Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Getur efedrín haft hættuleg áhrif á fólk?

Matvælastofnun

Í aldanna rás hefur jurtin ma huang verið notuð í kínverskum lækningum. Jurtin, sem oftast er nefnd ephedra á erlendum tungumálum, inniheldur meðal annars efedrín sem er virkasta innihaldsefnið. Efedrín er að finna í mörgum fæðubótarefnum sem markaðssett eru fyrir fólk sem vill grennast og fólk sem er að leita að efnum sem stuðla að aukinni orku til hinna ýmsu starfa.

Áhrif efedríns á hjarta- og æðakerfi líkamans felast aðallega í örari hjartslætti og hærri blóðþrýstingi. Áhrif efnisins á miðtaugakerfið felast í örvun af sama tagi og adrenalín veldur, en áhrifin eru kraftmeiri og standa lengur yfir þegar efedríns er neytt.

Fáar vandaðar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum efedríns á líkamann. Hægt er að finna niðurstöður rannsókna sem sýna aukið úthald, aukna einbeitingu og aukinn kraft og styrk þó svo að ekki sé alltaf um öruggar heimildir að ræða. En þar sem aukaverkanir efedríns, og fæðubótarefna sem innihalda efedrín, geta verið mjög alvarlegar þá falla jákvæðu áhrifin af neyslu efedríns í skuggann af hættunni sem neyslunni fylgi.

Framleiðsla efedríns hófst seint á þriðja áratug síðustu aldar og var það meðal annars notað sem lyf við asma.

Þar sem ekki er mikið um áreiðanlegar klínískar rannsóknir á eituráhrifum efedríns hafa vísindamenn stuðst nokkuð við gagnabanka Matvæla- og lyfjaeftirlitsins í Bandaríkjunum (FDA). Þetta er svokallaður jákvæður listi þar sem einstaklingar hafa skráð niður aukaverkanir vegna neyslu á fæðubótarefnum sem innihalda efedrín. Í þessu skráningarkerfi hafa verið skráð yfir 1000 tilfelli af aukaverkun þessara efna síðan 1994. Þar hafa komið fram ábendingar um að efedrín valdi taugatitringi, svefnleysi, svima, skjálfta, hækkuðum blóðþrýstingi, óreglulegum hjartslætti, hröðum hjartslætti, höfuðverk, óþægindum í meltingarvegi, brjóstverkjum, hjartaslagi, lifrarbólgu, heilablóðfalli og dauða. Þessar aukaverkanir hafa verið skráðar af fólki á öllum aldri og án nokkurra þekktra kvilla. Oftar hefur verið um að ræða tilfelli sem túlka má sem væg, svo sem höfuðverk, svefnleysi og svima. Alvarlegu tilfellin eru hins vegar áhyggjuefni enda afleiðingarnar skelfilegar. Alvarlegu tilfellin hafa oftar en ekki orðið þegar annarra efna (svo sem koffíns) sem einnig örva miðtaugakerfið og hjarta- og æðakerfið hefur verið neytt samfara efedríni.

Árið 1997 gaf FDA út skýrslu um magn efedríns í fæðubótarefnum og um notkun, auglýsingu og markaðssetningu fæðubótarefna sem innihalda efedrín. Í þessari skýrslu kom meðal annars fram að FDA hefði áhyggjur af aukinni notkun fæðubótarefna sem innihéldu efedrín. FDA kom með ráðleggingar fyrir neytendur varðandi neyslu þessara efna og auk þess kvaðir á framleiðendur og innflytjendur. Þar kom fram að ekki skyldi neyta meira en 8 mg af efedríni (e. ephedrine alkaloids) á hverjum 6 klukkustundum, heildardagneysla skuli ekki fara yfir 24 mg og að samfelld neysla í meira en 7 daga sé óráðleg.

Jafnframt var mælt gegn því að neyta annarra efna sem örva miðtaugakerfið og/eða hjarta- og æðakerfið, svo sem koffíns. Sérstök varnarorð áttu að vera prentuð á umbúðir þar sem neikvæðar aukaverkanir væru taldar upp. Skráningarkerfi FDA, þar sem neikvæðu aukaverkanir voru skráðar af einstaklingunum sjálfum, var í raun ófullkomið, meðal annars vegna þess að fæðubótarefnin innihéldu önnur efni en efedrín sem ekki voru könnuð og því ákvað FDA að hverfa frá kvöðunum sem stofnunin hafði ákveðið að setja á framleiðendur og innflytjendur fæðubótarefna.

Þrátt fyrir að FDA hafi horfið frá ofangreindum kvöðum á framleiðendur og innflytjendur ákvað stofnunin samt sem áður að láta sjálfstæða stofnun athuga betur nokkur tilfelli sem skráð höfðu verið þar sem efedrín hefði hugsanlega komið við sögu. Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að í þeim tilfellum þar sem hægt var að tengja aukaverkanirnar "örugglega", "næstum örugglega" eða "hugsanlega" við neyslu á efedríni (87 tilfelli samtals), voru skráð 10 dauðsföll (11%) og fjöldinn allur af tilfellum þar sem um var að ræða varanlegan heilsuskaða. Einstaklingar sem létust neyttu frá 20-60 mg á dag.

Í framahaldi af þessu má einnig nefna að fyrir nokkru ákváðu bandarísku fótboltasamtökin (NFL) að setja efedrín á bannlista og þeir leikmenn sem uppvísir verða að notkun efedríns fá sömu sekt og ef þeir neyttu anabólískra stera (4 leikja bann án launa). Þar með bættist NFL-deildin við samtök háskólaíþrótta (NCAA) og Alþjóðlegu Ólympíunefndina (IOC) sem banna notkun á efninu.

Efedrín er ólöglegt til almennrar neyslu á Íslandi og er það ekki að ástæðulausu. Of mikið af gögnum eru til um skaðsemi efedríns á mannslíkamann. Það segir meira en mörg orð að FDA, NCAA og NFL í Bandaríkjunum telja að fæðubótarefni sem innihalda efedrín séu varhugaverð.

Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um efedrín á vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Ephedrine á Wikipedia. Sótt 9. 12. 2008.


Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hvað er efedrín, hvað gerir það manni, af hvaða efnum samanstendur það og er það hættulegt?

Höfundur

Útgáfudagur

11.12.2008

Spyrjandi

Hulda Hjálmarsdóttir

Tilvísun

Matvælastofnun. „Getur efedrín haft hættuleg áhrif á fólk?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2008. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=27445.

Matvælastofnun. (2008, 11. desember). Getur efedrín haft hættuleg áhrif á fólk? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=27445

Matvælastofnun. „Getur efedrín haft hættuleg áhrif á fólk?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2008. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=27445>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur efedrín haft hættuleg áhrif á fólk?
Í aldanna rás hefur jurtin ma huang verið notuð í kínverskum lækningum. Jurtin, sem oftast er nefnd ephedra á erlendum tungumálum, inniheldur meðal annars efedrín sem er virkasta innihaldsefnið. Efedrín er að finna í mörgum fæðubótarefnum sem markaðssett eru fyrir fólk sem vill grennast og fólk sem er að leita að efnum sem stuðla að aukinni orku til hinna ýmsu starfa.

Áhrif efedríns á hjarta- og æðakerfi líkamans felast aðallega í örari hjartslætti og hærri blóðþrýstingi. Áhrif efnisins á miðtaugakerfið felast í örvun af sama tagi og adrenalín veldur, en áhrifin eru kraftmeiri og standa lengur yfir þegar efedríns er neytt.

Fáar vandaðar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum efedríns á líkamann. Hægt er að finna niðurstöður rannsókna sem sýna aukið úthald, aukna einbeitingu og aukinn kraft og styrk þó svo að ekki sé alltaf um öruggar heimildir að ræða. En þar sem aukaverkanir efedríns, og fæðubótarefna sem innihalda efedrín, geta verið mjög alvarlegar þá falla jákvæðu áhrifin af neyslu efedríns í skuggann af hættunni sem neyslunni fylgi.

Framleiðsla efedríns hófst seint á þriðja áratug síðustu aldar og var það meðal annars notað sem lyf við asma.

Þar sem ekki er mikið um áreiðanlegar klínískar rannsóknir á eituráhrifum efedríns hafa vísindamenn stuðst nokkuð við gagnabanka Matvæla- og lyfjaeftirlitsins í Bandaríkjunum (FDA). Þetta er svokallaður jákvæður listi þar sem einstaklingar hafa skráð niður aukaverkanir vegna neyslu á fæðubótarefnum sem innihalda efedrín. Í þessu skráningarkerfi hafa verið skráð yfir 1000 tilfelli af aukaverkun þessara efna síðan 1994. Þar hafa komið fram ábendingar um að efedrín valdi taugatitringi, svefnleysi, svima, skjálfta, hækkuðum blóðþrýstingi, óreglulegum hjartslætti, hröðum hjartslætti, höfuðverk, óþægindum í meltingarvegi, brjóstverkjum, hjartaslagi, lifrarbólgu, heilablóðfalli og dauða. Þessar aukaverkanir hafa verið skráðar af fólki á öllum aldri og án nokkurra þekktra kvilla. Oftar hefur verið um að ræða tilfelli sem túlka má sem væg, svo sem höfuðverk, svefnleysi og svima. Alvarlegu tilfellin eru hins vegar áhyggjuefni enda afleiðingarnar skelfilegar. Alvarlegu tilfellin hafa oftar en ekki orðið þegar annarra efna (svo sem koffíns) sem einnig örva miðtaugakerfið og hjarta- og æðakerfið hefur verið neytt samfara efedríni.

Árið 1997 gaf FDA út skýrslu um magn efedríns í fæðubótarefnum og um notkun, auglýsingu og markaðssetningu fæðubótarefna sem innihalda efedrín. Í þessari skýrslu kom meðal annars fram að FDA hefði áhyggjur af aukinni notkun fæðubótarefna sem innihéldu efedrín. FDA kom með ráðleggingar fyrir neytendur varðandi neyslu þessara efna og auk þess kvaðir á framleiðendur og innflytjendur. Þar kom fram að ekki skyldi neyta meira en 8 mg af efedríni (e. ephedrine alkaloids) á hverjum 6 klukkustundum, heildardagneysla skuli ekki fara yfir 24 mg og að samfelld neysla í meira en 7 daga sé óráðleg.

Jafnframt var mælt gegn því að neyta annarra efna sem örva miðtaugakerfið og/eða hjarta- og æðakerfið, svo sem koffíns. Sérstök varnarorð áttu að vera prentuð á umbúðir þar sem neikvæðar aukaverkanir væru taldar upp. Skráningarkerfi FDA, þar sem neikvæðu aukaverkanir voru skráðar af einstaklingunum sjálfum, var í raun ófullkomið, meðal annars vegna þess að fæðubótarefnin innihéldu önnur efni en efedrín sem ekki voru könnuð og því ákvað FDA að hverfa frá kvöðunum sem stofnunin hafði ákveðið að setja á framleiðendur og innflytjendur fæðubótarefna.

Þrátt fyrir að FDA hafi horfið frá ofangreindum kvöðum á framleiðendur og innflytjendur ákvað stofnunin samt sem áður að láta sjálfstæða stofnun athuga betur nokkur tilfelli sem skráð höfðu verið þar sem efedrín hefði hugsanlega komið við sögu. Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að í þeim tilfellum þar sem hægt var að tengja aukaverkanirnar "örugglega", "næstum örugglega" eða "hugsanlega" við neyslu á efedríni (87 tilfelli samtals), voru skráð 10 dauðsföll (11%) og fjöldinn allur af tilfellum þar sem um var að ræða varanlegan heilsuskaða. Einstaklingar sem létust neyttu frá 20-60 mg á dag.

Í framahaldi af þessu má einnig nefna að fyrir nokkru ákváðu bandarísku fótboltasamtökin (NFL) að setja efedrín á bannlista og þeir leikmenn sem uppvísir verða að notkun efedríns fá sömu sekt og ef þeir neyttu anabólískra stera (4 leikja bann án launa). Þar með bættist NFL-deildin við samtök háskólaíþrótta (NCAA) og Alþjóðlegu Ólympíunefndina (IOC) sem banna notkun á efninu.

Efedrín er ólöglegt til almennrar neyslu á Íslandi og er það ekki að ástæðulausu. Of mikið af gögnum eru til um skaðsemi efedríns á mannslíkamann. Það segir meira en mörg orð að FDA, NCAA og NFL í Bandaríkjunum telja að fæðubótarefni sem innihalda efedrín séu varhugaverð.

Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um efedrín á vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Ephedrine á Wikipedia. Sótt 9. 12. 2008.


Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hvað er efedrín, hvað gerir það manni, af hvaða efnum samanstendur það og er það hættulegt?
...