Sólin Sólin Rís 09:53 • sest 17:32 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:01 • Sest 11:02 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:05 • Síðdegis: 19:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:55 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík

Hver var Herbert Spencer?

Jakob Guðmundur Rúnarsson

Herbert Spencer fæddist 27. apríl árið 1820 í borginni Derby á Englandi. Faðir hans, George, var kennari og sá hann sjálfur um menntun sonar síns fyrstu tíu ár ævi hans en eftir það tóku föðurbræður hans, William, sem einnig var kennari, og presturinn Thomas, að sér að mennta drenginn. Allir voru þeir strangir, og svo virðist sem að bæði faðir Spencers og móðir hans, Harriet hafi ekki sýnt honum sérstaklega hlýlegt viðmót í uppvextinum. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi mátt betur fara í uppeldinu lærði Spencer latínu, grísku, frönsku, en einnig stærðfræði og raunvísindi sem faðir hans lagði mikla áherslu á. Fyrir utan þá grundvallarmenntun sem hann hlaut í æsku var Spencer algjörlega sjálfmenntaður og eftir hann liggja fjölmörg verk á sviði siðfræði, félagsfræði, hagfræði, sálfræði, líffræði og stjórnmálaheimspeki. Spencer var gríðarlega áhrifamikill og vinsæll heimspekingur á seinni hluta nítjándu aldar en á tuttugustu öld hefur heimspeki hans verið harðlega gagnrýnd. Sú gagnrýni hefur þó á tíðum byggt á bjagaðri túlkun á verkum hans og stuðlað að skrumskældri mynd af heimspeki hans. Spencer þótti ákaflega sérvitur og undarlegur í háttum, svo jaðraði við sjúkleika. Á síðustu árum ævi sinnar glímdi hann hins vegar við mjög alvarleg og raunveruleg veikindi sem drógu mjög úr starfsgetu hans. Hann sinnti engu að síður ritstörfum allt til dauðadags árið 1904.

Spencer hefur verið, og verður væntanlega lengi enn, helst minnst fyrir fleyga túlkun sína á náttúruvalskenningu Charles Darwin (1809-1882), með orðunum „hinir hæfustu lifa af“ og fyrir að hafa heimfært það lögmál upp á félagsheim mannsins og ýtt þannig úr vör svokölluðum félagslegum darwinisma sem átti hlutdeild í hugmyndafræðilegum grundvelli margra viðurstyggilegustu grimmdarverka tuttugustu aldarinnar. Þegar nánar er að gáð kemur hins vegar í ljós að þessi túlkun stenst ekki alfarið. Spencer taldi vissulega það vera kjarnann í kenningu Darwins að „hinir hæfustu lifðu af“ en þar með er ekki sagt að Spencer hafi tekið gagnrýnislaust undir slík viðhorf. Raunar mætti frekar líta á orðskvið Spencers sem tilraun hans til að benda á takmarkað gildi náttúruvalskenningar Darwin.

Portrett af Herbert Spencer eftir John McLure Hamilton.

Spencer komst í kynni við lífþróunarhugmyndir þegar á unga aldri og hafði gert hugmyndina um þróun að lögmálsbundnum grundvelli allrar heimspeki sinnar löngu áður en náttúruvalskenning Darwin náði eyrum fræðimanna og almennings. Eitt fyrsta verk Spencers sem kynnti þróunarlögmál hans til sögunnar á ítarlegan hátt var First Principles of a New System of Philosophy (1862). Í sinni einföldustu mynd má segja að þróunarlögmál Spencers kveði á um að öll fyrirbæri taki breytingum, eða þróist, frá einfaldleika og einsleitni til margbreytileika og fjölbreytni og leita jafnvægis við umhverfi sitt. Þetta lögmál gildir á öllum sviðum tilverunnar, allt frá stjörnum og stjörnuþokum til hinna einföldustu efnasambanda, bæði ólífrænna og lífrænna, og jafnframt á sviðum hins vitsmunalega og félagsfræðilega. Efnisheimurinn, lífheimurinn og félagsheimur mannsins eru allir undirseldir lögmálinu um stefnubundna þróun.

Innblásturinn að þessari þróunarkenningu er bæði fenginn úr ranni líffræðinnar, þá sérstaklega frá kenningu Jean-Baptiste Lamarck (1744-1829) um starfsval og erfðir áunninna eiginleika, en auk þess má benda á ákveðin samhljóm við náttúruheimspeki Friedrich Schelling (1775-1854) sem Spencer komst í tæri við í gegnum verk Samuel Coleridge (1772-1834). Í huga Spencers var þróun mannsins og mannlegs samfélags hluti af heildarþróun veraldarinnar og var í þeim skilningi lögbundið ferli stöðugra framfara, þar sem jákvæðir eiginleikar mannsins (líffræðilegir, vitsmunalegir, og félagslegir) safnast upp hægt og bítandi. Þróunarlögmál Spencer var ekki síður sögulegt og félagslegt en líffræðilegt. Eftir að náttúruvalskenning Darwins kom fram varð Spencer hins vegar að taka tillit til hennar, en það er ljóst að hann taldi að hún gæti ekki ein og sér skýrt vitsmunalega og félagslega þróun mannsins. Það er því engan veginn hægt að halda því fram að Spencer hafi heimfært náttúruvalskenningu Darwin á félagslegan veruleika mannsins. Félagsfræði og stjórnmálaheimspeki Spencers fellur ekki að þeirri hugmynd að „hinir hæfustu lifa af“ lýsi félagslegum veruleika mannsins á sannferðugan hátt.

Spencer var undir miklum áhrifum frá Auguste Comte (1798-1857) og pósitífisma hans. Spencer fylgdi að mörgu leyti í fótspor Comte, sérstaklega hvað varðar þá sögulegu og lögbundnu framfarahyggju sem einkenndi skilning hans á mannlegu samfélagi, en Spencer er einn af brautryðjendum félagsfræðinnar á nítjándu öld. Rétt eins og Comte lagði Spencer þunga áherslu á félagslegt eðli mannsins sem skilyrðir alla tilveru hans. Þessi þáttur í verkum Spencers gengur þvert gegn þeim túlkunum sem hafa lagt áherslu á hlutdeild hans í hefð róttækrar einstaklingshyggju. Slíkar túlkanir byggja gjarnan á efasemdum Spencers um hlutverk ríkisvaldsins. Samkvæmt hugmyndum hans átti náttúruleg þróun bæði að leiða til fullkomins mannkyns, í siðferðilegu og vitsmunalegu tilliti, og fullkomins samfélags. Í fullkomnu samfélagi væri engin þörf fyrir miðlægt ríkisvald heldur yrði réttlát samfélagsgerð svo að segja náttúrulegur hluti af mannlegri tilveru. Í The Man versus the State (1884), færir Spencer rök fyrir því að eðlislæg og náttúruleg réttindi hljóti að hafa meira gildi en ytra boðvald ríkisins og að varhugavert sé að reyna að koma á róttækum breytingum á samfélagsgerðinni með beitingu ríkisvalds. Í þessu ljósi er Spencer tvímælalaust hluti af hefð vestrænnar frjálshyggju. En á sama tíma er mikilvægt að hafa hugfast að Spencer trúði á félagslegt eðli mannsins og var eindreginn talsmaður félagslegra umbóta á sviði lýðréttinda og menntunar. Maðurinn hafði til að bera félagslega eiginleika sem stuðluðu að samvinnu og samstarfi, fremur en ekki sundurlyndi og óeiningu, ásamt náttúrulegri tilhneigingu til að hjálpa náunga sínum og samferðafólki.

Það er ekki síst vegna þess með hvaða hætti kenningar Spencers voru túlkaðar af áhangendum og gagnrýnendum hans á síðustu áratugum nítjándu aldar og á fyrri hluta þeirra tuttugustu sem gjarnan er litið til hans sem persónugervings íhaldssemi og harðbrjósta einstaklingshyggju. En þegar verk hans eru skoðuð í heild og lesin í sögulegu samhengi verður ljóst að hann hélt á lofti mjög sterkri gagnrýni á ráðandi öfl samtíðar sinnar. Þannig andmælti Spencer þjóðernishyggju og sókn evrópskra þjóða eftir nýlendum og var alla tíð eindreginn friðarsinni. Hann efaðist um réttmæti þess að einstaklingar gætu gert tilkall til eignarhalds á landi því að allir menn höfðu jafnan rétt til jarðarinnar. Enn fremur lagði hann áherslu á réttindi vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum. Spencer var tvímælalaust einn af áhrifamestu og róttækustu þjóðfélagsrýnum nítjándu aldar.

Mynd:

Höfundur

doktorsnemi í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

4.12.2012

Spyrjandi

Þorsteinn Valdimarsson, Gunnar Freyr Þorleifsson, Páll Sigurdsson

Tilvísun

Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Herbert Spencer?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2012. Sótt 6. febrúar 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=25962.

Jakob Guðmundur Rúnarsson. (2012, 4. desember). Hver var Herbert Spencer? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=25962

Jakob Guðmundur Rúnarsson. „Hver var Herbert Spencer?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2012. Vefsíða. 6. feb. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=25962>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Herbert Spencer?
Herbert Spencer fæddist 27. apríl árið 1820 í borginni Derby á Englandi. Faðir hans, George, var kennari og sá hann sjálfur um menntun sonar síns fyrstu tíu ár ævi hans en eftir það tóku föðurbræður hans, William, sem einnig var kennari, og presturinn Thomas, að sér að mennta drenginn. Allir voru þeir strangir, og svo virðist sem að bæði faðir Spencers og móðir hans, Harriet hafi ekki sýnt honum sérstaklega hlýlegt viðmót í uppvextinum. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi mátt betur fara í uppeldinu lærði Spencer latínu, grísku, frönsku, en einnig stærðfræði og raunvísindi sem faðir hans lagði mikla áherslu á. Fyrir utan þá grundvallarmenntun sem hann hlaut í æsku var Spencer algjörlega sjálfmenntaður og eftir hann liggja fjölmörg verk á sviði siðfræði, félagsfræði, hagfræði, sálfræði, líffræði og stjórnmálaheimspeki. Spencer var gríðarlega áhrifamikill og vinsæll heimspekingur á seinni hluta nítjándu aldar en á tuttugustu öld hefur heimspeki hans verið harðlega gagnrýnd. Sú gagnrýni hefur þó á tíðum byggt á bjagaðri túlkun á verkum hans og stuðlað að skrumskældri mynd af heimspeki hans. Spencer þótti ákaflega sérvitur og undarlegur í háttum, svo jaðraði við sjúkleika. Á síðustu árum ævi sinnar glímdi hann hins vegar við mjög alvarleg og raunveruleg veikindi sem drógu mjög úr starfsgetu hans. Hann sinnti engu að síður ritstörfum allt til dauðadags árið 1904.

Spencer hefur verið, og verður væntanlega lengi enn, helst minnst fyrir fleyga túlkun sína á náttúruvalskenningu Charles Darwin (1809-1882), með orðunum „hinir hæfustu lifa af“ og fyrir að hafa heimfært það lögmál upp á félagsheim mannsins og ýtt þannig úr vör svokölluðum félagslegum darwinisma sem átti hlutdeild í hugmyndafræðilegum grundvelli margra viðurstyggilegustu grimmdarverka tuttugustu aldarinnar. Þegar nánar er að gáð kemur hins vegar í ljós að þessi túlkun stenst ekki alfarið. Spencer taldi vissulega það vera kjarnann í kenningu Darwins að „hinir hæfustu lifðu af“ en þar með er ekki sagt að Spencer hafi tekið gagnrýnislaust undir slík viðhorf. Raunar mætti frekar líta á orðskvið Spencers sem tilraun hans til að benda á takmarkað gildi náttúruvalskenningar Darwin.

Portrett af Herbert Spencer eftir John McLure Hamilton.

Spencer komst í kynni við lífþróunarhugmyndir þegar á unga aldri og hafði gert hugmyndina um þróun að lögmálsbundnum grundvelli allrar heimspeki sinnar löngu áður en náttúruvalskenning Darwin náði eyrum fræðimanna og almennings. Eitt fyrsta verk Spencers sem kynnti þróunarlögmál hans til sögunnar á ítarlegan hátt var First Principles of a New System of Philosophy (1862). Í sinni einföldustu mynd má segja að þróunarlögmál Spencers kveði á um að öll fyrirbæri taki breytingum, eða þróist, frá einfaldleika og einsleitni til margbreytileika og fjölbreytni og leita jafnvægis við umhverfi sitt. Þetta lögmál gildir á öllum sviðum tilverunnar, allt frá stjörnum og stjörnuþokum til hinna einföldustu efnasambanda, bæði ólífrænna og lífrænna, og jafnframt á sviðum hins vitsmunalega og félagsfræðilega. Efnisheimurinn, lífheimurinn og félagsheimur mannsins eru allir undirseldir lögmálinu um stefnubundna þróun.

Innblásturinn að þessari þróunarkenningu er bæði fenginn úr ranni líffræðinnar, þá sérstaklega frá kenningu Jean-Baptiste Lamarck (1744-1829) um starfsval og erfðir áunninna eiginleika, en auk þess má benda á ákveðin samhljóm við náttúruheimspeki Friedrich Schelling (1775-1854) sem Spencer komst í tæri við í gegnum verk Samuel Coleridge (1772-1834). Í huga Spencers var þróun mannsins og mannlegs samfélags hluti af heildarþróun veraldarinnar og var í þeim skilningi lögbundið ferli stöðugra framfara, þar sem jákvæðir eiginleikar mannsins (líffræðilegir, vitsmunalegir, og félagslegir) safnast upp hægt og bítandi. Þróunarlögmál Spencer var ekki síður sögulegt og félagslegt en líffræðilegt. Eftir að náttúruvalskenning Darwins kom fram varð Spencer hins vegar að taka tillit til hennar, en það er ljóst að hann taldi að hún gæti ekki ein og sér skýrt vitsmunalega og félagslega þróun mannsins. Það er því engan veginn hægt að halda því fram að Spencer hafi heimfært náttúruvalskenningu Darwin á félagslegan veruleika mannsins. Félagsfræði og stjórnmálaheimspeki Spencers fellur ekki að þeirri hugmynd að „hinir hæfustu lifa af“ lýsi félagslegum veruleika mannsins á sannferðugan hátt.

Spencer var undir miklum áhrifum frá Auguste Comte (1798-1857) og pósitífisma hans. Spencer fylgdi að mörgu leyti í fótspor Comte, sérstaklega hvað varðar þá sögulegu og lögbundnu framfarahyggju sem einkenndi skilning hans á mannlegu samfélagi, en Spencer er einn af brautryðjendum félagsfræðinnar á nítjándu öld. Rétt eins og Comte lagði Spencer þunga áherslu á félagslegt eðli mannsins sem skilyrðir alla tilveru hans. Þessi þáttur í verkum Spencers gengur þvert gegn þeim túlkunum sem hafa lagt áherslu á hlutdeild hans í hefð róttækrar einstaklingshyggju. Slíkar túlkanir byggja gjarnan á efasemdum Spencers um hlutverk ríkisvaldsins. Samkvæmt hugmyndum hans átti náttúruleg þróun bæði að leiða til fullkomins mannkyns, í siðferðilegu og vitsmunalegu tilliti, og fullkomins samfélags. Í fullkomnu samfélagi væri engin þörf fyrir miðlægt ríkisvald heldur yrði réttlát samfélagsgerð svo að segja náttúrulegur hluti af mannlegri tilveru. Í The Man versus the State (1884), færir Spencer rök fyrir því að eðlislæg og náttúruleg réttindi hljóti að hafa meira gildi en ytra boðvald ríkisins og að varhugavert sé að reyna að koma á róttækum breytingum á samfélagsgerðinni með beitingu ríkisvalds. Í þessu ljósi er Spencer tvímælalaust hluti af hefð vestrænnar frjálshyggju. En á sama tíma er mikilvægt að hafa hugfast að Spencer trúði á félagslegt eðli mannsins og var eindreginn talsmaður félagslegra umbóta á sviði lýðréttinda og menntunar. Maðurinn hafði til að bera félagslega eiginleika sem stuðluðu að samvinnu og samstarfi, fremur en ekki sundurlyndi og óeiningu, ásamt náttúrulegri tilhneigingu til að hjálpa náunga sínum og samferðafólki.

Það er ekki síst vegna þess með hvaða hætti kenningar Spencers voru túlkaðar af áhangendum og gagnrýnendum hans á síðustu áratugum nítjándu aldar og á fyrri hluta þeirra tuttugustu sem gjarnan er litið til hans sem persónugervings íhaldssemi og harðbrjósta einstaklingshyggju. En þegar verk hans eru skoðuð í heild og lesin í sögulegu samhengi verður ljóst að hann hélt á lofti mjög sterkri gagnrýni á ráðandi öfl samtíðar sinnar. Þannig andmælti Spencer þjóðernishyggju og sókn evrópskra þjóða eftir nýlendum og var alla tíð eindreginn friðarsinni. Hann efaðist um réttmæti þess að einstaklingar gætu gert tilkall til eignarhalds á landi því að allir menn höfðu jafnan rétt til jarðarinnar. Enn fremur lagði hann áherslu á réttindi vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum. Spencer var tvímælalaust einn af áhrifamestu og róttækustu þjóðfélagsrýnum nítjándu aldar.

Mynd:

...