- Er nærsýni ættgeng?
- Hvað annað en erfðir valda því að fólk verður nærsýnt?
Eins og aðrir meðfæddir eiginleikar erfist sjón frá foreldrum til barna. Hún er ekki áunninn eiginleiki, þótt hana megi þjálfa að einhverju marki, og hún þroskast að sjálfsögðu frá því sem hún er við fæðingu. Spurningin um erfðir sjóngalla, eins og nær- og fjarsýni, er öllu flóknara mál og mismunandi eftir því hvaða galla eða sjúkdóm er átt við. Erfðir geta komið við sögu í sjóngöllum sem koma fram í augum sem eru að öðru leyti heilbrigð. Sérfræðingar í augnsjúkdómum telja að algengustu sjónvandamál meðal barna og fullorðinna séu arfgeng. Á þeim lista eru sjóndepra, nærsýni, fjarsýni, sjónskekkja og að vera rangeygður. Enn fremur á þetta við um litblindu, en fjallað er um hana í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er litblinda?
Deilt hefur verið um það í gegnum tíðina hvort erfðir eða umhverfi, og þar með lífshættir, ráði mestu um það hvort einstaklingur verður nærsýnn. Einkum hefur verið rætt um það hvort það sé nærsýnin sjálf sem erfist eða tilhneiging til að fá hana undir ákveðnum kringumstæðum. Það er útbreidd kenning að nærsýni sé arfgeng. Nærsýni virðist vera ættgeng og fundist hafa gen sem eru talin geta valdið henni. Þá er talið að galli við myndun augans valdi því að augað verður lengra en eðlilegt er og að myndin sé því stillt framan við sjónu í stað þess að vera stillt beint á henni. Nærsýni kemur yfirleitt fram við 8 til 12 ára aldur og er algengt að hún versni smám saman á unglingsárunum, en haldist nokkuð stöðug á fullorðinsaldri. Erfðaþættir stýra mismunandi lífefnafræðilegum þáttum sem geta haft ólík áhrif, til dæmis á næmni fyrir umhverfisáreitum svo sem mikilli nærvinnu. Þrátt fyrir sterk tengsl nærsýni við erfðir er þar með ekki sagt að umhverfisþættir og lífsstíll hafi ekki einhver áhrif á þróun hennar. Önnur kenning um nærsýni er að hún stafi af veiklun brárvöðvans (musculus ciliaris) sem stjórnar lögun augasteinsins. Slappur brárvöðvi getur ekki stillt lögun augasteins þannig að einstaklingur geti séð langt frá sér. Hann getur til dæmis slappast við mikla nærvinnu, en þá er hann lítið notaður. Þeir sem aðhyllast þessa kenningu mæla með augnæfingum til að þjálfa þennan vöðva, en ýmsar rannsóknarniðurstöður benda til þess að mikil nærvinna geti haft áhrif á þróun nærsýni. Einnig hafa komið fram kenningar um áhrif öndunar og fæðu á nærsýni. Samkvæmt kenningunni um öndun og nærsýni getur óeðlileg öndun, eins og fylgir gjarnan streitu, valdið lækkun þrýstings í augnknettinum (bulbus oculi) og þar með nærsýni. Samkvæmt þessari kenningu getur öndunin því haft bein áhrif á sjónina. Kenningin um tengsl fæðu og nærsýni gerir hins vegar ráð fyrir að ofneysla sykra (kolvetna) geti leitt til langvarandi ofgnóttar insúlíns í blóði, sem sé aftur slæm fyrir lögun augans.

Þeir sem eru nærsýnir sjá óskýrt það sem er fjarlægt.
- The Cleveland Clinic
- Myopia á Wikipedia, the free encyclopedia
- Health A to Z
- Yfirlitsmynd: Ken Teegardin. (2011, 22. mars). Vision Of Eyechart With Glasses (5547069087).jpg. Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 2.0 leyfi. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Vision_Of_Eyechart_With_Glasses_%285547069087%29.jpg
- Human eyesight two children and ball normal vision color Hi-res.jpg. Wikimedia Commons. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Human_eyesight_two_children_and_ball_normal_vision_color_Hi-res.jpg
- Human eyesight two children and ball with myopia.jpg. Wikimedia Commons. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Human_eyesight_two_children_and_ball_with_myopia.jpg