Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Karl Ritter1 von Frisch fæddist 20. nóvember 1886 í Vínarborg og lést 12. júní 1982 í München, yngstur fjögurra sona hjónanna Antons Ritters von Frisch prófessors og þvagfæraskurðlæknis og Marie von Frisch. Allir urðu bræðurnir háskólaprófessorar eins og faðir þeirra. Karl nam líffræði við Háskólann í Vín og síðan læknisfræði og þar á eftir líffræði við Háskólann í München. Þar lauk hann 1910 doktorsnámi, og fjallaði ritgerðin um litaskipti fiska. Hann starfaði síðan við Dýrafræðistofnun Münchenarháskóla, fram að fyrri heimsstyrjöld sem dósent, en tók að stríði loknu (1919) við stöðu prófessors. Hann taldist ófær til hermennsku sakir lélegrar sjónar en starfaði í sjálfboðavinnu sem sýklafræðingur við sjúkrahús Rauða krossins í Vín og flýtti fyrir greiningu á smitsjúkdómum eins og kóleru, iðrakvefi og taugaveiki. Þar kynntist hann hjúkrunarkonunni Margrete, fædd Mohr, og kvæntist henni árið 1917. Sonur þeirra, Otto von Frisch, fetaði í fótspor föður síns og veitti lengi forstöðu Náttúrugripasafninu í Braunschweig í Þýskalandi og stjórnaði auk þess vinsælum sjónvarpsþætti, Paradís dýranna.
Á millistríðsárunum vann Karl von Frisch að kennslu og rannsóknum sem prófessor við háskóla í Austurríki og Þýskalandi. Greinilega hefur af honum borist gott orð út fyrir hinn akademíska heim Evrópu, því á árunum 1931 og 1932 var í München reist yfir hann ný dýrafræðistofnun fyrir fé frá bandarísku Rockefeller-stofnuninni.
Hið sama verður ekki sagt um orðspor von Frischs hjá oddvitum Þriðja ríkisins, sem réðu Þýskalandi og þar með síðar Austurríki til loka síðari heimsstyrjaldar. Von Frisch leiddi stjórnmál að mestu hjá sér en var lítt hollur hinum nýju stjórnendum, barðist til dæmis fyrir því að pólskir háskólamenn yrðu látnir lausir úr fangabúðum í Dachau. Ofan á annað var móðuramma hans gyðingur.
Snemma á ævi sneri von Frisch sér að býflugum. Þótt rannsóknir hans væru einkum á fræðilegum nótum, nýttist ýmislegt í þeim býflugnabændum, og í báðum heimsstyrjöldum tuttugustu aldar reyndu fjendur Þjóðverja að hindra aðdrætti til landsins, svo öll innlend framleiðsla á matvælum, þar með á hunangi, naut forgangs. Fyrir vikið amaðist stjórn Hitlers hvorki við starfsframa von Frischs né þeim verkefnum sem unnin voru á hans vegum.
Eftir stríðið fluttist von Frisch aftur til Austurríkis og tók við stöðu prófessors við Háskólann í Graz, enda hafði dýrafræðistofnunin í München verið lögð í rúst í loftárás bandamanna. En eftir að stofnunin var endurbyggð árið 1950 fyrir bandarískt fé ‒ frá Rockefeller-stofnuninni og með Marshall-hjálp ‒ tók von Frisch aftur við stjórn hennar og sinnti því starfi þar til hann fór á eftirlaun 1958. Hann hélt samt ótrauður áfram rannsóknum á hátterni dýra, einkum býflugna, og deildi Nóbelsverðlaunum í læknisfræði og lífeðlisfræði árið 1973 með tveimur öðrum dýraatferlisfræðingum, landa sínum Konrad Lorenz og Hollendingnum Nikolaas Tinbergen.
Lesendum er bent á svar sama höfundar við spurningunni: Hvað getið þið sagt mér um rannsóknir Karls von Frisch? en það er eiginlegt framhald þessa svars.
Heimildir:
Ýmsar greinar á netinu, svo sem ævisaga Karls von Frisch í Wikipedíu, og sjálfsævisaga, sem hann lagði fram áður en hann tók við Nóbelsverðlaunum 1973.
Karl von Frisch. Bera bý. Íslensk þýðing eftir Jón O. Edwald með forspjalli eftir Örnólf Thorlacius. Hið íslenska bókmenntafélag 1972. Frumgerð bókarinnar, Bees: Their Vision, Chemical Senses, and Language, kom út á vegum Cornellháskóla 1971 og er sótt í röð fyrirlestra, sem von Frisch flutti vestanhafs í boði háskólans.
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hvað getið þið sagt mér um ævi Karls von Frisch?“ Vísindavefurinn, 3. ágúst 2011, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60303.
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2011, 3. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um ævi Karls von Frisch? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60303
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hvað getið þið sagt mér um ævi Karls von Frisch?“ Vísindavefurinn. 3. ágú. 2011. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60303>.