Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var David Hume og hvert var framlag hans til heimspekinnar?

Henry Alexander Henrysson

Fáir heimspekingar hafa lifað svo viðburðaríku lífi að það hafi þótt í frásögur færandi. Skoski heimspekingurinn David Hume er undantekning frá þeirri reglu. Lífshlaup hans var ekki aðeins viðburðaríkt og spennandi heldur skrifaði hann stutta sjálfsævisögu sem er óviðjafnanlegt bókmenntaverk. Setningar eins og „þær viðtökur sem rit mín fengu í fyrstu urðu síst til þess að kitla hégómagirndina“1 og „ég hafði sérstaka ánægju af félagsskap prúðra kvenna og ég hef enga ástæðu til þess að kvarta yfir þeim viðtökum sem ég fékk meðal þeirra“2 hafa lengi skemmt áhugafólki um sögu heimspekinnar.

Hume fæddist í Edinborg árið 1711. Um 18 ára aldur opnaðist fyrir honum „hið nýja svið hugsunarinnar“ og eftir það lagði hann sig einkum eftir heimspeki. Fyrsta heimspekirit hans, Ritgerð um manneðlið, leit dagsins ljós árið 1738 og lýsti hann síðar þeim miklu vonbrigðum sem hann varð fyrir með viðtökur hennar: „Prentverkið fæddi hana andvana lík.“3 Safn ritgerða Humes sem birtist síðar hlaut betri viðtökur. Hann bjó þekkingarfræðilegar og frumspekilegar kenningar sínar í nýjan og aðgengilegri búning í Rannsókn á skilningsgáfunni árið 1748. Bækur hans um heimspeki seldust aldrei vel á meðan hann lifði og voru það einkum sagnfræðileg verk hans sem öfluðu honum vinsælda og tekna. Síðar á lífsleiðinni tóku þó heimspekilegar kenningar hans að kvisast út. Hann vakti til að mynda mikla athygli meðal menntafólks í París, þar á meðal þeirra Voltaire og Rousseau, þegar hann kom þangað árið 1763 til þess að gegna starfi ritara lávarðar eins í rúm tvö ár. Voru það ekki síst skoðanir Humes á trúarbrögðum sem spurðust út til helstu forkólfa upplýsingarinnar í Frakklandi. Hume lést árið 1776 og var eitt mikilvægasta verk hans, Samræður um trúarbrögðin, gefið út að honum látnum.

David Hume var einn áhrifamesti heimspekingur 18. aldar.

Áhugafólk og nemendur í vísinda- og heimspekisögu sautjándu aldar þekkja vel til þess hvaða hlutverk Guð, hið fullkomna eða hið óendanlega lék í heimsmyndum þeirrar aldar. Guð var nokkurs konar fasti sem tryggði í fyrsta lagi reglu í heiminum og í öðru lagi möguleikann á því maðurinn sem skynsemisvera gæti öðlast vissu. Án Guðs var raunveruleg þekking varla möguleg. Sumir heimspekingar reyndu jafnvel að byggja kenningar sínar á því að ímynda sér hvernig Guð hafði hannað sköpunarverk sitt. Og spurðu sig í framhaldi af því hvort Guð þyrfti að grípa inn í náttúruleg ferli af og til. Ástundun heimspeki og vísinda varð einhvers konar tilraun til þess að setja sig í spor Guðs við sköpunina.

Guð skipti þó ekki öllu máli fyrir ástundun vísinda og fræða. Árangur náttúruvísinda á sautjándu öld varð að lokum slíkur að við tölum í dag um byltingu í því sambandi. Hume skildi mæta vel hvað fólst í þessum árangri og taldi að nú væri kominn tími til að snúa aðferðum hinna nýju vísinda að manninum sjálfum. Raunar leitaðist Hume við að gera manninn aftur hluta af náttúrunni og draga hann þannig af ímynduðum stalli sem Guð átti að hafa sett hann á. Niðurstaða Humes var stimpluð sem guðlast af mörgum. Aðrir komust ekki yfir þá efahyggju sem þeir lásu úr tilraunum hans. Sú upplifun Humes að verk hans fengju enga athygli virðist því ekki hafa verið nákvæm. Upplifanir voru þó hans helsta rannsóknarefni. Markmið heimspeki Humes var að gera grein fyrir því hvernig maðurinn sjálfur fylgir ákveðnum lögmálum í þekkingarleit sinni, líkt og himintunglin sem Newton skrifaði um fylgja ákveðnum lögmálum í sporgöngu sinni. Hume grunaði einnig að vísindi okkar um himintunglin yrðu nákvæmari ef við skildum betur þau lögmál sem maðurinn sjálfur stjórnast af þegar hann upplifir næturhimininn.

Hume efaðist um að við hefðum til að bera nokkrar meðfæddar hugmyndir líkt og enski heimspekingurinn John Locke hafði gert á undan honum. Öll okkar vitneskja byggir á upplifunum okkar. Skynjunin er því grundvöllur allrar þekkingar. Allt sem við finnum í huga okkar byggist á því sem Hume kallar frumskynjanir, bæði ytri og innri, og eru aðrar hugmyndir okkar einungis einhvers konar endurvarp þeirra. Eitt er að verða ástfanginn (frumskynjun ástar) og annað að rifja þá tilfinningu upp (hugmyndin um ást). En hugmyndir eru engu að síður mikilvægar. Heimurinn er í okkar augum eins og þessar hugmyndir leyfa okkur í krafti minnis og ímyndunarafls. Frumskynjanir missa skjótt þrótt sinn. Þrjú lögmál eru mikilvægust þegar kemur að því hvernig við tengjum hugmyndir okkar. Þau stjórna því hvernig hugmyndir birtast í minni eða ímyndunarafli. Einfaldar hugmyndir tengjast og mynda þannig flóknari hugmyndir eftir því sem þær líkjast, liggja saman í tíma og rúmi eða tengjast sem orsök og afleiðing. Hume gengur svo langt að segja að við höfum enga frumskynjun af orsakatengslum. Þar komi vaninn eða reynslan aðeins til sögunnar. Efahyggjan sem fylgir niðurstöðum Humes er býsna sterk. Samkvæmt henni vitum við til að mynda ekki að sólin muni rísa á morgun. Það er aðeins vaninn sem fær okkur til að trúa því að eitt fyrirbæri fylgi öðru.

Franskt menntafólk hittist á 18. öld.

Það getur verið erfitt að hafna þessari mynd sem Hume dregur upp. Vissulega virðist það sannfærandi að allt sem við vitum eigi sér uppruna í skynjun okkar. „Lappar og blámenn hafa enga hugmynd um hvernig vín bragðast“4, eins og hann segir. Og að flestar hugmyndir okkar eru bara dauflegar skynjanir. Margt af því sem við þykjumst vita er aðeins tilkomið vegna þess að við getum ekki hugsað um það á annan hátt. Eitt fyrirbæri vekur hjá okkur hugmynd um annað sem fylgir því jafnan. Hins vegar má segja að heimspekilega spurningin sem við ættum að spyrja okkur sé hvort það geti verið að ekki sé fleira á bak við hugarstarf okkar. Erum við kannski eftir allt saman alveg eins og dýr? Mörg þeirra virðast tengja saman hluti samkvæmt lögmálunum sem Hume setur fram.

Stóra spurningin sem samtímamenn Humes spurðu sig var hvers konar siðferði við gátum átt von á ef enginn guðlegur neisti bjó lengur innra með okkur – engin rödd sem kenndi okkur mun á réttu og röngu. Hume taldi að svarið lægi fyrir augum okkar. Hann sá þess ekki merki að siðferði hvíldi þar með á sjálfselskunni einni saman. Þvert á móti væru samhygð og umhyggja einkenni á góðu fólki. Maðurinn greindi sig frá dýrum í hegðun sinni. En slíka hegðun þyrfti ekki að skýra með guðlegum neista eða mannlegri skynsemi. Hvorugt væri raunar líklega til þess að fá okkur til þess breyta á ákveðinn hátt. Það væru fyrst og fremst tilfinningar okkar sem hrærðu okkur. Þær eru svipaðar í flestu fólki þar sem gagnlegar dygðir fyrir samfélögin verða ofan á að lokum. Eina siðferðilega röddin sem okkur ber að hlýða er sú sem lærist milli kynslóða eftir að hver kynslóð hefur lært sína lexíu af biturri reynslu.

Ástæðan fyrir því að heimspeki Hume var talin hættuleg af sumum var þessi tilraun hans til þess að gera manninn aftur hluta af náttúrunni. En þar átti Hume ekki við að maðurinn ætti best heima fjarri siðmenningu. Enginn sem les frásögn Humes sjálfs af gleði hans af að taka þátt í samkvæmislífi Parísar á átjándu öld gæti trúað því. Náttúruhyggja Humes byggði á því að hann hafnaði fullkomlega vísan í nokkuð sem stæði utan náttúrunnar þegar kom að heimspekilegum skýringum. Sérstaklega var honum í mun að hafna öllu yfirnáttúrulegu. Hume var enginn guðleysingi í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak í dag. Og hann var ekki herskár þótt hann væri beittur í gagnrýni sinni á trúarbrögð. Röksemdir hans gegn hugmyndum um kraftaverk og gegn hefðbundnum sönnunum fyrir tilvist Guðs lifa samt sem áður góðu lífi enn í dag hjá þeim sem berjast gegn skipulögðum trúarbrögðum. Framlag Humes til heimspekinnar var fyrst og fremst rök hans fyrir því að maðurinn gæti lifað hófsömu, siðlegu og umburðarlyndu lífi án þess að krefjast einhvers konar vissu til þess að grundvalla dygðir sínar og heimsmynd í. Hann taldi að mannlegri skynsemi væri best þjónað með því að sætta sig við takmarkanir hennar.

Tilvísanir:

  • 1David Hume, Rannsókn á skilningsgáfunni (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1988), bls. 35.
  • 2Sama rit, bls. 45.
  • 3Sama rit, bls. 37.
  • 4Sama rit, bls. 71.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

29.10.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hver var David Hume og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 29. október 2012, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63326.

Henry Alexander Henrysson. (2012, 29. október). Hver var David Hume og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63326

Henry Alexander Henrysson. „Hver var David Hume og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 29. okt. 2012. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63326>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var David Hume og hvert var framlag hans til heimspekinnar?
Fáir heimspekingar hafa lifað svo viðburðaríku lífi að það hafi þótt í frásögur færandi. Skoski heimspekingurinn David Hume er undantekning frá þeirri reglu. Lífshlaup hans var ekki aðeins viðburðaríkt og spennandi heldur skrifaði hann stutta sjálfsævisögu sem er óviðjafnanlegt bókmenntaverk. Setningar eins og „þær viðtökur sem rit mín fengu í fyrstu urðu síst til þess að kitla hégómagirndina“1 og „ég hafði sérstaka ánægju af félagsskap prúðra kvenna og ég hef enga ástæðu til þess að kvarta yfir þeim viðtökum sem ég fékk meðal þeirra“2 hafa lengi skemmt áhugafólki um sögu heimspekinnar.

Hume fæddist í Edinborg árið 1711. Um 18 ára aldur opnaðist fyrir honum „hið nýja svið hugsunarinnar“ og eftir það lagði hann sig einkum eftir heimspeki. Fyrsta heimspekirit hans, Ritgerð um manneðlið, leit dagsins ljós árið 1738 og lýsti hann síðar þeim miklu vonbrigðum sem hann varð fyrir með viðtökur hennar: „Prentverkið fæddi hana andvana lík.“3 Safn ritgerða Humes sem birtist síðar hlaut betri viðtökur. Hann bjó þekkingarfræðilegar og frumspekilegar kenningar sínar í nýjan og aðgengilegri búning í Rannsókn á skilningsgáfunni árið 1748. Bækur hans um heimspeki seldust aldrei vel á meðan hann lifði og voru það einkum sagnfræðileg verk hans sem öfluðu honum vinsælda og tekna. Síðar á lífsleiðinni tóku þó heimspekilegar kenningar hans að kvisast út. Hann vakti til að mynda mikla athygli meðal menntafólks í París, þar á meðal þeirra Voltaire og Rousseau, þegar hann kom þangað árið 1763 til þess að gegna starfi ritara lávarðar eins í rúm tvö ár. Voru það ekki síst skoðanir Humes á trúarbrögðum sem spurðust út til helstu forkólfa upplýsingarinnar í Frakklandi. Hume lést árið 1776 og var eitt mikilvægasta verk hans, Samræður um trúarbrögðin, gefið út að honum látnum.

David Hume var einn áhrifamesti heimspekingur 18. aldar.

Áhugafólk og nemendur í vísinda- og heimspekisögu sautjándu aldar þekkja vel til þess hvaða hlutverk Guð, hið fullkomna eða hið óendanlega lék í heimsmyndum þeirrar aldar. Guð var nokkurs konar fasti sem tryggði í fyrsta lagi reglu í heiminum og í öðru lagi möguleikann á því maðurinn sem skynsemisvera gæti öðlast vissu. Án Guðs var raunveruleg þekking varla möguleg. Sumir heimspekingar reyndu jafnvel að byggja kenningar sínar á því að ímynda sér hvernig Guð hafði hannað sköpunarverk sitt. Og spurðu sig í framhaldi af því hvort Guð þyrfti að grípa inn í náttúruleg ferli af og til. Ástundun heimspeki og vísinda varð einhvers konar tilraun til þess að setja sig í spor Guðs við sköpunina.

Guð skipti þó ekki öllu máli fyrir ástundun vísinda og fræða. Árangur náttúruvísinda á sautjándu öld varð að lokum slíkur að við tölum í dag um byltingu í því sambandi. Hume skildi mæta vel hvað fólst í þessum árangri og taldi að nú væri kominn tími til að snúa aðferðum hinna nýju vísinda að manninum sjálfum. Raunar leitaðist Hume við að gera manninn aftur hluta af náttúrunni og draga hann þannig af ímynduðum stalli sem Guð átti að hafa sett hann á. Niðurstaða Humes var stimpluð sem guðlast af mörgum. Aðrir komust ekki yfir þá efahyggju sem þeir lásu úr tilraunum hans. Sú upplifun Humes að verk hans fengju enga athygli virðist því ekki hafa verið nákvæm. Upplifanir voru þó hans helsta rannsóknarefni. Markmið heimspeki Humes var að gera grein fyrir því hvernig maðurinn sjálfur fylgir ákveðnum lögmálum í þekkingarleit sinni, líkt og himintunglin sem Newton skrifaði um fylgja ákveðnum lögmálum í sporgöngu sinni. Hume grunaði einnig að vísindi okkar um himintunglin yrðu nákvæmari ef við skildum betur þau lögmál sem maðurinn sjálfur stjórnast af þegar hann upplifir næturhimininn.

Hume efaðist um að við hefðum til að bera nokkrar meðfæddar hugmyndir líkt og enski heimspekingurinn John Locke hafði gert á undan honum. Öll okkar vitneskja byggir á upplifunum okkar. Skynjunin er því grundvöllur allrar þekkingar. Allt sem við finnum í huga okkar byggist á því sem Hume kallar frumskynjanir, bæði ytri og innri, og eru aðrar hugmyndir okkar einungis einhvers konar endurvarp þeirra. Eitt er að verða ástfanginn (frumskynjun ástar) og annað að rifja þá tilfinningu upp (hugmyndin um ást). En hugmyndir eru engu að síður mikilvægar. Heimurinn er í okkar augum eins og þessar hugmyndir leyfa okkur í krafti minnis og ímyndunarafls. Frumskynjanir missa skjótt þrótt sinn. Þrjú lögmál eru mikilvægust þegar kemur að því hvernig við tengjum hugmyndir okkar. Þau stjórna því hvernig hugmyndir birtast í minni eða ímyndunarafli. Einfaldar hugmyndir tengjast og mynda þannig flóknari hugmyndir eftir því sem þær líkjast, liggja saman í tíma og rúmi eða tengjast sem orsök og afleiðing. Hume gengur svo langt að segja að við höfum enga frumskynjun af orsakatengslum. Þar komi vaninn eða reynslan aðeins til sögunnar. Efahyggjan sem fylgir niðurstöðum Humes er býsna sterk. Samkvæmt henni vitum við til að mynda ekki að sólin muni rísa á morgun. Það er aðeins vaninn sem fær okkur til að trúa því að eitt fyrirbæri fylgi öðru.

Franskt menntafólk hittist á 18. öld.

Það getur verið erfitt að hafna þessari mynd sem Hume dregur upp. Vissulega virðist það sannfærandi að allt sem við vitum eigi sér uppruna í skynjun okkar. „Lappar og blámenn hafa enga hugmynd um hvernig vín bragðast“4, eins og hann segir. Og að flestar hugmyndir okkar eru bara dauflegar skynjanir. Margt af því sem við þykjumst vita er aðeins tilkomið vegna þess að við getum ekki hugsað um það á annan hátt. Eitt fyrirbæri vekur hjá okkur hugmynd um annað sem fylgir því jafnan. Hins vegar má segja að heimspekilega spurningin sem við ættum að spyrja okkur sé hvort það geti verið að ekki sé fleira á bak við hugarstarf okkar. Erum við kannski eftir allt saman alveg eins og dýr? Mörg þeirra virðast tengja saman hluti samkvæmt lögmálunum sem Hume setur fram.

Stóra spurningin sem samtímamenn Humes spurðu sig var hvers konar siðferði við gátum átt von á ef enginn guðlegur neisti bjó lengur innra með okkur – engin rödd sem kenndi okkur mun á réttu og röngu. Hume taldi að svarið lægi fyrir augum okkar. Hann sá þess ekki merki að siðferði hvíldi þar með á sjálfselskunni einni saman. Þvert á móti væru samhygð og umhyggja einkenni á góðu fólki. Maðurinn greindi sig frá dýrum í hegðun sinni. En slíka hegðun þyrfti ekki að skýra með guðlegum neista eða mannlegri skynsemi. Hvorugt væri raunar líklega til þess að fá okkur til þess breyta á ákveðinn hátt. Það væru fyrst og fremst tilfinningar okkar sem hrærðu okkur. Þær eru svipaðar í flestu fólki þar sem gagnlegar dygðir fyrir samfélögin verða ofan á að lokum. Eina siðferðilega röddin sem okkur ber að hlýða er sú sem lærist milli kynslóða eftir að hver kynslóð hefur lært sína lexíu af biturri reynslu.

Ástæðan fyrir því að heimspeki Hume var talin hættuleg af sumum var þessi tilraun hans til þess að gera manninn aftur hluta af náttúrunni. En þar átti Hume ekki við að maðurinn ætti best heima fjarri siðmenningu. Enginn sem les frásögn Humes sjálfs af gleði hans af að taka þátt í samkvæmislífi Parísar á átjándu öld gæti trúað því. Náttúruhyggja Humes byggði á því að hann hafnaði fullkomlega vísan í nokkuð sem stæði utan náttúrunnar þegar kom að heimspekilegum skýringum. Sérstaklega var honum í mun að hafna öllu yfirnáttúrulegu. Hume var enginn guðleysingi í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak í dag. Og hann var ekki herskár þótt hann væri beittur í gagnrýni sinni á trúarbrögð. Röksemdir hans gegn hugmyndum um kraftaverk og gegn hefðbundnum sönnunum fyrir tilvist Guðs lifa samt sem áður góðu lífi enn í dag hjá þeim sem berjast gegn skipulögðum trúarbrögðum. Framlag Humes til heimspekinnar var fyrst og fremst rök hans fyrir því að maðurinn gæti lifað hófsömu, siðlegu og umburðarlyndu lífi án þess að krefjast einhvers konar vissu til þess að grundvalla dygðir sínar og heimsmynd í. Hann taldi að mannlegri skynsemi væri best þjónað með því að sætta sig við takmarkanir hennar.

Tilvísanir:

  • 1David Hume, Rannsókn á skilningsgáfunni (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1988), bls. 35.
  • 2Sama rit, bls. 45.
  • 3Sama rit, bls. 37.
  • 4Sama rit, bls. 71.

Myndir:

...