Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í fyrstu kann þetta hugtak „umhverfishugvísindi“ (e. environmental humanities) að virðast nokkuð mótsagnakennt. Spyrja má hvort umhverfið komi hugvísindunum við eða hvað húmanísk fræði geti lagt af mörkum á sviði umhverfismála. Tengslin á milli umhverfismála og hugvísinda eru mun nánari en ætla mætti í fyrstu og spurningar eins og þessar eru fyrst og fremst til marks um ákveðna vanahugsun um hvar mörkin liggja á milli fræðasviða og hvað eigi að rannsaka innan tiltekinna fræðigreina.
Slík vanahugsun á meðal annars á hættu að horfa framhjá margvíslegum tækifærum og áskorunum sem geta falist í beitingu húmanískra kenninga og aðferða á ný viðfangsefni, eins og til að mynda hnattrænar loftslagsbreytingar, erfðabreytt matvæli eða (sjálfs)vitund dýra. Fyrir vikið heyrast raddir hugvísindafólks lítið eða ekkert þegar mál af ofangreindum toga ber á góma og fáir fræðimenn fylla upp í það tómarúm sem skapast þegar ræða á um mannlegar orsakir umhverfisvandamála (gildismat, merkingarmyndun, stjórnmálaskoðanir) eða afleiðingar þeirra fyrir líf manna á jörðinni (vaxandi fátækt, fábreyttari samfélög, hnignun menningar).
Kjarninn í þessari vanahugsun er rótgróin tvíhyggja um náttúru og menningu eða mann og dýr sem er síðan „endurvarpað“ yfir á fræðaheiminn og verkaskiptingu innan hans. Hugvísindin fjalla um allt sem mannlegt er – atgervi mannsins, menningu hans og listir, samfélög og sögu – og þar er því vissulega af nógu að taka, þótt ekki sé farið inn á hefðbundin viðfangsefni annarra fræðasviða, svo sem náttúru- eða umhverfisvísinda. Í raunheiminum eru skilin þó engan veginn jafn glögg og í fræðaheiminum því maðurinn er í senn menningarvera og náttúruvera og lifir (eins og önnur dýr) á gjöfum náttúrunnar.
Í þrengsta skilningi má líta á umhverfishugvísindi sem samnefnara fyrir allar greinar húmanískra fræða sem fást við umhverfismál að staðaldri.
Náttúran er enn fremur mikilvægur brunnur listsköpunar hans og tækni og síðast en ekki síst þá verkar allt hvað á annað í samtengdum, hnattrænum heimi. Hugtakið „umhverfi“ í víðasta skilningi vísar einmitt til alls sem fyrirfinnst á jörðinni, hvort heldur er af náttúrulegum eða mannlegum uppruna, og hvernig fyrirbæri og kraftar úr ólíkum kerfum hafa gagnvirk áhrif á hvert annað. Maðurinn og menningin, trúin, borgirnar, tæknin og tólin eru með öðrum orðum hluti af umhverfinu allt eins og gíraffar, eldgos eða norðurljós. Það má því ljóst vera að umhverfismálin eru meðal allra mikilvægustu viðfangsefna sem hugvísindunum ber að sinna.
Það er fremur stutt síðan byrjað var að ræða um „umhverfishugvísindi“ (5-10 ár) og ekki er enn komin fram skilgreining sem allir gætu fallist á. Mörk fræðasviðsins eru ennþá frekar óljós – víða erlendis eru „húmanísk fræði“ skilgreind á töluvert breiðari hátt en á Íslandi og geta þá náð hvoru tveggja til félagsvísinda og lista. Grunninn að tilurð umhverfishugvísinda má samt augljóslega finna í þróun nýrra undirgreina innan hugvísindanna á síðastliðnum 30-40 árum, svo sem náttúrusiðfræði (e. environmental ethics), umhverfissagnfræði (e. environmental history) og vistrýni (e. ecocriticism), sem allar hafa umhverfismál eða samskipti manns og náttúru sem meginviðfangsefni.
Í þrengsta skilningi má líta á umhverfishugvísindi sem samnefnara fyrir allar greinar húmanískra fræða sem fást við umhverfismál að staðaldri. Flestir sem kenna sig við þetta nýja fræðasvið hafa þó viljað ganga mun lengra og líta þá á umhverfishugvísindi sem fræðasvið sem leitast við að sameina allar þessar undirgreinar undir einu merki; eða að minnsta kosti brjóta niður alla múra á milli þeirra. Um væri að ræða nýtt fræðasvið sem væri heildstæðara í nálgun sinni en hver einstök undirgrein og enn fremur þverfræðilegt í eðli sínu. Margir myndu jafnframt bæta við að umhverfishugvísindi þurfi að vera hagnýtt (e. applied) eða jafnvel aðgerðamiðuð (e. action-orientated) til að standa fyllilega undir nafni; þau leitist við að breyta heiminum og þurfi því að vera reiðubúin að takast á við stjórnmálin, fjölmiðlana og jafnvel samfélagið í heild sinni til þess að hafa raunveruleg áhrif á gang mála.
Að lokum má nefna að margir umhverfishugvísindamenn sjá tilkomu þessa nýja fræðasviðs sem mikilvægt tækifæri eða fordæmi fyrir hugvísindin til að endurheimta fyrri styrkleika sína innan fræðaheims sem hefur í auknum mæli beint sjónum sínum að efnahagslegum, tæknilegum eða raunvísindalegum nálgunum á hvoru tveggja mannleg og náttúruleg viðfangsefni. Að þeirra mati bjóða umhverfishugvísindin upp á tækifæri til að sýna mátt og gildi hugvísindanna í verki og til að brjótast út úr þeirri „jöðrun“ sem ýmsir telja hafi orðið hlutskipti hugvísindafólks í síauknum mæli á síðustu áratugum.
Kjarni málsins er þó sá að rót helstu umhverfisvandamála má að stórum hluta rekja til mannsins og mörg alvarlegustu áhrif þeirra steðja jafnframt að honum sjálfum – það er því einfaldlega ekki hægt að takast á við slík mál á árangursríkan hátt án þeirrar fjölbreyttu þekkingar og færni sem húmanísk fræði búa yfir.
Mynd:
Þorvarður Árnason. „Hvað eru græn hugvísindi eða umhverfishugvísindi?“ Vísindavefurinn, 24. mars 2014, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66682.
Þorvarður Árnason. (2014, 24. mars). Hvað eru græn hugvísindi eða umhverfishugvísindi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66682
Þorvarður Árnason. „Hvað eru græn hugvísindi eða umhverfishugvísindi?“ Vísindavefurinn. 24. mar. 2014. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66682>.