Sólin Sólin Rís 04:53 • sest 22:11 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:29 • Sest 22:12 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:02 • Síðdegis: 13:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:20 • Síðdegis: 20:17 í Reykjavík

Hvernig líta íslenskir draugar út?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Upphaflega spurningin hljóðaði svona:

Getið þið sagt mér hvernig draugar líta eða litu út á Íslandi, ekki Hollywood-útgáfan? Er eitthvað fjallað um það í Íslendingasögu og þjóðsögum? Ég er að gera leirskúlptúr við ljóðið Móðir mín i kví kví og mig vantar góða mynd í kollinn minn hvernig barnið (draugurinn) á að hafa litið út!

Draugar, líkt og aðrar þjóðtrúarvættir, eru umfram allt breytilegir; ekki þó þannig að þeir megi vera hvernig sem er og í raun ber útlitslýsing þeirra yfirleitt ekki svo mjög vott um ímyndunarafl einstakra sagnaritara eða sagnaþula, því að oftar en ekki eru þeir hefðbundnir og falla að fyrirframmótuðum hugmyndum. Hér getur þó skipt máli hvort verið er að tala um drauga í miðaldabókmenntum eða síðari tíma þjóðtrú.

Frægasti draugur íslenskra miðaldabókmennta er án efa Glámur en frá honum segir í Grettis sögu. Í lifanda lífi er Glámi lýst sem svo að hann hafi verið „mikill vexti ok undarligr í yfirbragði, gráeygr ok opineygr, úlfgrár á hárslit“ (Grettis saga Ásmundarsonar 1936: 110). Eftir að Glámur er dauður og afturgenginn er þess getið að hann sé „ólíkr nokkurri mannligri mynd,“ með höfuð „afskræmiliga mikit ok undarliga stórskorit“. Þá er hann sagður sterkur og lögð er áhersla á augun sem hann „hvessir“ og gýtur „harðliga“. Tekið er fram að Gretti hafi aldrei brugðið við nokkra sýn, nema þá er hann sá Glám, þannig að ekki er hægt að segja annað en að nægt rými sé skilið eftir fyrir ímyndunarafl lesenda og áheyrenda sögunnar (sama heimild: 119–121).

Í textum frá miðöldum segir einnig víða af svokölluðum haugbúum, sem eru þá dauðir menn sem ganga aftur sem draugar og búa í haugum sínum. Stundum er þeim lýst þannig að þeir sitji á stól í haugnum, séu svartir/bláir/fölir á lit og digrir, auk þess sem þeir rymja og blása eldi. Í Hrómundar sögu Gripssonar er haugbúanum lýst sem svo að hendur hans hafi verið brenglaðar og neglurnar beygst aftur. Öðrum haugbúa er lýst þannig að hann éti hund sinn og hest með „tannagangi“ miklum og í einhverjum tilvikum eru þeir sagðir skella gómum eða kjöftum, sem minnir á lýsingar af draugum sem sagðir eru gnísta tönnum. Magnaða lýsingu af viðureign manns og haugbúa er að finna í Andra rímum, þar sem útlitslýsingar eru staðlaðar en þar að auki sagt að rödd draugsins sé digur, dimm og grimm (AM 604 4to: XI. ríma 44–78). Haugbúunum fylgir, eðlilega, mikill daunn.

Til eru mismunandi gerðir af draugum og fer útlit þeirra oft eftir gerð draugsins eða dauðdaga. Afturgöngur eru til dæmis oft í hvítum líkklæðum, sjódauðir menn eru iðulega skinnklæddir og sjóblautir en útburðir hafa oft utan um sig þau klæði sem þeir voru vafðir í þegar þeir voru bornir út. Myndin sýnir Gretti og Glám.

Samkvæmt íslenskum þjóðsögum eru draugar af mismunandi tagi. Draugasögur er stór efnisflokkur og í safni Jóns Árnasonar er þeim skipt niður í sögur um afturgöngur (menn sem ganga aftur eftir dauðann, þar með taldir útburðir), uppvakninga (dauða menn sem eru magnaðir upp með göldrum og sendir til ýmissa verka) og fylgjur (sem geta reyndar líka verið afturgöngur eða uppvakningar). Fylgjurnar eru í raun tvenns konar:

 • Eiginlegar fylgjur manna (sem geta verið látnir menn eða dýr en þó aðallega eins konar svipir eiganda fylgjunnar). Þessar fylgjur eru oft fyrirboðar, það er gera boð á undan komu fylgjueigandans.
 • Hins vegar geta fylgjur verið ættardraugar eða bæjardraugar; oft eru þetta mórar og skottur sem fylgja mönnum, ættum, bæjum eða sveitum – og eru yfirleitt illir viðureignar. Mórarnir, það er karlkyns draugarnir, áttu að hafa verið í mórauðri úlpu eða peysu en margir þeirra eru þar að auki með hatt eða lambhúshettu. Skotturnar bera nafn sitt af höfuðfati sínu; þær bera skaut á höfði sér en skautið lafir oftast niður og minnir á skott. Sumar skottur eru auk þess í rauðum sokkum.

Klæðnaður drauga er þó ekki alveg svo einsleitur og sem dæmi má nefna draug í sauðsvartri úlpu, annan í grámórauðri prjónapeysu og þann þriðja í grámórauðum fatagörmum með sauðmórauða prjónahettu, þannig að greinilegt er að útfærsla hinna hefðbundnu klæða getur verið á nokkra vegu, þótt ramminn sé vissulega þröngur. Aðrir draugar eru í hvítum líkklæðum, einkum afturgöngur sem rísa beint úr gröf sinni, á meðan sumir eru jafnvel naktir og til er sögn af beinagrind sem reis úr gröf sinni. Þá eru einnig til sagnir af draugum sem voru taldir færir um að breyta birtingarmynd sinni og birtust þá jafnvel ýmist í mannsmynd, í líki dýrs eða flugu. Að lokum eru til draugar í dýrsmynd, sem eru þá uppvakin og/eða mögnuð dýr.

Oftast nær er draugum ekki lýst, enda stundum gert ráð fyrir að þeir séu mönnum ósýnilegir. Þegar þeim er hins vegar lýst, er útlitið að mestu staðlað að því sem að ofan greinir en nokkur dæmi fela í sér sjaldgæfari birtingarmyndir. Samkvæmt íslenskum sögnum gætum við átt von á að mæta svartri og mikilli vofu, marflóétnum mannslíkama, sex moldugum mönnum, digrum dólgi, skinnklæddum manni, skinnklæddri stúlku, manni í dökkum kjól með mórauðan hund, manni í rauðri prjónapeysu, manni með staf í hendi, litlum púka með krókhúfu á höfði, draugi með nátthúfu, öðrum með bláan, þrístrendan hatt, stúlku með skuplu, stúlku á bláum kjól, mórauðum strák, mórauðri kápu, mórauðum hnoða, flygsnu, gufu, gufu sem tekur á sig mannsmynd, eldhnetti, glóandi eldköggli eða einfaldlega draugi sem er „ferlegur ásýndum“.

Oftar en ekki fer útlit drauga eftir dauðdaga þeirra. Þeir sem höfðu drukknað birtust mönnum sem blautir, samanber „skinnklæddur og sjóblautur karl,“ þeir sem höfðu orðið fyrir ofbeldi eða slasast birtust með opin sár, líkt og djákninn frá Myrká sem hafði skaddast mjög á höfðinu aftanverðu af ísjaka (Jón Árnason 1954–61: I 270). Sumir draugar taka af sér höfuðið og halda á því og til er sögn af konu, Mela-Möngu, sem sást oft ganga um og ávallt með prjónana á sér. Sumir draugar eru sagðir litlir vexti, á stærð við stálpuð börn og um einn er sagt að hafi verið í „líki“ unglingspilts. Sumir draugar glotta illilega og líkt og haugbúunum gömlu fylgir þeim ódaunn, jafnvel lykt af súru smjöri.

Útburðum er sjaldnast lýst nákvæmlega en þeim mun oftar er getið um væl þeirra, útburðavælið, sem sums staðar var talið segja fyrir um veður. Útburðir höfðu yfirleitt utan um sig klæði það sem þeir voru vafðir í þegar þeir voru bornir út – duluna sína. Dulunni er yfirleitt ekki lýst sérstaklega en þó er getið um dökkleitan stranga, mórauðan lepp og sokkaband og einn útburður kveðst eiga blóðrauða dulu. Í einhverjum tilvikum er þeim líkt við ullarvindil eða flyksu. Til er í dæminu að útburður er sagður vera nakið barn eða barnabeinagrind. Reyni þeir að komast ferða sinna er talað um að þeir velti áfram eða gangi/dragist áfram á öðru hné og öðrum olnboga en hafi fætur og hendur krosslagðar. Útburðir eiga það til að kveða vísu, eins og sá sem getið er í þjóðsagnasafni Ólafs Davíðssonar, sem sagði:

Kalt er mér í klettagjá að kúra undir steinum. Burt er holdið beinum frá, borinn var eg í meinum (Ólafur Davíðsson 1978–80: I 200).

Heimildir:

 • Andra rímur. Óútgefinn texti í AM 604 4to. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 • Grettis saga Ásmundarsonar. 1936. Íslenzk fornrit VII. Útg. Guðni Jónsson. Hið íslenzka fornritafélag.
 • Hrómundar saga Gripssonar. 1829. Fornaldar sögur Nordrlanda II. Útg. C.C. Rafn. Kaupmannahöfn.
 • Jón Árnason. 1954–61. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I–VI. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. [Ný útg.]
 • Ólafur Davíðsson. 1978–80. Íslenzkar þjóðsögur I–IV. Útg. Þorsteinn M. Jónsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. [3. útg.]

Mynd:

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

23.5.2014

Spyrjandi

Björk Jómundsdóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvernig líta íslenskir draugar út?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2014. Sótt 7. ágúst 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=67351.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2014, 23. maí). Hvernig líta íslenskir draugar út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67351

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvernig líta íslenskir draugar út?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2014. Vefsíða. 7. ágú. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67351>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig líta íslenskir draugar út?
Upphaflega spurningin hljóðaði svona:

Getið þið sagt mér hvernig draugar líta eða litu út á Íslandi, ekki Hollywood-útgáfan? Er eitthvað fjallað um það í Íslendingasögu og þjóðsögum? Ég er að gera leirskúlptúr við ljóðið Móðir mín i kví kví og mig vantar góða mynd í kollinn minn hvernig barnið (draugurinn) á að hafa litið út!

Draugar, líkt og aðrar þjóðtrúarvættir, eru umfram allt breytilegir; ekki þó þannig að þeir megi vera hvernig sem er og í raun ber útlitslýsing þeirra yfirleitt ekki svo mjög vott um ímyndunarafl einstakra sagnaritara eða sagnaþula, því að oftar en ekki eru þeir hefðbundnir og falla að fyrirframmótuðum hugmyndum. Hér getur þó skipt máli hvort verið er að tala um drauga í miðaldabókmenntum eða síðari tíma þjóðtrú.

Frægasti draugur íslenskra miðaldabókmennta er án efa Glámur en frá honum segir í Grettis sögu. Í lifanda lífi er Glámi lýst sem svo að hann hafi verið „mikill vexti ok undarligr í yfirbragði, gráeygr ok opineygr, úlfgrár á hárslit“ (Grettis saga Ásmundarsonar 1936: 110). Eftir að Glámur er dauður og afturgenginn er þess getið að hann sé „ólíkr nokkurri mannligri mynd,“ með höfuð „afskræmiliga mikit ok undarliga stórskorit“. Þá er hann sagður sterkur og lögð er áhersla á augun sem hann „hvessir“ og gýtur „harðliga“. Tekið er fram að Gretti hafi aldrei brugðið við nokkra sýn, nema þá er hann sá Glám, þannig að ekki er hægt að segja annað en að nægt rými sé skilið eftir fyrir ímyndunarafl lesenda og áheyrenda sögunnar (sama heimild: 119–121).

Í textum frá miðöldum segir einnig víða af svokölluðum haugbúum, sem eru þá dauðir menn sem ganga aftur sem draugar og búa í haugum sínum. Stundum er þeim lýst þannig að þeir sitji á stól í haugnum, séu svartir/bláir/fölir á lit og digrir, auk þess sem þeir rymja og blása eldi. Í Hrómundar sögu Gripssonar er haugbúanum lýst sem svo að hendur hans hafi verið brenglaðar og neglurnar beygst aftur. Öðrum haugbúa er lýst þannig að hann éti hund sinn og hest með „tannagangi“ miklum og í einhverjum tilvikum eru þeir sagðir skella gómum eða kjöftum, sem minnir á lýsingar af draugum sem sagðir eru gnísta tönnum. Magnaða lýsingu af viðureign manns og haugbúa er að finna í Andra rímum, þar sem útlitslýsingar eru staðlaðar en þar að auki sagt að rödd draugsins sé digur, dimm og grimm (AM 604 4to: XI. ríma 44–78). Haugbúunum fylgir, eðlilega, mikill daunn.

Til eru mismunandi gerðir af draugum og fer útlit þeirra oft eftir gerð draugsins eða dauðdaga. Afturgöngur eru til dæmis oft í hvítum líkklæðum, sjódauðir menn eru iðulega skinnklæddir og sjóblautir en útburðir hafa oft utan um sig þau klæði sem þeir voru vafðir í þegar þeir voru bornir út. Myndin sýnir Gretti og Glám.

Samkvæmt íslenskum þjóðsögum eru draugar af mismunandi tagi. Draugasögur er stór efnisflokkur og í safni Jóns Árnasonar er þeim skipt niður í sögur um afturgöngur (menn sem ganga aftur eftir dauðann, þar með taldir útburðir), uppvakninga (dauða menn sem eru magnaðir upp með göldrum og sendir til ýmissa verka) og fylgjur (sem geta reyndar líka verið afturgöngur eða uppvakningar). Fylgjurnar eru í raun tvenns konar:

 • Eiginlegar fylgjur manna (sem geta verið látnir menn eða dýr en þó aðallega eins konar svipir eiganda fylgjunnar). Þessar fylgjur eru oft fyrirboðar, það er gera boð á undan komu fylgjueigandans.
 • Hins vegar geta fylgjur verið ættardraugar eða bæjardraugar; oft eru þetta mórar og skottur sem fylgja mönnum, ættum, bæjum eða sveitum – og eru yfirleitt illir viðureignar. Mórarnir, það er karlkyns draugarnir, áttu að hafa verið í mórauðri úlpu eða peysu en margir þeirra eru þar að auki með hatt eða lambhúshettu. Skotturnar bera nafn sitt af höfuðfati sínu; þær bera skaut á höfði sér en skautið lafir oftast niður og minnir á skott. Sumar skottur eru auk þess í rauðum sokkum.

Klæðnaður drauga er þó ekki alveg svo einsleitur og sem dæmi má nefna draug í sauðsvartri úlpu, annan í grámórauðri prjónapeysu og þann þriðja í grámórauðum fatagörmum með sauðmórauða prjónahettu, þannig að greinilegt er að útfærsla hinna hefðbundnu klæða getur verið á nokkra vegu, þótt ramminn sé vissulega þröngur. Aðrir draugar eru í hvítum líkklæðum, einkum afturgöngur sem rísa beint úr gröf sinni, á meðan sumir eru jafnvel naktir og til er sögn af beinagrind sem reis úr gröf sinni. Þá eru einnig til sagnir af draugum sem voru taldir færir um að breyta birtingarmynd sinni og birtust þá jafnvel ýmist í mannsmynd, í líki dýrs eða flugu. Að lokum eru til draugar í dýrsmynd, sem eru þá uppvakin og/eða mögnuð dýr.

Oftast nær er draugum ekki lýst, enda stundum gert ráð fyrir að þeir séu mönnum ósýnilegir. Þegar þeim er hins vegar lýst, er útlitið að mestu staðlað að því sem að ofan greinir en nokkur dæmi fela í sér sjaldgæfari birtingarmyndir. Samkvæmt íslenskum sögnum gætum við átt von á að mæta svartri og mikilli vofu, marflóétnum mannslíkama, sex moldugum mönnum, digrum dólgi, skinnklæddum manni, skinnklæddri stúlku, manni í dökkum kjól með mórauðan hund, manni í rauðri prjónapeysu, manni með staf í hendi, litlum púka með krókhúfu á höfði, draugi með nátthúfu, öðrum með bláan, þrístrendan hatt, stúlku með skuplu, stúlku á bláum kjól, mórauðum strák, mórauðri kápu, mórauðum hnoða, flygsnu, gufu, gufu sem tekur á sig mannsmynd, eldhnetti, glóandi eldköggli eða einfaldlega draugi sem er „ferlegur ásýndum“.

Oftar en ekki fer útlit drauga eftir dauðdaga þeirra. Þeir sem höfðu drukknað birtust mönnum sem blautir, samanber „skinnklæddur og sjóblautur karl,“ þeir sem höfðu orðið fyrir ofbeldi eða slasast birtust með opin sár, líkt og djákninn frá Myrká sem hafði skaddast mjög á höfðinu aftanverðu af ísjaka (Jón Árnason 1954–61: I 270). Sumir draugar taka af sér höfuðið og halda á því og til er sögn af konu, Mela-Möngu, sem sást oft ganga um og ávallt með prjónana á sér. Sumir draugar eru sagðir litlir vexti, á stærð við stálpuð börn og um einn er sagt að hafi verið í „líki“ unglingspilts. Sumir draugar glotta illilega og líkt og haugbúunum gömlu fylgir þeim ódaunn, jafnvel lykt af súru smjöri.

Útburðum er sjaldnast lýst nákvæmlega en þeim mun oftar er getið um væl þeirra, útburðavælið, sem sums staðar var talið segja fyrir um veður. Útburðir höfðu yfirleitt utan um sig klæði það sem þeir voru vafðir í þegar þeir voru bornir út – duluna sína. Dulunni er yfirleitt ekki lýst sérstaklega en þó er getið um dökkleitan stranga, mórauðan lepp og sokkaband og einn útburður kveðst eiga blóðrauða dulu. Í einhverjum tilvikum er þeim líkt við ullarvindil eða flyksu. Til er í dæminu að útburður er sagður vera nakið barn eða barnabeinagrind. Reyni þeir að komast ferða sinna er talað um að þeir velti áfram eða gangi/dragist áfram á öðru hné og öðrum olnboga en hafi fætur og hendur krosslagðar. Útburðir eiga það til að kveða vísu, eins og sá sem getið er í þjóðsagnasafni Ólafs Davíðssonar, sem sagði:

Kalt er mér í klettagjá að kúra undir steinum. Burt er holdið beinum frá, borinn var eg í meinum (Ólafur Davíðsson 1978–80: I 200).

Heimildir:

 • Andra rímur. Óútgefinn texti í AM 604 4to. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 • Grettis saga Ásmundarsonar. 1936. Íslenzk fornrit VII. Útg. Guðni Jónsson. Hið íslenzka fornritafélag.
 • Hrómundar saga Gripssonar. 1829. Fornaldar sögur Nordrlanda II. Útg. C.C. Rafn. Kaupmannahöfn.
 • Jón Árnason. 1954–61. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I–VI. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. [Ný útg.]
 • Ólafur Davíðsson. 1978–80. Íslenzkar þjóðsögur I–IV. Útg. Þorsteinn M. Jónsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. [3. útg.]

Mynd:

...