Er til einhvers konar tilvísunarkerfi fyrir alheiminn, svipað og lengdar- og breiddargráður á jörðinni?Áður en við svörum spurningunni skulum við skoða grunnreglur um hnitakerfi. Samkvæmt skilgreiningu eru hnit hluta samsett úr einni eða fleiri tölum sem ákvarða fullkomlega staðsetningu hlutar í tilteknu rúmi. Fjöldi talna í hnitum ákvarðast af vídd rúmsins. Flestir sem unnið hafa í myndvinnslu og umbrotsforritum kannast við tvívítt hnitakerfi þar sem staðsetningu hlutar er líst með tveimur tölum, fjarlægð frá toppi og fjarlægð frá vinstri hlið. Í þessu kerfi er núllpunktur eða upphafspunktur kerfisins í vinstra toppi. Auðvelt er að hugsa sér önnur hnitakerfi fyrir þetta rúm, til dæmis mætti nota miðju sem upphafspunkt og nota sem hnit annars vegar fjarlægð frá miðju eftir beinni línu og hins vegar hornið sem sú lína myndar við aðra línu sem fer hornrétt frá toppi í gegnum miðju. Slíkt hnitakerfi er kallað pólhnit og jafnvel þó það sé algjörlega jafngilt hinu hnitakerfinu þætti það ekki mjög þægilegt í notkun í myndvinnsluforriti þar sem yfirleitt er unnið með rétthyrninga. Annað dæmi um tvívítt hnitakerfi er bauganet jarðarinnar. Því og notkun þess er lýst ágætlega í svörum við spurningunum Hvernig er bauganet jarðar uppbyggt og hver eru hnit Íslands á hnettinum? og Hvernig er hægt að finna lengdar- og breiddargráðu staða? Staðsetningu á yfirborði jarðar er lýst fullkomlega með einungis tveimur tölum sem ákvarða hornfjarlægð frá miðbaug annars vegar og núllbaug hins vegar. Jafnvel þó þessar tvær tölur lýsi staðsetningunni fullkomlega í bauganetinu eru lengdar- og breiddargráður ekki fullkomin staðsetning hluta á jörðinni.

Bauganet jarðar er tvívítt hnitakerfi. Staðsetningu á yfirborði jarðar er lýst fullkomlega með einungis tveimur tölum sem ákvarða hornfjarlægð frá miðbaug annars vegar og núllbaug hins vegar.

Svipað og fyrir bauganet jarðar höfum við líka tvívítt hnitakerfi sem ákvarðar staðsetningu hluta á himinhvelfingunni.
- Celestial coordinate system - Wikipedia. (Skoðað 25.01.2017).
- Latitude and Longitude of the Earth - Wikimedia Commons. Texti íslenskaður af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 25.01.2017).
- Equatorial coordinate system (celestial) - Wikimedia Commons. Texti íslenskaður af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 25.01.2017).