Komið hefur í ljós að gígar á tunglinu eru myndaðir í eldgosum, eru þá sögurnar af loftsteinaregni sem myndað hafi gígana úr lausu lofti gripnar?Yfirborð tunglsins er þakið gígum sem sannarlega urðu til þegar loftsteinar, smástirni og halastjörnur rákust á það í gegnum tíðina. Tunglgrjót sem Apollo-tunglfararnir sneru með til Jarðar frá tunglinu sýna að flestir gígarnir mynduðust í mikilli árekstrahrinu fyrir um 4 milljörðum ára en enn í dag verða nýir gígar til. Yfirgnæfandi meirihluti gíga á tunglinu eru árekstragígar. Á tunglinu eru einnig augljós ummerki mikilla eldgosa. Frá Jörðu séð sést að nærhlið tunglsins er þakin dökkum flæðibasaltsléttum eða hraunum sem kallast höf. Eldgosin sem mynduðu þessar ævafornu hraunbreiður náðu hámarki fyrir um 3 milljörðum ára en fjöruðu síðan að mestu út fyrir um 1 milljarði ára.

Á myndinni sjást Staðsetningar IMP á tunglinu, en það eru unglegar hraunbreiður sem eru vísbendingar um eldvirkni á tunglinu síðastliðin 100 milljón ár. Skammstafirnar tákna nöfnin á stöðunum: Aristarchus (A), Gruithuisen E-M svæðið (GEM), Hyginus (H), Ina (I), Mare Nubium (MN), Mare Tranquillitatis (MT), Marius Hills (MH), Maskelyne (M), Sosigenes (S). Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
- Tunglið | Sólkerfið | Stjörnuskoðun. (Skoðað 9.01.2015).
- Vísbendingar um nýleg eldgos á tunglinu | Fréttir | Stjörnuskoðun. (Skoðað 9.01.2015).
- Vísbendingar um nýleg eldgos á tunglinu | Fréttir | Stjörnuskoðun. (Sótt 9.01.2015).