Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju skiptist Kórea í Norður- og Suður-Kóreu?

Geir Sigurðsson

Uppskipting Kóreu í norður- og suðurhluta átti sér býsna langan aðdraganda. Allt frá 7. öld hafði Kórea verið óskipt konungsríki í nánu sambandi við kínverska keisaraveldið sem ljáði því djúptæk menningarleg og pólitísk áhrif, þó án þess að sambandið hafi skert sjálfstæði Kóreu. Segja má að Kórea hafi notið verndar Kínaveldis, þar eð önnur ríki á svæðinu á borð við Japan forðuðust að mestu að seilast til áhrifa á Kóreuskaga til að styggja ekki risann. Þessi staða tók að breytast um miðja 19. öld þegar Kína veiktist mjög í kjölfar þvingana frá Bretum og öðrum Vesturveldum. Kínverska keisarastjórnin neyddist til að samþykkja fjölmargar kröfur sem Vesturveldin gerðu til aukinna ítaka í Kínaveldi og á seinni hluta 19. aldar tók að bera í auknum mæli á pólitískum óstöðugleika, fjárskorti og óeiningu í Kína.

Uppreisnir af ýmsum toga voru tíðar, keisarastjórnin missti smám saman stjórn á eigin svæðum og Kína glataði hefðbundnu áhrifavaldi sínu í Austur-Asíu. Japan, sem einnig hafði verið þvingað til opnunar af Vesturveldunum, hafði hins vegar gengið betur en Kína að aðlagast þessari nýju heimspólitísku stöðu. Þar leituðust menn við að læra af Vesturveldunum og Japan nútímavæddist með gífurlegum hraða á seinni hluta 19. aldar. Japan sá sér leik á borði þegar Kína veiktist og hóf aukin afskipti af Kóreuskaga sem leiddi til stríðs milli Kína og Japan árin 1894-1895. Í stuttu máli kom japanski herinn flestum á óvart og gjörsigraði þann kínverska. Í kjölfarið var Kína neytt til að binda enda á hefðbundin áhrif sín í Kóreu og draga sig með öllu í hlé um leið og japönsk áhrif fóru vaxandi. Raunar voru ítök Rússa í Kóreu einnig sterk uns japanski herinn sigraði hinn rússneska árið 1905. Í kjölfarið varð Kórea japanskt verndarsvæði og árið 1910 var Kórea innlimað að fullu í japanska keisaraveldið. Kórea var japönsk nýlenda uns Japan beið ósigur í seinni heimsstyrjöld og samþykkti skilyrðislausa uppgjöf sína þann 15. ágúst 1945.

Skipting Kóreuskagans. Norður-Kórea er hér brúnleit og Suður-Kórea blá. Rauðu punktarnir tákna höfðuborgirnar Pjongjang í norði og Seúl í suðri.

Það var á þessum tíma, í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, sem Kóreuskaga var skipt í tvennt í fyrsta skipti og má leiða það til upphafs kalda stríðsins milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Sovétmenn hertóku norðurhluta Kóreu í ágúst 1945 og eftir uppgjöf Japana náðist samkomulag um að Bandaríkjamenn stýrðu suðurhlutanum. Stefnan var sú að sameina hlutana í eitt frjálst Kóreuríki þegar ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Breta, Sovétmanna og Kínverja gætu komið sér saman um stjórnarfyrirkomulag slíks ríkis. Vaxandi hugmyndafræðilegur ágreiningur milli sigurvegaranna, einkum Bandaríkjamanna og Sovétmanna, kom hins vegar í veg fyrir að slíkt samkomulag næðist. Kóreskum stjórnvöldum hafði verið komið á fót í báðum hlutum en eins og gera mátti ráð fyrir fylgdu þau sósíalisma í norðri en kapítalisma í suðri. Eftir árangurslausar samningaviðræður um stofnun sameinaðs Kóreuríkis um þriggja ára skeið lýsti hvor hluti fyrir sig yfir stofnun sjálfstæðs ríkis árið 1948: Lýðveldið Kórea í suðri undir stjórn Syngman Rhee þann 15. ágúst og Lýðræðislega alþýðulýðveldið Kórea undir stjórn Kim Il Sung þann 9. september.

Þann 25. júní 1950 hófst Kóreustríðið sem stóð yfir í þrjú ár og lauk því einungis með vopnahlé en ekki formlegum friðarsamningi. Uppskipting ríkjanna að stríði loknu var í grundvallaratriðum sú sama og í upphafi þess, eða um 38. breiddargráðu. Þótt stríðið og eftirmálar þess hafi vissulega dýpkað klofninginn á Kóreuskaga gera stjórnarskrár beggja ríkja ráð fyrir sameiningu þeirra í eitt, þó vissulega á forsendum hvors fyrir sig. Því má telja líklegt að endursameining ríkjanna muni eiga sér stað í framtíðinni, enda stefna þau bæði að því, en eftir meira en 60 ára aðskilnað verður það ekki einföld aðgerð.

Heimildir:
  • Cartwright, Mark. “Ancient Korean & Chinese Relations”. Ancient History Encyclopedia. 2016. Sótt af https://www.ancient.eu/article/984/ancient-korean--chinese-relations/.
  • Seth, Michael J. A Concise History of Modern Korea. From the Late Nineteenth Century to the Present. Lanhan o.fl.: Rowman and Littlefield, 2010.
  • Stueck, William. The Korean War. An International History. Princeton: Princeton University Press, 1995.

Mynd:

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

18.1.2019

Spyrjandi

Hlöðver Þorgeirsson

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Af hverju skiptist Kórea í Norður- og Suður-Kóreu?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2019, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=13661.

Geir Sigurðsson. (2019, 18. janúar). Af hverju skiptist Kórea í Norður- og Suður-Kóreu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=13661

Geir Sigurðsson. „Af hverju skiptist Kórea í Norður- og Suður-Kóreu?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2019. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=13661>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju skiptist Kórea í Norður- og Suður-Kóreu?
Uppskipting Kóreu í norður- og suðurhluta átti sér býsna langan aðdraganda. Allt frá 7. öld hafði Kórea verið óskipt konungsríki í nánu sambandi við kínverska keisaraveldið sem ljáði því djúptæk menningarleg og pólitísk áhrif, þó án þess að sambandið hafi skert sjálfstæði Kóreu. Segja má að Kórea hafi notið verndar Kínaveldis, þar eð önnur ríki á svæðinu á borð við Japan forðuðust að mestu að seilast til áhrifa á Kóreuskaga til að styggja ekki risann. Þessi staða tók að breytast um miðja 19. öld þegar Kína veiktist mjög í kjölfar þvingana frá Bretum og öðrum Vesturveldum. Kínverska keisarastjórnin neyddist til að samþykkja fjölmargar kröfur sem Vesturveldin gerðu til aukinna ítaka í Kínaveldi og á seinni hluta 19. aldar tók að bera í auknum mæli á pólitískum óstöðugleika, fjárskorti og óeiningu í Kína.

Uppreisnir af ýmsum toga voru tíðar, keisarastjórnin missti smám saman stjórn á eigin svæðum og Kína glataði hefðbundnu áhrifavaldi sínu í Austur-Asíu. Japan, sem einnig hafði verið þvingað til opnunar af Vesturveldunum, hafði hins vegar gengið betur en Kína að aðlagast þessari nýju heimspólitísku stöðu. Þar leituðust menn við að læra af Vesturveldunum og Japan nútímavæddist með gífurlegum hraða á seinni hluta 19. aldar. Japan sá sér leik á borði þegar Kína veiktist og hóf aukin afskipti af Kóreuskaga sem leiddi til stríðs milli Kína og Japan árin 1894-1895. Í stuttu máli kom japanski herinn flestum á óvart og gjörsigraði þann kínverska. Í kjölfarið var Kína neytt til að binda enda á hefðbundin áhrif sín í Kóreu og draga sig með öllu í hlé um leið og japönsk áhrif fóru vaxandi. Raunar voru ítök Rússa í Kóreu einnig sterk uns japanski herinn sigraði hinn rússneska árið 1905. Í kjölfarið varð Kórea japanskt verndarsvæði og árið 1910 var Kórea innlimað að fullu í japanska keisaraveldið. Kórea var japönsk nýlenda uns Japan beið ósigur í seinni heimsstyrjöld og samþykkti skilyrðislausa uppgjöf sína þann 15. ágúst 1945.

Skipting Kóreuskagans. Norður-Kórea er hér brúnleit og Suður-Kórea blá. Rauðu punktarnir tákna höfðuborgirnar Pjongjang í norði og Seúl í suðri.

Það var á þessum tíma, í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, sem Kóreuskaga var skipt í tvennt í fyrsta skipti og má leiða það til upphafs kalda stríðsins milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Sovétmenn hertóku norðurhluta Kóreu í ágúst 1945 og eftir uppgjöf Japana náðist samkomulag um að Bandaríkjamenn stýrðu suðurhlutanum. Stefnan var sú að sameina hlutana í eitt frjálst Kóreuríki þegar ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Breta, Sovétmanna og Kínverja gætu komið sér saman um stjórnarfyrirkomulag slíks ríkis. Vaxandi hugmyndafræðilegur ágreiningur milli sigurvegaranna, einkum Bandaríkjamanna og Sovétmanna, kom hins vegar í veg fyrir að slíkt samkomulag næðist. Kóreskum stjórnvöldum hafði verið komið á fót í báðum hlutum en eins og gera mátti ráð fyrir fylgdu þau sósíalisma í norðri en kapítalisma í suðri. Eftir árangurslausar samningaviðræður um stofnun sameinaðs Kóreuríkis um þriggja ára skeið lýsti hvor hluti fyrir sig yfir stofnun sjálfstæðs ríkis árið 1948: Lýðveldið Kórea í suðri undir stjórn Syngman Rhee þann 15. ágúst og Lýðræðislega alþýðulýðveldið Kórea undir stjórn Kim Il Sung þann 9. september.

Þann 25. júní 1950 hófst Kóreustríðið sem stóð yfir í þrjú ár og lauk því einungis með vopnahlé en ekki formlegum friðarsamningi. Uppskipting ríkjanna að stríði loknu var í grundvallaratriðum sú sama og í upphafi þess, eða um 38. breiddargráðu. Þótt stríðið og eftirmálar þess hafi vissulega dýpkað klofninginn á Kóreuskaga gera stjórnarskrár beggja ríkja ráð fyrir sameiningu þeirra í eitt, þó vissulega á forsendum hvors fyrir sig. Því má telja líklegt að endursameining ríkjanna muni eiga sér stað í framtíðinni, enda stefna þau bæði að því, en eftir meira en 60 ára aðskilnað verður það ekki einföld aðgerð.

Heimildir:
  • Cartwright, Mark. “Ancient Korean & Chinese Relations”. Ancient History Encyclopedia. 2016. Sótt af https://www.ancient.eu/article/984/ancient-korean--chinese-relations/.
  • Seth, Michael J. A Concise History of Modern Korea. From the Late Nineteenth Century to the Present. Lanhan o.fl.: Rowman and Littlefield, 2010.
  • Stueck, William. The Korean War. An International History. Princeton: Princeton University Press, 1995.

Mynd:

...