Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tjón af völdum Heklugosa getur orðið af ýmsum orsökum. Helstar eru gjóskufall, flóð, hraunrennsli, jarðskjálftar og gasútstreymi.
Gjóskufall hefur verið mesti skaðvaldurinn fyrr og síðar. Stóru forsögulegu gjóskugosin breyttu stórum svæðum í vikurauðnir sem voru lengi að gróa upp, og gjóskan veldur enn skaða með uppblæstri. Stærstu gjóskulögin höfðu áhrif á gróður um mestallt land. Mest hafa þau verið innan 20 sentimetra jafnþykktarlínu. Innan þeirra marka er allt að 3000 ferkílómetra svæði, en næst Heklu skiptir þykktin metrum. Á sögulegum tíma er þess dæmi að byggðarlag hafi lagst af, er Þjórsárdalur fór í eyði vegna gjóskufalls árið 1104. Þá hefur búskap víða verið hætt vegna landeyðingar af völdum gjósku, auk þess sem flúoreitrun, eða svonefndur gaddur í sauðfé, hjó oft stór skörð í búsmalann. Hátt flúorinnihald gosefna er einkennandi fyrir efnasamsetningu Heklukviku, og loðir flúorinn við yfirborð gjóskunnar. Því er mest tjón af fínustu öskunni sem einnig fellur fjarri eldstöðinni og sest á allan gróður. Þá hefur gjóskufall spillt veiði í ám og vötnum.
Flóð, það er vatnsflóð, eðjuflóð og minni gjóskuflóð eða gusthlaup, verða oft samfara Heklugosum. Þessi fyrirbæri hafa öll verið stærri í sniðum á forsögulegum tíma en sögulegum. Ekki er vitað til að gjóskuflóð hafi valdið tjóni, nema með því að koma af stað vatnsflóðum. Sennilega hefur aldrei orðið stórtjón af vatnsflóðum frá Heklu á sögulegum tíma. Þó hefur vatnsborð Rangár stundum hækkað svo mikið að graslendi hefur skemmst, og silungadauði í ánni hefur verið nytjaskaði.
Heklugos 1970.
Aðeins er vitað um eitt eðjuflóð frá Heklu, í gosinu sem myndaði Selsundsvikurinn fyrir 3900 árum (Hekla-S). Það er líka eina stóra eðjuflóðið samfara súru eldgosi sem kunnugt er um á nútíma á Íslandi. Eðjuflóð eru eitt hættulegasta fyrirbæri sem fylgir eldgosum, og hefði þetta flóð átt sér stað eftir að land byggðist hefði orðið gríðarlegt tjón. Hraði eðjuflóða er miklu meiri en hraunrennslis. Algengt er að hann sé 20 kílómetrar á klukkustund, en dæmi eru um 50 kílómetra. Líkur á álíka stóru flóði frá Heklu eru hverfandi litlar næstu aldir. Aftur á móti má reikna með svipuðum atburðum í öðrum eldfjöllum í Austurgosbelti sem gjósa sjaldnar en Hekla, fá nægan tíma til að safna og þróa kviku, og eru að auki með jökulhettur. Má þar nefna Eyjafjallajökul og Tindfjallajökul. Einnig eru slík flóð líkleg með gosum í Vatnajökli, svo sem Öræfajökli, Bárðarbungu og Þórðarhyrnu, að ógleymdum Snæfellsjökli.
Hraunrennsli hefur fyrst og fremst valdið tjóni með því að rýra beitiland, og hefur slíkur skaði verið þungbær fyrr á öldum. Talið er að tveir bæir að minnsta kosti hafi farið undir hraun árið 1389, en þeir gætu hafa verið fleiri, og fleiri hraungos kunna líka að hafa lagt býli í eyði. Bærinn í Næfurholti var fluttur um set í gosinu 1845 þar sem hraun rann að túnfætinum. Efnasamsetning Hekluhrauna veldur því að þau eru fremur seigfljótandi og renna því ekki eins hratt og langt og basalthraun. Hraunrennsli hefur ekki valdið miklum skaða í seinni tíð, enda hefur búseta í nágrenni Heklu orðið strjálli, en á því er að verða breyting með aukinni sumarhúsabyggð.
Jarðskjálftar í Heklugosum hafa ekki valdið umtalsverðum búsifjum. Það er eitt af einkennum eldfjallsins hve litlir jarðskjálftar fylgja gosunum. Suðurlandsskjálftarnir svonefndu, sem hafa valdið miklum skaða í nágrenni fjallsins, eru ekki í beinum tengslum við gosin svo vitað sé.
Gasútstreymi fylgir flestum eldgosum, en ekki er mjög algengt að það valdi beinu tjóni hér á landi. Þó er þekkt að í Heklugosinu 1947 varð útstreymi koltvíoxíðs upp um gömul hraun í grennd við Heklu sauðfé og fuglum að fjörtjóni. Líklegt er að þetta hafi gerst í fyrri gosum, þar sem aðstæður voru svipaðar, þótt ekki sé getið um það í frásögnum.
Mynd:
Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson. „Hvaða áhrif hefur Hekla þegar hún gýs?“ Vísindavefurinn, 28. ágúst 2013, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62638.
Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson. (2013, 28. ágúst). Hvaða áhrif hefur Hekla þegar hún gýs? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62638
Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson. „Hvaða áhrif hefur Hekla þegar hún gýs?“ Vísindavefurinn. 28. ágú. 2013. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62638>.