Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað ræður því að jarðskjálftar á Íslandi verða ekki eins stórir og sums staðar í útlöndum?

Páll Einarsson

Stærstu jarðskjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.

Hámarksstærð skjálfta á tilteknu svæði ræðst einkum af tvennu. Í fyrsta lagi hefur gerð misgengisins sem veldur skjálftanum áhrif. Samgengi veldur stærstum skjálftum, sniðgengisskjálftar verða ekki eins stórir, og siggengisskjálftar verða sjaldan stórir. Í öðru lagi hefur þykkt hins brothætta hluta jarðskorpunnar áhrif.

Þeim mun kaldari sem skorpan er því þykkari verður brothætti hlutinn og þeim mun stærri skjálfta hefur brotið í för með sér. Stærstu skjálftar í heiminum verða þar sem þykk og svöl skorpa treðst inn undir jaðar annars fleka á samreksbelti. Þetta átti sér stað í risaskjálftunum norðan við Súmötru 26. desember 2004 og við austurströnd Japans 11. mars 2011. Stærð þessara skjálfta var 9 eða meira.

Jarðskjálftar sem mælst hafa 8 eða stærri frá árinu 1900. Flestir stærstu jarðskjálftarnir eiga upptök sín á flekamótum umhverfis Kyrrahafið.

Stærstu skjálftar á Íslandi verða vegna sniðgengishreyfinga. Þar að auki er jarðskorpan hér á landi mjög ung og þess vegna fremur heit. Stökki hluti hennar er því þunnur og getur ekki byggt upp mjög háa spennu. Mjög sjaldgæft er að stærð sniðgengisskjálfta í jarðskorpu af úthafsgerð, eins og hér er, verði mikið meiri en 7. Merkileg undantekning frá þessu gerðist þó 11. apríl 2012 í Indlandshafi undan ströndum Súmötru. Þar urðu tveir skjálftar, 8,6 og 8,2 stig að stærð. Þetta voru sniðgengisskjálftar með upptök í úthafsskorpu, báðir sem sé umtalsvert stærri en menn töldu mögulegt á þessum stað. Þessi mótsögn er verðugt verkefni vísindamanna um þessar mundir.

Mynd:

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hver er mesta stærð sem jarðskjálfti á Íslandi getur náð?
  • Er það satt að jarðskjálftar á Íslandi verði ekki stærri en 7?

Höfundur

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.10.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Páll Einarsson. „Hvað ræður því að jarðskjálftar á Íslandi verða ekki eins stórir og sums staðar í útlöndum?“ Vísindavefurinn, 23. október 2012. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=63250.

Páll Einarsson. (2012, 23. október). Hvað ræður því að jarðskjálftar á Íslandi verða ekki eins stórir og sums staðar í útlöndum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=63250

Páll Einarsson. „Hvað ræður því að jarðskjálftar á Íslandi verða ekki eins stórir og sums staðar í útlöndum?“ Vísindavefurinn. 23. okt. 2012. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=63250>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað ræður því að jarðskjálftar á Íslandi verða ekki eins stórir og sums staðar í útlöndum?
Stærstu jarðskjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.

Hámarksstærð skjálfta á tilteknu svæði ræðst einkum af tvennu. Í fyrsta lagi hefur gerð misgengisins sem veldur skjálftanum áhrif. Samgengi veldur stærstum skjálftum, sniðgengisskjálftar verða ekki eins stórir, og siggengisskjálftar verða sjaldan stórir. Í öðru lagi hefur þykkt hins brothætta hluta jarðskorpunnar áhrif.

Þeim mun kaldari sem skorpan er því þykkari verður brothætti hlutinn og þeim mun stærri skjálfta hefur brotið í för með sér. Stærstu skjálftar í heiminum verða þar sem þykk og svöl skorpa treðst inn undir jaðar annars fleka á samreksbelti. Þetta átti sér stað í risaskjálftunum norðan við Súmötru 26. desember 2004 og við austurströnd Japans 11. mars 2011. Stærð þessara skjálfta var 9 eða meira.

Jarðskjálftar sem mælst hafa 8 eða stærri frá árinu 1900. Flestir stærstu jarðskjálftarnir eiga upptök sín á flekamótum umhverfis Kyrrahafið.

Stærstu skjálftar á Íslandi verða vegna sniðgengishreyfinga. Þar að auki er jarðskorpan hér á landi mjög ung og þess vegna fremur heit. Stökki hluti hennar er því þunnur og getur ekki byggt upp mjög háa spennu. Mjög sjaldgæft er að stærð sniðgengisskjálfta í jarðskorpu af úthafsgerð, eins og hér er, verði mikið meiri en 7. Merkileg undantekning frá þessu gerðist þó 11. apríl 2012 í Indlandshafi undan ströndum Súmötru. Þar urðu tveir skjálftar, 8,6 og 8,2 stig að stærð. Þetta voru sniðgengisskjálftar með upptök í úthafsskorpu, báðir sem sé umtalsvert stærri en menn töldu mögulegt á þessum stað. Þessi mótsögn er verðugt verkefni vísindamanna um þessar mundir.

Mynd:

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hver er mesta stærð sem jarðskjálfti á Íslandi getur náð?
  • Er það satt að jarðskjálftar á Íslandi verði ekki stærri en 7?
...