Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvenær var minkur fluttur til Íslands?

Karl Skírnisson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. var Norður-Ameríka vagga loðdýraeldis. Upp úr 1870 fóru menn þar að fanga ýmsar villtar dýrategundir og flytja þær inn á sérstök loðdýrabú til ræktunar. Hvatinn að þessum eldistilraunum var hátt skinnaverð og mikil eftirspurn eftir grávöru auk þess sem ýmsir villtir stofnar loðdýra voru á undanhaldi vegna ofveiði. Þessar eldistilraunir gengu misjafnlega eftir því hvaða tegundir áttu í hlut, en fljótlega náðu frumkvöðlar loðdýraeldisins góðum tökum á minkaeldi.

Þegar sýnt var að loðdýrabú í Norður-Ameríku skiluðu arði fóru aðilar í öðrum löndum einnig að huga að minkaeldi. Fyrstu minkabúin í Evrópu voru sett á laggirnar árið 1927 í Noregi og árið 1928 í Svíþjóð. Næstu ár og áratugi voru minkar fluttir til flestra annarra landa í Norður-Evrópu og þar í hópi var Ísland.




Minkar voru fyrst fluttir til Íslands haustið 1931 en þá voru þrjú dýr keypt af norskum loðdýrabændum og flutt að Fossi í Grímsnesi. Nokkrum mánuðum síðar voru 75 minkar fluttir á nýstofnað bú á Selfossi. Minkabúum fjölgaði síðan á næstu árum og var meðal annars stofnað bú að Selási við Reykjavík.

Minkar sluppu sannanlega fyrst úr haldi haustið 1932 og gerðist það á Grímsnesbúinu. Á næstu árum sluppu minkar einnig úr öðrum búum, meðal annars úr Selásbúinu. Fyrsta minkagrenið fannst árið 1937 og var það við Elliðaárnar í Reykjavík. Vorið eftir fannst minkagreni við Leirvogsá í Mosfellssveit og á næstu árum veiddust stöðugt fleiri villtir minkar.

Þegar leið á 5. áratuginn fór ekki á milli mála að villtur minkur hafði náð öruggri fótfestu umhverfis minkabúin á Suðvesturlandi. Þaðan nam hann svo land bæði í norður og austurátt. Við lok 6. áratugarins voru minkar komnir nyrst á Vestfirði og farnir að sjást á Norðausturlandi. Afkomendur minka sem haldið höfðu í austurátt voru komnir að Skeiðarársandi. Lengra komust þeir þó ekki austur á bóginn því víðátta sandanna sunnan Vatnajökuls reyndist óyfirstíganleg hindrun enda lítið þar um fæðu og fylgsni.

Landnámi minks á Íslandi lauk í Öræfasveit þegar fyrstu dýrin komu þangað um 1975. Voru það afkomendur minka sem fyrst námu Vesturland, síðan Norðurland og höfðu að því búnu lagt land undir fót suður Austfirði.

Landnámssaga minks á Íslandi spannaði rúma fjóra áratugi. Í dag lifir minkur alls staðar á landinu þar sem lífvænlegt er fyrir tegundina. Þó verður að undanskilja hér nokkrar eyjar sem liggja það fjarri landi að minkar geta hvorki synt né komist þangað á ís.

Fljótlega eftir að minkar tóku sér bólfestu í íslenskri náttúru áttuðu menn sig á því að í sumum tilfellum gátu dýrin valdið töluverðu tjóni. Árið 1937 var byrjað að greiða verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir að drepa minka. Fjöldi veiddra dýra hefur sveiflast nokkuð á milli ára. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má sjá hvernig veiðarnar hafa þróast á tímabilinu 1957-2000 en árið 2001 var 6.961 minkur veiddur á Íslandi (sjá svar Emilíu Dagnýjar Sveinbjörnsdóttur við spurningunni Hvar á landinu er mest veitt af tófum, minkum og selum?).

Landnám minka á Íslandi er ekki einsdæmi því víðast hvar þar sem minkaeldi hefur verið stundað að einhverju marki hafa minkar fyrr en síðar sloppið úr búrum og fjölgað sér úti í náttúrunni.



Þetta svar er að mestu leyti stytt útgáfa af kafla um minka eftir Karl Skírnisson sem birtist í bókinni Villt íslensk spendýr í ritstjórn Páls Hersteinssonar og Guttorms Sigbjarnasonar. Bókin var gefin út af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Landvernd árið 1993. Útdrátturinn er unnin af starfsmanni Vísindavefsins með góðfúslegu leyfi höfundar.



Myndir:

Höfundar

Karl Skírnisson

dýrafræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

10.7.2003

Spyrjandi

Örn ÞorvaldssonHildur JónsdóttirHrafnhildur A. JónsdóttirLaufey Hrólfsdóttir

Tilvísun

Karl Skírnisson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær var minkur fluttur til Íslands? “ Vísindavefurinn, 10. júlí 2003. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3571.

Karl Skírnisson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2003, 10. júlí). Hvenær var minkur fluttur til Íslands? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3571

Karl Skírnisson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær var minkur fluttur til Íslands? “ Vísindavefurinn. 10. júl. 2003. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3571>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var minkur fluttur til Íslands?
Á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. var Norður-Ameríka vagga loðdýraeldis. Upp úr 1870 fóru menn þar að fanga ýmsar villtar dýrategundir og flytja þær inn á sérstök loðdýrabú til ræktunar. Hvatinn að þessum eldistilraunum var hátt skinnaverð og mikil eftirspurn eftir grávöru auk þess sem ýmsir villtir stofnar loðdýra voru á undanhaldi vegna ofveiði. Þessar eldistilraunir gengu misjafnlega eftir því hvaða tegundir áttu í hlut, en fljótlega náðu frumkvöðlar loðdýraeldisins góðum tökum á minkaeldi.

Þegar sýnt var að loðdýrabú í Norður-Ameríku skiluðu arði fóru aðilar í öðrum löndum einnig að huga að minkaeldi. Fyrstu minkabúin í Evrópu voru sett á laggirnar árið 1927 í Noregi og árið 1928 í Svíþjóð. Næstu ár og áratugi voru minkar fluttir til flestra annarra landa í Norður-Evrópu og þar í hópi var Ísland.




Minkar voru fyrst fluttir til Íslands haustið 1931 en þá voru þrjú dýr keypt af norskum loðdýrabændum og flutt að Fossi í Grímsnesi. Nokkrum mánuðum síðar voru 75 minkar fluttir á nýstofnað bú á Selfossi. Minkabúum fjölgaði síðan á næstu árum og var meðal annars stofnað bú að Selási við Reykjavík.

Minkar sluppu sannanlega fyrst úr haldi haustið 1932 og gerðist það á Grímsnesbúinu. Á næstu árum sluppu minkar einnig úr öðrum búum, meðal annars úr Selásbúinu. Fyrsta minkagrenið fannst árið 1937 og var það við Elliðaárnar í Reykjavík. Vorið eftir fannst minkagreni við Leirvogsá í Mosfellssveit og á næstu árum veiddust stöðugt fleiri villtir minkar.

Þegar leið á 5. áratuginn fór ekki á milli mála að villtur minkur hafði náð öruggri fótfestu umhverfis minkabúin á Suðvesturlandi. Þaðan nam hann svo land bæði í norður og austurátt. Við lok 6. áratugarins voru minkar komnir nyrst á Vestfirði og farnir að sjást á Norðausturlandi. Afkomendur minka sem haldið höfðu í austurátt voru komnir að Skeiðarársandi. Lengra komust þeir þó ekki austur á bóginn því víðátta sandanna sunnan Vatnajökuls reyndist óyfirstíganleg hindrun enda lítið þar um fæðu og fylgsni.

Landnámi minks á Íslandi lauk í Öræfasveit þegar fyrstu dýrin komu þangað um 1975. Voru það afkomendur minka sem fyrst námu Vesturland, síðan Norðurland og höfðu að því búnu lagt land undir fót suður Austfirði.

Landnámssaga minks á Íslandi spannaði rúma fjóra áratugi. Í dag lifir minkur alls staðar á landinu þar sem lífvænlegt er fyrir tegundina. Þó verður að undanskilja hér nokkrar eyjar sem liggja það fjarri landi að minkar geta hvorki synt né komist þangað á ís.

Fljótlega eftir að minkar tóku sér bólfestu í íslenskri náttúru áttuðu menn sig á því að í sumum tilfellum gátu dýrin valdið töluverðu tjóni. Árið 1937 var byrjað að greiða verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir að drepa minka. Fjöldi veiddra dýra hefur sveiflast nokkuð á milli ára. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má sjá hvernig veiðarnar hafa þróast á tímabilinu 1957-2000 en árið 2001 var 6.961 minkur veiddur á Íslandi (sjá svar Emilíu Dagnýjar Sveinbjörnsdóttur við spurningunni Hvar á landinu er mest veitt af tófum, minkum og selum?).

Landnám minka á Íslandi er ekki einsdæmi því víðast hvar þar sem minkaeldi hefur verið stundað að einhverju marki hafa minkar fyrr en síðar sloppið úr búrum og fjölgað sér úti í náttúrunni.



Þetta svar er að mestu leyti stytt útgáfa af kafla um minka eftir Karl Skírnisson sem birtist í bókinni Villt íslensk spendýr í ritstjórn Páls Hersteinssonar og Guttorms Sigbjarnasonar. Bókin var gefin út af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Landvernd árið 1993. Útdrátturinn er unnin af starfsmanni Vísindavefsins með góðfúslegu leyfi höfundar.



Myndir:...