Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er meira járn í íslensku bergi en annars staðar?

Sigurður Steinþórsson

Ísland er að langmestum hluta úr blágrýti (basalti) og sú bergtegund er járnríkari en flestar aðrar, 8-10% járnmálmur (Fe) sem jafngildir 11-14% járnoxíði (Fe2O3). Basalt er algengasta bergtegund yfirborðs jarðar: Hafsbotnarnir eru basalt, sem og úthafseyjar (eins og Ísland) og enn fremur rúmmálsmiklir blágrýtisstaflar á meginlöndunum. Aðrar yfirborðsmyndanir meginlandanna — set af ýmsu tagi, setberg (samrunnið set), myndbreytt berg (bakað setberg) og djúpberg eins og granít (bráðnað úr myndbreyttu bergi) – eru almennt járnsnauðari en basalt.

Basalt, algengasta bergtegund á Íslandi, er járnríkari en flestar aðrar bergtegundir.

Náttúrlegt hreint járn (járnmálmur) finnst ekki í jarðskorpunni, allt járn er bundið öðrum frumefnum í steindum. Undantekningar eru loftsteinar utan úr geimnum. Í basalti er járnið bundið sem silíkat (pýroxen, ólivín) og oxíð (magnetít, hematít, ilmenít). Magnetít (Fe3O4) er segulmögnuð steind og fáein prósent af því í basalti gera bergið sjálft segulmagnað. Sá eiginleiki hefur nýst til margra góðra hluta, til dæmis við málmleit og í jarðeðlisfræði.

Járnöld hófst þegar mönnum lærðist að bræða járn úr járngrýti. Það kann að hafa gerst í Litlu-Asíu fyrir 3500 árum eða svo og kunnáttan borist þaðan með tímanum til annarra landa. Þegar Ísland var numið var járnöld gengin í garð í norðanverðri Evrópu fyrir meira en 1000 árum og að minnsta kosti í þeim löndum sem landnámsmenn komu frá var járnið brætt úr mýrajárni með viðarkolum — í mýrajárni er járnið einkum sem límonít (Fe(OH).n(H2O)) en einnig sem hematít (Fe2O3). Járnvinnsla af því tagi hefur framan af verið stunduð hér á landi nánast sem heimilisiðnaður og til þess þurfti mikinn við, enda eyddust birkiskógarnir skjótt meðal annars af þeim orsökum.[1]

Járnnámur nú til dags eru einkum tvenns konar. Langmikilvægastar eru „bandajárnsmyndanir“ (e. banded iron formations) sem finnast á fornum hlutum allra meginlanda, forkambrískar að aldri (eldri en 1000 milljón ára). Þetta eru þykkar og víðáttumiklar myndanir þar sem þunn járnsteindalög (einkum magnetít eða hematít) skiptast á við lög úr kvarsi; lögin eru talin vera „efnaset“ sem fallið hefur árstíðabundið í grunnum sjó við aðstæður sem aðeins ríktu á jörðinni í árdaga. Mun rúmmálsminni eru járnmyndanir (magnetít) tengdar stórum storkubergs-innskotum, einkum graníti. Vegna þess hve margar stórar járngrýtismyndanir eru þekktar var járn löngum talið eitt fárra frumefna sem ekki væri fyrirsjáanlegur skortur á. Hins vegar fer nýting á því hraðvaxandi þannig að ýmsir telja nú að flestar námur verði þrotnar eftir 60-100 ár. Á móti kemur þó að endurnýting fer sívaxandi.

Tilvísun:
  1. ^ Sigurður Steinþórsson. „Er nógu mikið járn í íslenskum mýrarauða til vinna það með raunhæfum hætti?“. Vísindavefurinn 15.2.2000. (Skoðað 28.4.2014).

Mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

5.5.2014

Spyrjandi

Birna Lárusdóttir

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Er meira járn í íslensku bergi en annars staðar?“ Vísindavefurinn, 5. maí 2014, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65933.

Sigurður Steinþórsson. (2014, 5. maí). Er meira járn í íslensku bergi en annars staðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65933

Sigurður Steinþórsson. „Er meira járn í íslensku bergi en annars staðar?“ Vísindavefurinn. 5. maí. 2014. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65933>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er meira járn í íslensku bergi en annars staðar?
Ísland er að langmestum hluta úr blágrýti (basalti) og sú bergtegund er járnríkari en flestar aðrar, 8-10% járnmálmur (Fe) sem jafngildir 11-14% járnoxíði (Fe2O3). Basalt er algengasta bergtegund yfirborðs jarðar: Hafsbotnarnir eru basalt, sem og úthafseyjar (eins og Ísland) og enn fremur rúmmálsmiklir blágrýtisstaflar á meginlöndunum. Aðrar yfirborðsmyndanir meginlandanna — set af ýmsu tagi, setberg (samrunnið set), myndbreytt berg (bakað setberg) og djúpberg eins og granít (bráðnað úr myndbreyttu bergi) – eru almennt járnsnauðari en basalt.

Basalt, algengasta bergtegund á Íslandi, er járnríkari en flestar aðrar bergtegundir.

Náttúrlegt hreint járn (járnmálmur) finnst ekki í jarðskorpunni, allt járn er bundið öðrum frumefnum í steindum. Undantekningar eru loftsteinar utan úr geimnum. Í basalti er járnið bundið sem silíkat (pýroxen, ólivín) og oxíð (magnetít, hematít, ilmenít). Magnetít (Fe3O4) er segulmögnuð steind og fáein prósent af því í basalti gera bergið sjálft segulmagnað. Sá eiginleiki hefur nýst til margra góðra hluta, til dæmis við málmleit og í jarðeðlisfræði.

Járnöld hófst þegar mönnum lærðist að bræða járn úr járngrýti. Það kann að hafa gerst í Litlu-Asíu fyrir 3500 árum eða svo og kunnáttan borist þaðan með tímanum til annarra landa. Þegar Ísland var numið var járnöld gengin í garð í norðanverðri Evrópu fyrir meira en 1000 árum og að minnsta kosti í þeim löndum sem landnámsmenn komu frá var járnið brætt úr mýrajárni með viðarkolum — í mýrajárni er járnið einkum sem límonít (Fe(OH).n(H2O)) en einnig sem hematít (Fe2O3). Járnvinnsla af því tagi hefur framan af verið stunduð hér á landi nánast sem heimilisiðnaður og til þess þurfti mikinn við, enda eyddust birkiskógarnir skjótt meðal annars af þeim orsökum.[1]

Járnnámur nú til dags eru einkum tvenns konar. Langmikilvægastar eru „bandajárnsmyndanir“ (e. banded iron formations) sem finnast á fornum hlutum allra meginlanda, forkambrískar að aldri (eldri en 1000 milljón ára). Þetta eru þykkar og víðáttumiklar myndanir þar sem þunn járnsteindalög (einkum magnetít eða hematít) skiptast á við lög úr kvarsi; lögin eru talin vera „efnaset“ sem fallið hefur árstíðabundið í grunnum sjó við aðstæður sem aðeins ríktu á jörðinni í árdaga. Mun rúmmálsminni eru járnmyndanir (magnetít) tengdar stórum storkubergs-innskotum, einkum graníti. Vegna þess hve margar stórar járngrýtismyndanir eru þekktar var járn löngum talið eitt fárra frumefna sem ekki væri fyrirsjáanlegur skortur á. Hins vegar fer nýting á því hraðvaxandi þannig að ýmsir telja nú að flestar námur verði þrotnar eftir 60-100 ár. Á móti kemur þó að endurnýting fer sívaxandi.

Tilvísun:
  1. ^ Sigurður Steinþórsson. „Er nógu mikið járn í íslenskum mýrarauða til vinna það með raunhæfum hætti?“. Vísindavefurinn 15.2.2000. (Skoðað 28.4.2014).

Mynd:

...