Sólin Sólin Rís 03:26 • sest 23:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:21 • Sest 11:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:44 • Síðdegis: 24:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:37 • Síðdegis: 17:48 í Reykjavík

Hver eru einkenni meðvirkni?

Díana Ósk Óskarsdóttir

Enginn veit með vissu hvaðan hugtakið meðvirkni (e. codependence) kemur. Flestir telja að það eigi rætur að rekja til enska hugtaksins co-alcoholic. Einkenni hins meðvirka voru í upphafi rakin til streitunnar sem fólk upplifir við að búa með alkóhólista eða fíkli. Það kom í ljós að þegar alkóhólistinn hætti að drekka, þá lagaðist hinn meðvirki ekki og varð jafnvel verri af einkennum sínum. Einkenni hvers og eins eru ólík en hér að neðan verður farið yfir þau helstu.

Þegar fagfólk fór að rýna betur í einkenni meðvirkni og orsök þeirra, kom í ljós að þau geta orsakað fíkn. Einnig var það óhrekjanlegt að meðvirknieinkenni fundust ekki eingöngu hjá fólki sem ólst upp með eða bjó við alkóhólisma eða fíkn. Það virtist vera nóg að hafa alist upp við vanvirkt fjölskyldukerfi eða með foreldri sem vanrækti eða misnotaði barnið.

Hjúkrunarfræðingurinn Pia Mellody, sem hefur starfað sem meðferðaraðili í Bandaríkjunum í yfir 20 ár, heldur því fram að meinið dafni í menningu okkar og að enn séum við svo stutt á veg komin að flestir meðferðaraðilar hafi hvorki getu né kunnáttu til þess að tala um eða fást við meðvirknieinkennin.

Mellody kýs að nota enska hugtakið „disease“ til að lýsa meðvirkninni. Hún segir meðvirkni ekki veikindi í líkingu við flensu eða niðurgang, heldur mun frekar eins og sykursýki. Lækningin er ekki fljótvirk heldur þarf hinn meðvirki stöðugt að viðhalda bata sínum eins og hinn sykursjúki.

Meðvirkir einstaklingar eru oft greindir með kvíði, þunglyndi eða aðrar raskanir.

Geðlæknirinn Timmen Cermak segir í bók sinni Diagnosing and Treating Codependence að fagfólk innan geðsviðsins hafi reynt að meðhöndla meðvirknieinkenni af fagmennsku og fágun en þar sem meðvirkni sé ekki viðurkennd sem sjúkdómur sé hún oft ranglega greind.

Meðvirklar eru þá greindir með kvíða, þunglyndi eða aðrar raskanir. Þetta segir hann afleitt. Cermak orðar þetta svona: „Miðað við það sem við höfum lært, þá virðist hún passa við sjúkdómslýsingar (greinileg einkenni sem eru fyrirsjáanleg, stigvaxandi og hamlandi).“[1]

Eftirfarandi eru kjarnaeinkenni meðvirkni eins og Mellody setur þau fram:

 1. Erfiðleikar við að upplifa gott og heilbrigt sjálfsmat. Einstaklingurinn á með öðrum orðum erfitt með að elska sjálfan sig.
 2. Erfiðleikar við að setja heilbrigð og virk mörk, það er einstaklingurinn á erfitt með að vernda sjálfan sig.
 3. Erfiðleikar við að eiga og tjá eigin veruleika, það er að segja einstaklingurinn á erfitt með að þekkja sjálfan sig, hugsanir sínar og tilfinningar og deila þeim með öðrum.
 4. Erfiðleikar við að gangast við og sinna eigin þörfum og löngunum, það er einstaklingurinn á erfitt með eigin umönnun.
 5. Erfiðleikar við að upplifa og tjá eigin veruleika af hófsemi, það er einstaklingurinn á erfitt með að koma fram með viðeigandi hætti miðað við aldur og aðstæður.

Til viðbótar kjarnaeinkennunum eru einnig fimm afleidd einkenni (e. secondary symptoms) sem endurspegla hvernig veikt samband hins meðvirka við eigið sjálf skapar vandamál í samskiptum við aðra.

Kjarnaeinkennin hafa eyðileggjandi áhrif á líf hins meðvirka og segja má að birtingarmynd þess sé í afleiddum einkennum. Kjarnaeinkenni hafa áhrif á innra líf hins meðvirka en afleidd einkenni hafa áhrif á samskipti við aðra. Þau má flokka á eftirfarandi hátt:

 1. Neikvæð stjórnun. Meðvirklar gefa sér leyfi til þess að ákvarða raunveruleika annarra fyrir eigin þægindi. Þeir reyna annars vegar að stjórna öðrum með því að segja þeim hvernig þeir ættu að vera og hins vegar með því að þóknast þeim.
 2. Gremja. Meðvirklar nota gremju sem fánýta leið til að reyna að vernda sjálfa sig og öðlast sjálfsvirðingu.
 3. Skert andleg geta, brengluð eða engin andleg viðleitni. Meðvirklar gera annað fólk að sínum æðri mætti í gegnum hatur, ótta eða dýrkun eða þeir gera tilraun til að eignast æðri mátt annarra.
 4. Flótti frá raunveruleikanum, fíknir eða andlegir og líkamlegir sjúkdómar. Manneskja, sem á ekki í góðu sambandi við sjálfa sig, getur búið við svo mikinn sársauka hið innra að hún leitar lausna í fíknihegðun til þess að deyfa sársauka sinn með skjótvirkum hætti.
 5. Skert geta til að viðhalda nánd við annað fólk er eitt aðaleinkenni hins meðvirka. Nánd felur í sér að tveir eða fleiri deila veruleika sínum án þess að reyna að breyta honum eða dæma. Meðvirklar, sem eiga erfitt með að greina hverjir þeir eru, geta ekki deilt veruleika sínum á viðeigandi hátt og þar með ekki verið nánir öðrum.

Meðvirknieinkennin, sem hafa verið sett fram hér, hafa áhrif á þroska manneskjunnar og þarfnast úrvinnslu til að auka sjálfsþekkingu, sjálfsvirði, samskiptagetu, lífsgæði og sátt.

Ýmsar leiðir eru til bata frá meðvirkni en þar má nefna viðtöl hjá fagaðila sem hefur þekkingu á meðvirkni, námskeið fyrir meðvirka og tólf spora samtök sem miða að meðvirkni.

Mynd:

Tilvísun:
 1. ^ Timmen L. Cermak, Diagnosing and Treating co-dependence. A Guide for Professionals Who Work with Chemical Dependents, Their Spouses, and Children, USA: Hazelden Foundation, 1986, bls. 9-20.

Höfundur

Díana Ósk Óskarsdóttir

guðfræðingur Mag. theol

Útgáfudagur

29.4.2014

Spyrjandi

Hrafnhildur Þorgrímsdóttir, Kristjana Óskarsdóttir

Tilvísun

Díana Ósk Óskarsdóttir. „Hver eru einkenni meðvirkni?“ Vísindavefurinn, 29. apríl 2014. Sótt 30. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=67282.

Díana Ósk Óskarsdóttir. (2014, 29. apríl). Hver eru einkenni meðvirkni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67282

Díana Ósk Óskarsdóttir. „Hver eru einkenni meðvirkni?“ Vísindavefurinn. 29. apr. 2014. Vefsíða. 30. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67282>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver eru einkenni meðvirkni?
Enginn veit með vissu hvaðan hugtakið meðvirkni (e. codependence) kemur. Flestir telja að það eigi rætur að rekja til enska hugtaksins co-alcoholic. Einkenni hins meðvirka voru í upphafi rakin til streitunnar sem fólk upplifir við að búa með alkóhólista eða fíkli. Það kom í ljós að þegar alkóhólistinn hætti að drekka, þá lagaðist hinn meðvirki ekki og varð jafnvel verri af einkennum sínum. Einkenni hvers og eins eru ólík en hér að neðan verður farið yfir þau helstu.

Þegar fagfólk fór að rýna betur í einkenni meðvirkni og orsök þeirra, kom í ljós að þau geta orsakað fíkn. Einnig var það óhrekjanlegt að meðvirknieinkenni fundust ekki eingöngu hjá fólki sem ólst upp með eða bjó við alkóhólisma eða fíkn. Það virtist vera nóg að hafa alist upp við vanvirkt fjölskyldukerfi eða með foreldri sem vanrækti eða misnotaði barnið.

Hjúkrunarfræðingurinn Pia Mellody, sem hefur starfað sem meðferðaraðili í Bandaríkjunum í yfir 20 ár, heldur því fram að meinið dafni í menningu okkar og að enn séum við svo stutt á veg komin að flestir meðferðaraðilar hafi hvorki getu né kunnáttu til þess að tala um eða fást við meðvirknieinkennin.

Mellody kýs að nota enska hugtakið „disease“ til að lýsa meðvirkninni. Hún segir meðvirkni ekki veikindi í líkingu við flensu eða niðurgang, heldur mun frekar eins og sykursýki. Lækningin er ekki fljótvirk heldur þarf hinn meðvirki stöðugt að viðhalda bata sínum eins og hinn sykursjúki.

Meðvirkir einstaklingar eru oft greindir með kvíði, þunglyndi eða aðrar raskanir.

Geðlæknirinn Timmen Cermak segir í bók sinni Diagnosing and Treating Codependence að fagfólk innan geðsviðsins hafi reynt að meðhöndla meðvirknieinkenni af fagmennsku og fágun en þar sem meðvirkni sé ekki viðurkennd sem sjúkdómur sé hún oft ranglega greind.

Meðvirklar eru þá greindir með kvíða, þunglyndi eða aðrar raskanir. Þetta segir hann afleitt. Cermak orðar þetta svona: „Miðað við það sem við höfum lært, þá virðist hún passa við sjúkdómslýsingar (greinileg einkenni sem eru fyrirsjáanleg, stigvaxandi og hamlandi).“[1]

Eftirfarandi eru kjarnaeinkenni meðvirkni eins og Mellody setur þau fram:

 1. Erfiðleikar við að upplifa gott og heilbrigt sjálfsmat. Einstaklingurinn á með öðrum orðum erfitt með að elska sjálfan sig.
 2. Erfiðleikar við að setja heilbrigð og virk mörk, það er einstaklingurinn á erfitt með að vernda sjálfan sig.
 3. Erfiðleikar við að eiga og tjá eigin veruleika, það er að segja einstaklingurinn á erfitt með að þekkja sjálfan sig, hugsanir sínar og tilfinningar og deila þeim með öðrum.
 4. Erfiðleikar við að gangast við og sinna eigin þörfum og löngunum, það er einstaklingurinn á erfitt með eigin umönnun.
 5. Erfiðleikar við að upplifa og tjá eigin veruleika af hófsemi, það er einstaklingurinn á erfitt með að koma fram með viðeigandi hætti miðað við aldur og aðstæður.

Til viðbótar kjarnaeinkennunum eru einnig fimm afleidd einkenni (e. secondary symptoms) sem endurspegla hvernig veikt samband hins meðvirka við eigið sjálf skapar vandamál í samskiptum við aðra.

Kjarnaeinkennin hafa eyðileggjandi áhrif á líf hins meðvirka og segja má að birtingarmynd þess sé í afleiddum einkennum. Kjarnaeinkenni hafa áhrif á innra líf hins meðvirka en afleidd einkenni hafa áhrif á samskipti við aðra. Þau má flokka á eftirfarandi hátt:

 1. Neikvæð stjórnun. Meðvirklar gefa sér leyfi til þess að ákvarða raunveruleika annarra fyrir eigin þægindi. Þeir reyna annars vegar að stjórna öðrum með því að segja þeim hvernig þeir ættu að vera og hins vegar með því að þóknast þeim.
 2. Gremja. Meðvirklar nota gremju sem fánýta leið til að reyna að vernda sjálfa sig og öðlast sjálfsvirðingu.
 3. Skert andleg geta, brengluð eða engin andleg viðleitni. Meðvirklar gera annað fólk að sínum æðri mætti í gegnum hatur, ótta eða dýrkun eða þeir gera tilraun til að eignast æðri mátt annarra.
 4. Flótti frá raunveruleikanum, fíknir eða andlegir og líkamlegir sjúkdómar. Manneskja, sem á ekki í góðu sambandi við sjálfa sig, getur búið við svo mikinn sársauka hið innra að hún leitar lausna í fíknihegðun til þess að deyfa sársauka sinn með skjótvirkum hætti.
 5. Skert geta til að viðhalda nánd við annað fólk er eitt aðaleinkenni hins meðvirka. Nánd felur í sér að tveir eða fleiri deila veruleika sínum án þess að reyna að breyta honum eða dæma. Meðvirklar, sem eiga erfitt með að greina hverjir þeir eru, geta ekki deilt veruleika sínum á viðeigandi hátt og þar með ekki verið nánir öðrum.

Meðvirknieinkennin, sem hafa verið sett fram hér, hafa áhrif á þroska manneskjunnar og þarfnast úrvinnslu til að auka sjálfsþekkingu, sjálfsvirði, samskiptagetu, lífsgæði og sátt.

Ýmsar leiðir eru til bata frá meðvirkni en þar má nefna viðtöl hjá fagaðila sem hefur þekkingu á meðvirkni, námskeið fyrir meðvirka og tólf spora samtök sem miða að meðvirkni.

Mynd:

Tilvísun:
 1. ^ Timmen L. Cermak, Diagnosing and Treating co-dependence. A Guide for Professionals Who Work with Chemical Dependents, Their Spouses, and Children, USA: Hazelden Foundation, 1986, bls. 9-20.

...