
Segja má að loftslag á steppusvæðum sé of þurrt til þess að skógar þrífist þar en of rakt til þess að eyðimörk myndist. Á steppum nærri laufskógum ríkir meginlandsloftslag með svölum vetrum og hlýjum sumrum þar sem úrkoma er mest á vorin og snemma á sumrin. Á steppum nærri eyðimörkum skiptast á þurrka- og regntímabil og loftslag er alltaf hlýtt. Steppur hafa hentað manninum ágætlega í gegnum söguna, þar var í fyrstu hægt að veiða, síðar stunduðu menn þar kvikfjárrækt og loks jarðyrkju. Jarðvegur á steppunum er oftast frjósamur, þykkur og næringarríkur. Loftslag þar þykir henta vel til kornræktar og má segja að steppum hafi verið breytt í kornforðabúr heimsins. Á seinni árum hafa ræktunarskilyrði hins vegar versnað töluvert á nokkrum steppusvæðum, bæði vegna ofnotkunar lands og eins vegna breytinga á loftslagi. Afleiðingarnar hafa verið uppskerubrestur og dauði búfjár og villtra dýra sem síðan hefur leitt til hungursneyðar hjá fjölda fólks. Á Vísindavefnum hefur verið fjallað um ýmis dýr sem áttu eða eiga heimkynni á steppum, svo sem stökkmýs, villihesta, vísinda, ljón, risadoðra og sléttuúlfa svo aðeins örfá dæmi séu nefnd. Heimildir og mynd:
- Peter Östman o.fl. 2000. Landafræði - maðurinn, auðlindirnar, umhverfið. Reykjavík, Mál og menning.
- Steppe á Wikipedia. Skoðað 6. 2. 2009.
- Gresja (steppa) á Yrkja. Skoðað 6. 2. 2009.
- Mynd: Kazakhstan Birdtours. Sótt 9. 2. 2009.