Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað eru örmlur?

Jón Már Halldórsson

Örmlur eða hýdrur eru ættkvísl einfaldra dýra sem tilheyra fylkingu holdýra (Cnidaria). Þessi dýr eru smásæ eða aðeins nokkrir millimetrar á lengd og í hópi einföldustu fjölfrumunga sem þekkjast í lífríkinu. Örmlur finnast nær alltaf í tæru ferskvatni, hvort sem er í tjörnum, vötnum eða straumvatni. Þær eru ákaflega viðkvæmar fyrir mengun og eru því mikilvægir vísar þegar mengun er athuguð á slíkum búsvæðum.

Örmlur hafa flöskulaga líkama, allt að 10 mm langan. Þær lifa eins konar ránlífi og eru með arma, frá einum og upp í tólf talsins. Armarnir eru þaktir stingfrumum (e. cnitocyte) og eru notaðir til að hremma bráð. Veiðitæknin minnir því nokkuð á veiðitækni marglytta enda eru marglyttur og örmlur í sömu fylkingu. Þegar stingfrumurnar hafa stungið oddhvössu örsmáu spjótinu í bráðina lamast hún af völdum taugaeiturs sem dælist í hana. Bráðin er yfirleitt smásæ krabbadýr svo sem halaflær (Daphnia) eða hin örsmáa árfætla (Copepoda).

Hydra vulgaris.

Örmlur eru botnlægar og oftast botnfastar, líkt og þang, en geta þó losað sig og hreyft sig um ef sá er gállinn á þeim, til dæmis þegar þær eru á veiðum. Þær komast úr stað með hreyfingu sem minnir á kollhnís en þær byrja á því að beygja sig saman, nota arma og munn til þess að ná taki á undirlagi, losa svo fótinn sem festir þær við botninn eða það sem þær voru fastar við, og sveigja svo skrokkinn þannig að fóturinn kemur niður aftur og festir sig að nýju. Með þessum hætti geta þær ferðast um 10 cm á dag. Önnur gerð hreyfinga sem hefur verið uppgötvuð hjá örmlum eru svokallaðar amöbuhreyfingar. Þá losar dýrið takið af undirlaginu og hreyfir sig líkt og amöbur. Einnig þekkist að dýrið einfaldlega losar sig og lætur sig berast með vatnsstraumi þangað til því tekst að festa sig á nýjum og vonandi betri stað.

Ef örmlur verða fyrir áreiti þá dregst dýrið saman í lítinn gelkenndan hnapp. Það gildir einu hvaðan áreitið kemur, dýrið bregst alltaf eins við. Þessi einhæfu viðbrögð við áreiti leiða líkum að því að taugakerfi þeirra sé með því einfaldasta sem þekkist meðal fjölfrumunga.

Mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

7.11.2012

Spyrjandi

Hans Ottó Tómasson Jetzek, f. 2000

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru örmlur?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2012. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=63227.

Jón Már Halldórsson. (2012, 7. nóvember). Hvað eru örmlur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=63227

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru örmlur?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2012. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=63227>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru örmlur?
Örmlur eða hýdrur eru ættkvísl einfaldra dýra sem tilheyra fylkingu holdýra (Cnidaria). Þessi dýr eru smásæ eða aðeins nokkrir millimetrar á lengd og í hópi einföldustu fjölfrumunga sem þekkjast í lífríkinu. Örmlur finnast nær alltaf í tæru ferskvatni, hvort sem er í tjörnum, vötnum eða straumvatni. Þær eru ákaflega viðkvæmar fyrir mengun og eru því mikilvægir vísar þegar mengun er athuguð á slíkum búsvæðum.

Örmlur hafa flöskulaga líkama, allt að 10 mm langan. Þær lifa eins konar ránlífi og eru með arma, frá einum og upp í tólf talsins. Armarnir eru þaktir stingfrumum (e. cnitocyte) og eru notaðir til að hremma bráð. Veiðitæknin minnir því nokkuð á veiðitækni marglytta enda eru marglyttur og örmlur í sömu fylkingu. Þegar stingfrumurnar hafa stungið oddhvössu örsmáu spjótinu í bráðina lamast hún af völdum taugaeiturs sem dælist í hana. Bráðin er yfirleitt smásæ krabbadýr svo sem halaflær (Daphnia) eða hin örsmáa árfætla (Copepoda).

Hydra vulgaris.

Örmlur eru botnlægar og oftast botnfastar, líkt og þang, en geta þó losað sig og hreyft sig um ef sá er gállinn á þeim, til dæmis þegar þær eru á veiðum. Þær komast úr stað með hreyfingu sem minnir á kollhnís en þær byrja á því að beygja sig saman, nota arma og munn til þess að ná taki á undirlagi, losa svo fótinn sem festir þær við botninn eða það sem þær voru fastar við, og sveigja svo skrokkinn þannig að fóturinn kemur niður aftur og festir sig að nýju. Með þessum hætti geta þær ferðast um 10 cm á dag. Önnur gerð hreyfinga sem hefur verið uppgötvuð hjá örmlum eru svokallaðar amöbuhreyfingar. Þá losar dýrið takið af undirlaginu og hreyfir sig líkt og amöbur. Einnig þekkist að dýrið einfaldlega losar sig og lætur sig berast með vatnsstraumi þangað til því tekst að festa sig á nýjum og vonandi betri stað.

Ef örmlur verða fyrir áreiti þá dregst dýrið saman í lítinn gelkenndan hnapp. Það gildir einu hvaðan áreitið kemur, dýrið bregst alltaf eins við. Þessi einhæfu viðbrögð við áreiti leiða líkum að því að taugakerfi þeirra sé með því einfaldasta sem þekkist meðal fjölfrumunga.

Mynd: