Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík

Hvernig fara minkaveiðar fram á Íslandi?

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee

Minkar eru veiddir til þess að draga úr því tjóni sem þeir geta valdið. Veiðar hófust fljótlega eftir að minkar fóru að breiðast um landið en árið 1939 var byrjað að greiða verðlaun fyrir veiðarnar úr opinberum sjóðum.

Nú er fyrirkomulag minkaveiða oftast þannig að umhverfisráðuneytið gefur út viðmiðunartaxta um laun veiðimanna og verðlaunagreiðslur fyrir hvern veiddan mink. Sveitarfélög ráða síðan minkaveiðimenn til að annast minkaveiðar og greiða þeim fyrir. Þau fá svo endurgreiddan helming af viðmiðunarkostnaði frá ríkinu. Að núvirði hafa minkaveiðar kostað ríki og sveitarfélög meira en 800 milljónir króna frá því verðlaunagreiðslur hófust.

Langmest er veitt af minkum á tímabilinu apríl-júlí, þó allra mest í maí og júní. Þessar veiðar fara oftast þannig fram að minkaveiðimenn fara með þjálfaða minkahunda meðfram sjó og vötnum. Hundarnir finna minkana og veiðimennirnir reyna síðan að ná þeim út úr fylgsnum sínum og skjóta þá.

Lítið skipulag og/eða samræming er á veiðum. Til dæmis er svæðum almennt ekki forgangsraðað með tilliti til mikilvægis minkaveiða og veiðitími er undir veiðimönnum sjálfum og vinnuveitendum þeirra kominn. Sveitarfélögum ber skylda til að láta stunda veiðar en það ákvæði er marklaust, þar sem ekkert er kveðið á um lágmarks veiðiálag. Sveitarfélag getur sem sagt ráðið mann sem veiðir einn mink og hefur þar með uppfyllt ákvæðið. Þetta gerir það að verkum að eitt sveitarfélag getur staðið myndarlega að veiðum en árangur þess hverfur fljótt ef nágrannasveitarfélög láta ekki stunda veiðar hjá sér.

Nú eru liðnir tæpir þrír áratugir frá því minkar höfðu fullnumið landið. Fjöldi veiddra dýra hefur haldið áfram að aukast, sem bendir til þess að veiðarnar hafi ekki áhrif á heildarstofnstærð á landsvísu. Sú breyting hefur orðið á veiðitölum að vart verður 5-7 ára sveiflu í veiðinni (sjá mynd). Orsakir þessa eru óþekktar en ólíklegt er talið að sveiflurnar skýrist af veiðiátaki (Áki Ármann Jónsson, munnl. uppl.).Minkaveiði á Íslandi 1937-2002

Ekki eru til upplýsingar um stærð minkastofnsins, hvort eða hversu mikil áhrif veiðarnar hafa, né náttúruleg vanhöld sem hafa veruleg áhrif á það hvort veiðar skila árangri. Þetta gerir það að verkum að ekki er grundvöllur fyrir því að stjórna veiðum að marki. Á meðan ástandið er þannig verður að telja ólíklegt að verulegur árangur náist í því að fækka minkum að ráði.

Þess ber þó að geta að í gangi eru rannsóknir á vegum Náttúrustofu Vesturlands í samvinnu við Háskóla Íslands og veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar, þar sem leitast er við að meta stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi og veiðiálagið á honum. Þær upplýsingar munu gefa vísbendingu um áhrif veiðanna á stofninn en eru þó aðeins byrjunin á þeim rannsóknum sem gera þarf til þess að stjórn minkaveiða komist í eðlilegt horf.

Höfundar

forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands

líffræðingur á Náttúrustofu Vesturlands

Útgáfudagur

29.8.2003

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee. „Hvernig fara minkaveiðar fram á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2003. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3694.

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee. (2003, 29. ágúst). Hvernig fara minkaveiðar fram á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3694

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee. „Hvernig fara minkaveiðar fram á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2003. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3694>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig fara minkaveiðar fram á Íslandi?
Minkar eru veiddir til þess að draga úr því tjóni sem þeir geta valdið. Veiðar hófust fljótlega eftir að minkar fóru að breiðast um landið en árið 1939 var byrjað að greiða verðlaun fyrir veiðarnar úr opinberum sjóðum.

Nú er fyrirkomulag minkaveiða oftast þannig að umhverfisráðuneytið gefur út viðmiðunartaxta um laun veiðimanna og verðlaunagreiðslur fyrir hvern veiddan mink. Sveitarfélög ráða síðan minkaveiðimenn til að annast minkaveiðar og greiða þeim fyrir. Þau fá svo endurgreiddan helming af viðmiðunarkostnaði frá ríkinu. Að núvirði hafa minkaveiðar kostað ríki og sveitarfélög meira en 800 milljónir króna frá því verðlaunagreiðslur hófust.

Langmest er veitt af minkum á tímabilinu apríl-júlí, þó allra mest í maí og júní. Þessar veiðar fara oftast þannig fram að minkaveiðimenn fara með þjálfaða minkahunda meðfram sjó og vötnum. Hundarnir finna minkana og veiðimennirnir reyna síðan að ná þeim út úr fylgsnum sínum og skjóta þá.

Lítið skipulag og/eða samræming er á veiðum. Til dæmis er svæðum almennt ekki forgangsraðað með tilliti til mikilvægis minkaveiða og veiðitími er undir veiðimönnum sjálfum og vinnuveitendum þeirra kominn. Sveitarfélögum ber skylda til að láta stunda veiðar en það ákvæði er marklaust, þar sem ekkert er kveðið á um lágmarks veiðiálag. Sveitarfélag getur sem sagt ráðið mann sem veiðir einn mink og hefur þar með uppfyllt ákvæðið. Þetta gerir það að verkum að eitt sveitarfélag getur staðið myndarlega að veiðum en árangur þess hverfur fljótt ef nágrannasveitarfélög láta ekki stunda veiðar hjá sér.

Nú eru liðnir tæpir þrír áratugir frá því minkar höfðu fullnumið landið. Fjöldi veiddra dýra hefur haldið áfram að aukast, sem bendir til þess að veiðarnar hafi ekki áhrif á heildarstofnstærð á landsvísu. Sú breyting hefur orðið á veiðitölum að vart verður 5-7 ára sveiflu í veiðinni (sjá mynd). Orsakir þessa eru óþekktar en ólíklegt er talið að sveiflurnar skýrist af veiðiátaki (Áki Ármann Jónsson, munnl. uppl.).Minkaveiði á Íslandi 1937-2002

Ekki eru til upplýsingar um stærð minkastofnsins, hvort eða hversu mikil áhrif veiðarnar hafa, né náttúruleg vanhöld sem hafa veruleg áhrif á það hvort veiðar skila árangri. Þetta gerir það að verkum að ekki er grundvöllur fyrir því að stjórna veiðum að marki. Á meðan ástandið er þannig verður að telja ólíklegt að verulegur árangur náist í því að fækka minkum að ráði.

Þess ber þó að geta að í gangi eru rannsóknir á vegum Náttúrustofu Vesturlands í samvinnu við Háskóla Íslands og veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar, þar sem leitast er við að meta stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi og veiðiálagið á honum. Þær upplýsingar munu gefa vísbendingu um áhrif veiðanna á stofninn en eru þó aðeins byrjunin á þeim rannsóknum sem gera þarf til þess að stjórn minkaveiða komist í eðlilegt horf. ...