Sólin Sólin Rís 09:04 • sest 18:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:35 • Sest 10:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:23 • Síðdegis: 23:25 í Reykjavík

Er táknmál myndað eins og önnur mál í vinstra heilahvelinu?

María K. Jónsdóttir

Það var á 19. öld, nánar tiltekið árið 1861, sem franski læknirinn Paul Broca (1824-1880) lýsti því yfir að við töluðum með vinstra heilahvelinu og að lítið svæði aftarlega og neðarlega í heilanum stýrði tali. Þetta heilasvæði fékk síðar nafnið Broca-svæði. Sjúklingarnir tveir sem Broca byggði fullyrðingu sína á gátu einungis sagt einstök orð eða atkvæði og þjáðust af því sem kallað er tjáningarmálstol.

Árið 1874 lýsti þýski taugalæknirinn Carl Wernicke (1848-1905) svo í fyrsta sinn skilningsmálstoli. Þá er tal sjúklinga liðugt en jafnframt oft merkingarlaust, og málskilningur er skertur. Sjúklingurinn sem Wernickec lýsti hafði skaða aftarlega í heila, í efsta og aftasta hluta gagnaugablaðsins. Það er nefnt Wernicke-svæði).

Hér sést hvar Broca- og Wernicke-svæði eru í heilanum.

Þegar hér var komið sögu var orðið til það sem kallað hefur verið klassíska líkanið af tungumálinu. Í stórum dráttum felur það í sér að skilningur á töluðu máli tengist Wernicke-svæði og tjáning tals Broca-svæði. Þessi svæði tengjast með taugabrautum sem kallast arcuate fasciculus á fræðimáli.

Skiptingin í tjáningar- og skilningsmálstol er afar gróf flokkun og segir ekki alla söguna og með tímanum hefur klassíska líkanið verið fínpússað. Nú vitum við til dæmis að skilningur er ekki að öllu leyti varðveittur í Broca-málstoli eins og áður var talið. Við vitum líka að í Broca-málstoli missa sjúklingar vald á málfræðinni en hún er til staðar í Wernicke-málstoli þótt þar skorti upp á merkingu. Einnig er ljóst að tónfall, bæði tjáning þess og skilningur, tengist ekki einvörðungu vinstra heilahvelinu heldur einnig því hægra. Í stórum dráttum hefur þetta gamla líkan þó staðist tímans tönn býsna vel. Og vert er að minna á að það eru ekki bara þeir rétthentu sem tala með vinstra heilahvelinu heldur einnig meirihluti þeirra örvhentu þótt hlutfallið sé lægra.

Tveir karlar og kona ræða saman á táknmáli.

En af hverju þessi langi inngangur um raddmál þegar spurt er um táknmál?

Það er vegna þess að táknmál inniheldur allar grunnstoðir raddmála eða hliðstæður þeirra; málfræði, hljóðfræði, merkingu svo og það sem kallað er málnotkun eða málsiðir. Á hinn bóginn lýtur táknmál sínum eigin lögmálum en er ekki hliðstæða nágrannaraddmálsins sem er það raddmál sem talað er í sama landi. Málfræði táknmáls er því ekki sú sama og nágrannaraddmálsins. Svo er það auðvitað hið augljósa sem er það að þessum málum er miðlað með ólíkum hætti; raddmálið heyrist og táknmálið sést!

Það að radd- og táknmál deili þeim grunneiningum máls sem áður voru nefndar gefur tilefni til að ætla að taugafræðilegur grunnur þeirra sé sá sami, að undanskildu því er varðar heyrn og handahreyfingar. Þetta er, í stórum dráttum, það sem rannsóknir síðastliðinna ára hafa sýnt. Ef einstaklingur sem hefur táknmál að móðurmáli fær blæðingu á málsvæðum vinstra heilahvels fær hann málstol en hann fær ekki málstol ef skaðinn verður í hægra heilahveli. Virknimælingar í heila sýna ennfremur að Broca-svæðið virkjast við tjáningu með táknmáli og Wernicke-svæðið virkjast þegar reynir á skilning táknmáls.

Heimildir:
  • Dronkers, N. F., Plaisant, O., Iba-Zizen, M. T. og Cabanis, E. A. (2007). Paul Broca’s historic cases: high resolution MR imaging of the brains of Leborgne and Lelong. Brain, 130(5), 1432-1441
  • MacSweeney, M., Capek, C. M., Campbell, R. og Woll, B. (2008). The signing brain: the Neurobiology of sign language. Trends in Cognitive Sciences, 12(11), 432-440.
  • McCullough, S., Saygin, A. P., Korpics, F. og Emmorey, K. (2012). Motion-sensitive cortex and motion semantics in American Sign Language. Neuroimage, 63(1), 111-118.
  • Newman, A. J., Supalla, T., Hauser, P., Newport, E. og Bavelier, D. (2010). Prosodic and narrative processing in American Sign Language: An fMRI study. Neuroimage, 52(2), 669-676.
  • Poeppel, D., Emmorey, K., Hickok, G. og Pylkkanen, L. (2012). Towards a new neurobiology of language. Journal of Neuroscience, 32(41), 14125-14131.

Mynd:

Höfundur

María K. Jónsdóttir

sérfræðingur í klínískri taugasálfræði við Landspítala háskólasjúkrahús og dósent í sálfræði, Háskólanum í Reykjavík

Útgáfudagur

31.3.2015

Spyrjandi

Sesselja Vilborg Jónsdóttir

Tilvísun

María K. Jónsdóttir. „Er táknmál myndað eins og önnur mál í vinstra heilahvelinu? “ Vísindavefurinn, 31. mars 2015. Sótt 21. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=23832.

María K. Jónsdóttir. (2015, 31. mars). Er táknmál myndað eins og önnur mál í vinstra heilahvelinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=23832

María K. Jónsdóttir. „Er táknmál myndað eins og önnur mál í vinstra heilahvelinu? “ Vísindavefurinn. 31. mar. 2015. Vefsíða. 21. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=23832>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er táknmál myndað eins og önnur mál í vinstra heilahvelinu?
Það var á 19. öld, nánar tiltekið árið 1861, sem franski læknirinn Paul Broca (1824-1880) lýsti því yfir að við töluðum með vinstra heilahvelinu og að lítið svæði aftarlega og neðarlega í heilanum stýrði tali. Þetta heilasvæði fékk síðar nafnið Broca-svæði. Sjúklingarnir tveir sem Broca byggði fullyrðingu sína á gátu einungis sagt einstök orð eða atkvæði og þjáðust af því sem kallað er tjáningarmálstol.

Árið 1874 lýsti þýski taugalæknirinn Carl Wernicke (1848-1905) svo í fyrsta sinn skilningsmálstoli. Þá er tal sjúklinga liðugt en jafnframt oft merkingarlaust, og málskilningur er skertur. Sjúklingurinn sem Wernickec lýsti hafði skaða aftarlega í heila, í efsta og aftasta hluta gagnaugablaðsins. Það er nefnt Wernicke-svæði).

Hér sést hvar Broca- og Wernicke-svæði eru í heilanum.

Þegar hér var komið sögu var orðið til það sem kallað hefur verið klassíska líkanið af tungumálinu. Í stórum dráttum felur það í sér að skilningur á töluðu máli tengist Wernicke-svæði og tjáning tals Broca-svæði. Þessi svæði tengjast með taugabrautum sem kallast arcuate fasciculus á fræðimáli.

Skiptingin í tjáningar- og skilningsmálstol er afar gróf flokkun og segir ekki alla söguna og með tímanum hefur klassíska líkanið verið fínpússað. Nú vitum við til dæmis að skilningur er ekki að öllu leyti varðveittur í Broca-málstoli eins og áður var talið. Við vitum líka að í Broca-málstoli missa sjúklingar vald á málfræðinni en hún er til staðar í Wernicke-málstoli þótt þar skorti upp á merkingu. Einnig er ljóst að tónfall, bæði tjáning þess og skilningur, tengist ekki einvörðungu vinstra heilahvelinu heldur einnig því hægra. Í stórum dráttum hefur þetta gamla líkan þó staðist tímans tönn býsna vel. Og vert er að minna á að það eru ekki bara þeir rétthentu sem tala með vinstra heilahvelinu heldur einnig meirihluti þeirra örvhentu þótt hlutfallið sé lægra.

Tveir karlar og kona ræða saman á táknmáli.

En af hverju þessi langi inngangur um raddmál þegar spurt er um táknmál?

Það er vegna þess að táknmál inniheldur allar grunnstoðir raddmála eða hliðstæður þeirra; málfræði, hljóðfræði, merkingu svo og það sem kallað er málnotkun eða málsiðir. Á hinn bóginn lýtur táknmál sínum eigin lögmálum en er ekki hliðstæða nágrannaraddmálsins sem er það raddmál sem talað er í sama landi. Málfræði táknmáls er því ekki sú sama og nágrannaraddmálsins. Svo er það auðvitað hið augljósa sem er það að þessum málum er miðlað með ólíkum hætti; raddmálið heyrist og táknmálið sést!

Það að radd- og táknmál deili þeim grunneiningum máls sem áður voru nefndar gefur tilefni til að ætla að taugafræðilegur grunnur þeirra sé sá sami, að undanskildu því er varðar heyrn og handahreyfingar. Þetta er, í stórum dráttum, það sem rannsóknir síðastliðinna ára hafa sýnt. Ef einstaklingur sem hefur táknmál að móðurmáli fær blæðingu á málsvæðum vinstra heilahvels fær hann málstol en hann fær ekki málstol ef skaðinn verður í hægra heilahveli. Virknimælingar í heila sýna ennfremur að Broca-svæðið virkjast við tjáningu með táknmáli og Wernicke-svæðið virkjast þegar reynir á skilning táknmáls.

Heimildir:
  • Dronkers, N. F., Plaisant, O., Iba-Zizen, M. T. og Cabanis, E. A. (2007). Paul Broca’s historic cases: high resolution MR imaging of the brains of Leborgne and Lelong. Brain, 130(5), 1432-1441
  • MacSweeney, M., Capek, C. M., Campbell, R. og Woll, B. (2008). The signing brain: the Neurobiology of sign language. Trends in Cognitive Sciences, 12(11), 432-440.
  • McCullough, S., Saygin, A. P., Korpics, F. og Emmorey, K. (2012). Motion-sensitive cortex and motion semantics in American Sign Language. Neuroimage, 63(1), 111-118.
  • Newman, A. J., Supalla, T., Hauser, P., Newport, E. og Bavelier, D. (2010). Prosodic and narrative processing in American Sign Language: An fMRI study. Neuroimage, 52(2), 669-676.
  • Poeppel, D., Emmorey, K., Hickok, G. og Pylkkanen, L. (2012). Towards a new neurobiology of language. Journal of Neuroscience, 32(41), 14125-14131.

Mynd:

...