Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Af hverju eru svona strangar reglur í Norður-Kóreu?

Geir Sigurðsson

Í öllum samfélögum gilda lög og reglur sem ætlað er að hafa taumhald á athöfnum einstaklinga. Ef engar reglur væru til staðar væri tæplega hægt að tala um eiginlegt „samfélag“, heldur einhvers konar „náttúruríki“ sem einkenndist af viðvarandi stríði allra gegn öllum, líkt og enski heimspekingurinn Thomas Hobbes lýsti á sínum tíma í bók sinni Leviathan. Það er hins vegar mjög misjafnt eftir samfélögum hversu langt þessar reglur ganga. Tiltekin samfélög hafa hneigst til að leggja áherslu á svokallaðar „neikvæðar“ reglur, það er reglur sem takmarka frelsi einstaklinga til að hafa afskipti af öðrum einstaklingum. Hér er áherslan á einstaklingsfrelsi og svigrúm einstaklinga til að móta líf sitt eftir eigin höfði, að því tilskildu að athafnafrelsi þeirra valdi ekki öðrum tjóni. Andstæða slíkrar samfélagsgerðar leggur hins vegar áherslu á „jákvæðar“ reglur eða boð sem skylda einstaklingana til að stuðla að því sem skilgreint er sem „hagsmunir samfélagsheildarinnar“ í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur. Unnt er að staðsetja öll samfélög heims einhvers staðar á kvarðanum sem liggur á milli þessara tveggja andstæðna.

Í grófum dráttum nálgast allflest samfélög Ameríku og Evrópu fyrri samfélagsgerðina og samfélög Asíu hina síðari, þótt nokkuð sé mismunandi hversu langt þau ganga í hvora átt fyrir sig. Með orðalaginu „strangar reglur“ í spurningunni er væntanlega átt við að mjög langt sé gengið í áttina að síðari samfélagsgerðinni. Þá hafa einstaklingar takmarkað svigrúm til að móta líf sitt eins og þeir kjósa sjálfir og að sama skapi hafa stjórnvöld mjög ríkt umboð til að hafa taumhald á og stýra athöfnum þegna sinna. Þetta á vissulega við um Norður-Kóreu. Einstaklingsfrelsi er þar mjög skorið við nögl, líklega meira en í nokkru öðru samfélagi heims.

Segja má að Norður-Kórea einkennist af mjög kreddukenndri útgáfu af konfúsíanisma þar sem líta ber á yfirvöld sem „foreldra“ og þegna sem „börn“ – og börnum ber að sjálfsögðu að hlýða foreldrum í einu og öllu. Styttur af leiðtogunum Kim Il Sung (1912-1994) til vinstri og Kim Jong-il (1941/42-2011) til hægri á Mansu-hæð í höfuðborginni Pyongyang.

Hér skulu tilgreindar þrjár meginástæður í stuttu máli. Í fyrsta lagi eru menningarlegar forsendur fyrir samfélagsgerðinni. Í aldaraðir hefur Kórea verið undir sterkum áhrifum af hugmyndafræði konfúsíanisma sem leggur afar mikla áherslu á samfélagið og skyldur einstaklinganna gagnvart því, enda er samfélagsgerð Suður-Kóreu einnig í ætt við hina „ströngu“, þótt hún komist ekki með tærnar þar sem Norður-Kórea hefur hælana í þessu tilliti. Segja má að Norður-Kórea einkennist af mjög kreddukenndri útgáfu af konfúsíanisma þar sem líta ber á yfirvöld sem „foreldra“ og þegna sem „börn“ – og börnum ber að sjálfsögðu að hlýða foreldrum í einu og öllu.

Í öðru lagi er Norður-Kórea opinberlega sósíalískt ríki sem lýtur sterkri miðstýringu undir stjórn eins stjórnmálaflokks, Verkamannaflokks Kóreu, og er undir sterkum hugmyndafræðilegum áhrifum lenínisma og stalínisma. Gríðarleg áhersla er lögð á hlýðni þegnanna við allar ákvarðanir yfirvalda sem eru sjálfkrafa skilgreindar sem ákvarðanir í þágu „heildarinnar“.

Í þriðja lagi hefur Norður-Kórea lengi verið einangrað frá umheiminum og hafa yfirvöld verið treg til að opna landið gagnvart honum, líklegast af ótta við að það myndi grafa undan völdum þeirra. Erfitt er að ferðast til Norður-Kóreu nema í skipulagðri hópferð og útilokað er fyrir almenna þegna landsins að halda utan landsteinanna. Þeim er bannað að hafa bein samskipti við útlendinga, reynt er með öllum mætti að koma í veg fyrir að þeim berist upplýsingar erlendis frá og þeir hafa til dæmis engan aðgang að internetinu. Í skólum og samfélaginu öllu er staðið fyrir viðvarandi áróðursherferðum um siðferðilega yfirburði Norður-Kóreu og mikilvægi þess að almenningur standi með yfirvöldum í viðnámi þeirra gegn fjandsamlegum fyrirætlunum óvinaþjóða, einkum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna, að ráðast inn í landið. Með þessum hætti leitast yfirvöld við að tryggja skilyrðislausa hlýðni almennings við þær ströngu reglur sem þau hafa sett í landinu – sem þó virðast einkum hafa að markmiði að tryggja áframhaldandi völd þeirra.

Heimildir og mynd:

  • French, Paul: North Korea: State of Paranoia: A Modern History. London og New York: Zed Books, 2014.
  • Kang, Jin Woon. „Political Uses of Confucianism in North Korea“. The Journal of Korean Studies, Vol. 16 (1) (2011): 63-87.
  • Lankov, Andrei: The Real North Korea: Life and Politics in the Failed Stalinist Utopia. Oxford: Oxford University Press, 2013.
  • Mansudae-Monument-Bow-2014.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar Bjørn Christian Tørrissen. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 Unported leyfi. (Sótt 2.5.2023.)

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

8.5.2023

Spyrjandi

Alexander Már

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Af hverju eru svona strangar reglur í Norður-Kóreu? “ Vísindavefurinn, 8. maí 2023. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84617.

Geir Sigurðsson. (2023, 8. maí). Af hverju eru svona strangar reglur í Norður-Kóreu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84617

Geir Sigurðsson. „Af hverju eru svona strangar reglur í Norður-Kóreu? “ Vísindavefurinn. 8. maí. 2023. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84617>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru svona strangar reglur í Norður-Kóreu?
Í öllum samfélögum gilda lög og reglur sem ætlað er að hafa taumhald á athöfnum einstaklinga. Ef engar reglur væru til staðar væri tæplega hægt að tala um eiginlegt „samfélag“, heldur einhvers konar „náttúruríki“ sem einkenndist af viðvarandi stríði allra gegn öllum, líkt og enski heimspekingurinn Thomas Hobbes lýsti á sínum tíma í bók sinni Leviathan. Það er hins vegar mjög misjafnt eftir samfélögum hversu langt þessar reglur ganga. Tiltekin samfélög hafa hneigst til að leggja áherslu á svokallaðar „neikvæðar“ reglur, það er reglur sem takmarka frelsi einstaklinga til að hafa afskipti af öðrum einstaklingum. Hér er áherslan á einstaklingsfrelsi og svigrúm einstaklinga til að móta líf sitt eftir eigin höfði, að því tilskildu að athafnafrelsi þeirra valdi ekki öðrum tjóni. Andstæða slíkrar samfélagsgerðar leggur hins vegar áherslu á „jákvæðar“ reglur eða boð sem skylda einstaklingana til að stuðla að því sem skilgreint er sem „hagsmunir samfélagsheildarinnar“ í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur. Unnt er að staðsetja öll samfélög heims einhvers staðar á kvarðanum sem liggur á milli þessara tveggja andstæðna.

Í grófum dráttum nálgast allflest samfélög Ameríku og Evrópu fyrri samfélagsgerðina og samfélög Asíu hina síðari, þótt nokkuð sé mismunandi hversu langt þau ganga í hvora átt fyrir sig. Með orðalaginu „strangar reglur“ í spurningunni er væntanlega átt við að mjög langt sé gengið í áttina að síðari samfélagsgerðinni. Þá hafa einstaklingar takmarkað svigrúm til að móta líf sitt eins og þeir kjósa sjálfir og að sama skapi hafa stjórnvöld mjög ríkt umboð til að hafa taumhald á og stýra athöfnum þegna sinna. Þetta á vissulega við um Norður-Kóreu. Einstaklingsfrelsi er þar mjög skorið við nögl, líklega meira en í nokkru öðru samfélagi heims.

Segja má að Norður-Kórea einkennist af mjög kreddukenndri útgáfu af konfúsíanisma þar sem líta ber á yfirvöld sem „foreldra“ og þegna sem „börn“ – og börnum ber að sjálfsögðu að hlýða foreldrum í einu og öllu. Styttur af leiðtogunum Kim Il Sung (1912-1994) til vinstri og Kim Jong-il (1941/42-2011) til hægri á Mansu-hæð í höfuðborginni Pyongyang.

Hér skulu tilgreindar þrjár meginástæður í stuttu máli. Í fyrsta lagi eru menningarlegar forsendur fyrir samfélagsgerðinni. Í aldaraðir hefur Kórea verið undir sterkum áhrifum af hugmyndafræði konfúsíanisma sem leggur afar mikla áherslu á samfélagið og skyldur einstaklinganna gagnvart því, enda er samfélagsgerð Suður-Kóreu einnig í ætt við hina „ströngu“, þótt hún komist ekki með tærnar þar sem Norður-Kórea hefur hælana í þessu tilliti. Segja má að Norður-Kórea einkennist af mjög kreddukenndri útgáfu af konfúsíanisma þar sem líta ber á yfirvöld sem „foreldra“ og þegna sem „börn“ – og börnum ber að sjálfsögðu að hlýða foreldrum í einu og öllu.

Í öðru lagi er Norður-Kórea opinberlega sósíalískt ríki sem lýtur sterkri miðstýringu undir stjórn eins stjórnmálaflokks, Verkamannaflokks Kóreu, og er undir sterkum hugmyndafræðilegum áhrifum lenínisma og stalínisma. Gríðarleg áhersla er lögð á hlýðni þegnanna við allar ákvarðanir yfirvalda sem eru sjálfkrafa skilgreindar sem ákvarðanir í þágu „heildarinnar“.

Í þriðja lagi hefur Norður-Kórea lengi verið einangrað frá umheiminum og hafa yfirvöld verið treg til að opna landið gagnvart honum, líklegast af ótta við að það myndi grafa undan völdum þeirra. Erfitt er að ferðast til Norður-Kóreu nema í skipulagðri hópferð og útilokað er fyrir almenna þegna landsins að halda utan landsteinanna. Þeim er bannað að hafa bein samskipti við útlendinga, reynt er með öllum mætti að koma í veg fyrir að þeim berist upplýsingar erlendis frá og þeir hafa til dæmis engan aðgang að internetinu. Í skólum og samfélaginu öllu er staðið fyrir viðvarandi áróðursherferðum um siðferðilega yfirburði Norður-Kóreu og mikilvægi þess að almenningur standi með yfirvöldum í viðnámi þeirra gegn fjandsamlegum fyrirætlunum óvinaþjóða, einkum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna, að ráðast inn í landið. Með þessum hætti leitast yfirvöld við að tryggja skilyrðislausa hlýðni almennings við þær ströngu reglur sem þau hafa sett í landinu – sem þó virðast einkum hafa að markmiði að tryggja áframhaldandi völd þeirra.

Heimildir og mynd:

  • French, Paul: North Korea: State of Paranoia: A Modern History. London og New York: Zed Books, 2014.
  • Kang, Jin Woon. „Political Uses of Confucianism in North Korea“. The Journal of Korean Studies, Vol. 16 (1) (2011): 63-87.
  • Lankov, Andrei: The Real North Korea: Life and Politics in the Failed Stalinist Utopia. Oxford: Oxford University Press, 2013.
  • Mansudae-Monument-Bow-2014.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar Bjørn Christian Tørrissen. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 Unported leyfi. (Sótt 2.5.2023.)

...