Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Snæfellsjökul?

Snæbjörn Guðmundsson

Hér er svarað spurningunni:
Hvernig er eldvirknin á Snæfellsjökli?
sem Sunna Rós bar upp og spurningu Þorgeirs:
Hvað getur þú sagt mér um Snæfellsjökul og eldvirkni á Snæfellsnesi?

Árið 1864 skaut Snæfellsjökli upp á stjörnuhimininn þegar hinn frægi vísindaskáldsagnahöfundur Jules Verne gaf út bók sína Ferð að miðju jarðar (fr. Voyage au centre de la Terre). Í þeirri bók siglir aðalsöguhetjan, prófessor Otto Lidenbrock, til Íslands þar sem hann ferðast ofan í eldgíg Snæfellsjökuls ásamt förunautum sínum á vit hinna furðulegustu ævintýra. Skáldsagan kom fyrst út í íslenskri þýðingu árið 1944 og útlagðist titill þýðingarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls: för í iður jarðar. Skáldsaga Jules Verne hefur því oft verið einfaldlega nefnd Leyndardómar Snæfellsjökuls á íslensku, þótt það sé ekki alveg í samræmi við titilinn á frummálinu.

Hið skemmtilega við íslenska titilinn er þó að þetta gæti eins verið heiti á jarðfræðigrein um Snæfellsjökul. Þótt það sé nokkuð öruggt að hvorki megi finna umfangsmikil neðanjarðarhöf né risaeðlur í iðrum Snæfellsjökuls er heilmargt sem vísindamenn vita ekki um jarðfræði hans, þrátt fyrir umtalsverðar jarðfræðirannsóknir á síðustu áratugum. Þar sem Snæfellsjökull er stórt og virkt eldfjall ætti það að vera brýnt viðfangsefni næstu ára að ráða bragarbót á þessu.

Snæfellsjökull er formfögur eldkeila og blasir hann við víða frá vesturhluta landsins. Jökullinn er megineldstöð sem gosið hefur reglulega í gegnum jarðsöguna og er hann langumfangsmesta virka megineldstöðin á Snæfellsnesgosbeltinu. Allt utanvert Snæfellsnes vestan Búða tilheyrir eldstöðvakerfi Snæfellsjökuls sem er það virkasta á Snæfellsnesi. Björn Harðarson aldursgreindi elstu hraunlögin í rótum Snæfellsjökuls og taldi þau vera um 840 þúsund ára gömul. Fjallið hefur því hlaðist upp á löngum tíma og er fjölbreytni í berggerðum og gosmyndunum mikil í og við jökulinn.

Snæfellsjökull er formfögur eldkeila og blasir hann við víða frá vesturhluta landsins. Jökullinn er megineldstöð sem gosið hefur reglulega í gegnum jarðsöguna. Frá því ísaldarjökullinn hvarf af landinu fyrir um tíu þúsund árum eru þrjú stórgos þekkt í Snæfellsjökli.

Frá því ísaldarjökullinn hvarf af landinu fyrir um tíu þúsund árum eru þrjú stórgos þekkt í Snæfellsjökli. Síðasta gos í toppgíg Snæfellsjökuls varð fyrir um 1800 árum og er það líklegast það stærsta frá lokum ísaldar. Gosið hefur byrjað sem öflugt sprengigos og er umtalsvert súrt ösku- og vikurlag rakið til gossins. Ofan á sprengivirknina hefur hluti jökulsins bráðnað og töluverður vatnsflaumur farið niður fjallshlíðarnar norðvestanverðar. Þessi upphafsfasi gossins hefur staðið stutt en síðan hafa hraun tekið að renna niður hlíðar jökulsins til norðurs og suðurs. Þessi hraun eru áberandi þar sem þau fléttast niður hlíðar jökulsins, einkum að sunnanverðu. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem mikið hefur ritað um jarðfræði Snæfellsness, taldi ekki ólíklegt að Þúfurnar í toppi Snæfellsjökuls hefðu myndast í þessu gosi.

Á undan þessu gosi urðu stór eldgos fyrir um fjögur þúsund árum og sjö til níu þúsund árum. Á milli allra þessara stórgosa urðu fjöldi minniháttar gosa utan í eldkeilunni og niðri á láglendinu vestan og sunnan við jökulinn. Allt umhverfið yst á Snæfellsnesi ber þessari virkni í eldstöðvakerfi jökulsins fagurt vitni og er nesið að mestu leyti þakið fjölbreyttum hraunaflákum, bæði sléttum helluhraunum sem og úfnari apalhraunum. Fjölmargar fallegar eldstöðvar liggja dreift um nesið. Meðal þeirra má til að mynda nefna Hólahóla, Öndverðarneshóla og Saxhólana tvo, en sá syðri er þó illa laskaður vegna gamals malarnáms.

Vinsælt er að aka um hraunbreiðuna út á Öndverðarnes og margir ganga um sunnanverða sjávarsíðuna. Þar má víða sjá sérstæðar stuðlabergsmyndanir, sérstaklega við Hellna og Arnarstapa. Nokkru vestan við Hellna eru tveir rismiklir klettar sem nefnast Lóndrangar. Eru það fornir gígtappar, leifar eldstöðvar sem gosið hefur utan í sjávarsíðunni við lok ísaldar en síðan grafist að mestu í burtu af völdum sjávargangs. Síðari tíma hraun hafa svo flætt á milli dranga og lands og tengt þá aftur við meginlandið.

Síðasta gos í toppgíg Snæfellsjökuls varð fyrir um 1800 árum og er það líklegast það stærsta frá lokum ísaldar. Eftir upphafsfasa gossins hafa hraun tekið að renna niður hlíðar jökulsins til norðurs og suðurs. Þessi hraun eru áberandi þar sem þau fléttast niður hlíðar jökulsins, einkum að sunnanverðu, eins og sjá má á myndinni.

Yngsta hraunið í Snæfellsjökulskerfinu nefnist Væjuhraun (stundum nefnt Væruhraun) og liggur það ofan á öskulagi úr síðasta stórgosi Snæfellsjökuls. Það er því nokkru yngra en 1800 ára en frá því að það rann hefur Snæfellsjökulskerfið legið í dvala. Þótt langt sé síðan eldstöðin gaus síðast er það þó vart álitamál hvort heldur hvenær hún muni aftur láta á sér kræla. Það gæti gerst á okkar lífstíð en alveg eins eftir hundruð eða þúsundir ára. Það er því mikilvægt að hafa auga með svæðinu og setja upp vöktunarkerfi á nesinu þótt vart sé sérstök ástæða til að óttast fyrirvaralausa gosvirkni þar sem eldgos í eldkeilu af þessari stærð myndi að öllum líkindum hafa töluverðan fyrirboða á undan sér.

En þrátt fyrir að eldgos sé vart yfirvofandi eiga aðrar hraðfara breytingar á Snæfellsjökli sér stað fyrir augum okkar. Þeir sem fylgst hafa með jökulhettu Snæfellsjökuls síðustu áratugi hafa tekið eftir gríðarmiklum breytingum á umfangi jökulsins. Frá því um aldamótin 1900 hefur flatarmál jökulsins minnkað um helming og rúmmálið um tvo þriðju hluta. Það er því miður útlit fyrir að jökulhetta Snæfellsjökuls verði horfin innan fárra áratuga. Fjallið verður vissulega áfram á sínum stað, en verður ekki sérstakt að tala um Snæfellsjökul þegar enginn er þar jökullinn?

Heimildir:
  • Björn Sverrir Harðarson. 1993. Alkalic rocks in Iceland with special reference to the Snæfellsjökull volcanic system. Doktorsritgerð, University of Edinburgh, Edinborg.
  • Haukur Jóhannesson. 1982. Yfirlit um jarðfræði Snæfellsness. Í Snæfellsnes frá Löngufjörum að Ólafsvíkurenni. Ferðafélag Íslands, Reykjavík, bls. 151-172.
  • Haukur Jóhannesson, Flores, R.M. og Jón Jónsson. 1981. A short account of the Holocene tephrochronology of the Snæfellsjökull central volcano, W-Iceland. Jökull 31, 23-30.
  • Sigurður Steinþórsson. 1968. Tvær nýjar C14-aldursákvarðanir á öskulögum úr Snæfellsjökli. Náttúrufræðingurinn 37 (3-4), 236-238.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

14.8.2015

Spyrjandi

Sunna Rós Sigmundsdóttir, Þorgeir Sigurðarson

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um Snæfellsjökul?“ Vísindavefurinn, 14. ágúst 2015. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69979.

Snæbjörn Guðmundsson. (2015, 14. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um Snæfellsjökul? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69979

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um Snæfellsjökul?“ Vísindavefurinn. 14. ágú. 2015. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69979>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Snæfellsjökul?
Hér er svarað spurningunni:

Hvernig er eldvirknin á Snæfellsjökli?
sem Sunna Rós bar upp og spurningu Þorgeirs:
Hvað getur þú sagt mér um Snæfellsjökul og eldvirkni á Snæfellsnesi?

Árið 1864 skaut Snæfellsjökli upp á stjörnuhimininn þegar hinn frægi vísindaskáldsagnahöfundur Jules Verne gaf út bók sína Ferð að miðju jarðar (fr. Voyage au centre de la Terre). Í þeirri bók siglir aðalsöguhetjan, prófessor Otto Lidenbrock, til Íslands þar sem hann ferðast ofan í eldgíg Snæfellsjökuls ásamt förunautum sínum á vit hinna furðulegustu ævintýra. Skáldsagan kom fyrst út í íslenskri þýðingu árið 1944 og útlagðist titill þýðingarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls: för í iður jarðar. Skáldsaga Jules Verne hefur því oft verið einfaldlega nefnd Leyndardómar Snæfellsjökuls á íslensku, þótt það sé ekki alveg í samræmi við titilinn á frummálinu.

Hið skemmtilega við íslenska titilinn er þó að þetta gæti eins verið heiti á jarðfræðigrein um Snæfellsjökul. Þótt það sé nokkuð öruggt að hvorki megi finna umfangsmikil neðanjarðarhöf né risaeðlur í iðrum Snæfellsjökuls er heilmargt sem vísindamenn vita ekki um jarðfræði hans, þrátt fyrir umtalsverðar jarðfræðirannsóknir á síðustu áratugum. Þar sem Snæfellsjökull er stórt og virkt eldfjall ætti það að vera brýnt viðfangsefni næstu ára að ráða bragarbót á þessu.

Snæfellsjökull er formfögur eldkeila og blasir hann við víða frá vesturhluta landsins. Jökullinn er megineldstöð sem gosið hefur reglulega í gegnum jarðsöguna og er hann langumfangsmesta virka megineldstöðin á Snæfellsnesgosbeltinu. Allt utanvert Snæfellsnes vestan Búða tilheyrir eldstöðvakerfi Snæfellsjökuls sem er það virkasta á Snæfellsnesi. Björn Harðarson aldursgreindi elstu hraunlögin í rótum Snæfellsjökuls og taldi þau vera um 840 þúsund ára gömul. Fjallið hefur því hlaðist upp á löngum tíma og er fjölbreytni í berggerðum og gosmyndunum mikil í og við jökulinn.

Snæfellsjökull er formfögur eldkeila og blasir hann við víða frá vesturhluta landsins. Jökullinn er megineldstöð sem gosið hefur reglulega í gegnum jarðsöguna. Frá því ísaldarjökullinn hvarf af landinu fyrir um tíu þúsund árum eru þrjú stórgos þekkt í Snæfellsjökli.

Frá því ísaldarjökullinn hvarf af landinu fyrir um tíu þúsund árum eru þrjú stórgos þekkt í Snæfellsjökli. Síðasta gos í toppgíg Snæfellsjökuls varð fyrir um 1800 árum og er það líklegast það stærsta frá lokum ísaldar. Gosið hefur byrjað sem öflugt sprengigos og er umtalsvert súrt ösku- og vikurlag rakið til gossins. Ofan á sprengivirknina hefur hluti jökulsins bráðnað og töluverður vatnsflaumur farið niður fjallshlíðarnar norðvestanverðar. Þessi upphafsfasi gossins hefur staðið stutt en síðan hafa hraun tekið að renna niður hlíðar jökulsins til norðurs og suðurs. Þessi hraun eru áberandi þar sem þau fléttast niður hlíðar jökulsins, einkum að sunnanverðu. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem mikið hefur ritað um jarðfræði Snæfellsness, taldi ekki ólíklegt að Þúfurnar í toppi Snæfellsjökuls hefðu myndast í þessu gosi.

Á undan þessu gosi urðu stór eldgos fyrir um fjögur þúsund árum og sjö til níu þúsund árum. Á milli allra þessara stórgosa urðu fjöldi minniháttar gosa utan í eldkeilunni og niðri á láglendinu vestan og sunnan við jökulinn. Allt umhverfið yst á Snæfellsnesi ber þessari virkni í eldstöðvakerfi jökulsins fagurt vitni og er nesið að mestu leyti þakið fjölbreyttum hraunaflákum, bæði sléttum helluhraunum sem og úfnari apalhraunum. Fjölmargar fallegar eldstöðvar liggja dreift um nesið. Meðal þeirra má til að mynda nefna Hólahóla, Öndverðarneshóla og Saxhólana tvo, en sá syðri er þó illa laskaður vegna gamals malarnáms.

Vinsælt er að aka um hraunbreiðuna út á Öndverðarnes og margir ganga um sunnanverða sjávarsíðuna. Þar má víða sjá sérstæðar stuðlabergsmyndanir, sérstaklega við Hellna og Arnarstapa. Nokkru vestan við Hellna eru tveir rismiklir klettar sem nefnast Lóndrangar. Eru það fornir gígtappar, leifar eldstöðvar sem gosið hefur utan í sjávarsíðunni við lok ísaldar en síðan grafist að mestu í burtu af völdum sjávargangs. Síðari tíma hraun hafa svo flætt á milli dranga og lands og tengt þá aftur við meginlandið.

Síðasta gos í toppgíg Snæfellsjökuls varð fyrir um 1800 árum og er það líklegast það stærsta frá lokum ísaldar. Eftir upphafsfasa gossins hafa hraun tekið að renna niður hlíðar jökulsins til norðurs og suðurs. Þessi hraun eru áberandi þar sem þau fléttast niður hlíðar jökulsins, einkum að sunnanverðu, eins og sjá má á myndinni.

Yngsta hraunið í Snæfellsjökulskerfinu nefnist Væjuhraun (stundum nefnt Væruhraun) og liggur það ofan á öskulagi úr síðasta stórgosi Snæfellsjökuls. Það er því nokkru yngra en 1800 ára en frá því að það rann hefur Snæfellsjökulskerfið legið í dvala. Þótt langt sé síðan eldstöðin gaus síðast er það þó vart álitamál hvort heldur hvenær hún muni aftur láta á sér kræla. Það gæti gerst á okkar lífstíð en alveg eins eftir hundruð eða þúsundir ára. Það er því mikilvægt að hafa auga með svæðinu og setja upp vöktunarkerfi á nesinu þótt vart sé sérstök ástæða til að óttast fyrirvaralausa gosvirkni þar sem eldgos í eldkeilu af þessari stærð myndi að öllum líkindum hafa töluverðan fyrirboða á undan sér.

En þrátt fyrir að eldgos sé vart yfirvofandi eiga aðrar hraðfara breytingar á Snæfellsjökli sér stað fyrir augum okkar. Þeir sem fylgst hafa með jökulhettu Snæfellsjökuls síðustu áratugi hafa tekið eftir gríðarmiklum breytingum á umfangi jökulsins. Frá því um aldamótin 1900 hefur flatarmál jökulsins minnkað um helming og rúmmálið um tvo þriðju hluta. Það er því miður útlit fyrir að jökulhetta Snæfellsjökuls verði horfin innan fárra áratuga. Fjallið verður vissulega áfram á sínum stað, en verður ekki sérstakt að tala um Snæfellsjökul þegar enginn er þar jökullinn?

Heimildir:
  • Björn Sverrir Harðarson. 1993. Alkalic rocks in Iceland with special reference to the Snæfellsjökull volcanic system. Doktorsritgerð, University of Edinburgh, Edinborg.
  • Haukur Jóhannesson. 1982. Yfirlit um jarðfræði Snæfellsness. Í Snæfellsnes frá Löngufjörum að Ólafsvíkurenni. Ferðafélag Íslands, Reykjavík, bls. 151-172.
  • Haukur Jóhannesson, Flores, R.M. og Jón Jónsson. 1981. A short account of the Holocene tephrochronology of the Snæfellsjökull central volcano, W-Iceland. Jökull 31, 23-30.
  • Sigurður Steinþórsson. 1968. Tvær nýjar C14-aldursákvarðanir á öskulögum úr Snæfellsjökli. Náttúrufræðingurinn 37 (3-4), 236-238.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda....