Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er misjafnt eftir líffærum hversu langur tími má líða frá því að líffærið er tekið úr gjafanum og þar til það er komið í líffæraþegann. Hjarta deyr aðeins fjórum klukkustundum eftir að það er tekið úr líkama gjafans en önnur líffæri geta haldist lifandi í allt að sólarhring eftir að þau eru fjarlægð úr líkama gjafans. Sumir vefir geymast í líffærabönkum í nokkur ár, til dæmis hornhimnur.
Líffæri sem hægt er að flytja milli manna eru hjarta, nýra, lifur, lunga, bris, smáþarmar og týmus (e. thymus). Einnig er hægt að flytja vefi á milli manna og eru þeir helstu bein, sinar, hornhimnur, húð, hjartalokur, taugar og bláæðar. Nýraígræðslur eru algengastar allra líffæraígræðslna, síðan ígræðsla á lifur og í þriðja sæti eru hjörtu. Af vefjunum eru hornhimnugræðlingar algengastir, síðan bein og sinar. Ígræðsla þessara vefja er yfir tífalt algengari en ígræðsla allra líffæra samanlagt.
Það má ekki líða langur tími frá því að líffæri eru fjarlægð úr líffæragjafa og þar til þau eru grædd í þega.
Líffæragjafar geta verið lifandi, heiladauðir eða hjartadauðir. Það er mismunandi eftir líffærum og vefjum hvaða gjafar henta. Eins og gefur að skilja er aðeins hægt að taka hjarta úr látnum gjafa og það sama á við um bris. Lunga er hægt að taka úr látnum gjafa en einnig er hægt að taka hluta af lunga úr lifandi skyldmenni. Nýra, lifur og smáþarma er hægt að fá hvort sem er úr látnum eða lifandi gjafa.
Það er aðeins heilbrigt og hraust fólk sem getur gefið annað nýra sitt eða bút af lifur. Ekki er tekið líffæri frá lifandi gjafa nema að ljóst sé að það komi ekki til með að skaða hann. Strangar rannsóknir eru gerðar á heilsu gjafans áður en kemur að gjöf og fylgst náið með honum á eftir. Til dæmis er það jafnvel svo að meðalaldur lifandi nýragjafa er hærri en almennt gerist og stafar það að því að þeir sem gefa annað nýra sitt verða að vera mjög heilsuhraustir fyrir. Nýrað sem eftir verður stækkar og tekur yfir hlutverk hins sem gefið var.
Ef lifur er fengin frá lifandi gjafa er aðeins hluti hennar tekinn en lifrarbúturinn sem verður eftir í gjafanum og sá hluti sem þeginn fær, vaxa síðan upp í eðlilega stærð. Ef lifur er tekin úr látnum gjafa er hægt að skipta henni í þrennt og græða í þrjá líffæraþega.
Fyrir 1991 voru Íslendingar að öllu leyti háðir öðrum þjóðum um líffæragjafir en það ár voru samþykkt lög hér á landi sem skilgreindu heiladauða og leyfðu brottnám líffæra úr heiladauðum.
Líffæri og vefir sem hægt er að nota til ígræðslu.
Hér á landi eins og annars staðar eru nýru algengustu græðlingarnir. Síðustu tvo áratugi hafa um 70% af nýragræðlingum Íslendinga komið frá lifandi gjöfum. Slíkar aðgerðir eru gerðar á Landspítalanum þegar íslenskur skurðlæknir sem starfar í Bandaríkjunum kemur hingað til lands 1-3 sinnum á ári eftir því sem þörf er á. Önnur líffæri koma nær eingöngu frá látnum gjöfum. Ef sjúklingur er á norrænum biðlista eftir líffæri og líffæri fæst sem hentar honum fer hann á Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg þar sem aðgerðin er framkvæmd. Þegar heim er komið taka íslenskir læknar við eftirfylgni og eftirliti með honum. Þegar vilji er til að gefa líffæri úr látnum einstaklingum á Íslandi koma læknar hingað til lands frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu, fjarlægja líffærin og taka þau til baka til Gautaborgar þar sem þau eru grædd í líffæraþega sem þau henta.
Mikil þörf er á líffærum til gjafar. Á hverjum degi bætast nokkur þúsund sjúklingar á biðlista eftir líffæri í heiminum öllum, en eftirspurnin er miklu meiri en framboðið. Einnig látast margir á meðan þeir eru á biðlista.
Mjög misjafnt er eftir löndum hvernig málum er háttað varðandi líffæragjafir úr látnu fólki. Í ýmsum löndum er gengið út frá því að látinn einstaklingur vilji gefa líffæri sín nema annað hafi sérstaklega verið tekið fram. Hér á landi er þessu öfugt farið. Gert er ráð fyrir ætlaðri neitun, sem sagt að hinn látni vilji ekki gefa líffæri sín nema að annað hafi verið tekið fram. Ef einstaklingur hefur ekki komið ósk sinni varðandi líffæragjöf á framfæri til aðstandenda sinna ráða þeir hver niðurstaðan verður. Þetta er oft mjög erfitt fyrir aðstandendur þar sem taka verður ákvörðunina nánast strax að ástvininum látnum. Það er því mikilvægt að ræða þessi mál innan fjölskyldna svo að aðstandendur viti um óskir ástvina sinna en einn látinn einstaklingur getur bjargað lífi allt að sjö annarra. Rannsóknir sýna að aðstandendur sem hafa samþykkt að gefa líffæri ástvina sinna eru almennt sáttari eftir á en hinir sem neita slíku.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hversu lengi er hægt að geyma líffæri, til dæmis hjarta, áður en þau eru grædd í líffæraþegann?“ Vísindavefurinn, 27. ágúst 2014, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=15054.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2014, 27. ágúst). Hversu lengi er hægt að geyma líffæri, til dæmis hjarta, áður en þau eru grædd í líffæraþegann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=15054
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hversu lengi er hægt að geyma líffæri, til dæmis hjarta, áður en þau eru grædd í líffæraþegann?“ Vísindavefurinn. 27. ágú. 2014. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=15054>.