Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Eru til hægri og vinstri úti í geimnum?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Hægri og vinstri eru orð sem við notum yfir afstöðu hluta í umhverfinu til líkama okkar. Í Íslenskri orðabók (ritstjóri Árni Böðvarsson) segir um orðið hægri í þessari merkingu: ‘um þá hlið líkamans þar sem hjartað er ekki: h. fótur, h. hönd; um átt eða stefnu sem miðast við hægri hlið líkamans’. Vinstri er svo á hliðstæðan hátt skilgreint sem ‘(stefnutáknun sem tekur mið af líkama mannsins) sem er sömu megin og hjartað’.

Þessi merking er svo yfirfærð með augljósum hætti á fyrirbæri sem hafa stefnu, án þess að við sjálf eða aðrir menn komi þar endilega við sögu með beinum hætti. Þannig tala Frakkar um hægri og vinstri bakka Signu, við tölum um hægri og vinstri beygju og svo framvegis.

Hvorki á jörðinni né utan hennar er hægt að tala um að staðir eða hlutir séu hægra megin eða vinstra megin nema tilgreint sé við hvað er miðað. Þegar við segjum að nú sé Venus til vinstri við tunglið er undirskilið að við séum að horfa á þau frá jörðinni og aukinheldur frá norðurhveli hennar; Ástralíumenn mundu á sama tíma segja að hún sé til hægri við tunglið. Það sem er hægra megin við mig getur verið vinstra megin við þig, til dæmis ef við horfum í sömu átt og hluturinn er á milli okkar, eða ef við horfumst í augu. Það sem er hægra megin við húsið frá þér séð getur verið vinstra megin við það séð frá mér, til dæmis ef við stöndum hvort sínu megin við húsið. Hins vegar er hægri höndin á mér alltaf hægri hönd þótt hún sé vinstra megin við þig. Hún tilheyrir mér og er raunar auk þess öðru vísi í laginu en vinstri hönd og þekkist á því.


Þessi geimfari gæti sagt að myndavélin sé vinstra megin við sig.

Hægri og vinstri eru til úti í geimnum í nákvæmlega sama skilningi og á jörðu niðri. Ef við ferðumst út í geiminn heldur hægri hlið okkar áfram að vera sú hlið líkamans þar sem hjartað er ekki. Sá fótur sem við köllum vinstri fót hér á jörðinni verður áfram vinstri fótur. Ef við stöndum á ákveðnum fleti (gólfi) í geimfari getum við notað orðin hægri og vinstri til að lýsa afstöðu hlutanna í kringum okkur. Ef við mundum síðan velja flötinn beint á móti til að standa á mundi þetta að vísu snúast allt saman við, rétt eins og þegar við horfum á himininn frá suðurhveli jarðar. Við getum líka notað þessi orð til að lýsa afstöðu himintunglanna sem við sjáum út um gluggann ef við tilgreinum um leið hvar við erum stödd og hvernig líkami okkar snýr, til dæmis miðað við Pólstjörnuna ef við erum ennþá í sólkerfinu.

Hitt er svo enn annar handleggur hvort náttúrulögmálin gera greinarmun á hægri og vinstri. Lengi vel töldu menn að svo mundi ekki vera en á síðustu áratugum hefur komið í ljós slíkur greinarmunur í tilteknum og afmörkuðum fyrirbærum í kjarneðlisfræði og öreindafræði. Það þýðir að við mundum geta komið vitsmunaverum úti í geimnum í skilning um, hvað er vinstri og hvað hægri hjá okkur, ef við kæmust í þokkalegt fjarskiptasamband við slíkar verur.

Mynd:
  • NASA. Sótt 15. 7. 2011.

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

26.6.2001

Spyrjandi

Þórdís Bjartmarz, f. 1983

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru til hægri og vinstri úti í geimnum?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2001. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1739.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 26. júní). Eru til hægri og vinstri úti í geimnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1739

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru til hægri og vinstri úti í geimnum?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2001. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1739>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru til hægri og vinstri úti í geimnum?
Hægri og vinstri eru orð sem við notum yfir afstöðu hluta í umhverfinu til líkama okkar. Í Íslenskri orðabók (ritstjóri Árni Böðvarsson) segir um orðið hægri í þessari merkingu: ‘um þá hlið líkamans þar sem hjartað er ekki: h. fótur, h. hönd; um átt eða stefnu sem miðast við hægri hlið líkamans’. Vinstri er svo á hliðstæðan hátt skilgreint sem ‘(stefnutáknun sem tekur mið af líkama mannsins) sem er sömu megin og hjartað’.

Þessi merking er svo yfirfærð með augljósum hætti á fyrirbæri sem hafa stefnu, án þess að við sjálf eða aðrir menn komi þar endilega við sögu með beinum hætti. Þannig tala Frakkar um hægri og vinstri bakka Signu, við tölum um hægri og vinstri beygju og svo framvegis.

Hvorki á jörðinni né utan hennar er hægt að tala um að staðir eða hlutir séu hægra megin eða vinstra megin nema tilgreint sé við hvað er miðað. Þegar við segjum að nú sé Venus til vinstri við tunglið er undirskilið að við séum að horfa á þau frá jörðinni og aukinheldur frá norðurhveli hennar; Ástralíumenn mundu á sama tíma segja að hún sé til hægri við tunglið. Það sem er hægra megin við mig getur verið vinstra megin við þig, til dæmis ef við horfum í sömu átt og hluturinn er á milli okkar, eða ef við horfumst í augu. Það sem er hægra megin við húsið frá þér séð getur verið vinstra megin við það séð frá mér, til dæmis ef við stöndum hvort sínu megin við húsið. Hins vegar er hægri höndin á mér alltaf hægri hönd þótt hún sé vinstra megin við þig. Hún tilheyrir mér og er raunar auk þess öðru vísi í laginu en vinstri hönd og þekkist á því.


Þessi geimfari gæti sagt að myndavélin sé vinstra megin við sig.

Hægri og vinstri eru til úti í geimnum í nákvæmlega sama skilningi og á jörðu niðri. Ef við ferðumst út í geiminn heldur hægri hlið okkar áfram að vera sú hlið líkamans þar sem hjartað er ekki. Sá fótur sem við köllum vinstri fót hér á jörðinni verður áfram vinstri fótur. Ef við stöndum á ákveðnum fleti (gólfi) í geimfari getum við notað orðin hægri og vinstri til að lýsa afstöðu hlutanna í kringum okkur. Ef við mundum síðan velja flötinn beint á móti til að standa á mundi þetta að vísu snúast allt saman við, rétt eins og þegar við horfum á himininn frá suðurhveli jarðar. Við getum líka notað þessi orð til að lýsa afstöðu himintunglanna sem við sjáum út um gluggann ef við tilgreinum um leið hvar við erum stödd og hvernig líkami okkar snýr, til dæmis miðað við Pólstjörnuna ef við erum ennþá í sólkerfinu.

Hitt er svo enn annar handleggur hvort náttúrulögmálin gera greinarmun á hægri og vinstri. Lengi vel töldu menn að svo mundi ekki vera en á síðustu áratugum hefur komið í ljós slíkur greinarmunur í tilteknum og afmörkuðum fyrirbærum í kjarneðlisfræði og öreindafræði. Það þýðir að við mundum geta komið vitsmunaverum úti í geimnum í skilning um, hvað er vinstri og hvað hægri hjá okkur, ef við kæmust í þokkalegt fjarskiptasamband við slíkar verur.

Mynd:
  • NASA. Sótt 15. 7. 2011.
...