Þegar geislavirkt efni sendir frá sér geislun breytist það í annað efni sem er oft ekki geislavirkt. Þannig minnka geislvirku efnin í jörðinni smám saman, en að vísu afar hægt. Þetta leiðir eitt og sér til þess að kjarni jarðar kólnar smám saman en þó svo hægt að kólnunin verður ekki veruleg fyrr en ármilljarðar hafa liðið, en einn ármilljarður er þúsund milljón ár. Við þurfum því ekki að kvíða þessu í nánustu framtíð. Auk þess gerist á sama tíma ýmislegt annað sem hefur sambærileg áhrif á framtíð jarðarinnar, til dæmis breytingar á sólinni.
Hitinn sem myndast inni í jörðinni leitar út eins og áður var nefnt. Þessi hiti er þannig frumorsök jarðhitans sem við Íslendingar þekkjum svo vel. Þegar litið er á jörðina í heild eða stór svæði á henni má þannig segja að jarðhitinn sé í reynd endurnýjanleg auðlind sem kallað er: Þó að við nýtum eitthvað af honum verður sú nýting alltaf hverfandi miðað við heildarorkuna sem streymir út samkvæmt einföldum lögmálum geislavirkninnar, og hún hefur engin áhrif á heildarforðann sem eftir er í geislavirkum efnum sem eiga eftir að ummyndast. Hitt er svo annað mál að menn geta gengið svo nærri einstökum, afmörkuðum svæðum að ekki verði hægt að nýta jarðhita þar á næstunni.
Hitinn í jörðinni leitar einnig út með eldgosum. Meginorsök þeirra er sú að hitinn kemst ekki nógu hratt út eftir öðrum leiðum. Heit kvika brýtur sér því leið til yfirborðsins og þar verður eldgos.
Við getum því sagt að við verðum svo sannarlega vör við hitann inni í jörðinni hér á Íslandi. Við notum hann meðal annars til að hita húsin okkar!
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvað er hægt að segja um liti í kjarna og í möttli jarðar? eftir Sigurð Steinþórsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvers vegna er kjarni jarðar heitur? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvernig er hægt að finna hvaða efni eru í miðju jarðar? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað er í miðju jarðar, hversu langt er þangað og hversu heitt er þar? eftir Sigurð Steinþórsson
- Discover. Texti íslenskaður af ritstjórn. Sótt 5.4.2011.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.