Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær sprakk sprengigígurinn hjá Santorini og hvaða áhrif hafði stórgosið þar?

Haraldur Sigurðsson

Það má segja að Grikkland til forna, Krít og aðrar eyjar í Eyjahafi hafi verið vagga menningar Evrópu. Á seinni hluta bronsaldar, fyrir um 3600 árum, varð stórgos í Eyjahafi sem gerbreytti sögunni. Sprengigos á eynni Santorini eða Þeru í kringum árið 1625 f.Kr. er sennilega annað stærsta eldgos sem dunið hefur yfir mannkynið síðan ísöldinni lauk.1 Um þetta gos eru einungis til fornsagnir og kvæði, en jarðlögin á Santorini og á hafsbotninum umhverfis eyna segja sögu af hrikalegum atburðum.

Eyjan Santorini er eins og krans umhverfis öskju sem er að mestu neðansjávar. Hún hefur myndast í kjölfar að minnsta kosti fjögurra stórgosa, og er gosið á bronsöld það síðasta. Efst á öskjubarminum er 40 til 60 metra þykkt, hvítt eða ljósgrátt lag úr vikri og ösku, sem er eins og þeyttur rjómi ofan á skrautlegri og röndóttri jarðlagatertu sem myndar eyna.2

Sprengigos á eynni Santorini eða Þeru í kringum árið 1625 f.Kr. er sennilega annað stærsta eldgos sem dunið hefur yfir mannkynið síðan ísöldinni lauk. Myndin sýnir Santorini og er tekin úr gervitungli.

Árið 1867 var vikur frá Santorini fluttur í miklu magni til Egyptalands og nýttur í steinsteypu til að fóðra Súez-skurðinn. Þegar mínóska vikurlaginu var flett af eynni kom í ljós fjöldi forna mannvistaleifa. Þær sýndu að þegar Santorini gaus, var þar blómleg byggð Mínóa sem höfðu reist sér myndarlega borg, Akrotiri, á suðurhluta eyjarinnar.

Á bronsöld var mínósk menning allsráðandi við austanvert Miðjarðarhaf. Mínóar voru miklir farmenn og kaupmenn og réðu verslun og siglingum. Höfuðstöðvar þeirra voru á Krít, en Santorini var einnig mikilvæg Mínóum, eins og fram kemur í háþróuðum og auðugum menningarleifum þeirra í Akrotiri. Segja má að menning þeirra hafi bæði tengst fornegypskri menningu fyrir sunnan og forngrískri menningu sem átti eftir að þróast á meginlandi Grikklands fyrir norðan. Það hefur verið sagt að með Mínóum hafi evrópsk menning hafist.

Samtímis gosinu varð mikil hnignun í mínóskum byggðum í Eyjahafi, einkum á Krít, og algjör eyðing á Santorini. Þegar rústir halla voru grafnar upp á Krít í byrjun tuttugustu aldarinnar, kom fram sú tilgáta að hnignun menningar Mínóa væri að einhverju leyti tengd gosinu á Santorini, annaðhvort vegna gjóskufalls, jarðskjálfta eða flóðbylgju. Síðan hefur þessi tillaga ýmist risið eða dalað í vinsældum meðal fræðimanna sem fjallað hafa um málið, en fá eða engin ný rök komið fram með eða á móti.

Mikil óvissa hefur ríkt þar til nú um tvö lykilatriði, en það er stærð gossins og aldur þess. Í seinni tíð hafa nákvæmar greiningar fengist á aldri, og er það talið hafa orðið um það bil 1625 f.Kr. Einnig er nýlega lokið athugun á stærð eða magni gossins með mælingum á þykkt gjóskulagsins á hafsbotni umhverfis eyna.3 Þær sýna að ekki minna en 50 rúmkílómetrar af kviku hafa gosið, eða miklu meira en áður var talið. Loks hafa fundist merki um flóðbylgju í jarðlögum á ströndum Krítar. Þau sýna að hún hefur gengið á land að minnsta kosti tíu metrum ofar en núverandi sjávarmál. Jarðfræðigögnin ætla mínóska gosið svo mikið að búast mátti við gífurlegum áhrifum á umhverfið í Eyjahafi. Nú er það samvinnuverkefni hópa fornleifafræðinga og jarðfræðinga að kanna hvort frekari vitneskja um stórfelld áhrif finnist í mannvistarleifum á Krít og víðar. Ef svo er, kann sögnin fræga um hið horfna meginland Atlantis að breytast úr þjóðsögu í frásögn af raunverulegum atburði.4

Tilvísanir:

1Haraldur Sigurðsson, 1999. Encyclopedia of Volcanoes. Academic Press, San Diego.

2Sigurdsson og fleiri, 2006. Marine investigations of Greece's Santorini volcanic field. EOS, 87, 337-338.

Antonopoulos, J. 1992. The great Minoan eruption of Thera volcano and the ensuing tsunami in the Greek Archipelago. Natural Hazards, 5, 153-168.

3Sigurdsson og fleiri, 2006. Marine investigations of Greece's Santorini volcanic field. EOS, 87, 337-338.

4Sigurður Þórarinsson, 1970. Er Atlantisgátan að leysast? Andvari, 95, 55-84.

Myndir:


Þetta svar er hluti af umfjöllun um mestu eldgos jarðar í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Haraldur Sigurðsson

eldfjallafræðingur

Útgáfudagur

21.11.2013

Spyrjandi

Sólrún S.

Tilvísun

Haraldur Sigurðsson. „Hvenær sprakk sprengigígurinn hjá Santorini og hvaða áhrif hafði stórgosið þar?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2013, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=47566.

Haraldur Sigurðsson. (2013, 21. nóvember). Hvenær sprakk sprengigígurinn hjá Santorini og hvaða áhrif hafði stórgosið þar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=47566

Haraldur Sigurðsson. „Hvenær sprakk sprengigígurinn hjá Santorini og hvaða áhrif hafði stórgosið þar?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2013. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=47566>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær sprakk sprengigígurinn hjá Santorini og hvaða áhrif hafði stórgosið þar?
Það má segja að Grikkland til forna, Krít og aðrar eyjar í Eyjahafi hafi verið vagga menningar Evrópu. Á seinni hluta bronsaldar, fyrir um 3600 árum, varð stórgos í Eyjahafi sem gerbreytti sögunni. Sprengigos á eynni Santorini eða Þeru í kringum árið 1625 f.Kr. er sennilega annað stærsta eldgos sem dunið hefur yfir mannkynið síðan ísöldinni lauk.1 Um þetta gos eru einungis til fornsagnir og kvæði, en jarðlögin á Santorini og á hafsbotninum umhverfis eyna segja sögu af hrikalegum atburðum.

Eyjan Santorini er eins og krans umhverfis öskju sem er að mestu neðansjávar. Hún hefur myndast í kjölfar að minnsta kosti fjögurra stórgosa, og er gosið á bronsöld það síðasta. Efst á öskjubarminum er 40 til 60 metra þykkt, hvítt eða ljósgrátt lag úr vikri og ösku, sem er eins og þeyttur rjómi ofan á skrautlegri og röndóttri jarðlagatertu sem myndar eyna.2

Sprengigos á eynni Santorini eða Þeru í kringum árið 1625 f.Kr. er sennilega annað stærsta eldgos sem dunið hefur yfir mannkynið síðan ísöldinni lauk. Myndin sýnir Santorini og er tekin úr gervitungli.

Árið 1867 var vikur frá Santorini fluttur í miklu magni til Egyptalands og nýttur í steinsteypu til að fóðra Súez-skurðinn. Þegar mínóska vikurlaginu var flett af eynni kom í ljós fjöldi forna mannvistaleifa. Þær sýndu að þegar Santorini gaus, var þar blómleg byggð Mínóa sem höfðu reist sér myndarlega borg, Akrotiri, á suðurhluta eyjarinnar.

Á bronsöld var mínósk menning allsráðandi við austanvert Miðjarðarhaf. Mínóar voru miklir farmenn og kaupmenn og réðu verslun og siglingum. Höfuðstöðvar þeirra voru á Krít, en Santorini var einnig mikilvæg Mínóum, eins og fram kemur í háþróuðum og auðugum menningarleifum þeirra í Akrotiri. Segja má að menning þeirra hafi bæði tengst fornegypskri menningu fyrir sunnan og forngrískri menningu sem átti eftir að þróast á meginlandi Grikklands fyrir norðan. Það hefur verið sagt að með Mínóum hafi evrópsk menning hafist.

Samtímis gosinu varð mikil hnignun í mínóskum byggðum í Eyjahafi, einkum á Krít, og algjör eyðing á Santorini. Þegar rústir halla voru grafnar upp á Krít í byrjun tuttugustu aldarinnar, kom fram sú tilgáta að hnignun menningar Mínóa væri að einhverju leyti tengd gosinu á Santorini, annaðhvort vegna gjóskufalls, jarðskjálfta eða flóðbylgju. Síðan hefur þessi tillaga ýmist risið eða dalað í vinsældum meðal fræðimanna sem fjallað hafa um málið, en fá eða engin ný rök komið fram með eða á móti.

Mikil óvissa hefur ríkt þar til nú um tvö lykilatriði, en það er stærð gossins og aldur þess. Í seinni tíð hafa nákvæmar greiningar fengist á aldri, og er það talið hafa orðið um það bil 1625 f.Kr. Einnig er nýlega lokið athugun á stærð eða magni gossins með mælingum á þykkt gjóskulagsins á hafsbotni umhverfis eyna.3 Þær sýna að ekki minna en 50 rúmkílómetrar af kviku hafa gosið, eða miklu meira en áður var talið. Loks hafa fundist merki um flóðbylgju í jarðlögum á ströndum Krítar. Þau sýna að hún hefur gengið á land að minnsta kosti tíu metrum ofar en núverandi sjávarmál. Jarðfræðigögnin ætla mínóska gosið svo mikið að búast mátti við gífurlegum áhrifum á umhverfið í Eyjahafi. Nú er það samvinnuverkefni hópa fornleifafræðinga og jarðfræðinga að kanna hvort frekari vitneskja um stórfelld áhrif finnist í mannvistarleifum á Krít og víðar. Ef svo er, kann sögnin fræga um hið horfna meginland Atlantis að breytast úr þjóðsögu í frásögn af raunverulegum atburði.4

Tilvísanir:

1Haraldur Sigurðsson, 1999. Encyclopedia of Volcanoes. Academic Press, San Diego.

2Sigurdsson og fleiri, 2006. Marine investigations of Greece's Santorini volcanic field. EOS, 87, 337-338.

Antonopoulos, J. 1992. The great Minoan eruption of Thera volcano and the ensuing tsunami in the Greek Archipelago. Natural Hazards, 5, 153-168.

3Sigurdsson og fleiri, 2006. Marine investigations of Greece's Santorini volcanic field. EOS, 87, 337-338.

4Sigurður Þórarinsson, 1970. Er Atlantisgátan að leysast? Andvari, 95, 55-84.

Myndir:


Þetta svar er hluti af umfjöllun um mestu eldgos jarðar í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

...