Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:52 • Sest 06:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:29 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:41 í Reykjavík

Hvar heldur síldin til eftir árstíðum við Ísland?

Jón Már Halldórsson

Síldin er árstíðabundin þar sem hún hrygnir á ákveðnum stöðum og gengur síðan eftir hrygningu á ætisstöðvar. Á síldarárunum svokölluðu fóru síldveiðar á norsku vorgotssíldinni, eða norsk-íslensku síldinni eins og hún nefnist í dag, fram á vorin og sumrin og var hún því árstíðabundin hérlendis.

Þrír síldarstofnar lifa að hluta eða öllu leyti innan íslensku efnahagslögsögunnar. Tveir þeirra halda sig alfarið innan lögsögunnar, íslenska sumargotssíldin og íslenska vorgotssíldin, en norsk-íslenska síldin gengur á milli Noregs og Íslands og er því hluta úr ári fyrir norðan og austan land.

Íslenskt frímerki frá 1940 sem skartar síldinni.

Íslenska sumargotssíldin elst upp í flóum og fjörðum undan Norðvestur-, Norður- og Austurlandi til tveggja ára aldurs. Á þriðja ári leggur hún í fyrsta ferðalag sitt út fyrir uppeldisstöðvarnar og heldur suður fyrir land. Þar kemst hún í átumikinn sjó og stækkar og fitnar þar næstu tvö ár þangað til hún verður kynþroska. Á vorin heldur hún sig á ætisslóð sunnan og vestan af landinu en þegar kemur að hrygningu safnast hún saman. Næringin sem hún aflaði sér á vorin nýtist til þroska hrogna og svila.

Að hrygningu lokinni hefst síðari ætistíminn, í ágúst og september. Þá fer síldin norður fyrir land og fitar sig fyrir vetrartíðina þegar fæðuframboð er af skornum skammti. Það er nokkuð breytilegt hvar síldin heldur sig yfir vetrartímann. Áður fyrr safnaðist hún til dæmis saman grunnt austur af Suðurlandi og síðar inn á Austfjörðum. Hin síðari ár hefur hún safnast saman við norðanvert Snæfellsnes, meðal annars hafa undanfarin ár borist fréttir af stórum síldartorfum inni í Grundarfirði og norður af Stykkishólmi.

Síldin er árstíðabundin þar sem hún hrygnir á ákveðnum stöðum og gengur síðan eftir hrygningu á ætisstöðvar á öðrum stöðum.

Íslenska vorgotssíldin hrygnir á vorin. Hér áður fyrr voru helstu hrygningarstöðvar hennar suður af landinu, meðal annars í nánd við Vestmannaeyjar, aðallega þar sem Surtsey er nú og á Selvogsbanka. Svo virðist sem Surtseyjargosið hafi hins vegar spillt fyrir hrygningarstöðvum hennar að einhverju leyti og hóf hún þá að leita á aðrar slóðir til hrygningar. Eftir hrygningu gekk hún sennilega norður með Vesturlandi í ætisleit. Nú eru litlar sem engar veiðar úr þessum stofni þar sem hann hefur ekki náð sér eftir ofveiði hér áður fyrr.

Norsk-íslenska síldin hrygnir við strendur Noregs en kemur til Íslands í ætisleit á sumrin. Áður en síld úr þessum stofni var ofveidd undir lok 7. áratugarins kom hingað til lands gríðarlegt magn af þessari síld og fyllti firði og flóa norðan- og austanlands. Magnið gat orðið svo mikið að menn töluðu um svartan sjó af síld þar sem fiskurinn hélt sig svo grunnt að það sást í svarblá bök hans um allan sjó.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvernig er síldin árstíðabundin?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.3.2012

Spyrjandi

Halldóra Arnardóttir, f. 1993

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvar heldur síldin til eftir árstíðum við Ísland?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2012. Sótt 17. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62009.

Jón Már Halldórsson. (2012, 15. mars). Hvar heldur síldin til eftir árstíðum við Ísland? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62009

Jón Már Halldórsson. „Hvar heldur síldin til eftir árstíðum við Ísland?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2012. Vefsíða. 17. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62009>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar heldur síldin til eftir árstíðum við Ísland?
Síldin er árstíðabundin þar sem hún hrygnir á ákveðnum stöðum og gengur síðan eftir hrygningu á ætisstöðvar. Á síldarárunum svokölluðu fóru síldveiðar á norsku vorgotssíldinni, eða norsk-íslensku síldinni eins og hún nefnist í dag, fram á vorin og sumrin og var hún því árstíðabundin hérlendis.

Þrír síldarstofnar lifa að hluta eða öllu leyti innan íslensku efnahagslögsögunnar. Tveir þeirra halda sig alfarið innan lögsögunnar, íslenska sumargotssíldin og íslenska vorgotssíldin, en norsk-íslenska síldin gengur á milli Noregs og Íslands og er því hluta úr ári fyrir norðan og austan land.

Íslenskt frímerki frá 1940 sem skartar síldinni.

Íslenska sumargotssíldin elst upp í flóum og fjörðum undan Norðvestur-, Norður- og Austurlandi til tveggja ára aldurs. Á þriðja ári leggur hún í fyrsta ferðalag sitt út fyrir uppeldisstöðvarnar og heldur suður fyrir land. Þar kemst hún í átumikinn sjó og stækkar og fitnar þar næstu tvö ár þangað til hún verður kynþroska. Á vorin heldur hún sig á ætisslóð sunnan og vestan af landinu en þegar kemur að hrygningu safnast hún saman. Næringin sem hún aflaði sér á vorin nýtist til þroska hrogna og svila.

Að hrygningu lokinni hefst síðari ætistíminn, í ágúst og september. Þá fer síldin norður fyrir land og fitar sig fyrir vetrartíðina þegar fæðuframboð er af skornum skammti. Það er nokkuð breytilegt hvar síldin heldur sig yfir vetrartímann. Áður fyrr safnaðist hún til dæmis saman grunnt austur af Suðurlandi og síðar inn á Austfjörðum. Hin síðari ár hefur hún safnast saman við norðanvert Snæfellsnes, meðal annars hafa undanfarin ár borist fréttir af stórum síldartorfum inni í Grundarfirði og norður af Stykkishólmi.

Síldin er árstíðabundin þar sem hún hrygnir á ákveðnum stöðum og gengur síðan eftir hrygningu á ætisstöðvar á öðrum stöðum.

Íslenska vorgotssíldin hrygnir á vorin. Hér áður fyrr voru helstu hrygningarstöðvar hennar suður af landinu, meðal annars í nánd við Vestmannaeyjar, aðallega þar sem Surtsey er nú og á Selvogsbanka. Svo virðist sem Surtseyjargosið hafi hins vegar spillt fyrir hrygningarstöðvum hennar að einhverju leyti og hóf hún þá að leita á aðrar slóðir til hrygningar. Eftir hrygningu gekk hún sennilega norður með Vesturlandi í ætisleit. Nú eru litlar sem engar veiðar úr þessum stofni þar sem hann hefur ekki náð sér eftir ofveiði hér áður fyrr.

Norsk-íslenska síldin hrygnir við strendur Noregs en kemur til Íslands í ætisleit á sumrin. Áður en síld úr þessum stofni var ofveidd undir lok 7. áratugarins kom hingað til lands gríðarlegt magn af þessari síld og fyllti firði og flóa norðan- og austanlands. Magnið gat orðið svo mikið að menn töluðu um svartan sjó af síld þar sem fiskurinn hélt sig svo grunnt að það sást í svarblá bök hans um allan sjó.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvernig er síldin árstíðabundin?
...