri til að sækja ráðstefnuna sem haldin var á Englandi enda var hann beðinn um að hafa hljótt um þessar vangaveltur sínar. Það er skemmst frá því að segja að hugmyndir Árna fengu ekki mikinn hljómgrunn meðal vísindamanna á ráðstefnunni enda var hann ekki þar til að verja þær.

Árni var þó ekki að baki dottinn og gaf meðal annars út bók sem heitir Norðurlandssíldin og kom út árið 1944. Í bókinni kemur fram ítarlegt yfirlit yfir síldveiðar og rannsóknir þær sem hafa verið framkvæmdar á tegundinni auk þess sem hann birti allar niðurstöður eigin rannsókna og rökstuðning við hugmyndir sínar um göngur síldarinnar og lifnaðarhætti.

Skömmu eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk hóf Árni ásamt norskum starfsbræðrum sínum að merkja síldir með nýrri aðferð sem Árni hafði kynnt sér í Bandaríkjunum. Þessar merkingar fólu í sér að komið var fyrir málmplötu í kviðarholi síldarinnar og endurheimtust merkin í síldarverksmiðjum á rafseglum sem síldarmjölið fór fram hjá eftir að síldin hafði verið brædd.

Merkingarnar hófust hér við land sumarið 1948 og strax veturinn eftir fóru merkin að endurheimtast við vesturströnd Noregs. Þessum merkingum var haldið áfram allt fram á seinni hluta 7. áratugsins og endurheimtust við Noregsstrendur þúsundir merkja sem staðfesti svo ekki sé vægar að orði komist kenningu Árna.

Árni barðist einnig fyrir því að asdic-fiskleitartæki væru sett upp í varðskipinu Ægi árið 1953 en slík tæki voru notuð í heimsstyrjöldinni til kafbátaleitar en urðu mikið notuð við síldveiðar eftir stríð. Asdic-fiskleitartækið markaði tímamót í síldarrannsóknum og síldveiðum Íslendinga en með tilkomu þessara tækja var hægt að finna og staðsetja síldartorfur með mun auðveldari hætti en áður og varð gífurleg aflaaukning í síldveiðum eftir að þessi tæki voru tekin í notkun.

Árni varð um áramótin 1953-54 framkvæmdastjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins og gegndi því starfi í áratug. Er hann eini Íslendingurinn sem hefur gegnt því starfi. Árni Friðriksson lést 16. október árið 1965.

Heimildir og myndir:
  • Árni Friðriksson. 1932. Aldahvörf í dýraríkinu. Menningarsjóður. Reykjavík.
  • Jakob Jakobsson. Árni Friðriksson fiskifræðingur: Aldarminning. Náttúrufræðingurinn 69 (1), bls 51-60. 1999.
  • Árni Friðriksson RE 200. Sótt 20.7.2011.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

28.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hver var Árni Friðriksson og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60306.

Jón Már Halldórsson. (2011, 28. júlí). Hver var Árni Friðriksson og hvert var hans framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60306

Jón Már Halldórsson. „Hver var Árni Friðriksson og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60306>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Árni Friðriksson og hvert var hans framlag til vísindanna?
Árni Friðriksson er einn af merkustu sporgöngumönnum í rannsóknum á lífríki hafsins hér við land. Árni var Vestfirðingur, fæddur þann 22. desember 1898. Hann gekk í barnaskóla í tvo vetur hjá séra Böðvari Bjarnasyni á Rafnseyri sem veitti honum nauðsynlegan undirbúning fyrir menntaskóla. Árið 1920 hóf hann nám í stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík og var þá á 23. aldursári. Hann lauk stúdentsprófi árið 1923 og sigldi því næst til Kaupmannahafnar og hóf nám í dýrafræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi árið 1929.

Árni hélt ekki strax heim að afloknu námi heldur starfaði sem aðstoðarmaður hjá hinum virta danska fiskifræðingi Johannes Schmidt (1877-1933) í tvö ár á Carlsberg-rannsóknastofunni og fékk þar að auki styrk upp á 2.500 krónur frá Fiskifélagi Íslands. Johannes Schmidt er sjálfsagt best þekktur fyrir að hafa uppgötvað hrygningarstöðvar álsins (Anguilla anguilla) í Sargossa-hafi.

Árni Friðriksson var í senn alþýðufræðari á sviði náttúruvísinda og vísindamaður. Veturinn 1931-32 eða skömmu eftir að Árni kom aftur til landsins hélt hann fyrirlestra í Ríkisútvarpinu. Á þeim árum voru ekki margir sem voru með menntun á sviði náttúruvísinda og vildi Árni uppfræða landsmenn um það sem var að gerast á fræðasviðinu með þessum fyrirlestrum. Þeir vöktu mikla athygli hjá almenningi enda var Ríkisútvarpið þá aðeins ársgamalt og því útvarpshlustun hjá þeim sem höfðu eignast viðtæki mikil. Sumarið 1932 gaf svo bókadeild Menningarsjóðs út bók sem byggð var á útvarpsfyrirlestrunum sem voru ellefu að tölu og bar heitið Aldahvörf í dýraríkinu.

Hinar góðu viðtökur sem Árni fékk þennan vetur urðu honum hvatning til að halda áfram með erindi í útvarpi og hélt hann fjölda fyrirlestra út fjórða áratuginn. Sama vetur og hann hóf fyrirlestrana í útvarpinu stofnaði hann ásamt Guðmundi G. Bárðarsyni (1880-1933), jarðfræðingi, tímaritið Náttúrufræðinginn. Guðmundur féll frá langt fyrir aldur fram, að undangengnum skammvinnum veikindum og varð það Árna mikið áfall enda höfðu þeir Guðmundur náð vel saman í vinnu sinni við tímaritið. Árni gafst þó ekki upp heldur keypti hluta Guðmundar og ritstýrði tímaritinu og gaf það út allt til ársins 1941.

Strax eftir að Árni kom heim frá Danmörku réðst hann til starfa sem ráðunautur hjá Fiskifélagi Íslands og starfaði þar til ársins 1937 en þá tók hann við stöðu forstöðumanns Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans, forvera Hafrannsóknastofnunar, sem þá var nýstofnuð. Árni var einstaklega afkastamikill vísindamaður og liggja eftir hann merkar rannsóknir. Þegar Árni hóf störf hjá Fiskifélaginu voru stórar göngur þorsks inn á íslenska grunnsævið. Þorskárgangar sem klöktust út árin 1922 og 1924 og höfðu alist upp á Grænlandsmiðum, við svokallaðar Grænlandsgöngur. Árni stundaði þá aldursgreiningu á þorski sem þótti mikilvægt viðfangsefni en þetta voru nýjar aðferðir í rannsóknum á fiskstofnum. Þess má geta að þegar þorskurinn skilaði sér hingað á miðin varð þorskaflinn hér við land sá mesti sem sögur fara af, tæp sex hundruð þúsund tonn.

Síldarrannsóknir Árna eru þó merkasta framlag hans til fiskirannsókna. Á seinni hluta fjórða áratug síðustu aldar var síldariðnaðurinn orðinn það stór hér á landi að hann nam allt að 50% af heildarútflutningsverðmæti landsmanna. Árlegur afli var um 200 þúsund tonn og afurðaverðið fór hækkandi. Allt var vaðandi í síld á sumrin fyrir öllu Norðurlandi og það eina sem stóð veiðum fyrir þrifum var takmörkuð afkastageta verksmiðjanna og söltunarinnar. Bjarni Sæmundsson (1867-1940) hafði stundað einhverjar rannsóknir á síldinni. Hann hafði sýnt fram á að hér væri um vorgotssíld að ræða og taldi hana hrygna við Suðurland snemma vors og gengi svo réttsælis kringum landið og kæmi fyrir Norðurland í maí þar sem hún væri í æti fram eftir sumri. Árni fékk styrk til tækjakaupa og afnot af varðskipinu Þór til að sannreyna þessa kenningu Bjarna en niðurstaðan var sú að vorgotssíld sú sem finnst í hinu óheyrilega magni fyrir Norðurlandi getur ekki verið fyrir Suðurlandi á hrygningartímanum. Svo segir Árni í grein sem birtist í tímaritinu Ægi árið 1935:
Að öllu þessu athuguðu get ég ekki betur séð en að þessar rannsóknir sem við höfum nú gert skapi okkur alveg nýja útsýn yfir lifnaðarhætti síldarinnar. Það verður ekki komist hjá því að spyrja; Hrygnir sú síld sem veiðist fyrir norðan á sumrin við Ísland? Ég vildi óska að hægt væri að svara þessu játandi útvegsins vegna en þær einu tilraunir sem gerðar hafa verið til þess að veiða síld þar sem hún átti að vera að hrygna svara eindregið neitandi. En ef síldin okkar hrygnir ekki hér hvar getur hún þá hrygnt? Af ýmsum ástæðum sem ekki vinnst tóm til að rekja bendir allt til Noregs.
Rannsóknirnar fyrir Suðurlandi endurtók Árni árið 1936 án frekari árangurs. Hugmyndir hans um að Norðurlandssíldin hrygni við strendur Noregs kom flatt upp á kollega hans bæði hér innanlands og ekki síst erlendis. Norskir vísindamenn höfðu fram að þessu talið að síldin sú sem hrygnir við strendur Noregs færi norður á bóginn til að fita sig.

Eitt rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar er nefnt í höfuðið á Árna Friðrikssyni.

Þessi kenning Árna var síðar rædd á fundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) haustið 1935 en Árni sjálfur fékk ekki farareyri til að sækja ráðstefnuna sem haldin var á Englandi enda var hann beðinn um að hafa hljótt um þessar vangaveltur sínar. Það er skemmst frá því að segja að hugmyndir Árna fengu ekki mikinn hljómgrunn meðal vísindamanna á ráðstefnunni enda var hann ekki þar til að verja þær.

Árni var þó ekki að baki dottinn og gaf meðal annars út bók sem heitir Norðurlandssíldin og kom út árið 1944. Í bókinni kemur fram ítarlegt yfirlit yfir síldveiðar og rannsóknir þær sem hafa verið framkvæmdar á tegundinni auk þess sem hann birti allar niðurstöður eigin rannsókna og rökstuðning við hugmyndir sínar um göngur síldarinnar og lifnaðarhætti.

Skömmu eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk hóf Árni ásamt norskum starfsbræðrum sínum að merkja síldir með nýrri aðferð sem Árni hafði kynnt sér í Bandaríkjunum. Þessar merkingar fólu í sér að komið var fyrir málmplötu í kviðarholi síldarinnar og endurheimtust merkin í síldarverksmiðjum á rafseglum sem síldarmjölið fór fram hjá eftir að síldin hafði verið brædd.

Merkingarnar hófust hér við land sumarið 1948 og strax veturinn eftir fóru merkin að endurheimtast við vesturströnd Noregs. Þessum merkingum var haldið áfram allt fram á seinni hluta 7. áratugsins og endurheimtust við Noregsstrendur þúsundir merkja sem staðfesti svo ekki sé vægar að orði komist kenningu Árna.

Árni barðist einnig fyrir því að asdic-fiskleitartæki væru sett upp í varðskipinu Ægi árið 1953 en slík tæki voru notuð í heimsstyrjöldinni til kafbátaleitar en urðu mikið notuð við síldveiðar eftir stríð. Asdic-fiskleitartækið markaði tímamót í síldarrannsóknum og síldveiðum Íslendinga en með tilkomu þessara tækja var hægt að finna og staðsetja síldartorfur með mun auðveldari hætti en áður og varð gífurleg aflaaukning í síldveiðum eftir að þessi tæki voru tekin í notkun.

Árni varð um áramótin 1953-54 framkvæmdastjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins og gegndi því starfi í áratug. Er hann eini Íslendingurinn sem hefur gegnt því starfi. Árni Friðriksson lést 16. október árið 1965.

Heimildir og myndir:
  • Árni Friðriksson. 1932. Aldahvörf í dýraríkinu. Menningarsjóður. Reykjavík.
  • Jakob Jakobsson. Árni Friðriksson fiskifræðingur: Aldarminning. Náttúrufræðingurinn 69 (1), bls 51-60. 1999.
  • Árni Friðriksson RE 200. Sótt 20.7.2011.
...