Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Niko Tinbergen (Nikolaas Tinbergen) fæddist í Haag í Hollandi þann 15. apríl 1907. Hann andaðist árið 1988. Hann var lítill námshestur sem barn en naut þess að vera í útiíþróttum, leika sér í fjörunni og að sulla í vatni. Tinbergen var með fiskabúr heima hjá sér og í menntaskóla sá hann um slík búr í skólanum. Þetta vakti áhuga hans og hann las náttúrulífsbækur eftir hollenska náttúrufræðinga. Hann var tregur til að fara í háskóla en áhuginn kviknaði eftir að vinir hans sem höfðu hvatt hann til að halda áfram námi fóru með hann að ströndinni til að skoða farfugla. Hann lauk doktorsprófi í líffræði frá háskólanum í Leiden í Hollandi árið 1932.
Tinbergen dvaldi í Angmagssalik á Grænlandi 1932-33 með hollenskum pólförum ásamt eiginkonu sinni og kynntist vel Grænlendingum. Sú dvöl hafði mikil áhrif á hann og mótaði skoðanir hans á þróunarsögu mannsins sem hann skrifaði um 40 árum síðar. Tinbergen fékk starf við háskólann í Leiden og rannsakaði meðal annars hegðun grafaravespa, sérstaklega hvernig þær fara að því að rata, og varð fyrir áhrifum af verkum Karls von Frisch (1886-1982). Árið 1936 kynntist hann Austurríkismanninum Konrad Lorenz (1903-1989) og þeir urðu miklir vinir. Árið 1938 fór hann í fyrirlestraferð til Bandaríkjanna og hitti marga mæta menn sem áttu eftir að hafa áhrif á hann síðar. Á árunum 1939-40 unnu þeir Lorenz saman og áttuðu sig á því að þeir bættu hvor annan vel upp. Tinbergen var varkár vísindamaður sem hallaðist að því að svara tilgátum með tilraunum en Lorenz var ákafur náttúruunnandi, gæddur mikilli innsýn á eðli dýra. Tinbergen og Lorenz voru í fangabúðum í stríðinu og það var ekki fyrr en 1949 sem þeir hittust aftur.
Eftir stríð fór Tinbergen aftur til Bandaríkjanna, hélt fyrirlestra og hitti marga merkustu líf- og sálfræðinga þess lands. Hann fór líka til Englands og kynntist þar meðal annars fuglafræðingnum David Lack en hann og bandaríski þróunarlíffræðingurinn Ernst Mayr áttu mestan þátt í að vekja og viðhalda áhuga Tinbergens á vist- og þróunarfræði. Hann varð prófessor í dýrafræði við háskólann í Leiden 1947 og þar kenndi hann dýraatferlisfræði og samanburðarlíffærafræði. Stuttu síðar var honum boðin staða við dýrafræðideild háskólans í Oxford, Englandi, þar sem hann átti að setja á stofn miðstöð kennslu og rannsókna í dýraatferlisfræði. Hann þáði það og var prófessor þar 1949-1974 og hlaut breskan ríkisborgararétt 1955. Fljótlega gaf hann út sína fyrstu bók The Study of Instincts (1951) þar sem hann fjallaði meðal annars mikið um hegðun hornsíla. Sú bók ásamt bókinni um heim silfurmávsins (The Herring Gull's World) sem kom út tveimur árum síðar eru þekktustu bækur hans. Meðal þekktra nemenda Tinbergens eru Desmond Morris (f. 1928) og Richard Dawkins (f. 1941).
Tinbergen stundaði rannsóknir í Afríku og tók þátt í stofnun hinnar þekktu rannsóknarstofnunar í Serengeti í Tansaníu. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Behaviour. Tinbergen var kjörinn meðlimur í hinu Konunglega breska félagi árið 1962 og félagi í Vísindafélagi Hollands 1964. Árið 1973 fékk hann ásamt vini sínum Konrad Lorenz og þjóðverjanum Karl von Frisch Nóbelsverðlaunin. Þeir fengu verðlaunin fyrir að útskýra þroskun hegðunar og þróun félagshegðunar hjá dýrum. Þetta er í eina skiptið sem dýrafræðingar hafa fengið Nóbelsverðlaun. Það þykir einnig merkilegt að bróðir Nikos, Jan Tinbergen (1903-1994), fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1969.
Nóbelsverðlaunahafarnir árið 1973, frá vinstri: Karl von Frisch, Konrad Lorenz og Nikolaas Tinbergen.
Tinbergen lagði áherslu á bæði eðlislæga og lærða hegðun í sínum rannsóknum og gerði tilraunir í náttúrunni til að átta sig á aðlögunargildi hegðunarinnar. Athuganir hans á æxlunaratferli máva, einkum biðlunaratferli, ruddu brautina fyrir rannsóknir á öðrum tegundum. Hann átti þátt í því að bæta samskipti dýrafræðinga sem lögðu áherslu á að rannsaka hegðun dýra í náttúrunni (e. ethologists) og amerískra námssálfræðinga (e. behaviorists) sem lögðu ofurkapp á að rannsaka lögmál náms við tilraunaaðstæður í vinnustofu. Undir lok starfsævi Tinbergens var stofnuð rannsóknastofa um hegðun mannsins í Oxford sem gladdi hann mikið því hann hafði alltaf haft mikinn áhuga á því efni, sérstaklega þroskun hegðunar hjá börnum. Hann kynntist sálfræðingnum Jerome Bruner (f. 1915) um það leyti og sagði að það væri synd að hann væri ekki 10 árum yngri svo hann gæti unnið meira með honum. Þessi áhugi hans sýndi sig í því að eftir 1970 rannsakaði hann ásamt konu sinni afbrigðilega hegðun meðal manna, sérstaklega einhverfu, og skrifuðu þau bók um það efni sem kom út 1972.
Eitt merkasta framlag hans til atferlisfræðinnar var að benda á að hegðun verður ekki útskýrð út frá einum sjónarhóli, heldur fjórum. Oft er talað um hinar fjórar spurningar Tinbergens, það er hvernig þroskast hegðun, hvernig er sú líkamlega starfsemi sem gerir einstaklinginn færan um að sýna hegðunina, hver er þróunarsaga hegðunarinnar og síðast en ekki síst hvert er aðlögunargildi hegðunarinnar. Fyrri spurningarnar tvær kalla á skýringar sem mætti nefna nándarskýringar (e. proximate explanations – how questions) því þá er verið að kanna hvernig líkaminn starfar (lífeðlisfræði) og hvernig umhverfið hefur áhrif á þroskun líkamans og hegðun. Þær síðari byggjast á sögulegum skýringum þar sem eiginleikar hafa valist úr á löngum tíma, aðallega fyrir áhrif náttúrlegs vals. Slíkar skýringar kallast grunnskýringar (e. ultimate explanations - why questions). Misjafnt er hversu mikla áherslu vísindamenn leggja á þessar fjórar nálganir.
Hér má sjá vinina Nikolaas Tinbergen, til vinstri, og Konrad Lorenz.
Dýraatferlisfræðin (e. ethology) sem Tinbergen og hans samtímamenn mótuðu einkenndist bæði af nándar- og grunnskýringum en segja má að þeir hafi einblínt um of á fastmótaða eðlisbundna hegðun á kostnað sveigjanlegrar hegðunar sem fékk meiri athygli eftir 1975. Að hluta til er skýringanna að leita í því að á fyrstu áratugum dýraatferlisfræðinnar og fram undir 1970 skýrðu vísindamenn almennt séð þróun hegðunar út frá því sjónarmiði að eiginleikar þróuðust vegna þess að það hentaði tegundinni vel. Þetta er einkennilegt því slíkt var ekki í samræmi við þróunarkenningu Darwins (1809-1882) sem lagði áherslu á val á milli einstaklinga. Eftir 1975 varð áherslan önnur og þá hófst blómaskeið félagslíffræðinnar (e. sociobiology, behavioural ecology). Tuttugu árum síðar varð til þróunarfræðileg sálfræði (e. evolutionary psychology) þar sem hegðun manna er útskýrð út frá aðlögunargildi hennar. Nú er mikil gróska í atferlisfræðinni og aukinn skilningur á erfðum hegðunar og þroska hefur leitt til þess að menn meta framlag Tinbergens til fræðigreinarinnar enn meir en áður.
Myndir:
Hrefna Sigurjónsdóttir. „Hver var Nikolaas Tinbergen og hvaða rannsóknir stundaði hann á atferli dýra?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2011, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58623.
Hrefna Sigurjónsdóttir. (2011, 10. mars). Hver var Nikolaas Tinbergen og hvaða rannsóknir stundaði hann á atferli dýra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58623
Hrefna Sigurjónsdóttir. „Hver var Nikolaas Tinbergen og hvaða rannsóknir stundaði hann á atferli dýra?“ Vísindavefurinn. 10. mar. 2011. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58623>.